133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:27]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Við erum með hér til 3. umr. frumvarp hæstv. menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið ohf. en megintilgangur frumvarpsins er að gera Ríkisútvarpinu kleift að fóta sig í þessu gerbreytta umhverfi sem er á fjölmiðlamarkaðnum og gera þar með útvarpinu mögulegt að efla starfsemi sína og, ef eitthvað er, sækja fram. Í frumvarpinu eru einnig hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins skilgreindar og mér finnst það vera mikilvægt. Frumvarpinu fylgja enn fremur metnaðarfull drög að þjónustusamningi sem ég held að við flest getum verið sammála um að sé málinu til framdráttar. Mér hefur heyrst það á flestum þeim sem tekið hafa til máls í málinu. Verði frumvarpið að lögum verður Ríkisútvarpið að ríkishlutafélagi, opinberu hlutafélagi, ohf., í almannaeigu.

Í 1. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið ohf. er sjálfstætt hlutafélag í eigu íslenska ríkisins. Sala félagsins eða hluta þess, sameining þess við önnur félög eða slit þess er óheimil.“

Þarna kemur skýrt fram í 1. gr. frumvarpsins sem ég las rétt í þessu að félagið verður ekki selt og því verður ekki skipt upp. Það má auðvitað spyrja af hverju ég sjái mig knúna til að ítreka það svo hér í byrjun máls míns en það er einfaldlega vegna þess að mér finnst aftur og aftur að menn hafi endurtekið það ranglega í umræðum hér, og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar, að nú sé verið að stíga fyrsta skref í átt til einkavæðingar útvarpsins. Sumir hafa byggt málflutning sinn alfarið á því.

Eins og sömu hv. þingmenn vita er einfaldlega hægt að selja Ríkisútvarpið í dag með því að fá til þess heimild í fjárlögum með svokallaðri 6. gr. heimild, það er ekki flóknara en svo. Ég tel því að ef eitthvað er sé með þeim aðgerðum sem hér er verið að fara í og með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar verið að torvelda sölu útvarpsins enda er það stefna þessarar ríkisstjórnar að áfram verði rekið hér almannaþjónustuútvarp í eigu allrar þjóðarinnar. Þetta finn ég mig knúna til að taka sérstaklega fram þar sem mér finnst að sumir hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem taka þátt í þessari umræðu geri því skóna að nú sé verið að auðvelda sölu Ríkisútvarpsins eða taka fyrstu skrefin til einkavæðingar. Ég spyr þá hina sömu hvort þeir séu sáttir við hvernig fyrirkomulaginu er háttað í dag þar sem einfaldlega er hægt að fá heimild, svokallaða 6. gr. heimild í fjárlögum, til að selja útvarpið. Það væri áhugavert að heyra svör þeirra við því.

Staða og framtíð Ríkisútvarpsins hefur verið eitt helsta ágreiningsefni stjórnarflokkanna í þeirra annars farsæla samstarfi, það hlýtur öllum að vera ljóst sem fylgst hafa með stjórnmálum. Af hverju er það svo? Jú, það er vegna þess að framsóknarmenn hafa alltaf viljað standa vörð um Ríkisútvarpið og gera því mögulegt, ef eitthvað er, að sækja enn frekar fram. Framan af í samstarfi þessara tveggja flokka voru sjálfstæðismenn — þó ekki allir — þeirrar skoðunar að ríkið ætti ekki að standa í fjölmiðlarekstri nema þá með takmörkuðum hætti. Frá því að þessari skoðun var mjög haldið á lofti hefur einfaldlega fjölmiðlaumhverfið breyst. Svo að ég leyfi mér að tala bara hreint út skipti þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins um skoðun á Ríkisútvarpinu og framtíð þess í ljósi þessara breytinga á fjölmiðlamarkaðnum.

Þá hófust viðræður stjórnarflokkanna um með hvaða hætti væri verið að breyta lögum um Ríkisútvarpið enda kallar breytt fjölmiðlaumhverfi á breytingar. Þá er ég ekki einungis að tala um stöðuna á Íslandi heldur líka þær breytingar sem orðið hafa almennt á fjölmiðlaumhverfinu á alþjóðavísu, í því alþjóðasamstarfi og með þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist. Stofnunin sjálf hefur líka kallað eftir breytingum og í það minnsta hluti starfsmanna. Stjórnarflokkarnir sem mynda lýðræðislega kosinn meiri hluta þingsins eru einnig þeirrar skoðunar og þess vegna hafa þau frumvörp sem litið hafa dagsins ljós á þessu kjörtímabili verið lögð fram. Bara svona til upprifjunar eru auðvitað í gildi lög um stofnunina frá 1986 sem eitt og sér þýðir að væntanlega þarf einhverja endurskoðun á.

