133. löggjafarþing — 53. fundur,  17. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er orðið kvöldsett og það væri í sjálfu sér fróðlegt fyrir mig sem ræðumann að vita hvað forseti hugsar sér að halda lengi áfram hér í kvöld. Ég ætla að flytja nokkuð langa ræðu þannig að mér þætti gott að vita hvort ég þarf að búast við því að gera hlé á henni þegar fundi lýkur síðar í kvöld eða hvernig forseti hafði hugsað sér fundarhaldið. Vildi forseti kannski vera svo góður að veita ræðumanni aðeins upplýsingar eða leiðsögn í þeim efnum?

(Forseti (JónK): Forseti hyggst halda fundinum áfram enn um sinn og veita svigrúm til að halda ræður þó að þær séu í lengra lagi. Það er meiningin að halda áfram hér í kvöld um sinn.)

Já. Ég tek því þannig að ekki sé að svo stöddu hægt að veita nánari upplýsingar en þó sé verið að tala um kvöldfund en ekki næturfund og að fundað verði hér eitthvað enn um sinn. Ég er að sjálfsögðu tilbúinn til að flytja mína ræðu hér svo lengi sem til stendur að funda og gera þá hlé á henni ef mér hefur ekki tekist að ljúka máli mínu þegar þar að kemur.

Ég ætla í fyrstu, virðulegi forseti, að ræða pínulítið almennt um stöðu og vegferð þessa máls. Satt best að segja hefur ekkert endilega verið allt of gaman að horfa upp á það hvernig þessum málum hefur skipast núna, ja, ekki bara síðustu mánuði og hér á þessu þingi heldur í raun og veru á þessari vegferð allri á þessu kjörtímabili. Þessi fjölmiðlamál öll á kjörtímabilinu eru orðin mjög söguleg. Ég spái því að arfleifð ríkisstjórna Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar sem var forsætisráðherra hér í lýðveldinu um skeið og nú Geirs H. Haardes, sem mun a.m.k. hafa nokkurn stans á þessum stóli þótt óvíst sé að það verði lengur en til vorsins, þessara þriggja ráðherra sem hafa farið með völdin á þessu kjörtímabili, eigi eftir að þykja nokkuð söguleg. Það hafa auðvitað skrifast nýir kaflar í stjórnmálasögu landsins í tengslum við þessi fjölmiðlamál. Allt hangir þetta saman á vissan hátt og það má segja að ógæfu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í þessum efnum hafi orðið allt að vopni, bókstaflega allt. Ríkisstjórnin hefur engu komið fram enn sem komið er og það er þá orðin spurningin hvort hún kórónar þennan hörmungarferil sem fjölmiðlamálin hafa verið á kjörtímabilinu með því óhappaverki að þjösna þessu máli í gegn við þær kringumstæður sem blasa við hverjum manni og verður auðvitað engum til álitsauka.

Því miður er það misskilningur hjá hæstv. menntamálaráðherra að það verði hæstv. ráðherra til álitsauka að þröngva þessu máli í gegn, ef það skyldi takast, í því grenjandi ósætti sem um það er og með þá dapurlegu sögu alla á bakinu sem því fylgir. Það verður ekki vegsauki, það réttir ekki hlut ríkisstjórnarinnar að ljúka kjörtímabilinu með vinnubrögðum af því tagi sem hér eru ástunduð. Það má segja að um skeið hafi rofað til þegar ríkisstjórnin stóð frammi fyrir fullkominni uppgjöf í sambandi við fjölmiðlamálin frægu á sumrinu 2004 og gafst upp. Einhver rýrasta eftirtekja af einu þinghaldi sem sögur fara af voru paragröfin sem eftir stóðu af fjölmiðlafrumvörpunum og brellufrumvörpunum.

