133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[18:02]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (frh.):

Frú forseti. Ég var langt kominn með ræðu mína fyrr í dag og hefði sennilega getað lokið henni ef ekki hefði verið svo sérkennilega staðið að málum af hálfu stjórnarliða að þeir sendu tvo hvolpa á frambekkina til að trufla mig og koma í veg fyrir það með frammíköllum sínum … (Forseti hringir.)

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. ræðumann að gæta orða sinna.)

Frú forseti. Ég skal sannarlega gera það og lýsi því yfir að ég mun ekki frekar líkja þessum ágætu þingmönnum, sem mér er hlýtt til, við afkvæmi næstbesta vinar mannsins. Allt var það þó með jákvæðum huga gert því fátt hefur vakið mér meiri ánægju og sérstaklega í bernsku minni en þegar ég átti litla seppa. Ég hugsa ævinlega til þeirra með hlýju.

Frú forseti. Ég var staddur í miklum lestri áðan yfir þessum tveimur ungu þingmönnum, hv. þm. Guðjóni Ólafi Jónssyni og hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, formanni menntamálanefndar. Ég hafði lýst því með hvaða hætti Framsóknarflokkurinn hefur gersamlega svikið hugsjónir sínar varðandi Ríkisútvarpið. Ég las upp úr mörgum ályktunum frá árunum 1999, 2001 og 2003 til að sýna fram á að sú stefna sem Framsóknarflokkurinn fylgir er algjörlega andstæð flokkssamþykktum Framsóknar. Það er mjög athyglisvert að það voru sérstaklega hinir ungu þingmenn Framsóknarflokksins sem hér gengu harðast fram við að reyna að færa rök fyrir því að nauðsynlegt væri að málið næði fram að ganga. Hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir sagði að hún hefði enga hugmynd um nokkurn framsóknarmann sem væri málinu andstæður. Hún hefði farið á 20 fundi víðs vegar um landið og hvergi hefði hún fundið nokkurn framsóknarmann sem væri þeirrar skoðunar að þetta væri vont frumvarp. (Gripið fram í: Voru það mannlausir fundir?) Það er ákaflega líklegt að Framsókn sé eins og læmingjarnir, hlaupin fyrir björg og finnist ekki. Þó er það svo að fyrir jól örlaði á manndómi hjá ungum framsóknarmönnum.

Þann 28. nóvember samþykktu ungir framsóknarmenn mjög skelegga ályktun. Ég vil upplýsa þingheim og sérstaklega hina ungu framsóknarmenn, sem ekki sjást í þessum sölum því þeir eru lagðir á flótta frá málinu, um að þeir sem samþykktu þetta var stjórn Sambands ungra framsóknarmanna, þ.e. sú deild innan Framsóknarflokksins sem hóf þetta unga fólk til þeirrar fremdar að gegna trúnaðarstöðum fyrir Framsóknarflokkinn á Alþingi. Frá þessu er sagt í Fréttablaðinu 29. nóvember með svofelldum orðum, með leyfi forseta:

,,Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna … samþykkti í gær ályktun þar sem þingmenn eru hvattir til þess að samþykkja ekki frumvarp um RÚV ohf.

Í ályktuninni kemur fram að SUF telur hvorki að hagsmunum RÚV, né almennings í landinu, sé best borgið með hlutafélagavæðingu.“

Frú forseti. Skýrara getur þetta ekki verið. Þeir sem eiga að erfa landið innan Framsóknarflokksins og þær reytur sem hugsanlega kunna að verða eftir af honum þegar fram í sækir eru þeirrar skoðunar að Framsóknarflokkurinn sé á villigötum í þessu efni. Þeir eru svo rækilega sannfærðir um það að þeir taka meira að segja á sig rögg og samþykkja sérstaka ályktun gegn eigin forustu. Til þess þarf manndóm og hann hafa greinilega einhverjir ungir framsóknarmenn sem örlögin hafa ekki skolað eins og hverjum öðrum rekakubb á fjörur Alþingis.

