133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:10]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Umræðan er búin að vera fróðleg um þetta mál þær stundir sem hún hefur staðið og það verður ekki sagt, sérstaklega ekki í kvöld, að mönnum hafi leiðst undir umræðunni. Ég tel það vel. Það er þá töluvert fóður í henni enn þá og meiningar hjá þingmönnum þegar menn geta tekist á í umræðu og jafnframt haft gaman af skylmingum sín í milli. Það er því ekki að sjá að menn séu hér að leka niður af leiðindum yfir þessu máli enda má segja að málið sé þess eðlis að það sé fyllsta ástæða til þess að um það sé ítarleg umræða, það er stórt, grípur á mörgum sviðum í þjóðlífinu og í frumvarpinu eru lagðar til töluverðar breytingar þannig að það er ekki að undra þó að menn takist eitthvað á um þetta mál. Þannig hefur það t.d. verið innan Framsóknarflokksins að þetta er eitt af þeim fáu málum sem virkilega hafa hreyft við flokksmönnum í gegnum árin og ég man ekki eftir nema einu öðru máli sem hefur verið lifandi umræðuefni innan veggja flokksins árum saman öðru en málefni Ríkisútvarpsins og það eru sjávarútvegsmál. Menn sjá að þetta mál er ofarlega í hugum manna sem hafa tekið þátt í störfum Framsóknarflokksins á umliðnum árum og eðlilegt að þeir láti það til sín taka og um það má finna ályktanir í flokksþingum mörg undanfarin ár.

Ég vil fyrst víkja að ákveðnum þáttum í þessu máli, í fyrsta lagi kannski fyrirsögninni sjálfri, Ríkisútvarpi, og svara spurningunni hvort ég telji að það eigi að vera yfir höfuð eitthvert ríkisfyrirtæki eða ríkisstofnun á þessu sviði. Ég vil svara spurningunni strax játandi, ég tel að svo þurfi að vera, það sé nauðsynlegt af einkum tveimur ástæðum. Það er annars vegar hlutverk þessarar stofnunar sem hún þarf að gegna sem fréttastofnun og hins vegar sem öryggisstofnun.

Ég rifja upp könnun sem Gallup gerði í ágústmánuði 2002 um Ríkisútvarpið, viðhorfsrannsókn meðal almennings um það. Það kom mjög skýrt fram þegar spurt var um hlutverk þess að almenningur telur mikilvægasta hlutverk Ríkisútvarpsins vera annars vegar fréttahlutverkið — tæplega helmingur aðspurðra telur það mikilvægast — og hins vegar öryggishlutverkið, tæplega þriðjungur aðspurðra telur það mikilvægast. Þetta tvennt er í hugum almennings aðalhlutverk útvarpsins sem stofnunar og ég er algerlega sammála þessu mati og vek athygli á því að hvorugt atriðið er þess eðlis að unnt sé að líta svo á að fyrirtæki á almennum markaði geti yfirtekið þetta tvennt að fullu og öllu. Þess vegna þarf að vera opinbert fyrirtæki sem uppfyllir þetta hlutverk og sérstaklega — og um það hafa menn komist að raun í öllum öðrum ríkjum sem mér er kunnugt um, líka þjóðfélögum þar sem búa tugir milljóna manna og fyrirtæki á almennum markaði verða því auðvitað miklu stærri en við eigum að venjast hér á landi og einkafyrirtæki hafa bolmagn til að reka öflugar fréttastofur vegna þess að þó að þær kosti töluverðan pening er það ekki nema lítið hlutfall af tekjum viðkomandi fyrirtækja. Bolmagn einkafyrirtækja til að reka öflugar og hlutlægar fréttastofur er miklu meira en gerist í fámennum þjóðfélögum eins og hjá okkur.

Hér í þessu fámenna landi hefur aðalvandi á sviði fjölmiðlunar verið skortur á rekstrargrundvelli. Saga blaða, t.d. dagblaða, er þyrnum stráð, það hefur ekki reynst mikil tekjulind að gefa út dagblöð í gegnum árin, þau hafa týnt tölunni og önnur komið í þeirra stað og það er ekki hægt að segja að þetta sé gróðavænleg leið ef maður horfir yfir útgáfusögu liðinna áratuga. Það er eðlilegt vegna þess að markaðurinn er lítill og getur ekki staðið undir mörgum fyrirtækjum eða öflugum á þessu takmarkaða sviði. Einmitt af þeirri ástæðu er þeim mun mikilvægara að opinber stofnun gegni veigamiklu hlutverki á þessu sviði til að uppfylla þarfirnar fyrir fréttahlutverkið og öryggishlutverkið.

