133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[18:40]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið ohf. Í svo viðamiklu máli eru fjölmörg álitamál eins og rakið hefur verið bæði af þingmönnum stjórnarandstöðunnar og stjórnarliða. Þess vegna er rík ástæða fyrir þingheim að taka góðan tíma í umræðuna. Búið er að segja ýmislegt um málið og búið að fara ítarlega yfir helstu annmarka þess. Ég ætla ekki að endurtaka málflutning félaga minna en mig langar samt að koma inn á nokkur atriði.

Í upphafi máls míns langar mig að taka það sérstaklega fram að ég hef sagt að ég er ekki á móti hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins í sjálfu sér ef ákveðin skilyrði eru uppfyllt. En þau skilyrði eru ekki uppfyllt að mínu mati og ég mun fara yfir þau á eftir. Ég vil einnig halda því til haga að Samfylkingin hefur aldrei verið á móti út í gegn hlutafélagaforminu í ríkisrekstrinum, eins og formaður flokksins benti á í ræðu sinni í desember sl. um sama mál. Hins vegar hefur verið á það bent, m.a. af Arnari Þór Mássyni, sérfræðingi í fjármálaráðuneytinu, að ýmiss konar sérstaða verði fyrir hendi sé ríkisrekstur hlutafélagavæddur. Þá sérstöðu er komið inn á í nefndaráliti minni hluta menntamálanefndar og er ekki ástæða til að endurtaka þann málflutning. Eins og formaður Samfylkingarinnar hefur einnig bent á í umræðunni getur hlutafélagaformið verið hentugt fyrir ríkisrekstur, t.d. ef ætlunin er að selja viðkomandi fyrirtæki eða ef hugsunin er að fá fleiri aðila í reksturinn eða ef hugmyndin er að sækjast eftir fjármagni á markaðnum.

Eins og ég skil málið og málflutning hv. þingmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þetta ekki við Ríkisútvarpið. Ég sé því ákveðna kosti við hlutafélagaformið, en mér er hins vegar ekki sama hvernig sú hlutafélagavæðing á sér stað hvað varðar ríkisfjölmiðil. Auðvitað er hægt að styðja sitthvað í frumvarpinu, t.d. er í því ákvæði um að leggja skuli rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Talað er um að áherslu beri að leggja á eflingu innlendrar dagskrárgerðar o.s.frv. Hins vegar, og ég ítreka það, er fjölmargt sem ég get ekki sætt mig við í frumvarpinu. Mig langar aðeins að fara yfir þau atriði og draga þau helstu fram.

Í fyrsta lagi tel ég afskaplega mikilvægt að sjálfstæði fjölmiðilsins sé að öllu leyti tryggt. En fram hafa komið í umræðunni og í samfélaginu efasemdir um að svo sé í frumvarpinu. Bent hefur verið á að meirihlutavald ríkisstjórnarinnar muni ná í stjórn Ríkisútvarpsins, en það er auðvitað grundvallaratriði að mínu mati að ríkisfjölmiðillinn sé sjálfstæður að öllu leyti og hafinn yfir hvers konar vafa eða tortryggni. Ákveðin öfl hér á landi hafa talið einhvern akk í því að efast um trúverðugleika ríkisfjölmiðilsins. Það vill svo til að flestar þeirra radda koma úr einni átt, úr Sjálfstæðisflokknum. En á meðan hefur þjóðin svo sannarlega kveðið upp dóm sinn, að fréttastofa Ríkisútvarpsins er sú fréttastofa sem þjóðin treystir hvað best.

Í öðru lagi eru einnig efasemdir um það hvort frumvarpið standist kröfur samkeppnisréttar. Það er grafalvarlegt að mínu mati. Mig langar að eyða tíma mínum fyrst og fremst til að ræða þau mál. Því eigi að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið og það enn þá látið vera virkt á samkeppnismarkaði tel ég að samkeppnislög muni gilda um fjölmiðilinn eins og samkeppnislög gera varðandi aðra fjölmiðla. Hér þarf sérstaklega að líta á þátttöku Ríkisútvarpsins ohf. á auglýsingamarkaði og síðan að sjálfsögðu á nefskattinn sem í skilningi samkeppnislaga telst auðvitað ríkisaðstoð. Reglur um ríkisaðstoð og samkeppnisreglur ESB eru sameiginlegar á innri markaðnum og við erum því bundin þeim reglum sem Evrópusambandið setur hvað þetta varðar.

