133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:21]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Herra forseti. Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins bauð okkur áðan að ræða þetta frumvarp vel og ítarlega en þar á undan var ég sakaður um málþóf af formanni menntamálanefndar. Ég vil því spyrja hæstv. forseta: Hver er réttur minn í þessari 3. umr.? Er einhver takmarkaður tími á því hversu lengi ég er að koma frá mér þessu efni sem mér finnst ég þurfa að koma frá mér í þessu máli? (Gripið fram í.) Ég hef skilið það þannig að svo sé ekki, ég lít þannig á að það sé réttur minn að tala í þessu máli og eins lengi og mér í raun sýnist. Ég er ekki sáttur við að vera sakaður hér um málþóf.

Það sem ég ræddi hér í gær og ég vona að hv. formaður menntamálanefndar hafi hlustað á — (Gripið fram í: … að endurtaka ræðuna.) Já, ég skal verða við þeirri ósk. Í gær var ég að benda þingheimi á að það er verið að fremja mjög alvarlegt brot á réttindum og kjörum starfsfólks Ríkisútvarpsins. Það var það sem ég fór yfir og það tók sinn tíma. Ef hv. formaður menntamálanefndar hefur ekki séð ástæðu eftir ræðu mína til að taka frumvarpið aftur inn í nefnd og fara yfir þau atriði sem ég minntist á mun ég að sjálfsögðu gera aðra tilraun til að skýra þessi mál vel og vandlega og ítarlega fyrir honum.

Varðandi samkomulag, herra forseti, veit ég ekki hvaða samkomulag er verið að tala um og ég vil taka það skýrt fram við hæstv. forseta að ekkert samkomulag hefur verið gert við mig. Það er alltaf verið að tala um einhvern fund sem á að hafa verið einhvern tímann í desember. Hvaða fundur er þetta? Hvaða samkomulag var gert? Hverjir voru á þessum fundi? Og af hverju var mér ekki boðið?

Ég veit ekkert um hvað menn eru að tala.

Eitt af því sem ég benti á í gær, forseti, var að í grein í Viðskiptablaðinu föstudaginn 16. desember 2005 kemur fram það sem menn óttuðust í umræðum í gærmorgun, útvarpsstjóri er byrjaður að vinna eftir tilvonandi lögum. (Gripið fram í.) Já, ég hugsa að þetta henti afskaplega vel þar. Þetta er mjög alvarlegt mál. Það kemur skýrt fram í viðtali við útvarpsstjóra: „Páll segir að ný lög auki möguleika stofnunarinnar til þess að keppa um starfsfólk. „Ég hafði reyndar ekki þolinmæði til að bíða eftir lagabreytingunni til að bregðast við vegna Kastljóss.““ Hann er byrjaður að vinna eftir frumvarpinu. Það er sem sagt búið að ákveða, hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, að þetta verði samþykkt og það hefur verið búið að ákveða það þá í desember 2005.