Þá var þó gripið til þess ráðs að reyna að koma málunum aftur í einhvern vitrænan vinnufarveg og skipuð þverpólitísk nefnd sem vann ágætt starf. Það rofaði til um skeið og ríkisstjórnin átti aftur leið í land, átti aftur kost á því að bjarga andlitinu eftir hrakfarir fjölmiðlamálsins sumarið 2004 en hún klúðraði því tækifæri. Hún er að klúðra því. Ef svo heldur sem horfir mun ríkisstjórnin, í staðinn fyrir að uppskera af þeirri vinnu og eiga möguleikann á kannski sæmilegu samkomulagi hér um almenna fjölmiðlalöggjöf, ekki fá hana í gegn — það er ekkert andrúmsloft til að vinna við hana við þessar aðstæður — heldur sitja uppi með það að hafa þjösnað þessu ríkisútvarpsfrumvarpi í gegn, ég tala nú ekki um ef gildistakan verður óbreytt, breytt Ríkisútvarpinu í hlutafélag, einkavætt það rétt fyrir kosningar og mjög líklega sitja uppi með það að nýr meiri hluti Alþingis og ríkisstjórn láti það mál ganga til baka. Það yrði aldeilis uppskera ef fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar yrði að færa þjóðinni aftur Ríkisútvarpið, taka það úr hlutafélagsforminu og eftir stæði ekki neitt af öllu puði og erfiði, barningi og meiðslum stjórnarflokkanna í þessum málum í fjögur ár, ekkert nema skaddað Ríkisútvarp sem auðvitað hefur látið á sjá og þessi endemis málafylgja sem raun ber vitni.

Það er eiginlega undarlegt hvernig allt verður ógæfu ríkisstjórnarinnar að vopni í þessum efnum, t.d. þetta síðasta með gögnin frá ESA. Hvers konar óskaplegur himinhrópandi aulagangur er þetta ef það er þá ekki bara vísvitandi lítilsvirðing og forakt gagnvart Alþingi? Ég vil helst ekki trúa að svo sé heldur láta menn njóta vafans og segja þá að það er einhver alveg yfirgengilegur aulagangur að vera tekinn í bólinu með það að hafa ekki komið þessum upplýsingum skilmerkilega á framfæri við Alþingi og viðkomandi þingnefnd. Það sér hvert mannsbarn að auðvitað áttu þau erindi beina leið inn í þá vinnu sem hér hefur staðið. Það er alveg fáránlegt að reyna að halda því fram að ráðuneytin séu saklaus af öllu í þessum efnum og það er eins og að svo fremi sem menn rukka ekki um upplýsingar — jafnvel þó að þeir viti ekki að þær séu til — sé ráðuneytið laust allra mála. Hefur ekki ráðuneytið pósitífa upplýsingaskyldu líka? Hefur ráðuneytið ekki ákveðnar skyldur að sjá til þess að nauðsynleg gögn berist þingnefndum, fylgi málum ríkisstjórnar inn í þing o.s.frv.? Ég tel endemis aulagang í besta falli að þetta skuli gerast og því miður gerist þetta aftur og aftur og menn bera þá fyrir sig miskjánalega hluti af þessu tagi.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hefur heldur betur orðið sekt um það sama. Þar lyktar því miður allnokkuð miklu meira af því að um vísvitandi gjörning hafi verið að ræða, a.m.k. af hálfu aðila tengdum ráðuneytinu, að bara hreinlega halda óþægilegum upplýsingum frá Alþingi varðandi mál sem stjórnvöld voru þar með til umfjöllunar. Maður er óneitanlega dálítið hugsi yfir því hversu frjálslega menn virðast orðið líta á rétt þingmanna í þessum efnum, að byggja alltaf ákvarðanir sínar á bestu fáanlegu upplýsingum og skyldu ráðuneyta og stofnana hins opinbera til að tryggja að slík gögn séu alltaf í höndum þingnefnda og ráðuneyta. Það er nefnilega augljóslega ekki þannig að þingmenn séu alltaf í aðstöðu til að kalla eftir slíkum upplýsingum, a.m.k. ekki ef þeir vita ekki að þær eru til, bara hreinlega hafa ekki um það hugmynd.

Það er alveg ljóst í sambandi við þessi mál að nefndarmenn í menntamálanefnd, sem auðvitað hafa aðallega unnið þessi mál fyrir þingflokkana, töldu sig hafa upplýsingar um hið gagnstæða í höndunum vegna þess að þeim var sagt fyrir ári að samskiptin við ESA væru á lokastigi. Þeir voru þess vegna grandalausir gagnvart því sem síðan kom á daginn, að þá væri bara röð bréfaskipta sem þeir höfðu engar upplýsingar um. Meira að segja var augljóst að málatilbúnaður ráðuneytisins hafði tekið breytingum vegna þeirra samskipta en samt eru þau ekki reidd fram og menntamálanefnd sem hefur unnið í þessu núna á hverjum vetri allt þetta kjörtímabil eins og kunnugt er fær ekkert um þetta að vita.