Ég vil, virðulegi forseti, víkja aðeins að áformunum um breytingu á forminu á þessu fyrirtæki. Spyrja má: Skiptir einhverju máli hvort þetta opinbera fyrirtæki sem Ríkisútvarpið er verði stofnun áfram eða hvort það breytist og verði hlutafélag? Ef það skiptir ekki máli og fyrirtækið gegnir hlutverki sínu með sama hætti og áður er auðvitað ekki ástæða til þess að leggja stein í götu málsins. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að breytingin skipti miklu máli, hún skipti mjög miklu máli og miklu meira máli en látið er í veðri vaka í frumvarpinu og í máli þeirra sem tala fyrir því.

Í fyrsta lagi er breytingin ekki bara formbreyting, hún er efnisbreyting. Hlutirnir eru ekki eins eftir breytingu og þeir eru í dag, heldur er þeim gjörbreytt. Löggjöf um starfsemina verður allt önnur eftir að Ríkisútvarpið er orðið hlutafélag og veigamikil lög sem í dag gilda um starfsemi hennar og sérstaklega um starfsmenn hennar — það hljóta allir að átta sig á því að stofnun sem hefur það meginhlutverk að flytja fréttir og vera áreiðanlegur miðill fyrir almenning í landinu verður að tryggja stöðu starfsmannanna þannig að þeir geti ástundað starf sitt með þeim hætti að sem mestar líkur séu á því að þeir flytji fréttirnar með þeim hætti sem ætlast er til og séu ekki seldir undir einhverja hagsmuni innan eða utan stofnunar sem getur haft áhrif á fréttamat þeirra eða meðhöndlun. Þess vegna skiptir staða starfsmanna stofnunarinnar veigamiklu máli.

Það er einmitt í þessu sem kjarni málsins er fólginn, í breytingunni. Það er verið að breyta algjörlega stöðu starfsmannanna, sérstaklega þeirra starfsmanna sem hafa það hlutverk með höndum að flytja fréttir, sá er kjarni málsins. Þeir verða ekki lengur verndaðir af lagaákvæðum þeim sem í dag gilda ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Þeir eiga meira undir yfirmanni sínum, útvarpsstjóra, en þeir eiga í dag og njóta ekki verndar laga sem gilda í dag, eins og stjórnsýslulaga eða laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þarna er um að ræða kjarnann í þessu máli. Breytingin, ef hún nær fram að ganga, gerir það að verkum að starfsmennirnir eru berskjaldaðri gagnvart sínum æðsta yfirmanni sem getur ráðið og rekið án tillits til þeirra lagaákvæða sem um þetta gilda í dag.

Ég sé ekki betur en að útvarpsstjóri muni geta ráðið í störf án auglýsinga, án þess að setja neinar kröfur um menntun eða reynslu og hafi í raun og veru algjört geðþóttavald í þeim efnum auk þess sem hann mun geta beitt launasamningum við einstaka starfsmenn með mismunandi hætti og viðhaldið launaleynd sem ég held að hljóti að grafa undan samstöðu og starfsöryggi starfsmanna á vinnustað eftir slíkar breytingar.

