133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

ummæli forseta í hádegisfréttum.

[14:24]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ummæli Sólveigar Pétursdóttur forseta í hádeginu um takmörkun á ræðutíma þingmanna hafa að vonum vakið athygli í þinginu. Það er því miður svo að forseta hefur ekki verið unnt að vera viðstödd þessa umræðu. Ég tel að forseti hefði átt að átta sig á því, úr því að hún gat ekki verið viðstödd umræðuna á eftir, að þá hefði hún kannski átt að haga orðum sínum öðruvísi í hádegisfréttunum. Því það hlýtur að vera frumskylda forseta þingsins að standa við ummæli sín og skýra þau út fyrir þinginu sjálfu og vera reiðubúinn til þess þegar forseta hlýtur að renna í grun hver viðbrögð verða við ummælum eins og viðhöfð voru í hádegisfréttum Stöðvar 2.

Það hlýtur því að gerast þegar forseti kemur í hús og verður viðstödd umræðuna, annaðhvort í salnum eða í forsetastóli, að þá verði meginatriði hennar tekin upp aftur — og ég bið um að þeim skilaboðum sé komið til forseta að skilningur okkar sé sá að þetta hljóti að vera þannig. Heppilegast er auðvitað að forseti taki sjálf upp þessa umræðu og skýri fyrir okkur hvað átt var við í þessum hádegisfréttum. Vegna þess að þau orð koma ekki fram sem almenn yfirlýsing, eins og menn geta séð þegar þeir skoða fréttina aftur á netinu eða útskrift af henni, heldur koma þau fram í framhaldi af umræðum um nákvæmlega þetta þingmál. Það bætist við að forseti kemur með þessa skoðun sína í miðju nefndarstarfi sem hér er stundað um þingsköp og endurskoðun á þeim. Ég geri ekki ráð fyrir að slík ummæli almennt verði til að hjálpa slíku starfi.

Forseti stendur því miður þannig, þremur mánuðum áður en störfum Sólveigar Pétursdóttur, hv. þingmanns og forseta Alþingis lýkur, að hvorugt af því sem hún hét í fyrstu ræðu sinni á þinginu, að skapa annars konar starfshætti hér og meira í samræmi við nútímann og það fjölskyldulíf sem við leggjum upp úr og hins vegar að reyna að ná almennri samstöðu á þinginu um skynsamlegri starfsreglur, er líklegt að verði að nokkrum einasta veruleika. Þá ábyrgð ber því miður fyrst og fremst forseti þingsins sjálf.