133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:43]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal verða við þeirri beiðni að upplýsa hver þingmaðurinn er sem hafði á orði að allt væri til sölu þegar um ríkiseignir væri að ræða ef fyrir þær fengist rétt verð. Við vorum þá að ræða um raforkugeirann, raforkufyrirtæki, ef ég man rétt. Það var hv. 9. þm. Suðurk., Kjartan Ólafsson.

Varðandi réttindamál starfsmanna er allt á huldu um réttindin. Lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna munu ekki gilda eftir að frumvarpið er samþykkt. Stjórnsýslulögin munu ekki gilda eftir að frumvarpið verður að lögum en í þeim eru grundvölluð ýmis réttindi sem starfsmenn búa við. Ég nefndi t.d. áminningarskylduna og önnur ákvæði sem lúta að starfsöryggi starfsfólksins, þetta mun ekki gilda.

Síðan er hitt stóra málið. Hvað kemur til með að gerast eftir að kjarasamningar renna út á árinu 2008? Við þessu fáum við engin svör. En ég tók eftir því að formaður menntamálanefndar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sagði við umræðuna til upplýsingar þegar spurt var um félagslega aðkomu að samningum að um það væri ekki hægt að gefa nein fyrirheit en sér væri (Forseti hringir.) sérstaklega umhugað að skoða réttindi einstaklinganna til að semja um sín eigin kjör. (Gripið fram í.)