Þessir hlutir, virðulegi forseti, eru manni mikið umhugsunarefni, hvernig í ósköpunum það getur gerst að vinnubrögðin eru svona. Af hverju velur t.d. ráðherra, sem þó kemst inn á það spor að setja þverpólitískt starf í gang um grundvallarlöggjöf um fjölmiðla eins og gert var, þá ekki eitthvert sambærilegt verklag varðandi mikilvægasta fjölmiðil landsins, Ríkisútvarpið sjálft, sameignina okkar allra? Af hverju er þá ekki viðhaft sama vinnulag þar, að reyna að leita pólitískra sátta, kortleggja málin með þverpólitískum hætti á undirbúningsstigi, laða fram öll sjónarmið og vita hvort það er hægt að finna út úr því eitthvert fyrirkomulag sem þjóðin öll geti fylkt sér á bak við hér eftir sem hingað til? Í öllum aðalatriðum hefur verið gífurleg samstaða um Ríkisútvarpið í landinu á mismunandi tímum. Auðvitað hafa menn deilt um einstaka hluti eins og gengur og það er ótrúlegt rugl í gangi um pólitísk afskipti af því að það er þverpólitískt útvarpsráð sem hefur skilgreint hlutverk samkvæmt lögunum, eins og að þar með sé öllu handstýrt af stjórnmálamönnum og allt lagt þar að jöfnu, ráðherrann og meiri hlutinn á hverjum tíma og þingið almennt.

Það er náttúrlega gamli, góði áróðurinn gegn öllu sem lýtur að lýðræðislegu aðhaldi og hann er furðu lífseigur. Ég las leiðara í einu blaðanna og þar gekk aftur þessi gamli málflutningur um hina skaðlegu hönd hinna pólitísku afskipta eins og hún hefði verið hjá Ríkisútvarpinu og það yrði nú einhver munur þegar nýja fyrirkomulagið yrði komið, eða þannig las ég andann út úr leiðaranum.

Bíðum við, hvert er verið að halda? Það á auðvitað að herða hin pólitísku tök á Ríkisútvarpinu og þetta hefur lengi verið notað sem áróður gegn því. Engu að síður má þó fullyrða að í öllum aðalatriðum hafi verið mikil sátt um Ríkisútvarpið og það var auðvitað gífurlega, mér liggur við að segja helg stofnun í augum þjóðarinnar. Tilkoma Ríkisútvarpsins var einn af stóru atburðunum í sókn Íslendinga og uppbyggingu velmegunar- og menningarsamfélags í landinu á síðustu öld. Það þarf ekki að ræða lengi við eldra fólk sem ólst upp á árdögum Ríkisútvarpsins til að skynja hversu heilagt Ríkisútvarpið var, hvílíkur viðburður það var í íslensku samfélagi og í íslensku menningarlífi þegar menn eignuðust Ríkisútvarpið.

Ég er alinn upp á mjög afskekktu svæði í landinu þar sem Ríkisútvarpið var eiginlega nánast helsti boðberi nútímans inn í samfélagið og helsti tengiliður við umheiminn og menninguna í öllu tilliti. Á fyrstu árunum voru náttúrlega ekki viðtæki nema á sumum bæjum. Það er gaman að heyra lýsingar fólks, fullorðins fólks eins og móður minnar sem reið milli bæja með rafhlöður til að hlaða og þegar fólk kom til að hlusta á messur á sunnudögum eða sérstakar útsendingar t.d. héðan frá Alþingi. Þetta voru stóratburðir í hversdagslífinu á þessum slóðum og fólk kom ríðandi af öðrum bæjum til að hlusta á mikilvægustu útsendingarnar í útvarpinu. Menn lögðu á sig mikið erfiði og voru lotningarfullir þegar þeir tengdust þannig umheiminum, urðu hluti af þjóðinni og þjóðarsálinni. Það þarf engum blöðum um það að fletta hversu gríðarlega mikilvægt Ríkisútvarpið var í þessari menningarlegu endurreisn þjóðarinnar á leið hennar til fulls og endanlegs sjálfstæðis á 20. öld.