Ég hef haldið því fram, frú forseti, að það sé tilgangur hluta Sjálfstæðisflokksins með ríkisútvarpsfrumvarpinu að selja stofnunina að lokum. Þessa ofuráherslu sem við sjáum á degi hverjum í umræðunni af hálfu Sjálfstæðisflokksins um að gera að Ríkisútvarpið að hlutafélagi er ákaflega erfitt að skilja öðruvísi en í ljósi margyfirlýsts vilja öflugra þingmann til þess að selja Ríkisútvarpið að lokum eða a.m.k. hluta þess. Ég vek eftirtekt á því að einstakir þingmenn flokksins hafa beinlínis fagnað frumvarpinu í þessum ræðustól á þeim forsendum að frumvarpið um háeffun RÚV sé fyrsta skrefið að sölu.

Ég er þeirrar skoðunar að eins og fjölmiðlamarkaðurinn er að þróast, þar sem öflugir og auðugir menn og fyrirtæki hafa gríðarlega sterk tök, sé það besta vörnin gegn því að einstakir auðmenn eða auðfyrirtæki, stórfyrirtæki, nái hreðjatökum á skoðanamyndun í landinu að við tökum höndum saman um það að efla almannaútvarp. Það er langbesta leiðin og vörnin gegn því að fjármagnseigendur einoki skoðanamyndun í landinu í gegnum ofurtök sín á fjölmiðlamarkaðnum. Ég er algjörlega andsnúinn sölunni og af því að ég tel að tilgangurinn með hlutafélagavæðingunni sé að lokum að selja þá er ég henni andsnúinn líka.

Innan Sjálfstæðisflokksins eru sérstakir menn sem hafa gerst talsmenn sölu. Einn af þeim gengur nú í salinn og hefur stundum verið keikari og borubrattari en á þessum degi. Innan Sjálfstæðisflokksins hafa verið háværar raddir um að selja Ríkisútvarpið, sérstaklega hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Og af því að ég komst ekki til þess í ræðu minni áðan, þar sem ég hafði lokið við að gera grein fyrir afstöðu hugmyndamótors Sjálfstæðisflokksins, a.m.k. frjálshyggjudeildarinnar, þ.e. Sambandi ungra sjálfstæðismanna, sem ég hef stundum kallað skæruliðasamtök Valhallar, þá rifja ég það upp líka að árið 1995 rak Sjálfstæðisflokkurinn heila kosningabaráttu sem af þeirra hálfu snerist aðallega um að selja Rás 2. Mér er ekki kunnugt um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nokkru sinni kastað þeirri stefnu fyrir róða. Í því ljósi er ákaflega athyglisvert að í frumvarpi ríkisstjórnarinnar segir hreint út að eftir að stofnunin verði gerð að hlutafélagi beri henni ekki skylda til að reka nema eina útvarpsrás. Hvers vegna skyldi þetta tekið sérstaklega fram nema af þeirri ástæðu að frumvarpshöfundar gera ráð fyrir þeim möguleika að Rás 2 kunni að verða seld í framtíðinni. Ég vil hins vegar segja um Rás 2 að ég lít svo á að hún hafi verið vagga nýgildrar tónlistar í landinu. Hún hefur gegnt mjög mikilvægu hlutverki fóstru sem engin einkareknu stöðvanna hefur sinnt með viðlíka hætti. Sem ég stend hér, frú forseti, hef ég ekki tölu á þeim mörgu ungu tónlistarmönnum og -konum sem öldur ljósvakans, sem upphaflega hafa borist frá Rás 2, hafa fleytt um heiminn allan. Þetta fólk sem segja má að hafi staðið úr þeirri vöggu sem Rás 2 er nýgildri tónlist í landinu hefur sannarlega borið hróður okkar allra víðs vegar um heiminn.

Ég er þeirrar skoðunar að stofnanir sem hafa beinan aðgang að opinberu fé eigi ekki að lúta sömu lögmálum og opinber fyrirtæki sem afla sér tekna á markaði. Færa má rök að því að hlutafélagaformið henti ákaflega vel fyrirtækjum í ríkiseigu en noti ekki skattpeninga í rekstur. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það gegni alfarið öðru máli um stofnanir sem eru að uppistöðu eða alfarið reknar fyrir peninga skattborgarana. Ríkisútvarpið fellur undir þá skilgreiningu.

Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sem ég hef nokkuð vísað til, vegna þess að mér þykir hann hafa stefnufastar skoðanir í málinu, var einn af þeim sem mörkuðu hugmyndafræðilega undirstöðu undir einkavæðinguna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur beitt sér fyrir allar götur frá því 1991. Grunnurinn að því var lagður í frægri bók í hugmyndasögu Sjálfstæðisflokksins sem hét Uppreisn frjálshyggjunnar – báknið burt. Þar var einn höfunda Þorsteinn Pálsson og reyndar líka ýmsir fleiri sem gert hafa garð flokksins frægan eins og Baldur Guðlaugsson, Davíð Oddsson og Friðrik Sophusson svo fáir séu nefndir.

Þorsteinn Pálsson er hins vegar sjálfum sér samkvæmur og hleypur ekki frá stefnunni sem flokkurinn hefur markað, eins og þeir sem bera skjöld og sverð flokksins í dag virðast gera. Hann sagði fyrir skömmu að í ljósi þessa hugmyndagrunns sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði væri frumvarpið frávik frá almennum leikreglum. Hann taldi það líklegt til þess að setja, ég vitna til Þorsteins Pálssonar, með leyfi forseta: ,,Í uppnám framtíðarsátt um ríkisrekið útvarp.“

Dómur þessa fyrrverandi forsætisráðherra er sá að hlutafélagavæðing RÚV feli í sér það sem hann kallar öfugsnúna hugmyndafræði. Nú er það hlutverk þeirra sem ganga í spor þessa gamla foringja Sjálfstæðisflokksins, t.d. manna á borð við hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, að stuðla að framgangi máls sem gengur gegn þeim hugmyndagrunni sem leiðtogarnir unnu á og felur í sér, eins og þeir sem mörkuðu brautina að einkavæðingunni kalla það, öfugsnúna hugmyndafræði.

Ég heyri á hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að hann er hugsanlega móður og sár yfir því að mér varð á að líkja honum áðan við það sem mér þykir hvað góðlegast, hlýlegast og kátlegast af þeim lifandi verum sem ég hef komist í kynni við fyrir utan falleg börn. Ég vona að hann misvirði það ekki við mig en ef hann hefur tekið það illa upp hika ég ekki við það að taka á mig kufl auðmýktarinnar og biðja hv. þingmann afsökunar á því, hafi ég sært hann með þessum orðum. Það er ekki málefnalegt af mér að reyna að meiða hv. þingmann persónulega. Ég hef ekkert persónulega gegn honum þótt ég vildi það að guð hefði gefið honum töluvert meira af staðfestu og þreki til að standa gegn því sem hæstv. menntamálaráðherra otar að honum. Nóg um það.

Ég hef, eins og hv. þingmaður veit og þingheimur hefur margsinnis hlustað á mig segja, verið þeirrar skoðunar að það eigi að stefna að því að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun í atvinnurekstri. Það form er líka einkaréttarlegs eðlis, líkt og hlutafélög. Það gæfi stofnuninni aukið svigrúm og sjálfræði og það sem stuðningsmenn frumvarpsins hafa kallað aukna hreyfigetu á markaði. Það þýðir hins vegar ekki, þótt slíkt fyrirtæki væri einkaréttarlegs eðlis, að ráðist yrði gegn kjörum og réttindum starfsmanna. Það yrði til lykta leitt með samningum af okkar hálfu.