Mig langar aðeins í byrjun að taka það fram að ég er ekki sammála t.d. skoðun hv. þm. Péturs Blöndals sem hefur, a.m.k. í atkvæðaskýringu á einhverjum stigum þessa máls, lýst þeirri skoðun sinni að selja eigi Ríkisútvarpið. Ég er einfaldlega ekki sammála hv. þingmanni Sjálfstæðisflokksins og ekki hefur hans skoðun heldur hlotið hljómgrunn meiri hluta stjórnarliðsins eða ríkisstjórnarinnar því að það er eins og ég segi ekki ætlun okkar að selja útvarpið, frekar að styrkja það, og ég er viss um að menn geta vottað það að þær ríkisstjórnir sem Framsóknarflokkurinn hefur átt aðild að hafa aldrei haft áform um að selja útvarpið.

Það má kannski segja að þessi óeining um breytingar á starfsemi RÚV hafi hamlað eðlilegri þróun innan stofnunarinnar og nú er svo komið að óvissa um framtíðarskipan Ríkisútvarpsins hefur lamandi áhrif á reksturinn. Ég kom sjálf fyrst að málinu þegar ég settist á þing í haust og tók sæti í hv. menntamálanefnd en auðvitað hef ég fylgst með málinu sem varaþingmaður og tekið þátt í umræðum um stöðu og hlutverk RÚV á vettvangi míns flokks, Framsóknarflokksins.

Miklar breytingar hafa orðið á efni frumvarpsins frá því að það var fyrst lagt fram á þingi fyrir tæpum tveimur árum og unnið hefur verið að lagfæringum á efni þess í menntamálanefnd Alþingis og af hálfu menntamálaráðuneytisins. Ég held að það sé óhætt að halda því fram að öll hv. menntamálanefnd hefur lagt sig fram við að fjalla mjög málefnalega og efnislega um málið og fengið til þess á sinn fund hina ýmsu sérfræðinga. Eins og margoft hefur komið fram hafa verið haldnir margir fundir og margir gestir hafa komið. Það er gott enda á að fara vel og vandlega yfir mikilvæg málefni. Ég tel að sú málamiðlun stjórnarflokkanna sem kemur fram í frumvarpinu sem við hér ræðum af miklum móð, í það minnsta hv. stjórnarandstaða, sé góð og mikilvæg fyrir þróun og framtíð Ríkisútvarpsins ohf., almannaþjónustuútvarps allra landsmanna.

Einhverjum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar hefur orðið tíðrætt um stefnu Framsóknar í málefnum útvarpsins. Það kemur mér í sjálfu sér ekki á óvart að menn leiti í smiðju Framsóknarflokksins eftir góðum málum og hugmyndum. Öllum er það í sjálfu sér velkomið. Ég frábið mér hins vegar að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar taki að sér hlutverk einhvers konar stjórnmálaskýranda eða þykist hafa þá þekkingu á innanbúðarmálum Framsóknar að þeir hafi uppi þau ummæli sem sumir þeirra hafa látið falla í umræðunum. Ég held að það sé engum til framdráttar að vera í þeim hnútuköstum hér.

Framsóknarflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á að hér á landi verði rekinn öflugur ríkisfjölmiðill þar sem rækt verði lögð við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð sem þjónusti alla landsmenn, mæti kröfum um gæði og fjölbreytni, veiti áreiðanlega og hlutlæga fréttaþjónustu svo að ég nefni nú það helsta. Þar sem ályktanir flokksins hafa nokkrum sinnum verið nefndar hér í umræðunni og margsinnis rangtúlkaðar finnst mér við hæfi að ég lesi upp ályktun flokksþings Framsóknarflokksins. Flokksþingið ákveður meginstefnu flokksins í landsmálum, setur flokknum lög og hefur æðsta vald í málefnum hans.

Með leyfi forseta hljóðar flokksþingsályktun um RÚV frá 2005 svo:

„Mikilvægt er að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt. Hraða ber endurskoðun laga um Ríkisútvarpið þar sem m.a. stjórnskipulag stofnunarinnar verður endurskilgreint og mið tekið af nýju fjölmiðlaumhverfi. Skoðaðar verði mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaði. Uppbyggingu og rekstri landshlutaútvarps verði haldið áfram og rekstrargrundvöllur tryggður.“

Með þeim breytingum sem eru hér til umfjöllunar er verið að festa almannaútvarp í sessi og forusta Framsóknarflokksins hefur fylgt þessari flokksþingsályktun mjög eftir. Þau atriði sem við framsóknarmenn höfum fyrst og fremst viljað standa vörð um er að RÚV sé ekki til sölu, verði áfram í eigu allrar þjóðarinnar, að hlutverk þess og staða verði tryggð, að réttindi starfsmanna séu tryggð að því leyti sem hægt er við þessar aðstæður og að RÚV hafi möguleika til þess að eflast og sækja enn frekar fram.

