133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[13:37]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim tveimur hv. þingmönnum sem hafa talað um þetta mál. Ég held að það mál sem við höfum rætt hér lengi, Ríkisútvarpið, endurspegli í raun eða dragi mjög fram stöðu þingsins og þann vanda sem við er að etja. Það sem er uppi er að hæstv. ríkisstjórn hefur mikinn áhuga á því að tiltekið mál nái fram að ganga á hinu háa Alþingi, þ.e. að á löggjafarsamkundunni, einum af þremur meginþáttum ríkisvaldsins, hefur framkvæmdarvaldið skýlausa kröfu uppi um að tiltekið mál verði að lögum. Þegar sú krafa framkvæmdarvaldsins er uppi skirrist forseti þingsins ekki við að nánast taka allt annað út af dagskrá og ryðja völlinn svo að þetta mál komist áfram. Þingsköpin eru nánast tekin úr sambandi, réttur þingmanna til að óska eftir umræðu utan dagskrár er tekinn úr sambandi, réttur þingmanna til að fá fyrirspurnum svarað er tekinn úr sambandi, nánast þingsköpin eru tekin úr sambandi af því að ríkisstjórnin er uppi með kröfu og vilja um að tiltekið mál verði að lögum. (Gripið fram í: Hvað með þingnefndir?) Það er sú krafa sem er uppi. Ég held — ég þekki í raun ekki til þess — að hvergi nokkurs staðar hafi alþingismenn og þeir sem vilja gera athugasemdir við þennan vilja það eitt tæki að tala lengi og mikið ef þeir vilja mótmæla málum. Það hefur ekki staðið á okkur að taka þessi mál til endurskoðunar en þá verður að skoða málið heildstætt.

Í þessari umræðu hefur einmitt verið dregin fram nauðsyn þess að taka til að mynda upp rannsóknarvald þingsins, aukna ráðherraábyrgð og fleira sem skiptir máli til að þingið verði það afl sem þarf að vera í þrískiptingu ríkisvalds en ekki eins og myndbirtingin er oft og tíðum einungis verkfæri í höndum ríkisstjórnarinnar. Það má þingið aldrei verða. Það er lykilatriði í umræðunni og það má ekki vera þannig að lög — það má ekki gleyma því að þingsköp Alþingis eru lög, þingsköpin eru ekki einhverjar reglur sem hafa verið settar af forseta eða einhverjum öðrum, þau eru lög og þeim verður ekki rutt til hliðar aðeins ef hæstv. forseti þingsins tekur um það ákvörðun að breyta því. Þess vegna vekur það mikla furðu, og það hefur verið mikil umræða um það hér í morgun, hvernig á því standi og hvort það standist að öllu sé rutt til hliðar, (Forseti hringir.) einfaldlega vegna þess ríkisstjórnin hefur áhuga á því að koma sínum málum í gegn.