Ég er ekki að segja endilega að menn eigi að leggjast gegn því að breyta því sem er, það er aldrei svo að menn geti haldið því fram að það fyrirkomulag sem er sé óumbreytanlegt, sé hið fullkomna fyrirkomulag sem menn geti ekki leyft sér að hugsa til að gera breytingar á. En breytingar í stofnun sem fer með þetta veigamikla hlutverk verða þá a.m.k. að tryggja stöðu þeirra starfsmanna sem mikilvægir eru í starfsemi stofnunarinnar þannig að þeir geti sinnt starfi sínu með þeim hætti sem nauðsynlegt er. Breytingar mega ekki draga úr starfsöryggi þeirra, þær mega ekki vega að möguleikum þeirra til að vera sjálfstæðir í fréttamati sínu og fréttaflutningi. Sá er kjarni málsins. Löggjöf og form á starfseminni verður að tryggja sjálfstæði fréttaflutningsins, sjálfstæði gagnvart yfirmanni rekstursins, útvarpsstjóra, gagnvart pólitískri yfirstjórn, stjórn fyrirtækisins, útvarpsráði eða menntamálaráðherra. Ég finn á þessu máli þann alvarlega galla að þessar breytingar draga úr sjálfstæði fréttamanna, draga úr starfsöryggi þeirra, auka geðþóttavald yfirmannsins sem verður bæði yfirmaður yfir rekstri og líka yfir dagskrárgerð sem ég tel mjög óeðlilegt. Af þessum ástæðum tel ég þetta vanhugsað skref.

Ég hef fylgst með ráðningu núverandi útvarpsstjóra og framgöngu hans að því marki sem hún er sýnileg í fjölmiðlum og ég get ekki sagt að framganga menntamálaráðherra eða útvarpsstjóra hafi verið með þeim hætti að það auki tiltrú mína á því að starfað verði með hlutlægum hætti innan stofnunarinnar. Ráðning útvarpsstjóra var að mínu mati mjög óeðlileg. Hún var auglýst, engar kröfur gerðar um menntun eða reynslu. Sá sem ráðinn var gekk á fund menntamálaráðherra áður en hann sótti um og eftir fundinn sótti hann um og var umsvifalaust ráðinn án þess að nokkrir væru teknir í viðtal. Mér finnst þetta óeðlileg ráðning, mér finnst þetta vera val menntamálaráðherra á útvarpsstjóra til að framfylgja sinni pólitísku stefnu.

Þetta mat mitt styrkist þegar ég fylgist með framgöngu útvarpsstjóra. Það kemur nefnilega í ljós að hann hefur sjálfur haft pólitískan áhuga á þessum breytingum allt frá 1996 þegar hann tekur þátt í nefndarstarfi sem ég hygg að hafi verið á vegum Sjálfstæðisflokksins um þetta mál. Hann hefur ítrekað frá því að hann var ráðinn til starfa blandað sér í umræðu um málefni útvarpsins á opinberum vettvangi með þeim hætti að það samrýmist ekki stöðu hans sem útvarpsstjóra að mínu mati. Hann er ekki bara að tala fyrir útvarpið sem stofnun, hann hefur í þessari umræðu verið að tala fyrir hinni pólitísku stefnumörkun menntamálaráðherra. Hann hefur ráðist á fjölmiðla á einkamarkaði og gefið þeim einkunnir. Er nærtækast að nefna það síðasta þar sem hann sakar starfsmenn Fréttablaðsins og kannski ekki hvað síst fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins um að vera í hagsmunagæslu fyrir eigendur sína.

Getur það gengið, virðulegi forseti, að útvarpsstjóri sem á að vera hafinn yfir deilur um pólitísk málefni sé sjálfur aðaltalsmaður menntamálaráðherra í pólitískum málefnum sem er verið að fjalla um á Alþingi, um stofnunina og vegi að helsta fyrirtæki á einkamarkaði sem starfar á sama sviði? Þetta getur ekki gengið, virðulegi forseti, ég bara fæ ekki séð að þetta sé með neinu móti eðlilegt. Ég tel að útvarpsstjóri hafi farið út yfir öll eðlileg mörk í þessari umfjöllun sinni. Það að menntamálaráðherra hafi ekki fundið að þessari framgöngu útvarpsstjóra segir mér að framgangan sé með samþykki menntamálaráðherra, því spyrja má: Telja menn líklegt að menntamálaráðherra hefði setið hjá ef afstaða útvarpsstjóra hefði verið önnur og alveg á öndverðum meiði við þá afstöðu sem hann hefur lýst í greinum sínum og menntamálaráðherra hefur lýst með sínum málflutningi? Segjum sem svo að útvarpsstjóri hefði í sinni opinberu umfjöllun talað fyrir málstað þeirra sem eru á móti þessari breytingu, hefði menntamálaráðherra liðið útvarpsstjóra það? Sjá menn það fyrir sér að útvarpsstjóri hefði ekki verið kallaður til menntamálaráðherra sem hefði sagt: Heyrðu góði, þú blandar þér ekki inn í þetta. Ég vil leyfa mér að segja, virðulegur forseti, að ég tel það blasa við að útvarpsstjóri hefði ekki setið í marga daga í embætti útvarpsstjóra ef hann hefði farið fram á ritvöllinn með þeim hætti. Ég held að menn verði að hugsa þessi mál aðeins og framgöngu útvarpsstjóra einmitt í því ljósi að hann hefur komið fram sem pólitískur boðberi í málinu.

