133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:50]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurn hans. Við meðferð málsins höfum við fengið á fundi okkar fulltrúa bæði starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem og fulltrúa þeirra stéttarfélaga sem um ræðir.

Það er alveg ljóst að það hefur verið margítrekað við okkur að réttindi starfsmanna og kjör munu ekki skerðast við formbreytinguna. Síðan verður það auðvitað undir þessum starfsmannafélögum og viðsamningsaðila þeirra í framtíðinni komið hvernig menn muni haga því til framtíðar enda getum við ekki bundið hendur launþeganna.

Ég held að fulltrúi launþega — ef ég man rétt tengist hv. þingmaður SFR með einhverjum hætti — ætti að sjá að ekki sé rétt að binda hendur launþeganna til þeirrar framtíðar að þeir hafi ekki það vald eða þau eðlilegu réttindi að geta sjálfir samið um sín kjör til framtíðar.

En ég get fullvissað hv. þingmann um að (Forseti hringir.) afar vel hefur verið farið yfir þessi mál og þau undirbúin. Ég held því að við þá formbreytingu sem mun væntanlega eiga sér stað við þessi lög að ekkert mál hafi verið jafn vel undirbúið. (Forseti hringir.)