133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[15:04]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég get ekki annað en vorkennt þeim hv. þingmönnum Framsóknarflokksins sem hér þurfa að standa daglangt og náttlangt að verja þessa vitleysu úr Sjálfstæðisflokknum. Það vita það allir sem hafa hlustað á þessar umræður að Framsóknarflokkurinn hefur enga sannfæringu fyrir þessu máli en því hlutskipti deilir hann að vísu með flestum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins því að það hefur ekki nokkur maður talað hér utan hæstv. menntamálaráðherra sem hefur sýnt það að hann eða hún hafi snefil af einhvers konar sannfæringu fyrir málinu sem hér liggur fyrir. Sorglegast er þó auðvitað að sjá hlutskipti hinna ungu þingmanna Framsóknarflokksins sem verja þetta mál í bak og fyrir og þurfa meira að segja að afneita sínu eigin baklandi til að verja sínar eigin gjörðir. Hér á ég auðvitað, frú forseti, við orð hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur áðan sem lýsti því yfir að hún hefði farið gandreið um landið með forustu flokks síns á 20 fundi, talað við hundruð framsóknarmanna og allir hefðu verið sammála því máli sem hér liggur fyrir. Það var ekki hægt að skilja annað á máli hv. þingmanns.

Er það þá svo, frú forseti, svo ég spyrji hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur, að ungir framsóknarmenn séu ekki partur af flokknum? — Ef hinir ungu þingmenn Framsóknarflokksins vildu hugsanlega aðeins leggja við hlustir og hlýða á spurningar mínar, þá ætla ég að endurtaka þær: Eru ungir framsóknarmenn ekki hluti af baklandi flokksins? Mæta þeir ekki á fundi flokksins?

Ég spyr vegna þess, eins og kom fram í máli hv. þm. Valdimars L. Friðrikssonar áðan, að það hefur komið fram opinberlega að ungir framsóknarmenn hafi mótmælt þessu með formlegum hætti. Það var ekkert venjulegt félag (DJ: Hvenær?) sem mótmælti þessu heldur var það stjórn Sambands ungra framsóknarmanna. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir fylgist greinilega ekki vel með hræringum í sínum flokki, kannski vill hún helst vera laus við þær og ég skil það mætavel. Hún varpar fram einfaldri spurningu til mín, frú forseti: Hvenær gerðist það? Ég er ekki alveg nákvæmlega klár á dagsetningunni en ég veit hvenær fréttin birtist. Hún birtist 29. nóvember árið 2006. (Gripið fram í.) Það kemur hér fram, sem betur fer, að ritari flokksins, sem sprettur úr jarðvegi ungra framsóknarmanna, fylgist töluvert betur með en hin austfirska þingkona, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, því að hún upplýsir að þessi ályktun hafi verið samþykkt að kveldi 5. nóvember á síðasta ári.

Það er hins vegar merkilegt að hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur finnst það skipta máli að þessi ályktun hafi komið fram eftir að málið kom fram. Er það ekki einmitt þess vegna, eftir að málið kom fram og þegar það var búið að vera í umræðu og þegar ungir framsóknarmenn, sem ég get sannarlega sagt af eigin kynnum að er vel gefið og vel innrætt fólk, höfðu kynnst rökum sem menn höfðu sett fram um málið, sem þeir taka þessa afstöðu? Er hægt að halda því fram eins og þessir þingmenn gera, sem virðast svo gersamlega búnir að skera á sinn naflastreng við móðurkvið flokksins, að Framsóknarflokkurinn sé bara ánægður með þetta mál? Það er ekki hægt að skilja annað hjá hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur en að Framsóknarflokkurinn sé bara giska glaður með það að hér sé verið að knýja í gegn frumvarp sem brýtur gegn öllum fyrri samþykktum flokksins á þessu sviði, eins og ég las upp áðan. Og út af hinum skelfilega mæðusvip sem kemur á þær stöllur, hv. þingmenn Sæunni Stefánsdóttur og Dagnýju Jónsdóttur, þegar ég nefni þetta, þá er alveg sjálfsagt að ég lesi þetta upp aftur síðar í ræðu minni.

Frú forseti. Það mega þó þessar vösku þingkonur eiga að þær leggja það á sig að ganga ekki bara svipugöng Sjálfstæðisflokksins heldur a.m.k. að hlusta á stöku ræður manna sem fjalla um stefnu þeirra en ég spyr: Hvar er víkingurinn Guðjón Ólafur Jónsson? Hvar er sá maður sem hæst hefur látið hér og farið hamförum út af miklu minna tilefni en þessu? Hvar eru nú öll stóru orðin hjá honum? Hvar er hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson sem flaut hér inn eins og sprek reyndar á öldum ungra framsóknarmanna sem hann er núna að svíkja með því að styðja mál sem ungir framsóknarmenn hafa ályktað sérstaklega gegn? (Gripið fram í.) Ég spyr sérstaklega eftir hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni vegna þess að hann er einn af ábyrgðarmönnum málsins. Þó að hann hafi komið óvænt hingað inn á fjörur okkar alþingismanna, og var aufúsugestur, og hafi ekki komið að upphafi þessa máls, gaf meira að segja frá sér þannig hljóð á upphafsskeiðum málsins að það mátti skilja það svo að þar færi maður sem hefði kjark og döngun til að fylgja sannfæringu sinni og væri ekki hlynntur málinu, þá ýtti hann því eigi að síður til hafnar að því marki að hann gerðist galeiðuþræll á galeiðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í hinstu för málsins hingað inn á þing með því að skrifa undir nefndarálitið og samþykkja það án fyrirvara.

Frú forseti. Þegar ég ræði hér hlutskipti Framsóknarflokksins gleður það mig auðvitað að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson er mættur til leiks. En hv. þingmaður sem á þó að teljast ábyrgðarmaður þessa máls hefur talað hér einn sjötta af þeim tíma sem framsóknarþingmennirnir hafa varið í það að verja þetta ólukkumál Sjálfstæðisflokksins. Sigurður Kári Kristjánsson lét sig hafa það að henda hérna fram á borðið meirihlutaáliti sem taldi u.þ.b. 30 línur og það tók hann fjórar mínútur að fara yfir málið. Það mega þó eiga hv. þingmenn Framsóknarflokksins að þeir ganga plankann á enda eins og þegar sjóræningjarnir voru að refsa föngum sínum í gamla daga og láta fallast heiðarlega til sjávar. Þær koma þó hérna hv. þingkonur Dagný Jónsdóttir og Sæunn Stefánsdóttir og gera heiðarlega tilraun til að gera sér upp sannfæringu. Allir sem hafa hlustað á mál þeirra sjá að þar fylgir ekki hugur máli. Þarna er Framsóknarflokkurinn enn þá einu sinni að láta Sjálfstæðisflokkinn svínbeygja sig og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson getur ekki annað en glott í kampinn þar sem hann situr í sæti sínu því að hann hefur unnið sitt verk vel. Honum hefur tekist að láta þingmenn Framsóknarflokksins moka flórinn í því fjósi sem þetta mál er statt í. Hann hefur ekki verið að verja málstaðinn, ekki frekar en hæstv. menntamálaráðherra. Nei, það er látið eftir þingmönnum Framsóknarflokksins.