Þá kemur næsta skref í því ljósi: Hvernig er þá staða fréttamannanna á Ríkisútvarpinu ohf. þegar yfirmaðurinn er merktur í málinu með þessum hætti? Hvernig eiga fréttamennirnir að starfa innan stofnunarinnar með útvarpsstjóra sem sinn æðsta yfirmann og njóta ekki lengur verndar laga í störfum sínum? Það er hægt að reka þá bara umsvifalaust. Ég held að allir sjái að þetta getur ekki gengið. Það er hæpið að mínu viti að búa til fyrirkomulag þar sem einn maður hafi svona mikil völd gagnvart fréttamönnum sínum og þeir ekki varðir með neinum hætti sem tryggi starfsöryggi þeirra. Það er mjög hæpið að búa til svoleiðis kerfi en það er alveg augljóst mál að þegar þessi yfirmaður hefur svona fastmótaðar skoðanir og ákveðnar í þessum efnum eru starfsmennirnir í miklum vanda, sérstaklega ef þeir eru ekki sammála yfirmanni sínum um breytingarnar sem á að taka upp.

Það getur hver séð sjálfan sig í því hversu gott það er að taka til umfjöllunar málefni í þjóðfélaginu sem snerta viðkvæma þætti í stjórnmálunum ef menn þurfa að búa við það að hægt sé að víkja þeim umsvifalaust úr starfi án þess að gefa nokkrar skýringar og án þess að viðkomandi geti rönd við reist eða haldið uppi nokkrum vörnum sem dugi til þess að halda starfinu. Þetta er ekki fyrirkomulag, virðulegur forseti, sem við eigum að taka upp. Við eigum ekki að búa til aðstæður sem eru með þessum hætti, jafnvel þó að menn haldi því fram og vilji trúa því í lengstu lög að upp komi staða þar sem reynir á aðstæðurnar. Við skulum a.m.k. halda því fram svo lengi sem við höfum ekkert annað að menn misnoti ekki vald sitt.

Engu að síður eigum við sem setjum lögin ekki að gera það með þeim hætti að möguleikinn til að misnota vald sitt eða nota það með óeðlilegum hætti sé rýmkaður eins og hér er gerð tillaga um í þessu frumvarpi, það hljóta allir menn að sjá. Það er nefnilega kjarninn í því ef það á að reka stofnun eða fyrirtæki sem sinnir almannaþjónustu eins og fréttaflutningi hlýtur sjálfstæði þeirra sem þar starfa að vera lykilatriðið og sjálfstæði stofnunarinnar ekki bara frá ríki eða frá stjórn, það verður líka að vera sjálfstæði frá stjórnmálaflokkum eða skoðunum yfirmanns þannig að menn verða að geta flutt fréttir og unnið að slíkum málum algerlega óháð því að þurfa með nokkrum hætti að huga að ytri aðstæðum. Sjálfstæðið er lykilatriði í þessu máli og með þessum breytingum er verið að minnka það, það er verið að ganga á það og rýra öryggi þeirra sem eiga að vinna þessi mikilvægu verk.