Þannig er það enn þann dag í dag, virðulegi forseti, að þau lönd og þær þjóðir sem virkilega leggja sig fram og reyna af metnaði að halda utan um menningararf sinn standa vörð og slá skjaldborg um ríkisfjölmiðla, um ríkisútvörp og ekki þarf að fara lengra en til Bretlands og Frakklands til að finna sanninn um það. Þar líta menn svo á að þrátt fyrir alla ofgnótt fjölmiðlunar og afþreyingar sem í boði er í dag, netið og allt það, þá hafi ekkert breytt mikilvægi þess að þjóðirnar eigi sér slíkar miðlægar undirstöðumenningarstofnanir að þjóðararfinum sé miðlað, að tryggður sé hlutlægur og óháður fréttaflutningur sem sé aftengdur markaðsöflunum og hagsmunum sem geta bjagað og gert myndina sem þjóðin fær frá fjölmiðlunum skekkta og að slíkir aðilar séu líka til sem hluti af menningarstarfinu í viðkomandi löndum, dagskrárgerð og framleiðslu menningarefnis og miðlun slíks efnis. Ef eitthvað er má segja að jafnvel á síðustu árum hafi sumpart vaxið aftur skilningur manna á og stuðningur við mikilvægi þess að svona starfsemi sé tryggð. Það er auðvitað vegna þess að þrátt fyrir allt gera menn sér grein fyrir því að fjölmiðlunin er gríðarlega mikilvægur hluti af lífinu, af myndinni sem menn fá. Hún er spegill samfélagsins með vissum hætti. Samfélagið horfist í augu við sjálft sig í gegnum fjölmiðlana og fjölmiðlarnir hafa mikið „vald“. Þeir eru oft nefndir fjórða valdið eins og kunnugt er vegna þess áhrifamáttar sem þeir geta haft.

Allt þetta og ótal margt fleira þarf að hafa í huga þegar við ræðum um fjölmiðlamálin. En allt finnst mér þetta vera um leið rökstuðningur fyrir því hversu mikilvægt það er að um þessa starfsemi ríki sátt, að sköpuð sé samstaða um hlutverk, starfsgrundvöll, fyrirkomulag, stjórn og rekstur þessara stofnana og menn vandi sig þegar þessir hlutir eru á ferðinni. Fyrir okkur Íslendinga sem erum þrátt fyrir allt ekki nema 300 þúsund manna þjóð — þó að ónefndur athafnamaður í landinu hafi reiknað út að við eyðum eins og 2,1 milljón erum við samt samkvæmt hausatölunni ekki nema rúmlega 300 þúsund — eru þar af leiðandi takmarkaðir möguleikar á fjölbreytni eða fjölda burðugra fjölmiðla sem starfræktir verða hér á landi á hreinum markaðslegum forsendum. Það er alveg ljóst að svo er og þeim mun mikilvægara er ríkisútvarp, af því að við getum ekki ætlast til þess og reiknað með því að mjög margir burðugir aðilar geti að meira eða minna leyti sinnt sambærilegu hlutverki. Það er ekki raunhæft. Hversu æskilegt sem það er að á þessu sviði eins og öðrum ríki mikil fjölbreytni og gróska þá er tæpast við því að búast. Það gerir vissulega um leið sambúð ríkisfjölmiðils eða almannaútvarps, sem nýtur til þess stuðnings að sinna sínu hlutverki, vandasama. Það er alveg ljóst. Hún er í raun og veru vandasamari vegna smæðarinnar á markaðnum hér. Þess þá heldur þurfa menn virkilega að reyna að finna almennilega út úr því hvernig þetta geti gengið án vandræða, án illdeilna, án málaferla o.s.frv. Það finnst mér ekki vera að takast og það er mjög dapurlegt. Það er ekki í sjónmáli að hér sé verið að tryggja starfsfrið fyrir ríkisútvarp. Það er því miður ekki þannig. Og það er miklu fleira sem teiknar til þess að Ríkisútvarpinu verði ef þetta gengur fram hent inn í ólgusjó átaka, kærumála og málaferla sem geta átt eftir að verða langvinn og endað jafnvel fyrir erlendum dómstólum. Það er ekki björguleg framtíð, það er ekki gæfulegt og í rauninni það alveg á borðinu. Það þarf enginn að efast um hvað í vændum er af hálfu ýmissa samkeppnisaðila útvarpsins ef þetta gengur fram.

Nú er það ekki svo að ég hafi endilega samúð með öllum þeim sjónarmiðum sem þar á bæ eru sett fram. Auðvitað ráða þar fyrst og fremst viðskiptahagsmunir og menn eru að horfa til átaka á markaði og í samkeppni og eðlilega eru þeir sem standa fyrir rekstri einkafjölmiðla ekkert uppteknir af því endilega, þótt margir ágætlega hugsandi menn séu, hvert eigi að vera og sé sanngjarnt og skynsamlegt hlutverk ríkisútvarps. Þeir eru bara í bisness. Við sem erum að huga að vitrænni löggjöf um þessi mál þurfum auðvitað að sjá í gegnum það.