Ég þarf ekki að minna hv. þingmenn á það að EES-samningurinn er lögfestur samningur hér á landi og sömuleiðis ber að skýra íslensk lög í samræmi við EES-samninginn samkvæmt bókun 35 í þeim samningi. Þetta ber að sjálfsögðu að hafa í huga þegar um er að ræða hvort frumvarpið standist kröfur samkeppnisréttarins. Ég heyrði í gær málflutning hv. stjórnarþingmanns, Dagnýjar Jónsdóttur, þar sem hún benti á fordæmið varðandi BBC, breska ríkisútvarpið. Eins og ég skildi orð hennar, þá dró hún upp að þetta væri sambærileg staða og Ríkisútvarpið ohf. yrði í hvað varðar samkeppnsiréttinn. En ég hjó eftir því að hún gat þess ekki að BBC er að sjálfsögðu ekki á auglýsingamarkaði en RÚV ohf. mun verða það.

Samkeppniseftirlitið gaf umsögn við meðferð málsins. Mig langar að vitna í hana sem ég tel vera grundvallaratriði þegar kemur að umræðu um frumvarpið. Þetta er afskaplega skýrt að mínu mati. Með leyfi forseta þá stendur í umsögn Samkeppniseftirlitsins:

,,Samkeppniseftirlitið telur ljóst að RÚV muni geta nýtt umrædda ríkisaðstoð til framleiðslu eða kaupa á m.a. vinsælu dagskrárefni. Það skapar eða eykur áhorf og hlustun hjá RÚV og styrkir þar með stöðu félagsins á markaði fyrir auglýsingar. Af þessu leiðir óhjákvæmilega að umrædd samkeppnisstarfsemi RÚV á sviði auglýsinga verður niðurgreidd með þeirri ríkisaðstoð sem félagið mun njóta. Einkareknar útvarpsstöðvar hafa hins vegar einungis auglýsingatekjur og/eða áskriftartekjur til þess að afla sér dagskrárefnis. Að mati Samkeppniseftirlitsins raskar þetta fyrirkomulag samkeppni á viðkomandi auglýsingamörkuðum.“

Litlu neðar í umsögninni stendur einnig, með leyfi forseta:

,,Til að koma í veg fyrir þá samkeppnislegu mismunun sem af því leiðir að RÚV starfi á markaði fyrir birtingu auglýsinga og markaði fyrir kostun í frjálsri samkeppni við aðra aðila jafnframt því að hafa tekjur af skattfé til að inna af hendi skilgreinda útvarpsþjónustu í almannaþágu kemur tvennt til greina að mati Samkeppniseftirlitsins:

RÚV hverfi af auglýsingamarkaði og starfsemi þess verði alfarið kostuð af opinberum fjárframlögum. Er sú leið algeng meðal Evrópuríkja eins og fram kemur í skýringum með frumvarpinu.

Ef RÚV starfar á auglýsingamarkaði fari sú starfsemi fram á vegum sérstakrar hljóð- og sjónvarpsstöðvar eða -rása sem alfarið verði fjármagnaðar af auglýsingatekjum og kostun þannig að tryggt sé að þessi samkeppnisstarfsemi RÚV verði ekki niðurgreidd með skattfé.“

Nú blasir við okkur og þingheimi að hvorug þessara leiða er farin. Hvorug þessara leiða sem samkeppnisyfirvöld benda á að við ættum að fara til að hægt væri að koma í veg fyrir hina svokölluðu samkeppnislegu mismunun. Þar sem stjórnarmeirihlutinn vill ekki fara þessar leiðir blasir við að frumvarpið fer í bága við samkeppnislög. Bannað er að niðurgreiða þjónustu á samkeppnisgrunni með fjármagni sem fengið er af öðrum grunni svo sem ríkisaðstoð eða ríkisfé.

