133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[20:56]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef í þessu frumvarpi stæði að meginmarkmið þess væri að breyta því í sjálfseignarstofnun og það yrði gert þá mundi það ekki leiða til þess að það væri eitthvað erfiðara að einkavæða Ríkisútvarpið sem sjálfseignarstofnun en sem hlutafélag, alls ekki. Það er heldur ekkert erfiðara að einkavæða ríkisstofnunina Ríkisútvarpið, þetta skiptir engu máli. Það stendur í frumvarpinu að það standi ekki til að selja Ríkisútvarpið og á það höfum við fallist. Það að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag hefur ekkert með sölu þess að gera. Það stendur ekki til að einkavæða Ríkisútvarpið og það segir á bls. 1 í 1. gr. í frumvarpinu og ég hvet hv. þingmann til þess að lesa þá grein vegna þess að þar kemur stefnumörkunin varðandi einkavæðingu Ríkisútvarpsins fram.