Hitt má svo segja að sannfæring hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar fyrir málinu er álíka óburðug og sannfæring eða öllu heldur skortur á sannfæringu sem geislar af öllu máli hv. þingmanna Framsóknarflokksins. Það vita allir að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, hefur skrifað og talað með allt öðrum hætti en birtist í þessu frumvarpi. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson var árum saman sem ungur sjálfstæðismaður á allt annarri skoðun en birtist í þessu frumvarpi. Hann hefur tekið þetta verk að sér eins og hvert annað kóngsins „jern og arbejd“ til að hlýða sínum tugtara eða sínum meistara sem jafnvel á stundum mætti kalla sínum kvalara miðað við síðasta fund þeirra um þetta tiltekna mál sem boðaður var í fjölmiðlum og allir vita hvernig lyktaði.

Hv. þingmaður kom inn á Alþingi fullur af hugsjónakrafti og þrótti. Hann hafði mjög skýra og afdráttarlausa afstöðu í málefnum Ríkisútvarpsins, hann vildi selja það, hann vildi einkavæða það og hann hafði tilteknar skoðanir á því hvernig fjármagna átti Ríkisútvarpið og rekstur þess. Þessi hv. þingmaður lagði tvö ár í röð fram frumvörp sem beinlínis mæltu fyrir um að Ríkisútvarpið skyldi selt og það er svo makalaust að í því frumvarpi er varið þremur síðum til þess að telja upp galla þeirrar leiðar sem hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórn hafa valið til að fjármagna rekstur Ríkisútvarpsins, þ.e. nefskattinn. Enginn í þessum þingsölum hefur fært jafnelegant og fagurlega smíðuð rök gegn nefskattinum og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði fyrstu tvö ár þingveru sinnar.

Frú forseti. Stundum verða menn pólitískir umskiptingar. Stundum, allt í einu á einni nóttu virðist spretta út úr þeim allt annar maður en í þeim var þegar þeir komu inn á þing, því að það hefur nefnilega enginn maður líka flutt jafnsterk og alla vega þróttmikil rök og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson fyrir því að taka upp nefskattinn. Með öðrum orðum, sá þingmaður sem steig hingað inn á fjalir Alþingis var á móti nefskattinum en um leið og hamskiptin gerðust og hann hófst til þeirrar fremdar að verða formaður menntamálanefndar breyttist skyndilega afstaða hans líka og formaður menntamálanefndar talar nú óhikað gegn hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni sem mætti hér til leiks á vordögum árið 2003. Þetta er ekki mjög merkilegt. Þetta er ekki síst merkilegt í ljósi þess að stjórnarskráin leggur á herðar mönnum þær skyldur að fara eftir sannfæringu sinni. Hv. þingmaður hefur sagt það hátt og í hljóði, og fylgir þar stefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna, að það eigi að selja Ríkisútvarpið og getur það verið að hv. þingmaður hafi skipt um skoðun? Ég held ekki. Ég hef ekki heyrt hann lýsa því yfir. Það kann að vera, frú forseti, að hugsanlega styðji þetta frumvarp þessa viðleitni hv. þingmanns. Það getur vel verið að frumvarpið, ef það verður að lögum, steypi Ríkisútvarpinu í þá ógæfu að það sé hugsanlegt að það verði uppiskroppa með fjármagn þegar fram líða stundir og það verði nauðsynlegt að koma því á markað.

Það sem mér finnst langmerkilegast við þær umræður sem hér hafa staðið síðustu daga er sú staðreynd að það hefur komið fram að formaður menntamálanefndar gerir sér mætavel grein fyrir því að Ríkisútvarpið er statt a.m.k. á gráu svæði að því er varðar tekjur þess og sölu á auglýsingum. Fram kom í umræðum í fyrradag um fundarstjórn forseta þar sem ég spurði hv. þingmann eftir áliti hans varðandi stöðu Ríkisútvarpsins gagnvart samkeppnisreglum EES að hv. formaður menntamálanefndar telur að eins og staðan sé í dag standist rekstur Ríkisútvarpsins ekki þær samkeppnisreglur. (SKK: Það er ekki rétt. Ekki vera að …)

Frú forseti. Hv. þingmaður segir að það sé ekki rétt. Þá ber að líta á það sem hv. þingmaður sagði í fyrradag. Ég spyr hann þar, með leyfi forseta, hvort hann telji að kröfum samkeppnislaga og skuldbindinga gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu hafi verið svarað með fullnægjandi hætti í frumvarpinu. Þingmaðurinn telur að hann sé algerlega á þurru landi hvað varðar þær reglur. Síðan spyr hv. þingmaður mig, með leyfi forseta:

,,… og það væri ágætt að fá sjónarmið hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar til þess, hvort núverandi lagaumhverfi Ríkisútvarpsins bryti gegn markmiðum samkeppnislaga. Ég spurði hvort það gæti verið.“

Svo svarar hv. þingmaður sjálfum sér með svofelldum … (SKK: … samkeppnis…) Svo svarar þingmaðurinn sjálfum sér: „Svarið við því var auðvitað já. Auðvitað er það þannig.“ Nú kallar hv. þingmaður fram í að hann hafi ekki átt við evrópskar réttarreglur. Það kann vel að vera. Ekki tókst ræðuritara að lesa nákvæmlega í hugsanir hans. Hann segir að það hafi einungis átt við íslenskar samkeppnisreglur en óvart eru íslensk samkeppnislög algjörlega í anda evrópska réttarins á þessu sviði. Ef hv. þingmaður telur að Ríkisútvarpið eða það umhverfi sem það starfar í núna brjóti gegn markmiðum samkeppnislaga leiðir af sjálfu að þá hlýtur það einnig að brjóta gegn hinum evrópsku réttarreglum á þessu sviði. Ef hv. þingmaður er hins vegar þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið starfi ekki samkvæmt reglum íslenskra samkeppnislaga, hvaða rök hefur hann þá fyrir því að frumvarpið sem hann hefur sjálfur tekið þátt í að semja núna standist þetta eitthvað frekar? Mig langar af þessu tilefni til að varpa aftur til hans þeirri spurningu sem ég varpaði til hans fyrir tveimur dögum: Hvernig stendur á því að í því frumvarpi sem núna liggur fyrir er ekki pósitíft ákvæði sem undanþiggur Ríkisútvarpið samkeppnislögum? Hvernig stendur á því?

