133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:05]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (andsvar):

Forseti. Í þessari löngu málþófskenndu ræðu um varaformennsku hjá hv. þingmanni saknaði ég þess að hann gerði samkeppnisreglunum og Evrópuréttinum betri skil. Þess vegna ætla ég að reyna að spyrja hann á þeim litla tíma sem til þess gefst þeirra spurninga en verð þó fyrst að segja að þegar maður rennir yfir hluti eins og Ríkisútvarpið sem hefur þá stöðu sem það hefur í sögunni og í samfélaginu og í vitund þjóðarinnar verður maður að vera alveg viss. Það verður að vera hafið yfir eðlilegan vafa, svo að ég noti amerískt orðalag, að þær reglur sem um það eru standist Evrópurétt og samkeppnisrétt.

Samkvæmt þessu frumvarpi eru skilgreiningarnar á almannaþjónustuhlutverkinu óljósar. Skilin eru óljós milli almannaþjónustunnar og samkeppnisréttarins. Það á að halda áfram óheftri samkeppni á markaði auglýsinga og kostunar og það er hlutafélag sem snýr til þess að halda áfram á markaði.

Getur formaður menntamálanefndar komið hingað og sagt að það sé hafið yfir eðlilegan vafa í hans huga að þetta (Forseti hringir.) standist samkeppnisrétt, samkeppnisreglur og Evrópurétt?