Við höfum fjölmörg fordæmi og mörg þeirra tengjast Landssímanum sem ég veit að margir þingmenn muna eftir á árum áður. Við sjáum einnig að skilgreiningin á útvarpsþjónustu í almannaþágu í 3. gr. frumvarpsins er talsvert víðtæk, en í 3. tölulið 3. gr. frumvarpsins kemur fram að það sé útvarpsþjónusta í almannaþágu að framleiða og dreifa hvers konar útvarpsefni fyrir sjónvarp og hljóðvarp á sviði fréttamiðlunar, fræðslu, lista og afþreyingar. Í þessum tölulið þessarar greinar frumvarpsins er afskaplega víðtækt hlutverk og það getur verið hætta á að frumvarpið fari í bága við samkeppnislög í ljósi þeirrar stöðu sem gæti komið upp ef hluti af skattfé væri notað til að greiða niður rekstur á hefðbundnum samkeppnisgrunni.

Talsvert hefur verið rætt um hvort samkeppnislögin muni taka til Ríkisútvarpsins. Mig langar aðeins að fara yfir það. En í 1. gr. samkeppnislaga segir, með leyfi forseta:

,,Lög þessi hafa það markmið að efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því að:

a. vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri,

b. vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,

c. auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaðnum.

Áfram segir í 2. gr. samkeppnislaga, með leyfi forseta:

,,Lögin taka til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.

Ef við kíkjum aðeins neðar í lögin á 8. gr., þá segir að hlutverk Samkeppniseftirlitsins sé m.a. í c. lið:

,,Að gæta þess að aðgerðir opinberra aðila takmarki ekki samkeppni og benda stjórnvöldum á leiðir til þess að gera samkeppni virkari og auðvelda aðgang nýrra keppinauta að markaði.“

Samkeppniseftirlitið er búið að því í umsögn sinni. Þeir bentu á tvenns konar leiðir sem ríkisstjórnarmeirihlutinn á þingi vill hvoruga fara.

14. gr. í samkeppnislögunum er talsvert merkileg grein í þessu sambandi því þar stendur, með leyfi forseta:

,,Þegar um er að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar er Samkeppniseftirlitinu heimilt að mæla fyrir um fjárhagslegan aðskilnað, annars vegar á milli þess hluta rekstrar fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta rekstrar sem er í frjálsri samkeppni við aðra aðila. Skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af starfsemi sem nýtur einkaleyfis eða verndar.“

Þetta langar mig til að skoða aðeins nánar enda er það grundvallaratriði að samkvæmt frumvarpinu á að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Það á að hafa það enn þá virkt á auglýsingamarkaði og það á að geta þegið nefskatt sem er auðvitað ríkisaðstoð í skilningi laga og enginn sem deilir um það.

Ef við förum aðeins nánar yfir 14. gr. samkeppnislaga sem ég held að sé grundvallargrein hvað þetta varðar, þá hefur þetta ákvæði að geyma heimild fyrir samkeppnisyfirvöld til að mæla fyrir um að það skuli aðgreina fjárhagslegan rekstur þeirrar starfsemi sem er í samkeppni og síðan rekstur annarrar starfsemi hjá opinberu fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar í skjóli einkaleyfis og verndar. Það er fróðlegt að rifja það upp fyrir þingheimi að þetta ákvæði kom í samkeppnislögin á síðari stigum meðferðar Alþingis. Umfjöllun um það náði því ekki í greinargerð frumvarpsins. Eina lögskýringargagnið hvað þetta varðar á þessu grundvallarákvæði er því nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar á þeim tíma. Þar segir einfaldlega að tilgangur ákvæðisins sé að koma í veg fyrir að samkeppnisrekstur sé niðurgreiddur af einkaleyfis- eða verndaðri starfsemi. Varðandi það hvernig samkeppnisrekstur hefur verið túlkaður er hægt að benda á fjölmargar ákvarðanir samkeppnisyfirvalda að hugtakið samkeppnisrekstur beri að vera skýrt mjög rúmt. Skilyrðin fyrir beitingu 14. gr. samkeppnislaga eru í fyrsta lagi að um sé að ræða opinbert fyrirtæki eða fyrirtæki sem starfar að einhverju leyti í skjóli opinbers einkaleyfis eða verndar.