Ég spyr að gefnu tilefni. Ég var staddur sjálfur í hv. menntamálanefnd þegar forstjóri Samkeppniseftirlits kom til fundar við nefndina ásamt öðrum manni. Þá spunnust umræður um þetta og það var alveg ljóst að forstjóri Samkeppniseftirlits var þeirrar skoðunar að frumvarpið um Ríkisútvarpið væri ekki í anda íslenskra samkeppnislaga. Þá kom það viðhorf fram bæði hjá formanni nefndarinnar og forstjóra stofnunarinnar að þar sem um sérlög væri að ræða gengju þau framar. Eins og hv. þingmaður man voru búvörulögin sérstaklega nefnd. Nú vill svo til að í búvörulögunum er slíkt pósitíft ákvæði sem beinlínis undanþiggur greinar landbúnaðarins samkeppnislögunum. Hvernig stendur þá á því að það þarf ekki að gera það varðandi Ríkisútvarpið? (SKK: Af almennri reglunni um … …) Frú forseti. Ég tel að hv. þingmaður þurfi að koma hingað til að svara þessu og skýra þetta. Þetta eru einmitt þau mál sem mestu hafa skipt í umræðunni upp á síðkastið, þ.e. deilan um það hvort frumvarpið um Ríkisútvarpið standist samkeppnislög, hvort það standist evrópskar réttarreglur á því sviði. Margt hefur komið fram sem bendir til þess að svo sé ekki. Í umsögn Samkeppniseftirlitsins sem barst menntamálanefnd einhvern tímann síðla síðasta ár er fjallað mjög rækilega um þetta mál.

Eins og við vitum er það markmið samkeppnislaganna að efla samkeppni í viðskiptum og vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri. Það er markmið þessara laga að vinna gegn skaðlegri fákeppni á samkeppnismörkuðum. Reyndar er það líka markmið þeirra að auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum. Það kemur að vísu fram í álitinu að það er ekki hlutverk Samkeppniseftirlitsins að taka afstöðu til þess hvort það fyrirkomulag sem er að finna í frumvarpi um Ríkisútvarpið sé í samræmi við reglur EES-samningsins, aðallega um ríkisaðstoð. Hins vegar er alveg ljóst, eins og bent er á, að það leiðir af frumvarpinu að Ríkisútvarpið mun keppa við einkafyrirtæki í útvarpsrekstri á mörkuðum bæði að því er varðar birtingu auglýsinga í hljóðvarpi og í sjónvarpi og líka varðandi þá samkeppni sem birtist í formi kostunar.

Hvert er lykilatriði fyrir velgengni fyrirtækis á sviði fjölmiðlunar varðandi sölu auglýsinga? Það er auðvitað vinsælt dagskrárefni. Samkeppniseftirlitið segir bókstaflega að það telji að Ríkisútvarpið muni geta nýtt ríkisaðstoðina til að framleiða eða kaupa vinsælt dagskrárefni. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er svona: Að mati Samkeppniseftirlitsins raskar þetta fyrirkomulag samkeppni á viðkomandi auglýsingamörkuðum. Samkeppniseftirlitið segir að þarna sé um að ræða samkeppnislega mismunun sem þurfi að koma í veg fyrir. Samkeppniseftirlitið bendir á tvær leiðir. Fyrri leiðin er sú að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði og að starfsemi þess verði alfarið kostuð af opinberum fjárframlögum. Þetta er leið sem er farin mjög víða í Evrópuríkjum eins og rakið er mjög rækilega í frumvarpinu. Í öðru lagi er bent á þá leið að ef Ríkisútvarpið ætlar að starfa á auglýsingamarkaði geti sú starfsemi farið fram á vegum sérstakra útvarps- eða sjónvarpsstöðva eða þá rása sem séu alfarið fjármagnaðar með auglýsingatekjum. Eins og ég hef skilið þá leið felur það eiginlega í sér að búnar séu til eins konar mjólkurkýr sem standi á fjósi ríkisins og afli tekna með þessum hætti. (GÓJ: Er þetta ríkisvæðing?) Þetta eru þær tvær leiðir sem Samkeppniseftirlitið bendir á. Svo segir Samkeppniseftirlitið að það taki ekki að svo komnu máli afstöðu til þess hvora leiðina sé æskilegra að velja til að koma í veg fyrir það sem það kallar framangreinda samkeppnislega mismunun eða hvernig eigi að útfæra leiðirnar.

Það er athyglisvert, frú forseti, að hvorug leiðin er valin. Þar með er óhjákvæmilegt annað en að draga þá ályktun af þessu að Samkeppniseftirlitið sé að benda á það að í fyrsta lagi standist ríkisútvarpsfrumvarpið ekki íslenskar samkeppnisreglur og í öðru lagi ekki heldur reglur hins evrópska samkeppnisréttar. Þá hljótum við að spyrja okkur: Hvaða afleiðingar er það líklegt til að hafa fyrir Ríkisútvarpið í framtíðinni?

Fram hefur komið hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, eins og ég rakti áðan, að í besta falli er hægt að segja að Ríkisútvarpið sé statt á gráu svæði hvað þetta varðar í dag. Þegar hefur komið fram kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA varðandi starfsemi þess í dag, þegar það starfar á formi ríkisfyrirtækis. Hvað gerist nú þegar (GÓJ: Ríkisvæðing?) búið er að breyta rekstrarforminu? Kannski gæti lögfræðingurinn og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson svarað því í ræðu sem ég er viss um að hann flytur síðar í dag til þess að útskýra þetta atriði. (Gripið fram í.) Það er mjög líklegt að á grundvelli þeirra sterku röksemda sem koma fram í áliti Samkeppniseftirlitsins muni keppinautarnir hefja mál, byrja á því að senda kæru og kvörtun til evrópskra eftirlitsstofnana og síðar að hefja mál á grundvelli þeirra sterku röksemda sem þarna koma fram. (Gripið fram í: Er þetta þá ríkisvæðing ... ?) Engum dettur í hug annað en að þetta álit sé skrifað af hálfu Samkeppniseftirlitsins með hliðsjón af evrópskum réttarreglum.