Meðal annars af þessum sökum líka held ég að við séum að byrja á öfugum enda málsins. Þess vegna hefði hæstv. menntamálaráðherra átt að fylgja vinnunni eftir úr hinni þverpólitísku nefnd um fjölmiðlalöggjöf og leggja áherslu á að setja þá löggjöf fyrst. Það er eðlilegt. Það er starfsgrundvöllur allra fjölmiðla, líka Ríkisútvarpsins að verulegu leyti, þ.e. allt sem varðar fjarskiptin, dreifikerfin og sambúðina í gegnum þau lög. Svo koma sérákvæði um Ríkisútvarpið í lögum um það. Við erum því augljóslega ekki að byrja á réttum enda málsins. Fyrst hefði átt að klára vinnuna um hin almennu fjölmiðlalög. Ég er viss um að hefði náðst fram setning slíkra almennra undirstöðulaga um fjölmiðla væri strax búið að leggja grunn og ryðja úr vegi ýmsum hindrunum sem hefði getað létt verkið, auðveldað vinnuna við að koma saman og koma fram lögum um Ríkisútvarpið.

Um Ríkisútvarpið sem stofnun má margt segja. Að vísu er það svo, því miður, að það er búið að vera undir hrammi Sjálfstæðisflokksins í bráðum 16 ár. Það er skelfilega langur tími og í raun og veru sér verulega á Ríkisútvarpinu eftir þessa stjórnun eða ráðsmennsku sjálfstæðismanna. Þeir hafa haft tilhneigingu til þess eða lag á því, eða hitt þó heldur, að halda þannig á málefnum Ríkisútvarpsins að það hefur verið í talsverðum hremmingum. Frægar eru ýmsar mannaráðningar þar inn, harðpólitískar mannaráðningar sem ollu miklum deilum í samfélaginu, ýmsir ónefndir dagskrárstjórar og yfirmenn þar, og að endemum síðast og frægust hin álappalega tilraun til að ráða þar inn fréttastjóra sem endaði eins og raun bar vitni. Það hefur ekki allt verið mjög farsælt, því miður.

Ég tel líka að Sjálfstæðisflokkurinn beri höfuðábyrgð á því að hafa búið illa að Ríkisútvarpinu mörg undanfarin ár. Það er staðreynd að Ríkisútvarpið hefur alls ekki haft þann starfsgrundvöll sem það hefði þurft að hafa. Dreifikerfi þess hefur t.d. drabbast niður. Það hefur verið í fjárhagsvandræðum og það hefur ekki getað sinnt dagskrárgerð af þeim metnaði sem það hefði þurft að gera. Það var alltaf svikið um þann tekjustofn sem því var í raun ætlaður samkvæmt lögum, tekjurnar af aðflutningsgjöldum af viðtækjum eða hvað það nú var. Þetta hefur t.d. leitt til þess að íbúar á landsbyggðinni kvarta víða sáran undan því að þeir hafi léleg hlustunarskilyrði eða léleg skilyrði til að horfa á sjónvarp. Einkareknir miðlar hafa jafnvel komið sér upp kraftmeiri sendum þannig að aðdáendur Ríkisútvarpsins sem eru á ferð um héruð landsins og eru að reyna að hlusta á það verða iðulega að bíta í það súra epli að hrökklast yfir á aðrar stöðvar af því að þær eru með öflugri útsendingu á viðkomandi stað. Margar þeirra senda út ágætisefni, t.d. góða tónlist og manni er kannski nokk sama hvaðan hún kemur en þó er það gremjulegt þegar maður er að hlusta á þátt í útvarpi, sem maður er staðfastur aðdáandi að, og verður svo fyrir því að geta ekki náð útsendingunni t.d. í akstri á ýmsum þjóðvegum.

Það hefði mátt búa Ríkisútvarpinu betri og metnaðarfyllri starfsskilyrði undanfarin ár, það er alveg á hreinu. Það kemur inn á það sem ég ætla að ræða næst. Okkur er sagt núna að það sé svo mikilvægt að klára þetta mál vegna þess að það sé svo óþægilegt fyrir Ríkisútvarpið að vera í lausu lofti og útvarpsstjórinn, sem er kapítuli út af fyrir sig í þessu öllu saman, segir að það sé um líf eða dauða að tefla að fá þetta í gegn. Það er þá væntanlega vegna þess að búið hefur verið svo illa að Ríkisútvarpinu að undanförnu að það er orðið svona lemstrað, ef ástandið er þannig að það sé orðið eins og hver annar sjúklingur og það sé um líf eða dauða að tefla. En það eru ekki rök fyrir því að fara úr öskunni í eldinn. Hafi Ríkisútvarpið átt bágt undanfarin ár þá eru ekki rök að þvinga fram einkavæðingu þess í grenjandi ágreiningi og henda því inn í framtíðina í ólgusjó kærumála og illdeilna. Það er öðru nær. Fyrr ættu þeir aðilar sem bera ábyrgð á því hvernig með málefni Ríkisútvarpsins hefur verið farið á undanförnum árum að svara fyrir það og skammast sín fyrir frammistöðu sína.