Hér gæti verið um að ræða opinbert fyrirtæki eða jafnvel fyrirtæki sem starfar í skjóli einkaleyfis. Það er yfirleitt ljóst ef fyrirtæki starfar í skjóli einkaleyfis. Við höfum dæmi um Póst og Síma sem hafði einkarétt á því að veita almenna talsímaþjónustu á Íslandi til skamms tíma. Ég get bent á ákvörðun samkeppnisráðs nr. 30/1994, um kvörtun Radíómiðunar vegna sölu notendabúnaðar. Sömuleiðis á aðra ákvörðun samkeppnisráðs nr. 8/1995 en það laut að einkaleyfi á sviði póstþjónustu.

Í öðru lagi getur undir þessu skilyrði verið um að ræða fyrirtæki sem nýtur opinberrar verndar. Hér er að sjálfsögðu fleira sem getur fallið undir. Hægt er að benda á ákvörðun samkeppnisráðs nr. 26/1996, erindi Sólar hf. um starfsemi Mjólkursamsölu KEA þar sem opinber vernd var talin felast í niðurgreiddu hráefni, verðtilfærslu og verðmiðlun samkvæmt búvörulögum. Einnig höfum við fróðlega niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins sem lýtur að því þegar einkaréttur Landssímans var felldur niður. Þar má minnast á svokallað breiðbandsmál. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að 14. gr. samkeppnislega ætti ekki lengur við Landssímann þar sem einkaleyfi var ekki lengur fyrir hendi.

Annað meginskilyrði fyrir 14. gr. sem á kannski meira við í umræðunni lýtur að því að sú grein getur átt við þegar hluti rekstrar er í frjálsri samkeppni. Hér getur Ríkisútvarpið ohf. verið undir. Fyrirtækið þarf sem sagt jafnframt að starfa í frjálsri samkeppni til að 14. gr. eigi við. Hér höfum við hið klassíska KEA-mál, nr. 26/1996, og kirkjugarðsmálið, nr. 32/1996, sem ég veit að þeir sem eru löglærðir kannast við. Hér höfum við einnig eitt mál sem lýtur að Ríkisútvarpinu. Ákvörðun samkeppnisráðs, nr. 21/1995, og úrskurður áfrýjunarnefndar, nr. 18/1995, sem laut að innanhússframleiðslu hjá Ríkisútvarpinu. Ég kem aðeins nánar að þeirri afgreiðslu samkeppnisyfirvalda á eftir.

En hver er tilgangurinn með 14. gr. sem gæti reynt á ef frumvarpið verður að lögum? Eins og áður hefur verið rakið er tilgangur hins fjárhagslega aðskilnaðar að koma í veg fyrir að samkeppnisrekstur sé niðurgreiddur af starfsemi sem er rekin í skjóli einkaleyfis eða nýtur verndar með öðrum hætti. Þetta ákvæði er heimildarákvæði sem samkeppnisyfirvöld geta beitt til að girða fyrir slíkar niðurgreiðslur.

Nú langar mig að koma að mjög mikilvægum þætti sem ég veit ekki hvort hefur komið fram í umræðunni áður, að það er ekki skilyrði að sýnt hafi verið fram á að viðkomandi færi í reynd fjármuni á milli verndaðra hluta rekstrarins og samkeppnisrekstrarins heldur er nægjanlegt að hætta sé á slíkri niðurgreiðslu. Þetta er mikilvægur punktur að mínu mati því það þarf einungis að vera hætta á slíkum tilflutningi en það þarf ekki að gerast í raun og veru. Það þarf ekki að vera tilfærsla á fjármunum eða tekjum sem fást í stofnun eða hlutafélag vegna verndar eða nefskatts og þær færðar yfir í samkeppnisreksturinn. Það þarf ekki að vera eiginleg tilfærsla heldur er einungis átt við að sá möguleiki sé fyrir hendi. Ég mun fara yfir fordæmi hvað það varðar á eftir.

Mig langar að minnast á nokkrar niðurstöður samkeppnisyfirvalda, t.d. ákvörðun samkeppnisráðs, nr. 8/1995, og úrskurð áfrýjunarnefndar samkeppnismála um sama mál, nr. 12/1995. Málið lýtur að Póst- og símamálastofnun gegn samkeppnisráði. Það laut að erindi póstdreifingar. Í því máli var ekki á því byggt að um niðurgreiðslu þyrfti að ræða í reynd til þess að 14. gr. væri beitt.