Að breyta löggjöfinni með þessum hætti, ryðja út öllum þessum lagaákvæðum og færa umhverfið yfir í það umhverfi sem einkareksturinn býr við er einkavæðing. Það er einkavæðing, virðulegi forseti, það er einkavæðingin sjálf. Hún er um garð gengin þegar þetta frumvarp verður orðið að lögum. Salan er í raun og veru seinna stig og miklu minna stig vegna þess að þegar að henni kemur verður það sem á undan verður gengið miklu meira. Stóru skrefin sem þarf að taka í sölu Ríkisútvarpsins eru tekin við einkavæðinguna á formi og rekstri stofnunarinnar. Það eru stóru skrefin. Salan er smámál á eftir og hún mun auðvitað fylgja á eftir, láti menn sér ekki detta neitt annað í hug. Menn stilla ekki út í búðarglugga hlutum sem ekki á að selja, það er nú bara þannig, virðulegi forseti. Það eru ekki góðir kaupmenn sem klæða útstillingargínurnar í sínar fínustu spjarir en setja á þær miða um að ekki eigi að selja þær. Það, virðulegur forseti, þýðir ekki að halda því fram hér í þessum sal að það standi ekki til að selja Ríkisútvarpið. Auðvitað stendur það til.

Ég hef setið hér nógu lengi til að hafa heyrt heitstrengingar um að ríkisfyrirtæki sem var breytt í hlutafélag ætti ekki að selja. Þeim var breytt í hlutafélög og svo voru þau seld. Ég segi bara, virðulegur forseti: Láti menn sér ekki detta annað í hug en að það fari eins í þessu máli og í þeim sem á undan eru gengin.

Stóra breytingin, einkavæðingin sjálf, er núna. Hún er við afgreiðsluna á þessu máli, það er rétt að undirstrika það rækilega, það er stóra málið. Fleira held ég að megi nefna sem mér finnst mjög óeðlilegt í þessu. Mér finnst mjög óeðlilegt að hlutafélag eigi að fá skattheimtufé, mér finnst óeðlilegt að leggja skatta á almenning með opinberu álagningar- og innheimtukerfi ríkisins sem á síðan að afhendast hlutafélagi sem hefur takmarkaða ábyrgð og að þeir sem stjórna því beri ábyrgð bara á þeim rekstri sem þar er, þeir beri enga almenna ábyrgð. Mér finnst þetta mjög óeðlilegt. Ég tek undir athugasemdir sem komið hafa fram einmitt um þetta fyrirkomulag frá, að ég hygg ég megi segja, fyrrverandi fjármálaráðherra, Þorsteini Pálssyni, sem segir á einhverjum stað að það sé mjög óeðlilegt fyrirkomulag að hlutafélag fái svona aðgang að skattfé almennings.

Ég ætla, virðulegur forseti, að leita að þessari tilvitnun í fyrrverandi fjármálaráðherra. Já, hann segir í forustugrein í Fréttablaðinu 31. mars, með leyfi forseta, að „ríkisrekstur á samkeppnismarkaði þar sem gengið er á svig við allar grundvallarreglur um meðferð skattpeninga“ — það er nú ekkert minna sem fyrrverandi fjármálaráðherra segir um þetta mál, að láta hlutafélag hafa beinan skattstofn, að það sé gengið á svig við allar grundvallarreglur um meðferð skattpeninga. Og ég er alveg sammála Þorsteini Pálssyni um þetta, ég tel þetta fyrirkomulag alveg fráleitt. Það er e.t.v. ekki svo fráleitt að taka upp nefskatt en að afhenda hann hlutafélagi er alveg fráleitt.

Ég er reyndar á þeirri skoðun að besta fyrirkomulagið sé að stofnunin Ríkisútvarpið sé sjálfseignarstofnun og fái tekjur fyrst og fremst úr ríkissjóði með samningum við ríkið. Ég tel afnotagjöldin næstbesta kostinn en nefskattinn lakasta kostinn í þessu efni.

Það er líka ókostur í þessu máli að forræði yfir eignum stofnunarinnar færist frá Alþingi til eins forstjóra. Ég fæ ekki betur séð en að hann geti að mestu leyti ráðstafað eignum einn og sjálfur, selt þær eða gert það annað við þær sem hann telur nauðsynlegt án þess að spyrja eigandann, almenning, Alþingi eða ríkið um samþykki fyrir því. Mér finnst ekki til bóta að gera þessa breytingu á núverandi fyrirkomulagi þó að ég sé ekki þar með að segja að það eigi endilega að hafa allt óbreytt í þeim efnum. Vissulega er margt ósveigjanlegt í núverandi fyrirkomulagi sem lýtur að meðferð eigna hjá hinu opinbera.