Páll Magnússon útvarpsstjóri sem vopnfimast hefur iðkað sverðaglamm fyrir hæstv. menntamálaráðherra í málinu hefur sjálfur sagt að það sem hann sjái hagfelldast í frumvarpinu sé að þá verði miklu auðveldara fyrir stofnunina að vinna miðstýrt út frá einum alvaldi innan stofnunarinnar. Ég nota ekki orðið alvaldur í háðslegri eða neikvæðri merkingu. Ég skil alveg þörfina á því að reka stofnun sem á í samkeppni með þeim hætti að hún sé lipur og geti brugðist fljótt við. Ég spyr hins vegar þá sem eru þessarar skoðunar: Hefur eitthvað vantað upp á það hjá útvarpsstjóra að hann geti hreyft sig snögglega á markaði? Mér hefur ekki sýnst það þegar hann hefur hvað eftir annað getað seilst yfir til keppinautanna og laðað til sín með segulmagni þess sem hann hefur að bjóða, hvort sem það eru góð laun eða spennandi starfsumhverfi, ákaflega hæft fólk frá keppinautunum. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta sé góð og ákaflega heppileg sáttaleið í málinu, a.m.k. milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Það er einfaldlega þekkt í almannaþjónustu að beita því rekstrarformi og stofnanir sem sitja að opinberu fé eða afmörkuðum tekjustofnum hafa gjarnan verið reknar á því formi.

Ég held að ég hafi rifjað það einhvern tímann upp, frú forseti, en get gert aftur í tilefni dagsins að sá sem ber ábyrgð á málinu í þinginu núna, hv. formaður menntamálanefndar, tók út töluvert af sínum sokkabandsárum og þroska innan stofnunar þar sem hann heyjaði sér menntunar sem var rekin á þessu formi, Verslunarskóla Íslands. Ég sé ekki að það hafi skaðað á þeim árum, hvorki hann né skólann. Þá er ég að tala um rekstrarformið en ekki hin gagnkvæmu kynni. Það var svo Framsóknarflokkurinn sem á sínum tíma gerði ákaflega einbeitta samþykkt gegn því að Ríkisútvarpið yrði gert að hlutafélagi. Ég get ekki skilist við þetta öðruvísi en að rifja upp að á flokksþinginu 1999 var samþykkt af hálfu Framsóknar, með leyfi forseta:

,,Allar rásir Ríkisútvarpsins verði áfram í ríkiseigu og því verði ekki breytt í hlutafélag.“

Sömuleiðis var samþykkt á flokksþinginu 2003, með leyfi forseta:

,,Breyta skal rekstrarformi Ríkisútvarpsins í sjálfseignarstofnun sem verði laus við viðskiptaleg, stjórnmálaleg eða önnur hagsmunatengsl.“

Þetta eru stefnumarkandi samþykktir. Þær eru burðarásar í viðhorfi þessarar stjórnmálahreyfingar til Ríkisútvarpsins. Framsóknarflokkurinn hefur oft í gegnum alla síðustu öld komið með markverðum hætti og mikilvægum að þróun og framvindu Ríkisútvarpsins. Hann hefur t.d. lagt því til ákaflega merka útvarpsstjóra. Þarna er sá flokkur algjörlega að hverfa frá þeirri stefnu sinni.

Frú forseti. Það sem við höfum rætt töluvert í dag, það sem hefur verið efst í umræðunni af hálfu fjölmiðla og þeirra sem hafa tekið til máls opinberlega um þetta mál, eru auðvitað samkeppnismálin. Fram hafa komið ákaflega veigamikil rök á síðustu vikum og mánuðum sem að því hníga að verið sé að steypa Ríkisútvarpinu í mikla óvissu að því er varðar samkeppnisumhverfið, ekki bara innan lands heldur miklu frekar innan Evrópu. Það er mjög athyglisvert að eftir alla þá miklu fundi í menntamálanefnd sem gumað er af undir forustu sjálfstæðismannsins Sigurðar Kára Kristjánssonar er skilað nefndaráliti sem er um 30 línur og tók hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson örfáar mínútur að fylgja úr hlaði og þar er ekki minnst á samkeppnismálin. (Gripið fram í.) Það liggur við að það hefði þurft að klípa hv. þingmann í óefnislegum skilningi með glóandi töngum til þess að fá hann til að ræða samkeppnismálin.

