133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

beiðni um utandagskrárumræðu o.fl.

[11:38]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þrátt fyrir aðdáunarverða fundarstjórn í hinum smærri atriðum hefur fundarstjórn forseta ekki tekist að greiða fyrir störfum þingsins. Nú vantar klukkuna tuttugu mínútur í tólf og umræður hófust klukkan hálfellefu. Þær hafa að vísu verið gagnlegar, þær sem hingað til hafa farið fram. En þær hafa kannski ekki fleytt fram því máli sem um er að ræða á dagskrá þingsins, sem er ástæða þeirra eins konar herlaga sem hér gilda.

Í tilefni af því að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson rifjaði upp boð okkar í menntamálanefnd er rétt að fara yfir það með forseta til að hann grilli leið út úr þeim vanda sem við er að eiga.

Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd bentum á hve lítill tími væri eftir, annars vegar af þinginu, áætluðum starfstíma þingsins, og hins vegar af kjörtímabilinu. Hvað skammt lifði af umboði þeirra sem sitja í þessum sal og þar með því umboði sem þessi salur hefur gefið þeim sem sitja í Stjórnarráðinu, þar á meðal Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, hæstv. menntamálaráðherra.

Við sögðum sem svo: Vissulega er þörf á því að Ríkisútvarpið breytist. Við erum ekki sammála um hvaða breytingar það eru. Látum þjóðina ráða því í kosningunum. Berum þau álitamál sem við höfum um málið undir þjóðina í kosningum og sættum okkur síðan við úrskurð hennar, að næsti meiri hluti á þinginu hafi forræði og leiðsögn á þeirri braut sem farin verði.

Á meðan skulum við, okkur í hag, samfélaginu í hag og Ríkisútvarpinu í hag, taka saman höndum um þær breytingar sem mikill meiri hluti vill, ég vil segja allir nema sölunefnd ríkiseigna í Sjálfstæðisflokknum, þingmennirnir þrír sem ég hef oft talið upp. Tökum saman höndum um þær breytingar.

Það er reyndar þannig, og vill svo heppilega til að útvarpsstjóri sjálfur hefur á fundi menntamálanefndar teiknað þær breytingar upp. Hann sagði: Mér alveg sama um hlutafélagið út af fyrir sig. Það er ekki punkturinn, sagði útvarpsstjórinn, sá sem skrifaði um daginn mjög skrýtin bréf til stuðnings menntamálaráðherra þegar á hana hallaði.

Þetta varðaði, eins og ég hef farið yfir áður, annars vegar skynsamlega skiptingu valds og ábyrgðar á Ríkisútvarpinu. Hins vegar það að dagskrárvald og ráðningarvald yrði fært úr höndum þess útvarpsráðs, sem vissulega er barn síns tíma og menn eru alveg sammála um, og ný rekstrarstjórn taki við. Í þriðja lagi talaði útvarpsstjóri um mannaforráð en það er að vísu flóknara mál. Til þessa erum við fúsir.

Ég tel, forseti, að það mundi taka um það bil sólarhring að koma okkur saman um slíkar breytingar en láta önnur álitamál bíða eftir dómi kjósenda.