Við höfum einnig merkilegt mál sem lýtur að þessu, svokallað KEA-mál, ákvörðun nr. 26/1996. Þar var því beinlínis haldið fram í málflutningi fyrir áfrýjunarnefndinni að ekki væri um niðurgreiðslur að ræða í reynd og því væri ekki heimilt að beita 14. gr. En áfrýjunarnefnd samkeppnismála tók ekki undir þau rök KEA og staðfesti ákvörðun ráðsins með úrskurði nr. 13/1996. Rök samkeppnisráðs voru því samþykkt, að 14. gr. samkeppnislaga væri heimildarákvæði sem ráðið mætti beita til að koma í veg fyrir að samkeppnisrekstur væri niðurgreiddur af starfsemi sem rekin er í skjóli einkaleyfis eða njóti verndar með öðrum hætti. Það er því ekki skilyrði að sýnt hafi verið fram á að viðkomandi fyrirtæki hafi í reynd fært fjármuni á milli verndaðs hlutar og samkeppnisrekstrar. Það þarf ekki að hafa gerst, einungis þarf sá möguleiki að vera fyrir hendi. Þess vegna er það ábyrgðarhluti þingsins að girða fyrir að hér sé ekki hætta á þessari ólöglegu tilfærslu.

Fjárhagslegur aðskilnaður er að sjálfsögðu sömuleiðis mikilvægur fyrir gegnsæi bókhaldsins til að unnt sé að sjá hvort um millifærslur sé að ræða. Ég get í framhjáhlaupi bent áhugasömum á ákvörðun ráðsins nr. 14/1995.

Við höfum dæmi frá Danmörku, svokallað TV2-mál. Sú sjónvarpsstöð var sektuð af Evrópusambandinu þar sem hluti af ríkisframlaginu var nýttur í samkeppnisreksturinn. Þetta voru háar sektir sem hugsanlega gæti verið hætta á ef við förum þá leið sem ríkisstjórnin vill fara í málinu. Ég minni enn og aftur á að það þarf einungis að vera hætta á tilfærslu. Hún þarf ekki að hafa átt sér stað.

Nú skulum við líta aðeins á þá reglu, eins og hún hefur verið kölluð, um að sérlög gangi framar almennum lögum. En stjórnarmeirihlutinn hefur skýlt sér á bak við hana þegar kemur að frumvarpinu. Til að átta sig á þessu þarf fyrst að líta á svokallaða Djúpuvíkurreglu sem byggist á ákvörðun samkeppnisráðs nr. 31/1995 og úrskurð áfrýjunarnefndar nr. 24/1995. Reglan birtist í 17. gr. samkeppnislaga þar sem samkeppnislögin eru látin taka til athafna opinberra aðila að því marki sem þau kunna að hafa skaðleg áhrif á samkeppni og að því tilskildu að sérreglur hafi ekki að geyma sérstakar reglur um heimild eða skyldur til slíkra athafna.

Hér hefur verið bent á fordæmi hvað varðar búvörulögin. Það er rétt sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur bent á að í búvörulögunum er beinlínis sérstakt ákvæði um að viðkomandi háttsemi beri að vera undanþegin samkeppnislögum. Nú höfum við fjölmarga úrskurði og ákvörðun samkeppnisyfirvalda um þessa spurningu um hvort tiltekin háttsemi sem snertir búvörur heyri undir samkeppnislög.

Þessu til upplýsingar langar mig að fara yfir þrjú mál. Ef við lítum bara á nýjasta málið sem ég hef hér í mínum fórum, þá er það nýlegur úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála, nr. 8/2006, í máli Osta- og smjörsölunnar sf gegn Samkeppniseftirlitinu. Þetta mál kom hér til tals vegna annarrar umræðu hér fyrir jól.

Í þessum úrskurði kemur fram það sem ég held að gæti verið upplýsandi fyrir hv. formann menntamálanefndar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Þegar sérákvæðum af þessu tagi sleppir, svo sem varðandi verðákvörðun, falla viðskipti með búvörur undir svið samkeppnislaga, eins og skýrlega er sýnt fram á í hinni kærðu ákvörðun, og kemur þá til kasta samkeppnisyfirvalda, sem hafa þá lögsögu bæði um eftirlit og ákvarðanir á grundvelli samkeppnislaga.“

Í þessu máli var röksemdum Osta- og smjörsölunnar beinlínis hafnað af samkeppnisyfirvöldum þar sem samkeppnislög ættu ekki að gilda um viðskipti með vörur sem verðlagðar væru á grundvelli búvörulaga að því er varðar önnur atriði en verðlagninguna sjálfa.