Að sama skapi viljum við að áfram sé í boði fyrir landsmenn fjölbreytt flóra fjölmiðlunar. Í umræðum, nú síðast held ég á gamlársdag, sem ég heyrði í Ríkisútvarpinu þar sem fjölmiðlafræðingar fjölluðu um fjölmiðlamarkaðinn, Þorbjörn Broddason og Hjördís Finnbogadóttir að mig minnir, kom fram að það er auðvitað ótrúlega fjölbreytt flóra fjölmiðlunar á Íslandi miðað við okkar 300 þús. manna samfélag. Það ber vott um grósku og kraft þessarar þjóðar og við höfum alltaf fagnað því. Það er mikilvægt að við höldum því til haga að hér geti áfram starfað þessi fjölbreytta flóra og það er þannig að sjá í þróun á fjölmiðlamarkaðnum bara á síðustu vikum og mánuðum að miðað við fyrirliggjandi frumvarp treysta gamlir og nýir eigendur fjölmiðla sér til að sækja enn frekar fram þannig að það virðist ekki hafa annað en þau góðu áhrif. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að lengja mjög þá umræðu sem hér fer fram um þetta frumvarp. Hv. þingmaður Framsóknarflokksins Dagný Jónsdóttir, varaformaður menntamálanefndar, fór vel yfir málið í ræðu sinni hér í þinginu í gær og raunar í fyrri umræðum líka og ég vísa til þeirra ræðna og nefndarálita með frumvarpinu að öðru leyti. Ófátt hefur verið sagt um málsmeðferð þessa máls en ég verð að segja það fyrir mitt leyti að frá því að ég hóf sjálf að taka þátt og fylgjast með meðferð þessa máls finnst mér meðferðin almennt hafa verið góð. Hv. menntamálanefnd hefur lagt sig fram við að fá þá gesti á fundi nefndarinnar sem óskað hefur verið eftir og átt mikla og málefnalega og efnislega umræðu um málið enda er mikilvægt að svo sé. Þingfundahléið um jólin eftir 2. umr. var til að mynda vel notað til að fara yfir málið og ég held að í allt hafi um sex fundir verið haldnir núna.

Ég tek undir það sem hefur verið sagt um framgang fjármálaráðuneytisins hvað varðar afhendingu þeirra bréfasendinga sem gengu milli ráðuneytisins og Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Mér finnst ótækt að ráðuneytið hafi ekki upplýst þá nefnd sem hefur þetta mál til meðferðar um samskiptin og þessi framganga er alls ekki til þess fallin að hjálpa til við málið. Auðvitað var nefndarmönnum kunnugt um fyrri bréfaskipti og samskipti þessara aðila en það breytir því ekki að mér hefði þótt eðlilegt að ráðuneytið hefði haft forustu um að skýra fyrr frá seinni samskiptum og seinni bréfum sem þarna gengu á milli. Ég vil þó segja að um leið og hv. formanni nefndarinnar var kunnugt um tilvist og áframhaldandi bréfaskipti óskaði hann eðlilega eftir því að nefndin fengi aðgang að bréfunum. Þau bárust þá í hólf okkar og höfðum við tækifæri til að kynna okkur efni þeirra fyrir fund þar sem síðan var farið efnislega yfir málið. Við lestur gagnanna kom fram að við þekktum þetta að mestu leyti þó að það afsaki ekki þessa framkomu ráðuneytisins í garð nefndarinnar.

Málið hefur nú verið rætt á þrem þingum og auðvitað tekið miklum breytingum. Segja má nefndinni til hróss að hún hefur tekið af skarið um að færa þetta mál til sífellt betri vegar. Það er ekkert skrýtið að breytingar hafi orðið á málinu enda hefur fjölmiðlaumhverfið breyst mjög og umræðan þroskast í samfélaginu um hvert við stefnum og ég ætla hvorki að endurtaka í hve margar klukkustundir né hve marga fundi né hve margir gestir hafi komið á fundi nefndarinnar. Það hefur komið hér fram.

Ég vil bara að lokum segja að auðvitað mun þetta mál hljóta þá eðlilegu þinglegu meðferð sem hér er fram undan og verður rætt í þann tíma sem hv. þingmenn telja nauðsyn til. Það er auðvitað okkar lýðræðislegi réttur, þingmanna, að ræða um málið. Hér var rætt mikið um fundarsköp og fundarstjórn forseta og því finnst mér mikilvægt að ég lýsi þeirri skoðun minni að auðvitað á að ræða þetta mál í þann tíma sem menn telja sig þurfa. Það er lýðræðislegur réttur þeirra sem á þinginu sitja og það er auðvitað rétt að fulltrúar allra flokka hafa notfært sér þennan rétt í gegnum tíðina. Er það vel. Það breytir því ekki að það er ósköp eðlilegt að menn endurskoði þingsköp sem samþykkt voru 1993. Ég er þeirrar skoðunar eins og ég veit að langflestir þingmenn eru að við þurfum með einhverjum hætti að færa starf þingsins fram í tímann og kannski mæta betur breyttum háttum. Það er verkefni sem mér skilst að sé í fullum gangi og aðild að því eiga fulltrúar allra þingflokka. Auðvitað gera menn ekki slíkar breytingar á starfsháttum þingsins eða þingsköpum nema allir séu því samþykkir.