Ég er reyndar algjörlega sannfærður um (GÓJ: ... einkavæðingu.) það að með álitinu er Samkeppniseftirlitið beinlínis að benda markaðnum á það að frumvarpið er eins langt og hugsast getur frá því að samræmast skuldbindingum okkar varðandi EES. Það er svo merkilegt að sumir í liði stjórnarinnar hafa aftur og aftur gripið til þeirrar röksemdar sem ég gat um áðan, að búvörulög væru þannig úr garði gerð að þau gætu undanþegið greinar landbúnaðarins samkeppnislögum en þá horfa menn fram hjá þeim róttæka mun sem er annars vegar á rekstri fjölmiðla og hins vegar á landbúnaðarframleiðslu, að hið fyrra er ekki partur af EES-sviðinu en hið síðara er það. Á því er grundvallarmunur.

Nú gætu menn velt fyrir sér hvað gerðist ef slík kæra eða kvörtun kæmi fram. Ef hv. formaður menntamálanefndar er þeirrar skoðunar í dag er rekstur Ríkisútvarpsins á gráu svæði. Eru þá ekki allar líkur á því að það verði komið út fyrir hið gráa svæði yfir á hið dökka svæði þar sem er alveg ljóst hver staðan er þegar búið er að gera þetta að hlutafélagi? Ég óttast það. Ég tel reyndar að einmitt þetta sé kannski lykilatriði í því frumvarpi sem hér liggur fyrir, þ.e. þegar slík kæra kemur fram og menn fara að meta stöðuna horfa þeir auðvitað til þess að Ríkisútvarpið er orðið að hlutafélagi. Menn gera það að hlutafélagi til að njóta ákveðins ávinnings og hagræðis sem hlýst af því að hafa fyrirtækið á því formi. Það veitir ákveðna sveigju og lipurð en um leið og menn horfa til þess að þarna er verið að taka upp rekstrarform sem nýtir ávinning verður það að sjálfsögðu líka látið sæta hinum stífu samkeppnisreglum sem gilda um fyrirtæki á markaði.

Þá tel ég að niðurstaðan leiði mjög líklega til þess að kveðinn verði upp úrskurður sem í fyrsta lagi taki af öll tvímæli um að hlutafélagið Ríkisútvarp sé að keppa við einkafyrirtæki með óhæfilegum hætti og í öðru lagi til þess að ríkið sæti fébótaábyrgð, hugsanlega aftur til þess tíma sem gildistími þessa frumvarps verði settur við, og í þriðja lagi að niðurstaðan verði sú að möguleikar Ríkisútvarpsins til þess að starfa á markaði við auglýsingasölu verði takmarkaðir allverulega og þá dreg ég af því þá ályktun að þetta leiði til þess að starfsgrundvöllur Ríkisútvarpsins ohf. verði mjög veiktur til frambúðar. Ég treysti mér ekki til að segja hvað þetta kann að skipta miklu máli varðandi tekjumöguleikana í framtíðinni en ég held hins vegar að það verði ákaflega erfitt fyrir ríkisvaldið á þeim tíma að koma til þingsins, til þjóðarinnar og óska eftir mörgum milljörðum til viðbótar til að reka þetta þjóðþrifafyrirtæki. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að þetta frumvarp skapi í besta falli verulega óvissu um framtíð Ríkisútvarpsins en í versta falli geti það leitt til gerbreytinga á möguleikum þess til að starfa með núverandi formi og gegna núverandi hlutverki í framtíðinni.

Menn geta verið ósammála mér um síðari niðurstöðuna en ég held að það sé óhjákvæmilegt fyrir alla sem koma að þessum málum með hlutlausum augum og opnum — sem ég veit að á náttúrlega ekki við suma þingmenn Framsóknarflokksins — annað en að fallast á að þetta skapar óvissu og það er auðvitað hættan í þessu máli. Það er mjög líklegt að þetta leiði til verulegrar óvissu.

Það virðist vera eitt af uppáhaldsþáttunum í ræðum ýmissa þingmanna sjálfstæðismanna, þótt þeir að vísu taki ekki mjög mikið til máls nú á þessum síðari stigum umræðunnar, að gera lítið úr þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram frá ýmsum þeim sem áður mátti þó kalla leiðtoga lífs þeirra. Einn af þeim er Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra (Gripið fram í.) og formaður … Frú forseti. Ég ætlaði að gefa hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni færi á að ljúka frammíkalli sínu. Ég var að gera að umræðuefni ákveðin viðhorf sem fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ítrekað viðrað opinberlega með mjög sterkum rökum. Það er Þorsteinn Pálsson og eins og þjóð veit þá er hann ritstjóri Fréttablaðsins. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, sá að vísu sæmd sína alveg við ystu bjargbrún og hætti við að ljúka frammíkalli sínu, en hann var að ýja að því (Gripið fram í.) að ritstjóri Fréttablaðsins sem var einn af merkustu stjórnmálamönnum Sjálfstæðisflokksins á sínum tíma, og hv. þingmaður á auðvitað að bera virðingu fyrir slíkum mönnum sem sannarlega má telja í hópi þeirra sem merkastir hafa stigið hér um fjalir á síðustu áratugum, hann var að ýja að því að það væru annarleg sjónarmið sem réðu skrifum þessa ágæta ritstjóra. Það hefur verið plagsiður þessara manna sem hafa óbeðnir tekið að sér að moka flórinn fyrir Sjálfstæðisflokkinn að láta að því liggja að hin skeleggu skrif sem hafa komið fram m.a. hjá Þorsteini Pálssyni stafi af því að þar séu menn á ferðinni sem séu að gæta hagsmuna eigenda sinna.