Ég hef uppi sterk varnaðarorð til ríkisstjórnarinnar vegna þess þáttar málsins. Ég tel að breytingin sem felst í því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi muni leiða til málaferla vegna árekstrar við Evrópureglur um samkeppnismál. Ég byggi þetta álit mitt á umsögn Samkeppniseftirlitsins sem var að mínu mati óvanalega harkaleg. Ég tel að það álit hafi ekki verið sent frá stofnuninni nema eftir mjög nána skoðun á samkeppnisreglum Evrópuréttarins. Þetta harkalega álit Samkeppniseftirlitsins kallar beinlínis, að mínu viti, eftir því að keppinautar Ríkisútvarpsins hefji slíkt mál. Þeim eru bókstaflega lögð vopnin upp í hendur.

Það er mjög athyglisvert að Eftirlitsstofnun EFTA hlýtur að hafa gert stríðar athugasemdir við þann þátt þótt það hafi í sjálfu sér ekki komið fram með nægilega skýrum hætti. Ég dreg þá ályktun af þeirri staðreynd að samkvæmt þeim upplýsingum sem hafa borist hafi menntamálaráðherra fullvissað Eftirlitsstofnunina um að Samkeppniseftirlitið muni fylgjast grannt með háttsemi Ríkisútvarpsins á markaði. Varla getur sú yfirlýsing og fullvissa hafa komið frá íslenskum stjórnvöldum nema þeim sem yfirlýsingunni er beint að hafi með einhverjum hætti verið gert það uppskátt og það látið koma fram að menn óttuðust þetta. Því undrast ég þá værukærð sem kemur fram í málum talsmanna Sjálfstæðisflokksins út af þeim þætti málsins. Ég tel fullvíst að rísi svona mál, sem ég held að hafi nánast verið lýst yfir af keppinautum að muni verða gert á grunni þeirra málefnalegu röksemda sem þeim eru færðar í því vopnabúri sem álit Samkeppniseftirlitsins er, sé í versta falli hugsanlegt að Ríkisútvarpið eða eigandi þess, íslenska ríkið, þurfi að greiða háar skaðabætur aftur í tímann til gildistökutíma laganna eða eftir atvikum þess fyrningarfrests sem á slíkum brotum kann að vera. Mér finnst þó miklu verra að ég tel að slíkt mál og líkleg niðurstaða leiði til þess að verulega miklar líkur séu á því að í framhaldinu verði þrengt að möguleikum fyrirtækisins til að afla sér tekna í gegnum auglýsingasölu. Það tel ég að gæti falið í sér rothögg fyrir fjárhagslegan grundvöll Ríkisútvarpsins. Sannarlega yrði það foss á myllu þeirra sem vilja selja fyrirtækið. Ef sú ríkisstjórn er þannig sinnuð, ef t.d. hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kynni að verða áhrifamaður innan hennar, kynni þetta að leiða til þess að við eigum engra annarra kosta völ en að moka milljörðum í fyrirtækið ellegar láta það á markað, allt eða hluta.

Þetta er að mínu mati mesta hættan sem felst í því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Fram kemur, eins og ég rakti í dag, þótt erfitt væri undir síbylju frammíkalla og gjamms í ónefndum hv. þingmönnum, að Samkeppniseftirlitið segir að lykillinn að velgengni Ríkisútvarpsins á auglýsingamörkuðum sé vinsælt dagskrárefni. Það liggur, frú forseti, í hlutarins eðli. Auðvitað er það slíkt efni sem gerir fyrirtækið að eftirsóknarverðum miðli fyrir auglýsingar. Samkeppniseftirlitið telur að Ríkisútvarpið geti að frumvarpinu samþykktu nýtt framlag ríkisins til þess að framleiða eða kaupa vinsælt dagskrárefni.