Ég vil, virðulegi forseti, víkja aðeins að afstöðu Framsóknarflokksins til þessa máls. Eins og ég gat um í upphafi hefur málið borið mjög hátt innan Framsóknarflokksins í mörg ár og verið ályktað um það. Starfshópur starfaði um málefni Ríkisútvarpsins og skilaði áliti sem var afgreitt sem stefna flokksins á miðstjórnarfundi í nóvember 2001 og svo síðar staðfest í samþykktum flokksþings. Ég held að það sé ástæða til að fara aðeins yfir þessa afstöðu flokksins þannig að hún liggi fyrir eins og hún blasir við mér.

Á flokksþingi árið 2001 var gerð sem oftar samþykkt um Ríkisútvarpið og þar segir mjög skýrt að því verði ekki breytt í hlutafélag. Það er alveg skýr stefna flokksins að Ríkisútvarpið verði ekki hlutafélag, en kannað hvort rétt sé að breyta því í sjálfseignarstofnun. Það er skoðað. Síðar á því ári samþykkir miðstjórn það fyrir sitt leyti að stefnan sé sú að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun sem verði óháð og sjálfstæð, sem auðvitað er lykilatriði í þessu máli. Sú stefnumörkun er síðan staðfest á flokksþingi fyrir síðustu alþingiskosningar, árið 2003, og má lesa um það í þeim ályktunum. Í aðdraganda kosninganna er þetta borið fram sem stefna flokksins í kosningastefnuskrá ársins fyrir kosningarnar 2003.

Þar segir til áréttingar um þetta að Ríkisútvarpinu verði breytt í sjálfseignarstofnun og rekstur hennar tryggður með þjónustusamningi við ríkið. Þetta er sú stefna sem við fórum einhuga með til kjósenda í síðustu kosningum. Á grundvelli m.a. þeirrar stefnu fær flokkurinn sína kosningu.

Það stendur í kosningastefnuskrá flokksins fyrir þessar kosningar til áréttingar að Framsóknarflokkurinn standi á traustum grunni. Þar segir, með leyfi forseta: „Framsóknarflokkurinn stendur á traustum grunni, hann feykist ekki til og frá í sviptivindum dagsins. Kjósendur okkar vita fyrir hvað við stöndum og geta treyst orðum okkar.“

Svo mörg voru þau orð í kosningastefnuskránni sem gefin var út fyrir síðustu kosningar. Þau eru nefnilega alveg rétt, þau voru nefnilega alveg rétt. Ég hef ekki breytt um afstöðu í þessu máli frá þeirri afstöðu sem ég kynnti fyrir kjósendum í kosningunum 2003. Ég feykist ekki til og frá í sviptivindum í þessu máli og stend við mína stefnu og kjósendur vita hvar þeir hafa mig, alveg eins og þeim var sagt að þeir vissu hvar þeir hefðu Framsóknarflokkinn fyrir síðustu kosningar. Ég held mig við þessa stefnu.

Málefni Ríkisútvarpsins eru ekki hluti af stjórnarsáttmálanum. Menn þekkja það auðvitað að flokkar þurfa að semja um framgang mála við myndun ríkisstjórna. Það hefði alveg verið hugsanlegt að flokkarnir hefðu samið um einhverja útfærslu á stöðu Ríkisútvarpsins eftir kosningarnar en það hefði þá líka farið fyrir miðstjórn flokksins og verið samþykkt þar, en það er ekki. Það er ekki hluti af stjórnarsáttmálanum að breyta Ríkisútvarpinu frá því sem það er. Það er ekki hluti af stjórnarsáttmálanum að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag og það er vegna þess að Framsóknarflokkurinn hafnaði því í stjórnarmyndunarviðræðunum að Ríkisútvarpinu yrði breytt í hlutafélag. Þess vegna er það ekki í stjórnarsáttmálanum.

Hitt er deginum ljósara að þingflokkurinn hefur skipt um stefnu. Hann styður að þorra til þá breytingu sem lögð er til í þessu frumvarpi, það er augljóst mál. Þingflokkurinn hefur núna aðra stefnu en hann kynnti fyrir kjósendum vorið 2003. Ég tel að menn eigi ekki að skipta um stefnu í svona veigamiklu máli, máli sem flokksmenn hafa litið á sem svo veigamikið í gegnum árin án þess þá að hafa skýrar heimildir til þess í samþykktum flokksins þannig að menn styðjist við pólitískt bakland í þessum snúningi.