Við einhverjar aðstæður væri hugsanlega hægt að segja að það væri réttlætanlegt að taka með þeim hætti til máls út af samhengi hlutanna en það er hins vegar ekki réttlætanlegt gagnvart manni eins og Þorsteini Pálssyni sem allir vita að hefur verið með heiðarlegustu og ærlegustu stjórnmálamönnum sem hér hafa starfað og er það ekki lengur, hann er ekki stjórnmálamaður í dag. En hann hefur hins vegar vakið eftirtekt á því að mörgu er mjög ábótavant í þessu ferli. Hann vakti t.d. athygli á því í ritstjórnargrein að stjórnvöld hefðu haldið leyndum fyrir Alþingi ákaflega mikilvægum skjölum sem vörðuðu samskipti ráðuneytanna við Eftirlitsstofnun EFTA vegna samkeppnismálanna. Það hefur ekkert vafist fyrir fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins af hverju þessum skjölum var haldið leyndum. Mig langar, frú forseti, að upplýsa hv. frammíkallanda Guðjón Ólaf Jónsson um hvað formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra taldi að hefði valdið því. (Gripið fram í.) Hann orðaði það svo, með leyfi forseta:

„Augljóst má vera að þeir sem bera stjórnskipulega ábyrgð á samkeppnismálum hafa talið að birting þeirra mundi veikja röksemdafærsluna.“

Með öðrum orðum, hann er að segja að hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafi vitandi vits skotið þessum gögnum undan vegna þess að í þeim væri að finna röksemdir sem veiktu málflutning ráðuneytisins. Nú ætla ég ekki að segja að hv. formaður menntamálanefndar eigi skilið þau ummæli vegna þess að hann var bara vinnumaður í því verki. En það er hins vegar óneitanlega ákaflega merkilegt að hann skuli hafa tekið þátt í því að haga verklagi menntamálanefndar með þeim hætti að það gafst ekki tóm til að skoða þetta og nú kann vel að vera að hv. þingmaður hafi með lestri sínum, síðar, hugsanlega fyrir — það er komið í ljós að hv. þingmaður er hraðlæs á evrópsku og skilur ensku og evrópsku miklu betur en allir aðrir í þessum sölum — komist að því að efni þeirra skipti engu máli. Við skulum bara gefa okkur það röksemdafærslunnar vegna að hann hafi haft rétt fyrir sér. En er það ekki í anda lýðræðis og gagnsærra vinnubragða að aðrir í nefndinni fái að komast að þeirri skoðun sjálfir ef hún er rétt, að sjálfsögðu? Hv. þingmanni hefði verið í lófa lagið að loka fundi nefndarinnar þannig að stjórnarandstaðan í nefndinni hefði getað bæði lesið skjölin sjálf og líka yfir helgina kallað til sérfræðinga til að skoða þetta mál og komist að þessari niðurstöðu sjálf. Það hefði ekki skipt nokkru einasta máli fyrir framgang málsins hér. Það hefði verið hægt að hefja umræðuna alveg eins og stjórnarandstaðan var reiðubúin til samkvæmt samkomulagi kl. 13:30 á mánudaginn en það var eitthvað annað sem olli því.

Hv. þingmaður sem kom fram og notaði svipuð orð og hv. þingmenn Sæunn Stefánsdóttir og Dagný Jónsdóttir í dag og sagði í Fréttablaðinu að þetta væri ótækt og óásættanlegt starfslag af hálfu ráðuneytanna. Hann lýsti því yfir í sama viðtali að hann ætlaði aldeilis að tala yfir hausamótunum á ráðherrunum, sagði það að vísu ekki með þessum orðum en það lá í því sem hv. þingmaður sagði. Með leyfi forseta langar mig til að rifja upp fyrir þessum unga þingmanni sem skyndilega virðist vera farinn að reskjast fyrir aldur fram, a.m.k. tapa minni því þarna sagði hann, með leyfi forseta:

„Það er ótækt og óásættanlegt að þetta starfslag hafi verið viðhaft.“ — Svo kemur þessi dásamlega setning: — „Ég ætla mér að ræða þetta mál frekar við ráðherrana [Árna Mathiesen og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur].“

Í þessu liggur auðvitað að hv. þingmaður ætlaði að gæta réttar nefndarinnar. Hann ætlaði að sjá til þess að sá ferill sem hann á sem formaður menntamálanefndar yrði áfram jafnglæstur í þessu máli allt til loka og hann hafði verið fram að þeim tíma því að hv. … (Gripið fram í.) Frú forseti. Það er eins og hv. þingmenn eigi erfitt með að hlýða á sannleikann í þessu máli. Ég ætla ekki að leita aðstoðar hæstv. forseta, ég treysti mér vel til að eiga við þá menn sjálfur en það kynni hins vegar að verða til þess að ég þyrfti að lengja ræðu mína örlítið.

Hv. þingmaður ætlaði auðvitað að verja heiður nefndarinnar, verja gagnsæ vinnubrögð nefndarinnar og hann ætlaði að finna að þessu við ráðherrana og hann ætlaði auðvitað að krefjast þess að nefndin fengi tíma til að vinna þetta mál með sama hætti og áður sem hann átti hrós skilið fyrir að mörgu leyti. Hann kom bónleiður til búðar. Hann var tuktaður þannig til að hann kom kaghýddur af fundi ráðherrans og hann reif þetta mál í gegn á föstudegi. Honum hefði verið í lófa lagið, þótt ekki væri nema gefa einn sólarhring til viðbótar eða fram á mánudag. Stjórnarandstaðan var búin að fallast á að umræðan hæfist á mánudag og hún hafði staðið við það og hafði þó ærin tilefni til eftir þetta til að segja að ríkisstjórnin hefði brotið sitt samkomulag.

Þetta rennir stoðum, frú forseti, undir þá skýringu sem ritstjóri Fréttablaðsins gaf á þessum vinnubrögðum. Hann sagði einfaldlega að það væri verið að skjóta þessum gögnum undan umræðunni, láta hníga að ákvörðun áður en þau væru skoðuð vegna þess að það væri augljóst að í þeim væri að finna röksemdir sem veiktu málflutning þeirra sem bæru stjórnskipulega ábyrgð á málaflokknum. En það er hins vegar á ábyrgð þeirra tveggja ungu manna sem eru í hlutverki eins konar yfirgjammara á þessum fundi og ferst það vel úr hendi og ættu reyndar ekki að gera mikið annað, þeir virðast vera langbestir í því og miklu betri en t.d. að fjalla vel og vandlega um flókin frumvörp, þeir eru ábyrgir fyrir þessu líka. Ég spyr hv. þingmann Guðjón Ólaf Jónsson: Af hverju tekur Framsóknarflokkurinn að sér skítverk af þessu tagi? Af hverju tekur Framsóknarflokkurinn að sér að moka íhaldsfjósið í þessum efnum? (GÓJ: Það er einkavæðingar …) Það er engu líkara en Framsóknarflokkurinn og sérstaklega yngri hlutar þingflokksins séu orðnir eins og læmingjahjörð en menn vita það að á sjö til átta ára fresti og yfirleitt líka á fullu tungli, ég veit ekki hvort það hefur einhver áhrif á Framsóknarflokkinn, þá grípur þessi sérkennilega kennd læmingjana að hvarvetna sem þeir sjá björg þá verða þeir að fleygja sér fyrir þau. Og það hefur Framsóknarflokkurinn gert í þessu máli. Hann hefur anað út í hvaða ófæru sem er og hann hefur svikið allar sínar fyrri samþykktir … (GÓJ: Einkavæðinguna eða ríkisvæðinguna?) allar sínar fyrri samþykktir.

Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson kom hingað eftir að tveir eða þrír, ég man ekki hversu margir, ráðherrar flúðu af þinginu m.a. eins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins sem bókstaflega hvarf úr íslenskum stjórnmálum vegna þess að viðbrögð hans eigin flokksmanna við túlkun hans á stefnu flokksins voru slík að hann átti ekki annarra kosta völ.

Frú forseti. Vegna þess að sá maður er ekki lengur á meðal okkar þá kýs ég að tala frekar varlega um hann og kalla þetta því túlkun hans, þ.e. túlkun Halldórs Ásgrímssonar á stefnu Framsóknarflokksins. En við þann þingmann sem hér er staddur og getur svarað fyrir sig hef ég allt önnur orð og miklu harðari. Ég segi það hreint út, þetta eru svik Framsóknarflokksins við yfirlýsta stefnu. (GÓJ: Það er einkavæðingin …)

Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson hefur því miður gengið í þeim flokki alla leiðina á enda. Hann hefur t.d. tekið þátt í því að lemja í gegn frumvarp sem er algerlega í andstöðu við vilja hans eigin baklands. Þegar ég segi hans eigin baklands, þá á ég við þann hluta Framsóknarflokksins sem hv. þingmaður kemur úr þótt að vísu megi sjá á honum að elli kerling fari að meitla einhverja drætti í andlit hans þá er hann samt enn þá ungur og hefur sem betur fer yfir sér gáska og fjör hins unga þingmanns sem er auðvitað merkilegt miðað við að hér er um þingmann í Framsóknarflokknum að ræða sem er í heldur þungri stöðu í dag. En þessi þingmaður hefur gengið fram fyrir skjöldu hér í salnum til að reyna að troða þessu frumvarpi í gegn. Það hefur enginn þingmaður, ekki einu sinni í hópi sjálfstæðismanna, komið hér sérstaklega upp eins og hann gerði fyrir jól og kvartað undan því að samkomulag hefði tekist milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að fresta 3. umr. fram yfir jól. Þessi hv. þingmaður vildi klára málið sem allra fyrst, koma frumvarpinu í gegn sem er þó algerlega í andstöðu við samþykktir Framsóknarflokksins.

Mig langar að rifja það upp fyrir hv. þingmanni af því að mér sýnist, frú forseti, að minni hans a.m.k. að því er varðar stefnu Framsóknarflokksins sé svolítið gloppótt, jafnvel farið að bila töluvert, en Framsóknarflokkurinn hefur á þremur flokksþingum sínum fjallað um þetta mál. Og það má reyndar rifja það upp að í upphafi stóð hann í lappirnar. Það á rifja það upp, hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson. Nú langar mig til þess, frú forseti, að hafa hv. þingmann Guðjón Ólaf í salnum því ég þarf að eiga við hann orðastað.

Árið 1996 gerði nefnd innan Sjálfstæðisflokksins skýrslu um endurskoðun á útvarpslögum. Í þeirri nefnd voru Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, Tómas Ingi Olrich, sem þá var hér á þingi, og Ásdís Halla Bragadóttir. Náttúrlega af sanngirni gagnvart Ríkisútvarpinu var einn nefndarmaður sóttur út fyrir Valhöll. Hann var sóttur alla leið til keppinautarins og það var Páll Magnússon, núverandi útvarpsstjóri, sem þá var reyndar starfsmaður Stöðvar 2 og var sóttur þangað.

Sú skýrsla, sem ég hef í tilefni þessarar umræðu lesið aftur tíu árum eftir að hún var samin, gefur dálítið glögga mynd af þeim þrönga stakki sem sjálfstæðismenn vildu þá sníða RÚV í framtíðinni. Þar voru nánast lögð drög að því sem nú er að gerast, þ.e. að breyta RÚV þannig að tekið væri skref í átt að sölu og þar með einkavæðingu.

En eftir að skýrslan lá fyrir — og ber nú vel í veiði að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, fulltrúi Framsóknarflokksins, gengur í salinn — átti nefnilega í fyrsta skipti að beygja Framsóknarflokkinn til hlýðni. Þá var sett upp sérstök nefnd á vegum þeirra stjórnarflokka sem enn þá sitja illu heilli. (Gripið fram í.) En þá var enn hægt að finna menn í Framsóknarflokknum sem stóðu í lappirnar og (Gripið fram í.) var sóttur maður að nafni Gissur Pétursson, núverandi framkvæmdastjóri Vinnumálastofnunar. Góður og gegn framsóknarmaður sem aldrei hefur bilað og heldur hneigst til þess að vera, eins og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson var einu sinni, í þeim armi sem vildi standa í lappirnar gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Á þeim tíma hafði Gissur Pétursson og þeir sem störfuðu í nefndinni bakland. Þeir höfðu menn eins og Guðjón Ólaf Jónsson sem studdu þá gegn því að selja Ríkisútvarpið. Það voru þeir sem gerðu það að verkum að með stuðningi manna eins og Guðjóns Ólafs, sem þá var ungur framsóknarmaður, leiddi til þess að ekki varð samkomulag um frumvarpsdrögin. Þetta var árið 1998.

Árinu síðar, frú forseti, árið 1999, var samþykkt með atkvæði Guðjóns Ólafs Jónssonar, sem núna er hv. þingmaður á Alþingi í dag, á flokksþingi Framsóknarflokksins, með leyfi forseta:

„Allar rásir Ríkisútvarpsins verði áfram í ríkiseigu og því verði ekki breytt í hlutafélag.“

Frú forseti. Núna er hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson, sem greiddi atkvæði með þessu 1999 á flokksþinginu, að berjast gegn sinni fyrri stefnu. Hann gengur manna harðast fram í því að hér verði barið í gegn frumvarp sem í fyrsta lagi svíkur þá stefnu sem hann samþykkti áður að því leyti til að Ríkisútvarpið á að vera hlutafélag.