Eftir að hafa reifað þetta sem okkur kunna að þykja augljósar staðreyndir segir í álitinu, með leyfi forseta:

,,Af þessu leiðir óhjákvæmilega að umrædd samkeppnisstarfsemi RÚV á sviði auglýsinga verður niðurgreidd með þeirri ríkisaðstoð sem félagið mun njóta.“

Síðar segir í álitinu þar sem Samkeppniseftirlitið dregur saman niðurstöðuna af þessum þáttum, með leyfi forseta:

,,Að mati Samkeppniseftirlitsins raskar þetta fyrirkomulag samkeppni á viðkomandi auglýsingamörkuðum.“

Það er varla hægt að kveða fastar að orði. Keppinautarnir hljóta að hafa tekið þessum rökum, þessum staðreyndum fegins hendi vegna þess að í höndum þeirra verður þetta eins og hamar sem hægt er að reiða til höggs gegn stoðum þess fjárhagslega grundvallar sem Ríkisútvarpið hvílir á.

Það sem mér finnst vera ákaflega athyglisvert er að í framhaldinu bendir Samkeppniseftirlitið á tvær leiðir sem það segir að geti komið í veg fyrir það sem það skilgreinir sjálft sem samkeppnislega mismunun sem felst í þessari stöðu RÚV. Hvorug þessara leiða er farin í frumvarpi menntamálaráðherra. Það er því ekki hægt að sneiða hjá þeirri ályktun að Samkeppniseftirlitið telur augljóslega að það verði harkalegur árekstur á milli hins nýja hlutafélags um RÚV og gildandi samkeppnislaga. Engum ætti því að dyljast að ríkisstjórnin er með frumvarpi sínu að knýja fram ríkishlutafélag sem ég tel að við hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson o.fl. sem eru í þessum sal og hafa vit á samkeppnismálum vitum að brjóti gegn anda íslenskra og evrópskra samkeppnislaga.

Hv. formaður menntamálanefndar, hæstv. ráðherrar og þingmenn stjórnarliðsins hafa varist þeirri skoðun sem ég var að reifa og margir hafa gert á undan mér, innan og utan þings, með þrenns konar rökum. Í fyrsta lagi hefur hv. formaður menntamálanefndar klifað á því að lögin um Ríkisútvarpið verði sérlög sem gangi þess vegna framar samkeppnislögum. Athyglisvert er að stjórnarliðið vísar í þessu efni aftur og aftur til fordæmis úr búvörulögum þar sem er að finna sérstakt ákvæði sem undanþiggur greinar innan landbúnaðar frá ákvæðum samkeppnislaga.

Frú forseti. Á þessu er náttúrlega sá reginmunur að landbúnaðurinn er ekki orpinn undir Evrópska efnahagssvæðið. Þar af leiðandi gegnir allt öðru máli um hann en útvarpsrekstur sem aftur á móti er það. Þess vegna er ekki hægt að beita þessum lögum. Það vekur svo eftirtekt mína sem er ekki líkt því eins sjóaður í samkeppnisfræðum og t.d. hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, og hugsanlega formaður menntamálanefndar að ýmis lög sem sökum eðlis síns sem sérlaga undanþiggja tiltekna þætti í samfélaginu frá öðrum lögum. Það er allajafna gert með sérstöku jákvæðu ákvæði. Mér finnst það athyglisvert. Það er hugsanlegt að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson geti skýrt það auðveldlega fyrir mér. Hann hefur ekki gert tilraun til þess nema með frammíköllum, en mér finnst athyglisvert og undarlegt að í RÚV-frumvarpinu sé ekki að finna neitt slíkt ákvæði.

Ég rifja það upp að þetta komst líka til tals við fyrri umræður málsins. Þá fengust aldrei nein sérstök svör við þessu. Það er auðvelt fyrir hæstv. menntamálaráðherra og formann menntamálanefndar sem bæði eru lögfræðimenntuð að segja við mig sem er bara aumur líffræðingur og lífeðlisfræðingur og ekki einu sinni með pungapróf í lögfræði en hef hins vegar komið að því nokkrum sinnum síðustu 16 árin að setja lög að ég hafi bara ekkert vit á samkeppnislögum og þess vegna fari ég með tóma þvælu.

Frú forseti. Menn sem jafnvel hafa heyjað sér meiri menntunar á sviði lögvísinda en þessir tveir ágætu þingmenn Sjálfstæðisflokksins halda því fram að þetta sé nauðsynlegt. Ég vísa í því efni til hæstaréttarlögmannsins Ástráðs Haraldssonar sem hefur af því atvinnu og vonandi góðar tekjur að kenna lögvísindi við íslenska háskóla. Hann er þeirrar skoðunar. Ég spyr hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson: Hvers vegna var hann ekki kallaður fyrir nefndina og látinn svara fyrir þetta?