Það hefur verið vísað til samþykktar flokksþings árið 2005 til rökstuðnings því að þessi mikla breyting verði á afstöðu flokksins. Í þessari samþykkt árið 2005 segir að Ríkisútvarpið verði áfram í þjóðareigu og sjálfstæði þess eflt, lögin endurskoðuð, skoðaðar mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaðinum. Þetta er inntakið í því sem samþykkt er 2005.

Þá er það spurningin: Er í þessari samþykkt fólgin breyting sem víkur því til hliðar sem áður hafði verið samþykkt? Mitt svar er nei. Það sem samþykkt var 2005 er í fullu samræmi við það sem samþykkt var 2003 og 2001. Það eru engir árekstrar í því sem samþykkt er 2005 við það sem á undan er gengið. Menn átta sig á því að samþykktir eru auðvitað gerðar þannig að þær halda gildi sínu þar til ný er gerð sem víkur henni til hliðar eða ný er gerð sem hefur annað inntak og augljóslega breytir þá því sem á undan er gert. Þannig lesa menn auðvitað saman samþykktir.

Það að Ríkisútvarpið skuli áfram vera í þjóðareigu er ekki í andstöðu við það sem áður hafði verið samþykkt, að Ríkisútvarpið verði ekki hlutafélag. Það að segja að eitthvað sé í þjóðareigu þýðir ekki það að menn felli úr gildi samþykkt um að það sé ekki hlutafélag, nema það sé þá beinlínis tekið fram. Það að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins þýðir ekki að menn samþykki að breyta stofnuninni í hlutafélag. Það að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins þýðir ekki að niður falli samþykktin um sjálfseignarstofnun. Að endurskoða lögin fellir ekki niður samþykktina um að ekki skuli vera hlutafélag. Þvert á móti, endurskoðun laganna verður þá að taka tillit til þess að hún nær ekki til þess að breyta því í hlutafélag. Að skoða mismunandi leiðir til að standa undir rekstrarkostnaði felur heldur ekki í sér að fella úr gildi samþykkt um sjálfseignarstofnun eða að Ríkisútvarpið verði ekki hlutafélag því að það lýtur auðvitað afnotagjaldinu. Menn geta breytt um afstöðu í því hvort það eigi að hafa afnotagjald eða eitthvert annað fyrirkomulag til að fjármagna stofnunina án þess að það hafi áhrif á þessar eldri samþykktir um að Ríkisútvarpið verði sjálfseignarstofnun og að það verði ekki hlutafélag.

Ekkert í samþykktinni 2005 ýtir til hliðar því sem samþykkt hefur verið áður nema það væri beinlínis tekið fram, í tillögunni hefði verið tekið fram að svoleiðis bæri að líta á hlutina, en það var ekki. Ég hef farið í gegnum öll skjöl um þessi mál frá flokksþinginu 2005. Ekki er minnst einu orði á að samþykktin 2005 raski að einhverju leyti þeim samþykktum sem á undan hafi verið gerðar. Það er raunverulega ekki fyrr en seint á árinu 2005 sem sá skilningur kemur fram á samþykktinni sem ég lýsti áðan, nokkuð löngu eftir að samþykktin er gerð, sem ég heyri fyrst af þessum nýja skilningi á samþykktinni.

Ég vildi, virðulegi forseti, einfaldlega rekja þessa sögu eins og hún kemur mér fyrir sjónir sem þátttakanda í málinu. Það kom mér mjög á óvart þegar þessi skilningur kom fyrst fram og ég verð bara að viðurkenna það og samþykkja að menn geti haft þessa túlkun en ég er henni algjörlega ósammála og tel hana raunar alveg fráleita í ljósi þess hvernig menn venjulega lesa saman samþykktir flokka. Ég tel að enginn rökstuðningur haldi fyrir slíkri túlkun að samþykkt flokksþingsins 2005 feli í sér að flokkurinn hafi samþykkt það að Ríkisútvarpið verði hlutafélag. Þvert á móti tel ég það fráleita túlkun sem ekki sé hægt að færa nein rök fyrir.