Til að skýra þetta enn frekar langar mig að minnast á einn klassískan úrskurð samkeppnisyfirvalda sem lýtur að samráði eggjaframleiðenda. Þetta mál er nr. 4 frá árinu 1996. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Hvorki búvörulögin sjálf né aðrar réttarheimildir sem settar eru með stoð í þeim hafa að geyma sérreglur sem fjalla beint eða óbeint um heimild til að skipta eggjamarkaðnum eða heimild til þess að takmarka aðgang nýrra framleiðenda. Ber því að beita almennum ákvæðum samkeppnislaga um þessi atriði enda hafa ekki verið færð rök fyrir því að beiting samkeppnislaga í því tilviki sem hér um ræðir sé andstæð markmiðum búvörulaganna um ákvörðun verðs til framleiðenda og heildsöluverðs.“

Þá töldu samkeppnisyfirvöld sem sagt að ákvæði búvörulaga heimiluðu ekki sérstaklega félaginu að skipta á milli sín mörkuðum og sú ályktun var þá dregin að samkeppnislög giltu þá um þá háttsemi. Það hefði þurft pósitíft ákvæði í búvörulögin hvað þetta varðar til að koma í veg fyrir að samkeppislög giltu um þetta atriði. Slíkt var ekki í lögunum sem laut að skiptingu eggjamarkaðarins eins og eggjaframleiðendur höfðu gert.

Annað mál sem undirstrikar þetta er einmitt þessi ákvörðun samkeppnisráðs um Ríkisútvarpið, en þetta er ákvörðun samkeppnisráðs nr. 21/1995. Þar segir, með leyfi forseta:

„Samkeppnislögin eru almenn lög á því víða sviði sem þau taka til. Þau taka samkvæmt 1. mgr. 2. gr. til hvers konar atvinnustarfsemi, svo sem framleiðslu, verslunar og þjónustu, án tillits til þess hvort hún er rekin af einstaklingum, félögum, opinberum aðilum eða öðrum.“

Svo kemur setningin sem ég held að sé lykilatriði, með leyfi forseta:

„Verður því að telja að útvarps- og sjónvarpsrekstur falli undir lögin, enda er hann ekki sérstaklega undan þeim skilinn.“

Af þessum þremur niðurstöðum og ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins og -yfirvalda á hverjum tíma er hægt að álykta að sé það ekki beinlínis tekið fram að tiltekin háttsemi sé undanþegin samkeppnislögum þá gilda samkeppnislögin. Þetta kemur skýrt fram í þessum úrskurðum og ákvörðunum samkeppnisyfirvalda. Í þessu frumvarpi sem hér um ræðir, um Ríkisútvarpið, er ekkert slíkt ákvæði. Samkeppnislögin munu því gilda um Ríkisútvarpið að mínu mati og ég held að þau fordæmi sem ég hef farið hér yfir styðji það.

Mig langar einnig að benda á þessu til stuðnings að fjölmörg mál sem snerta ríkisfjölmiðla annarra Evrópuríkja hafa komið til kasta evrópskra samkeppnisyfirvalda. Þetta hafa allt verið ríkisfjölmiðlar sem hafa starfað eftir sérstökum lögum í sínum löndum en engu að síður hefur ESB gert athugasemdir á grunni samkeppnisreglna sambandsins. Að mínu mati heldur það því ekki vatni að segja að þar sem við munum hafa sérstök lög um Ríkisútvarpið ohf. megi álykta sem svo að samkeppnislög gildi einfaldlega ekki um þá starfsemi. Það þarf svo sem ekki að leita lengra en í umsögn Samkeppniseftirlitsins í þessu máli. Samkeppniseftirlitið gerir ráð fyrir að þetta frumvarp þurfi að lúta samkeppnislögum enda bendir Samkeppniseftirlitið sjálft á þær leiðir sem ætti að fara til að hægt verði að koma í veg fyrir samkeppnislega mismunun Það eru því mjög sterk rök að mínu mati fyrir því að samkeppnislög muni gilda um Ríkisútvarpið ohf. nema það sé sérstaklega undanþegið og það er ekki gert í þessu frumvarpi. Af því að það eru réttmætar efasemdir um að þetta frumvarp geti uppfyllt samkeppnislög og þar af leiðandi verið grundvöllur málaferla er það mjög bagaleg staða og getur verið mjög kostnaðarsöm fyrir alla aðila. Hv. formaður hv. menntamálanefndar segist þó vera sannfærður í þessum ræðustól að hann telji að samkeppnislög eigi ekki að gilda um Ríkisútvarpið. Nú langar mig bara að setja það í samhengi að hugsanlega er þessi afstaða ekki skrýtin hjá hv. þingmanni í ljósi þess hvað honum finnst um samkeppnislög almennt. Við skulum rifja það aðeins upp. (Gripið fram í.)

