133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[19:12]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að byrja á að leiðrétta hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson sem hélt því fram að ég hefði sagt og það væri mín skoðun að samkeppnislögin giltu ekki um Ríkisútvarpið. Því var hér haldið blákalt fram. Þetta er auðvitað ekkert rétt. Ef hv. þingmaður les þau nefndarálit og framhaldsnefndarálit sem liggja fyrir í málinu frá því að það var lagt fram fyrir þremur árum og til dagsins í dag þá kemur í ljós að svo er ekki. Það er beinlínis rangt að ég hafi haldið því fram að samkeppnislögin gildi ekki um Ríkisútvarpið.

Samkeppnislögin gilda um Ríkisútvarpið og starfsemi þess, þ.e. þann hluta í starfsemi Ríkisútvarpsins sem fellur utan almannaþjónustuhlutverksins. Þetta hefur alltaf verið ljóst. Þetta hefur komið margoft fram í máli forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Þetta hefur komið fram í máli okkar stjórnarliða og þeirra sem hafa mælt fyrir þessu máli þannig að það er alveg ljóst að samkeppnislögin gilda um Ríkisútvarpið að undanskilinni þeirri starfsemi sem fellur utan almannaþjónustuhlutverksins.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann því hvort hann telji virkilega, og hvort ég hafi skilið hann rétt hér í hans ræðu, þ.e. hvort hann telji að það sé ekki svo að sérlög gangi framar almennum lögum. Ef við heimfærum það upp á núgildandi samkeppnislög og það frumvarp sem hér er til umræðu um Ríkisútvarpið ohf., telur hann virkilega að í því tilviki mundu ákvæði laganna um Ríkisútvarpið ohf. ekki ganga framar ákvæðum samkeppnislaga?