Ég vil t.d. nefna til samanburðar að ef menn líta svo á að nýjasta samþykkt í máli sé sú eina sem í gildi er, allar aðrar falli brott, hvernig er þá t.d. stefna Framsóknarflokksins í sjávarútvegsmálum? Jú, það hlýtur þá að mega beita sömu lögskýringu á það eins og í málefnum Ríkisútvarpsins. Fróðlegt væri að líta aðeins á það (Gripið fram í.) af því að ég þekki það mál líka mætavel, starfa mikið að þeim málum innan flokksins.

Síðasta samþykktin í sjávarútvegsmálum sem lýtur að stjórn þeirra, því mikla deilumáli, er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Að gerð verði heildarúttekt á kostum og göllum íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins og það borið saman við önnur stjórnkerfi fiskveiða, svo sem í Færeyjum, Noregi, Kanada og Evrópusambandinu.“

Hver er þá stefna flokksins ef þetta er eina samþykktin sem er í gildi? Það segir ekkert um að flokkurinn styðji kvótakerfið og hefur ekki sagt neitt um að flokkurinn sé með þá stefnu að styðjast við aflamarkskerfi. Það hefur ekki verið gerð nein ályktun um það síðan 2001. Ef menn beittu þessari tátólógíu sem menn gera í ríkisútvarpsályktunum kæmust menn að þeirri niðurstöðu að flokkurinn styddi ekki aflamarkskerfið, sem auðvitað er ekki, stefnan er alveg skýr en menn hafa auðvitað af eðlilegum ástæðum ekki talið ástæðu til að ítreka hana þegar hún er óbreytt frá einu flokksþingi til annars í meginatriðum. Þess vegna ber að fara yfir samþykktirnar í sjávarútvegsmálunum í heild sinni í gegnum flokksþingin til að lesa saman stefnuna og það ber auðvitað að gera líka þegar menn reyna að átta sig á því hvaða afstöðu flokkurinn hefur tekið í málefnum Ríkisútvarpsins.

Ég hef, virðulegi forseti, ekki fyrr heyrt þau rök að þessi síðasta almenna ályktun víki sértækari ályktunum til hliðar sem á undan voru gerðar, sem eru í samræmi við hina almennu ályktun. Ef menn gerðu það og beittu því eins og væri eðlilegt í túlkun laga, samspili þeirra, þá er ég hræddur um að menn fengju eitthvað annað út en venja er um skilning á lagaákvæðum. Það þætti t.d. einkennilegur skilningur að halda því fram að öll lagaákvæði eða öll löggjöf félli úr gildi við upphaf nýs Alþingis, menn byrjuðu bara með hreint borð, lögbókin væri tóm, það væri aðeins forsíða og baksíða og ekkert á þeim og ekkert þar á milli.

Í mínum huga er sá skilningur sem borinn hefur verið fram, túlkun á afstöðu síðustu samþykktar flokksins fráleit. Ég er ósammála henni og skil samþykktir síðustu flokksþinga með þeim hætti sem ég hef hér lýst og ég held mig við það, kannski vegna þess að ég hef undirgengist þær samþykktir. Auðvitað hef ég leyfi til þess eins og aðrir þingmenn að áskilja mér rétt til að fylgja sannfæringu minni en ekki samþykktum flokks, en ég hef undirgengist samþykktirnar og þess vegna ber mér að fylgja þeim eftir, sem ég tel mig gera með því að leggjast gegn frumvarpinu. Líka vegna þess að ég er sannfærður um að besta fyrirkomulagið er það sem stefna flokksins hefur að geyma, að Ríkisútvarpið sé sjálfseignarstofnun, hún sé sjálfstæð og óháð og fjárhagsgrundvöllur hennar tryggður með þjónustusamningi við ríkið. Ég er algjörlega sannfærður um að það fyrirkomulag er það allra besta fyrir stofnunina sem útvarp og fyrir Íslendinga sem þjóð. Ég hef því tvöfalda sannfæringu í þessu máli, virðulegi forseti.

Fleira má auðvitað fara yfir í málinu en ég hygg ég láti þetta gott heita. Ég hef rakið í aðalatriðum afstöðu mína til þess og hef lýst þeim samþykktum sem ég tel mig skuldbundinn til að fylgja eftir og styðja.