Árið 2001 er hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson spurður í tímaritinu Lagakrókum hvort samkeppnislög eigi rétt á sér. Hv. þingmaður segir, með leyfi forseta:

„Nei. Ef aðili á markaði níðist á neytendum eða öðrum aðilum á markaði eiga markaðslögmál að fá að leiðrétta slíkt en ekki eftirlitsstofnun á vegum hins opinbera.“

Þetta sagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, núverandi formaður menntamálanefndar fyrir nokkrum árum.

Önnur spurning í sama tímariti er svona, með leyfi forseta:

„Hver eiga viðurlög við brotum á samkeppnislögum að vera?“

Svar hv. þingmanns er, með leyfi forseta:

„Þar sem ég er mótfallinn samkeppnislögum tel ég að viðurlögin eigi engin að vera. Viðurlög markaðarins eru nægilega hörð. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að samkeppnisyfirvöld hafi farið langt fram úr sér í nýlegum lögum þar sem lagðar hafa verið allt of þungar sektir á aðila á markaði sem sakaðir eru um brot á samkeppnislögum.“

Þetta sagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sömuleiðis fyrir nokkrum árum. (Gripið fram í.)

Hér höfum við formann menntamálnefndar sem er bara mótfallinn samkeppnislögunum í eðli sínu, punktur. Þá er kannski ekkert skrýtið að honum finnist ekki að samkeppnislögin eigi að gilda um Ríkisútvarpið og haldreipi hans sem lýtur að því að sérlögin fyrirbyggi að samkeppnislögin gildi um Ríkisútvarpið ohf. halda ekki vatni í ljósi þeirra fordæma sem við höfum fyrir framan okkur.

Á móti er það ríkt í hugmyndafræði jafnaðarmanna að hafa sterk samkeppnislög sem byggjast á almennum leikreglum. Hæstiréttur Bandaríkjanna kallaði samkeppnislög stjórnarskrá atvinnulífsins. Ég held að hann hafi kallað þetta Magna Carta atvinnulífsins. Það er svona til að undirstrika skilning þess dómstóls þar í landi hvaða sess samkeppnislög og -reglur eiga að hafa.

En einnig önnur atriði en skortur á sjálfstæði fjölmiðilsins og efasemdir um að þetta frumvarp standist samkeppnislög koma í veg fyrir að ég geti stutt þetta mál í heild sinni. Það er búið að fara hér ítarlega yfir meðferð svokallaðra EES-gagna og hér hafa fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd bent á að þeir hafi ekki fengið nægilegan tíma til að fara yfir þau þungavigtargögn. Til fróðleiks má enn og aftur rifja upp ritstjórnargrein í Fréttablaðinu á sunnudaginn var.

Þar segir ritstjóri blaðsins, með leyfi forseta:

„Athygli hefur vakið að stjórnvöld hafa haldið leyndum fyrir Alþingi mjög mikilvægum skjölum um samskipti við Eftirlitsstofnun EFTA vegna samkeppnismálanna. Augljóst má vera að þeir sem bera stjórnskipulega ábyrgð á samkeppnismálum hafa talið að birting þeirra myndi veikja röksemdafærsluna.

