133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[13:51]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Sjálfsagt er að virða það við hæstv. forseta að hún þarf að sinna opinberum erindum utan þinghúss. Ekki drögum við hana frá þeim skyldustörfum. Það er hins vegar alveg ljóst að ekki er það innan skyldustarfa hæstv. forseta að ganga fram með þeim hætti sem hún hefur gert í dag og varla er hægt að segja að hægt sé að skilgreina það með öðrum hætti en að bera olíu á eld við þær aðstæður sem hér ríkja. Það er hlutverk forsetans að reyna að sætta og ná málamiðlunum en það er ekki hlutverk hæstv. forseta við það upplausnarástand sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur skapað nú í þinghúsinu, að koma fram opinberlega með ógnunum þar sem hv. þingmenn geta ekki átt orðastað við hana.

Þau orð sem hæstv. forseti lét falla í dag er tæpast hægt að skilgreina með öðrum hætti en sem hótanir í garð stjórnarandstöðu, að ef hún láti ekki af ræðuhöldum í þessu máli þá komi til greina af hálfu Sjálfstæðisflokksins og hugsanlega Framsóknarflokksins líka að skerða lögbundið málfrelsi. Nú er það svo, frú forseti, að stjórnarskráin og lögin gera ráð fyrir því að þingmenn hafi þann möguleika að tjá sig sterklega og lengi ef þeir eru ákaflega mikið á móti máli og telji að það horfi til mikilla óheilla fyrir þjóð. Til þess hafa þeir flokkar sem saman mynda ríkisstjórnina gripið áður. Það má rifja það upp að flokkur hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur stóð fyrir langvinnu málþófi sem stóð milli jóla og nýárs og allan janúarmánuð árið 1993 til að koma í veg fyrir það sem sá flokkur telur í dag þjóðþrifamál, þ.e. aðild Íslands að EES. Enginn sagði neitt við því. Mönnum fannst það fullkomlega eðlilegt. Og það er rétt að rifja það upp að Sjálfstæðisflokkurinn, flokkur hæstv. menntamálaráðherra, stóð vikum saman fyrir málþófi gegn því þjóðþrifamáli sem fólst í því að setja á stofn umhverfisráðuneyti og einn af helstu forustumönnum flokksins stóð í þessum stóli heila nótt og las upp alla bókina Raddir vorsins þagna eftir R. Carson, svo því sé haldið til haga.

Það kemur alveg til greina að skoða hvort það eigi með einhverjum hætti að reisa skorður við tímalengd og fjölda ræðna þingmanna en það verður aldrei gerð slík grundvallarbreyting nema á móti verði gerðar aðrar grundvallarbreytingar sem styrkja stöðu þingmanna. Við sjáum bara eitt dæmi sem ég hef nefnt fyrr í dag, Byrgið. Þingið hefur engin tök á því að kanna það mál og fylgja því eftir, nánast engin, og það segir allt sem segja þarf um það hvað við erum vopnlaus, frú forseti, í viðureign við ofríkisfullt ríkisvald.