133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:00]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla á engan hátt að verja þennan gjörning sem má kalla 1. apríl-mál eða hvað menn vilja kalla það, enda kom ég ekki nálægt því og tel mig hvorki þurfa að bera ábyrgð á því máli né mæla því bót. Það sem við erum að gera núna er að færa pólitísk áhrif burt frá útvarpinu að því leyti að við felum einungis Alþingi það hlutverk eða þinginu að kjósa stjórn sem hefur hið rekstrarlega hlutverk. Við færum þar með pólitísku áhrif úr dagskrárgerðinni og vonandi úr útvarpinu vegna þess að við þurfum að ná samstöðu um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins og mikilvægi þess í samfélagi okkar og menningarsögu. Ég held að allir flokkar hafi lýst með einhverjum hætti leiðum til að ná því. Útvarpsstjóri verður áfram ráðinn af menntamálaráðherra á hverjum tíma en um það verða auðvitað að gilda lög sem eru um ráðningar opinberra starfsmanna og að hæfasti aðilinn sé ráðinn til starfa.