Nú liggur fyrir að afgreiða á málið án tillits til þeirra efasemda sem þessi skjöl geyma. Fyrir liggur að innan skamms tíma mun Eftirlitsstofnun EFTA úrskurða í kærumáli sem hún hefur til meðferðar. Það getur haft veruleg áhrif á stöðu Ríkisútvarpsins. Rétt málsmeðferð hefði því verið að móta nýja löggjöf um Ríkisútvarpið þegar Evrópuskuldbindingarnar hafa verið skýrðar að þessu leyti af réttum aðilum.“

Ég held að það sé rík ástæða að minna stjórnarliða sem oftast á þessa tilvitnun ritstjóra Fréttablaðsins frá sunnudeginum var.

Mig langar að skauta yfir önnur atriði því aðrir þingmenn hafa gert betur grein fyrir því sem kemur í veg fyrir að ég geti stutt þetta frumvarp. Ég til dæmis get ekki sætt mig við þátttöku ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaðnum. Ég er einn af þeim sem telja að ríkið eigi ekki að taka þátt á þeim samkeppnismarkaði. Það eru alveg sérstakar röksemdir fyrir tilvist ríkisfjölmiðils en þær röksemdir eru ekki fyrir hendi þegar kemur að tilvist ríkisfjölmiðilsins á auglýsingamarkaðnum. Ég tel að núverandi staða og sú staða sem uppi verður eftir að þetta frumvarp verður að lögum þrengi um of að einkaframtakinu í fjölmiðlun og flóran verði því ekki eins fjölbreytileg og hún hugsast gæti. Við sjáum að ítök ríkisfjölmiðils á auglýsingamarkaði þrengja ekki bara að núverandi aðilum á markaði heldur koma í veg fyrir að nýir aðilar geti komist inn á markaðinn. Ég er því einn af þeim sem telja að ríkisfjölmiðill eigi ekki að vera á auglýsingamarkaðnum og að við ættum að fjármagna ríkisfjölmiðilinn öðruvísi eins og aðrar þjóðir hafa nú gert.

Annað atriði sem ég á erfitt með að samþykkja er nefskatturinn. Ég tel það hvorki skynsamlega né sanngjarna leið. Þó tel ég óþarfa að lengja umræðuna með því að fara yfir þær röksemdir. Þá hefur verið talað hér í umræðunni um að réttindamál starfsmanna séu í uppnámi og síðan hefur meirihlutavald ríkisstjórnarinnar í hinni nýju stjórn útvarpsráðsins verið gagnrýnt allmikið.

Að lokum langar mig að minnast á einn punkt. Það liggur fyrir og er augljóst fyrir alla sem hafa fylgst með þessari umræðu að verði þetta frumvarp að lögum þá næst ekki sú sátt sem þarf að ríkja um ríkisfjölmiðilinn. Það er jafnvel búið að boða málaferli. Það er búið að tefla fram þeim rökum að hugsanlega standist þetta ekki kröfur samkeppnisréttarins o.s.frv. Það er grundvallaratriði að tiltölulega góð og mikil sátt sé um ríkisfjölmiðilinn. Þess vegna er það afskaplega sanngjörn krafa stjórnarandstöðunnar að stjórnarandstaðan og stjórnarliðar taki nú höndum saman og geri þær breytingar sem flestir eru sammála um að ná í gegn til þess aðeins að straumlínulaga ríkisfjölmiðilinn og gera hann enn hæfari til að efla innlenda dagskrárgerð. En stjórnarliðarnir hafa valið ófriðinn og vilja berja þetta mál í gegn þrátt fyrir að gildistaka frumvarpsins verði komin afskaplega nálægt kosningunum 12. maí. Því vekur það auðvitað þá spurningu af hverju ríkisstjórnarmeirihlutinn leggur svona mikla áherslu á hraðann í þessu máli.

Að þessu sögðu bendi ég enn og aftur á að fjölmargar röksemdir eru fyrir því að ekki er hægt að styðja þetta mál. Ég ítreka það sem ég sagði um hættuna á tilfærslu á milli tekna sem fást vegna verndaða hlutans og til samkeppnisrekstrarins. Sú hætta þarf einungis að vera fyrir hendi. Millifærsla fjármuna þarf ekki að hafa átt sér stað.

Síðan langar mig einnig að rifja það upp að við höfum hér fordæmi um að það þarf að vera pósitíft ákvæði ef það á að undanskilja tiltekna háttsemi frá samkeppnislögum og það er ekki gert í þessu frumvarpi.