Frú forseti. Þetta var fyrsta röksemdin af þremur sem ég hef heyrt ríkisstjórnina og þingmenn stjórnarliðsins færa gegn því viðhorfi sem ég flutti um samkeppnismálin. Í öðru lagi hefur stjórnarliðið bent á að auglýsingasala almenningsútvarpa sé heimil samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.

Það er rétt að svo er en einungis svo fremi að hún hafi, svo ég vísi í orðsendingu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá 2001 sem er að finna m.a. í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

„svo fremi það hefur ekki áhrif á samkeppni á viðeigandi mörkuðum (t.d. auglýsingar, öflun og/eða sala á dagskrárefni) að því marki sem er ósamrýmanlegt hagsmunum bandalagsins.“

Frú forseti. Sú staðreynd að ríkisstjórnin kýs ekki að fara þær leiðir sem Samkeppniseftirlitið vísar á til að koma í veg fyrir það sem það kallar samkeppnislega mismunun bendir mér a.m.k. ekki til að lögin um Ríkisútvarpið standist forsendur EES. Ég er ekki einn um þá skoðun eða við í stjórnarandstöðunni. Lögvísindamenn eins og Ástráður Haraldsson halda þessu líka fram. Ef menn sem teljast til starfandi fræðimanna á sviði lögfræðinnar eru þeirrar skoðunar getum við ekki — bæði þeir sem eru á móti frumvarpinu og með því — a.m.k. fallist á að það ríki óvissa um þetta? Að sjálfsögðu. Er það hlutverk ríkisstjórnarinnar að setja fram lög, koma þeim í gegn með offorsi og valdbeitingum, sem setja eina af lykilstofnunum samfélagsins í uppnám? Nei, ég held að við hljótum að geta verið sammála um að svo er ekki.

Þriðja röksemdin sem ég hef heyrt ríkisstjórnina halda fram gegn þessu viðhorfi er að hún segir að Ríkisútvarpið hafi hvort sem er lengi haft tekjur af auglýsingasölu með svipuðum hætti og gert er ráð fyrir í frumvarpinu um RÚV og af þeim sökum sé ekkert við frumvarpið að athuga. Ég tel að það sé ekki heimilt út frá lögmálum rökfræðinnar að draga ályktun af þessu tagi og ég tel að hún sé kolröng. Eftir að Ísland gekkst fyrir röskum áratug undir reglur Evrópska efnahagssvæðisins hefur Ríkisútvarpið verið á gráu svæði í þessum efnum. Ég lít svo á að fyrir þann tíma hafi ekki verið hægt að halda því fram en með upptöku þeirra skuldbindinga sem við þá gengumst undir sé hægt að halda því fram a.m.k. að Ríkisútvarpið sé á gráu svæði. Eftir því sem sá réttur þróast og er framkvæmdur t.d. í gegnum dóma og úrskurði held ég að það sé alltaf að þokast lengra út á jaðar þessa gráa svæðis í öllu falli.

Almenningsútvörp hafa haft heimildir til þess að afla sér tekna með auglýsingum og það er ákaflega líklegt — þó að reynt hafi töluvert á þann rétt — að ef um væri að ræða ríkisstofnun að óbreyttu formi væru meiri líkur á því að það teldist hlíta reglunum. En við skulum ekki gleyma því að einmitt vegna þess að þetta er talið vera á gráu svæði, a.m.k. af mörgum í atvinnulífinu, þá er verið að láta á það reyna. Borist hefur kvörtun til Eftirlitsstofnunar EFTA vegna þessa og það virðist sem það sé beinlínis verið að bíða með að afgreiða hana þangað til þetta mál er frá. Í öllu falli finnst mér að í þessu tilviki og gagnvart þeirri röksemd skipti það hins vegar langmestu máli að þegar RÚV verður breytt úr hefðbundinni ríkisstofnun og gert að hlutafélagi, sem er einkaréttarlegs eðlis, verða kærur á hendur þess skoðaðar í allt öðru ljósi.

