133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:53]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hafi ég ekki svarað þeirri spurningu hv. þingmanns sem hann blandar nú óvænt inn í umræðuna um það hver sé hugmyndafræðin á bak við það að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag þá er hún alveg ljós, við í Sjálfstæðisflokknum eins og reyndar í öllum stjórnmálaflokkum hér á Alþingi erum sammála um að það þurfi að gera breytingar hvað varðar rekstrarumhverfi Ríkisútvarpsins. Það sem við erum að reyna að gera er að koma einhverjum skikki og einhverri skynsemi í þann rekstur úr því kjölfari sem Ríkisútvarpið er í núna, sem er alls ekki skynsamlegt og talsmenn þess rekstrarfyrirkomulags eru talsmenn sóunar.

Auðvitað er ýmislegt sem fellur utan 3. gr. og við höfum farið margoft yfir á fundum nefndarinnar. Ríkisútvarpið stendur t.d. í útgáfu sem er í samkeppni við útgáfufyrirtæki varðandi hljómdiska, mynddiska og ýmsa aðra starfsemi (Forseti hringir.) sem Ríkisútvarpið stendur í. Ég veit ekki (Forseti hringir.) hvað framtíðin kann að hafa í för með sér á sviði (Forseti hringir.) farsímatækni og í öðru sem kann að falla undir þennan lið.

(Forseti (BÁ): Forseti minnir hv. þingmenn á þann takmarkaða ræðutíma sem gefinn er í þessum andsvörum og svörum.)