Í öðru lagi felur það líka í sér svik við hina gömlu stefnu frá 1999 að því marki að í því frumvarpi sem við erum að ræða, og sem hv. þingmaður hefur mært flestum mönnum fremur, er gert ráð fyrir að ein rásin, hugsanlega Rás 2, verði seld eða lögð niður. Því þar er beinlínis sagt, að Ríkisútvarpið ohf. beri ekki skylda til þess að starfrækja nema eina rás.

Frú forseti. Þarna er um að ræða tvenns konar svik við samþykktarstefnu Framsóknarflokksins. Það er auðvitað dapurlegt að það skuli vera sá ágæti piltur og hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson sem tekur þátt í því.

Sömuleiðis, frú forseti, var árið 2003 líka með atkvæði hv. þm. Guðjón Ólafs Jónssonar, samþykkt eftirfarandi stefna um Ríkisútvarpið, og bið ég nú hv. þingmann Guðjón Ólaf Jónsson vel að hlýða og ég vona að hann sígi ekki alveg niður úr stólnum, mér sýnist hann sé nú eiginlega undir þessum lestri orðinn þannig að hann a.m.k. eigi erfitt með að standa í lappirnar. (GÓJ: Ég er að bíða eftir stefnu Samfylkingarinnar.) Með leyfi forseta, hljóðaði stefnan sem þessir ungu Tyrkir Framsóknarflokksins samþykktu þá:

„Breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun sem verði laus við viðskiptaleg, stjórnmálaleg eða önnur hagsmunatengsl.“

Frú forseti. Hér er verið að gera allt annað í frumvarpinu. Það sem skiptir máli fyrir þá sem hafa einhvern tímann haft taugar til Framsóknarflokksins, eins og ég hef nú stundum haft, og það sem skiptir máli fyrir þá sem hugsanlega hafa hvarflað frá flokknum en gætu velt því fyrir sér að styðja hann aftur og það sem skiptir máli fyrir alla þá sem trúa á það að menn eigi að fara eftir sannfæringu sinni og vera samkvæmir sjálfum sér, þá vantar skýringar hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar og annarra þingmanna Framsóknarflokksins fyrir því hvers vegna þeir hafa með þessum hætti gengið, ekki bara á svig, heldur á bak þeirra orða sem flokksþing Framsóknarflokksins gaf kjósendum á þeim tíma.

En það er eins og maðurinn sagði, fólk er ekki fífl. Fólk lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Það er ekki síst vegna þessa sem framsóknarmenn hafa í hrönnum yfirgefið flokk sinn og forustu.

Ef hv. þm. Einar Már Sigurðarson vildi gera mér þann greiða að trufla ekki hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson meðan ég er að ræða við hann um stefnu Framsóknarflokksins yrði ég glaður við. Til að hv. flokksbróðir minn skilji hvað um er að ræða er ég að fara þess vinsamlega á leit við hv. þm. Guðjón Ólaf Jónsson að hann útskýri af hverju hann stendur ekki við þau orð sem Framsóknarflokkurinn gaf fyrir hans hönd með samþykki hans á flokksþinginu 2003, flokksþinginu 2001 og flokksþinginu 1999.

En ég skal upplýsa hv. þingmann af hverju það er. Það er vegna þess að Framsóknarflokkurinn er í þessum máli alveg eins og í Íraksmálinu, svínbeygður af Sjálfstæðisflokknum. Hann er í hverju málinu á fætur öðru látinn éta ofan í sig sínar eigin yfirlýsingar. Þetta gerir það að verkum að fólk treystir ekki flokknum framar. Það er þetta sem gerir það að (Gripið fram í.) verkum að tveir þriðju af því fylgi sem (GÓJ: Hvað segir formaður Samfylkingarinnar?) kaus Framsóknarflokkinn við síðustu …

(Forseti (SP): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð og tækifæri til þess að ljúka ræðu sinni.)

Frú forseti. Því miður hef ég nokkuð tafist við að koma frá mér því sem ég vildi segja svo hugsanlegt er að ræða mín verði fyrir vikið svolítið lengri þó ég vilji allt til gera til að ná samkomulagi við þennan ágæta forseta um eðlilegt þingframhald.

Mér finnst bara þægilegt, frú forseti, að hafa framsóknarmenn með þessum hætti í salnum. Mér finnst þetta vera ákveðin heilbrigðismerki því það sýnir sig, alla vega í þessum frammíköllum, að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson sem mér er vel við, hefur þó að minnsta kosti það sem ýmsir framsóknarmenn hafa ekki, hann hefur samvisku og kann þess vegna að skammast sín. Það speglast vel í frammíköllunum því honum líður illa undir þeim. Frú forseti. Mér mundi líka líða illa ef ég hefði tekið þátt í að fara alveg 180 gráður beint frá þeirri stefnu sem ég hefði sjálfur samþykkt.

Það var þannig að hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson var forustumaður meðal ungra framsóknarmanna. Þar eru sem betur fer menn sem standa í lappirnar þó að stálið bresti hjá ýmsum öðrum. 26. nóvember síðastliðinn var það bakland hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar sem samþykkti andmæli gegn frumvarpinu. Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna samþykkti formlega ályktun gegn því að Framsóknarflokkurinn stæði að samþykkt frumvarpsins og gegn ýmsum þáttum sem í því eru.

Mig langar þess vegna ef hægt væri að fá einhverjar skýringar á því af hverju hv. þingmaður hefur svona algerlega slitið á tengsl sín við það fólk sem hóf hann til þeirrar fremdar sem hann nýtur nú. Þetta var fólkið sem gerði hv. þingmann að því sem hann er í dag, þingmanni Framsóknarflokksins. Það er heiðursstaða í Framsóknarflokknum. Það hlýtur að vera mikill sómi að því fyrir sérhvern mann að vera veittur sá trúnaður. En í því ljósi eru örlög þeirra sem síðan svíkjast gegn sínum hugsjónum heldur dapurleg.

Ég fór með þennan lestur, frú forseti, einungis til að lækka aðeins rostann í hv. frammíkallanda sem hefur síðustu þrjú korterin ekki getað haldið sér saman í sæti sínu og allt í lagi með það. Hann hefur ábyggilega margt að segja. Þó er athyglisverð, frú forseti, miðað við þær mörgu ræður sem hv. þingmaður hefur flutt úr sæti sínu í dag að hann er ekki enn kominn á mælendaskrá.

Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir vaskleikann í yfirbragði og þrátt fyrir þetta djarfmannlega yfirbragð sem stundum einkennir þennan ágæta þingmann sem núna er nánast siginn niður í gólfið í sæti sínu, þá þorir hann ekki að koma hingað til að gera grein fyrir afstöðubreytingum sínum. En ef hann gerir það mundi ég vera honum þakklátur fyrir. Þá mætti hann kannski í leiðinni fyrir mig (Gripið fram í.) sakir gamallar þingvináttu gera líka grein fyrir viðsnúningi flokksins í Íraksmálinu.