Ég er þeirrar skoðunar að fyrirtæki sem ætlar að notfæra sér ávinninga hlutafélagaformsins verði líka látið sæta þeim stífu reglum af eftirlitsstofnunum og dómstólum, þar á meðal samkeppnisreglum, sem önnur hlutafélög sem keppa við þá á markaði verða að gangast undir. Ég tel að þegar búið verður að formbreyta rekstri Ríkisútvarpsins, flytja það úr véböndum ríkisstofnunar á hinn haslaða völl hlutafélags sé það ekki lengur á gráu svæði og þá verði það að sæta sama samkeppnisumhverfi og önnur hlutafélög. Ég óttast þess vegna að sú formbreyting leiði til þessara drastísku afleiðinga að þegar boðuð kæra kemur fram á hendur hinu nýja hlutafélagi muni hún leiða til þeirrar niðurstöðu. Það getur haft tvennt í för með sér. Í fyrsta lagi að Ríkisútvarpið ohf. verði látið sæta miklum fésektum sem íslenska ríkið þarf þá að standa skil á og jafnframt að settar verði miklu þrengri skorður í kringum auglýsingatekjuöflun þess en gildir í dag.

Þetta held ég að geti gerst og ég óttast þess vegna að breytingin á rekstrarformi RÚV muni innan fárra ára leiða til þess að fjárhagslegur grundvöllur fyrirtækisins verði miklu veikari en í dag og að erfitt verði að reka það sem ríkisfyrirtæki. (KolH: Þetta auðveldar þeim söluna.) Ég er að segja það. Ég spyr þess vegna í framhaldi af frammíkalli hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, sem hugsar þetta alveg eins og ég, þ.e. rökleiðsluna, hvort hugsanlegt sé að þetta sé tilgangurinn með offorsi ríkisstjórnarinnar í málinu.

Er kannski allt annað undir niðri á hinni huldu dagskrá hjá þeim sem hafa verið að berjast fyrir einkavæðingu og sölu en við höfum fengið að vita? Í því efni vísa ég til þess sem hv. formaður menntamálanefndar sagði fyrir tveimur dögum. Hann upplýsti þá að hann væri klár á því og það væri skoðun hans að gagnvart íslenskum samkeppnisreglum væri Ríkisútvarpið á núverandi rekstrarformi ekki bara á gráu svæði heldur væri það andstætt anda þeirra reglna. Ég dró hins vegar þá ályktun af því að þar sem íslenskar samkeppnisreglur eru settar og samræmdar gagnvart hinum evrópsku sé það líka í andstöðu við þær. (Gripið fram í.) Þó að jafnvel hv. þingmaður gæti fært einhver rök fyrir því að sökum eðlis sérlaga væri Ríkisútvarpið eftir formbreytinguna undanþegið íslenskum samkeppnislögum og -reglum mun það aldrei ganga gagnvart evrópskum reglum. Þetta óttast ég.

Ég tel sem sagt, til þess að ég reyni að hnappa þessu saman sem ég er að segja um samkeppnismálin, að breytingarnar sem felast í því að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi muni leiða til málaferla vegna árekstrar við Evrópureglurnar sem gilda um samkeppnismál. Ég tel að hið harkalega álit Samkeppniseftirlitsins sem ég hef gert að töluverðum þætti í ræðum mínum í dag kalli beinlínis eftir því að væntanlegir keppinautar Ríkisútvarpsins ohf. hefji slíkt mál. Ég tel að ef ríkisstjórnin tapar því muni hún ekki aðeins þurfa að greiða háar fébætur heldur líka að gangast undir mjög þrengjandi reglur fyrir fyrirtækisins hönd varðandi tekjuöflun af auglýsingasölu í framtíðinni. Ég tel þess vegna að þetta gæti falið í sér rothögg fyrir fjárhagslegan grundvöll fyrirtækisins en ég vona að svo sé ekki.