133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[14:01]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Sú umræða sem fer hér fram um fundarstjórn forseta hefur í raun og veru fjallað um sjálfstæði þingsins, fyrst og fremst gagnvart framkvæmdarvaldinu. Framkvæmdarvaldið hefur öll tök á þinginu. Það er greinilegt að undir það ok ganga þeir sem styðja ríkisstjórnina. Það er ekki þar með sagt að við í stjórnarandstöðunni föllumst á að það eigi bara yfir okkur að ganga hér.

Menn kvarta undan því að þetta mál sé tekið í gíslingu. Hvaða mál hefur fengið meiri tækifæri hér í þinginu á þessu kjörtímabili en þetta? Er þetta ekki í þriðja skiptið sem tíma þingsins er eytt í mál sem hefur verið svo illa undirbúið að því hefur verið breytt í hvert einasta skipti sem aftur hefur verið komið með það inn?

Við almennir þingmenn megum hins vegar búa við það að mál sem við höfum lagt hér fram jafnvel ár eftir ár fá ekki umræðu í þinginu, ekki eina umræðu, komast aldrei á dagskrá þingsins. Þetta er auðvitað gjörsamlega óviðunandi og það er ekki lýðræðislegt að hafa slíkt fyrirkomulag. Þegar menn ræða um að breyta þingsköpum hljóta menn að þurfa að taka á þeim málum þannig að hér komist á fyrirkomulag sem er eðlilegt og lýðræðislegt og að mál fái hér afgreiðslu. Stjórnarmeirihlutinn hefur viljað koma í veg fyrir það. Mönnum hefur fundist þægilegra að drepa mál stjórnarandstæðinga eða almennra þingmanna með því að þau komi annaðhvort aldrei hér til umræðu eða séu svæfð í nefndum þannig að stjórnarliðið þurfi ekki að standa í því að greiða atkvæði kannski gegn einhverjum frumvörpum sem ríkisvaldinu sem hverju sinni ríkir er ekki geðfellt að verði samþykkt.

Þetta er óviðunandi ástand og menn þurfa að leita að sameiginlegri niðurstöðu um það hvernig sjálfstæði þingsins verður tryggt. Það verður ekki gert öðruvísi en að taka ráðin af framkvæmdarvaldinu að einhverju leyti. Við getum ekki búið við svona fyrirkomulag. Við vitum það í gegnum langan tíma í Alþingi að hér hafa mál farið fram og verið samþykkt á Alþingi þó að það sé ekki raunverulegur meiri hluti fyrir þeim, einfaldlega vegna þess að það er um það samið í ríkisstjórn: Það skal í gegn, og menn rétta upp hendurnar með þeim í þingsal.