133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:57]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur tíðindi sem hv. þingmaður hefur boðað okkur hér, að þingflokkur Framsóknarflokksins hafi ráðstafað stefnu flokksins með öðrum hætti en a.m.k. hann hefur skilið að hún hafi verið mótuð. Ég tel ástæðu til að spyrja hv. þingmann hvort það hafi kannski verið af því að hv. þingmaður vísaði sérstaklega til stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum, hvort verið geti að þeirri stefnu hafi verið ráðstafað með öðrum hætti en flokkurinn hafði gert ráð fyrir og gert samþykktir um.

Þá vitna ég til þess að fyrir síðustu kosningar var núverandi formaður flokksins í fyrirsvari fyrir hina stóru nefnd sem komst að niðurstöðu um sjávarútvegsmálin, um að setja ætti í stjórnarskrána ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Öfugt við það sem hv. þingmaður nefndi að ekki hefði verið í stjórnarsáttmála að breyta Ríkisútvarpinu með neinum hætti, þá er það í stjórnarsáttmálanum að fylgja þessu fram, að setja þetta ákvæði í stjórnarskrána. Nú hefur hæstv. sitjandi forseti hér á stóli tilkynnt að það sem var í stjórnarsáttmálanum hafi ekki orðið að niðurstöðu í þeirri nefnd sem er að fara að skila af sér, eða hefur þegar gert það, um þessi málefni.

Ég spyr hv. þingmann hvort það geti verið að þingflokkur Framsóknarflokksins hafi komist að einhverri annarri niðurstöðu en flokkurinn í þessu máli og fengið það fram í þeirri stjórnarmyndun sem varð við síðustu kosningar, þ.e. hvort próventan hafi verið seld á síðasta ári hvað þetta mál varðar líka.