Frú forseti. Því þetta tvennt skiptir öllu máli (Gripið fram í: … Samfylkingarinnar.) um núverandi stöðu Framsóknarflokksins. Þetta er ástæðan fyrir því að flokkurinn er svona ákaflega illa staddur. Það hryggir mig. Ég hef ekki gaman af því að sjá ágætan flokk með jafnmerka sögu og Framsóknarflokkinn liggja með þeim hætti sem hann gerir núna í mýrinni og fúna þar.

En það hryggir mig líka vegna þess að við eigum sameiginlegar rætur, ég og hv. þingmaður, í stjórnmálum. Það var sami maður sem hratt af stað þeim tveimur hreyfingum sem við tilheyrum í dag og það var sama höndin sem ritaði stofnskrá beggja flokkanna, Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins, á sínum tíma, baráttuhreyfingar jafnaðarmanna. Það var hönd Jónasar frá Hriflu.

Frú forseti. Framsóknarflokkurinn kemur aftur og aftur í ræðustól og heldur því fram fullum fetum að ekki eigi að selja Ríkisútvarpið. Ég tek alveg skýrt fram að ég trúi því alveg þegar hv. þingmenn segja að það komi ekki til mála með samþykki þeirra að selja Ríkisútvarpið. Ég er þeirrar skoðunar að Framsóknarflokkurinn meini það þegar hann segi að hann vilji byggja upp Ríkisútvarpið og gera það að almannaútvarpi. Einu sinni voru að minnsta kosti menn í Framsóknarflokknum sem voru sammála okkur ýmsum um að besta leiðin gegn ítökum auðvaldsins á fjölmiðlamarkaði væri einmitt að byggja upp sterkt almannaútvarp vegna þess að einungis það gæti komið í veg fyrir að einstakir auðjöfrar gætu í krafti ítaka sinna á fjölmiðlamarkaðnum orðið leiðandi í skoðanamyndun.

En hins vegar er búið að svipta hv. þingmenn og forustu Framsóknarflokksins skynsemi. Þeir hafa svo tapað heilbrigðri skynsemi og hugsun á þessu langa samstarfi með Sjálfstæðisflokknum að það er eins og þeir horfi blindandi fram hjá því sem þó er skrifað á vegginn.

Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson situr núna í sæti sínu við hlið hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, kom hingað inn á þing beinlínis með það að markmiði að selja Ríkisútvarpið. Honum til hróss má segja að hann fór ekkert í grafgötur með það. (Gripið fram í.) Með honum í þeirri för, hann er nú að hækka aftur í Ríkisútvarpinu, er nefskatturinn frægi sem hv. þingmaður hefur … (Gripið fram í: … lagt á.) (Gripið fram í: Afnotagjaldið fer.) (Gripið fram í: Það er hringekjan hjá honum.)

Frú forseti. Það sem ég ætlaði að segja var eftirfarandi. Hv. þingmaður, af tilviljun örlaganna, hefur valist í sæti við hlið hv. þingmanns og formanns menntamálanefndar, Sigurðar Kára Kristjánsson, og sækir sér styrk til hans. (Gripið fram í.) Ég var að reyna að segja að Sigurður Kári Kristjánsson hefur verið í fararbroddi þeirra hér þingsal, ásamt hv. þingmönnum Pétri H. Blöndal og Birgi Ármannssyni, sem vilja selja Ríkisútvarpið. Þeir hafa auðvitað ekki þingstyrk til þess í dag. Það er alveg ljóst.

En allt breytist. Tímanum vindur fram. Viðhorf breytast. Við sjáum þegar við skoðum Sjálfstæðisflokkinn að mikil og öflug mulningsvél er þar stöðugt í gangi. Þar, segi ég að minnsta kosti, er hugmyndamótorinn að finna í Sambandi ungra sjálfstæðismanna.

Í röðum þeirra hefur verið samþykkt á þingum árum saman, að ég held í heilan áratug, að stefna beri að því að einkavæða Ríkisútvarpið. Engum datt til hugar fyrir tíu árum þegar Sjálfstæðisflokkurinn talaði um að selja ætti Rás 2, að þetta yrði nokkurn tímann stefna sem yrði flutt inn á Alþingi. Það datt ekki neinum einasta manni í hug að svo mundu viðhorfin breytast í efri lögum Sjálfstæðisflokksins að hingað skolaði þingmönnum sem mundu bókstaflega leggja þetta til.

Menn héldu alltaf að Pétur H. Blöndal, sem hafði stundum talað í þessa veru, væri hrópandinn í eyðimörkinni og menn vita jú hvað varð um hrópandann í eyðimörkinni. Menn vita örlög Jóhannesar skírara, sem var hrópandinn í eyðimörkinni í biblíulegum skilningi. Ég veit að prestssonurinn frá Saurbæ á Hvalfjarðarströnd veit hver urðu örlög hans. Ég hélt að í hugmyndafræðilegum skilningi yrðu örlög þessara hugmynda þannig að höfuð yrði skilið frá bol, eins og gerðist með Jóhannes skírara. En það gerðist hins vegar allt í einu að hingað komu fleiri menn sem voru sömu skoðunar

Núna sjáum við það líka, frú forseti, að í röðum þeirra sem líklegt er að verði stuðningsmenn og -konur hæstv. menntamálaráðherra á næsta kjörtímabili er að finna fólk sem er þessarar skoðunar, sem ég treysti þó að hæstv. menntamálaráðherra sé ekki í hjarta sínu þó hún hafi látið ginnast til að flytja þetta frumvarp.

(Forseti (SP): Núna er klukkan orðin fjögur og forseti vill inna hv. þingmann eftir því hvort hann eigi langt eftir af ræðu sinni?)

Já, frú forseti. Ætlun mín var að ljúka henni fyrir klukkan fjögur en sökum þess, eins og forseti hefur orðið vör við, hef ég verið truflaður svolítið. Ég hef átt erfitt með að koma fram ákveðnum málum. Ég tel að ég eigi svona tíu til fimmtán mínútur eftir af ræðu minni.

(Forseti (SP): Mun hv. þingmaður óska eftir að fresta ræðu sinni þar til að þinghald hefst að nýju kl. sex?)

Ég mundi gleðjast yfir því ef forseti leyfði mér það.

(Forseti (SP): Nú verður orðið við því.)