Hrammur íhaldsins hefur legið eins og mara á mörgum ráðuneytum í landinu, sérstaklega þeim ráðuneytum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með allan tímann, öll 16 árin, eins og menntamálaráðuneytið, ef minni mitt svíkur ekki. Ég held að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafi verið ráðsmenn þar allan tímann. Einhver ráðuneyti hafa færst milli flokka en ekki menntamálaráðuneytið. Þessi þungi kaldi hrammur, þessi þunga kalda, bláa hönd hefur legið ofan á Ríkisútvarpinu allan þennan tíma. Það er því ekki von á góðu, þar hafa ekki alltaf verið mikil faðmlög, hæstv. menntamálaráðherra. Það er svo sannarlega kominn tími til að breyta til, það er alveg á hreinu. Vonandi verður það að veruleika í vor að hægt verði að leysa menntamálin, dómsmálin, samgöngumálin og fleiri slíka málaflokka úr þessum álögum og undan þessari ánauð Sjálfstæðisflokksins.

Mér er nokkuð hugleikinn sá auður sem þrátt fyrir allt er fólginn í Ríkisútvarpinu þó að betur hefði mátt að því búa á undanförnum árum og út af fyrir sig lengi. Ég ætla ekki að halda því fram að það sé eingöngu núna síðustu 16 árin eða svo sem ekki hefði mátt gera betur við Ríkisútvarpið. Ég held að fyrri ríkisstjórnir á árum og áratugum þar á undan séu heldur ekkert saklausar af því að þær hefðu mátt standa sig betur. Það út af fyrir sig held ég að verði að viðurkennast og koma þá flestir stjórnmálaflokkar landsins við sögu eða forverar þeirra.

Engu að síður er það nú svo að í þeirri stofnun er fólginn mikill auður, fyrst og síðast mannauður. Það sem menn þurfa virkilega að reyna er að halda utan um hann, að glata honum ekki en ég hef af því miklar áhyggjur að menn séu á góðri leið með að gera það.

Mér finnst ískyggilegur tónninn og hugsunarhátturinn sem er svolítið svífandi yfir vötnunum og er notaður m.a. til rökstuðnings hlutafélagavæðingunni í þessum efnum. Hann er mjög ískyggilegur. Ríkisútvarpið á auðvitað mjög mörg önnur verðmæti og gætir að miklum þjóðarauði þar sem eru söfn Ríkisútvarpsins og munir. Þetta var nú ekki betur undirbúið en það hér í byrjun að þau mál voru afvelta í fyrstu frumvörpum sem hingað komu inn. Nú er búið að bæta eitthvað úr því og það er vel.

Menn ætla ekki að gera sömu mistökin eins og þegar þeir einkavæddu Landsbankann, herra forseti, og gleymdu málverkasafninu eins og frægt er orðið. Það svona flaut með yfir í hendur á Björgólfunum. Menn sem hafa ágætan smekk fyrir listum og passa örugglega vel upp á það. En engu að síður er það dálítið hjákátlegt að þetta verðmæta listasafn sem þjóðin átti í þjóðbankanum sínum, Landsbankanum, skyldi bara gleymast. Það á kannski ekki að gera sömu mistökin með Ríkisútvarpið ef þetta verður að veruleika. En þar eru gríðarleg önnur verðmæti og mannauðurinn náttúrlega stærstur.

Varðandi hin efnislegu verðmæti vil ég segja að nær hefði mönnum verið að takast af metnaði á við það að bjarga því sem eftir er að bjarga í stofnuninni en að fara að færa þetta yfir í hlutafélag. Veruleikinn er því miður sá að undir skemmdum liggja og hafa verið að glatast mikil verðmæti vegna þess að burðir stofnunarinnar til að geyma efni, flokka, skrá og yfirfæra síðan á varanlegt form, hafa verið afar takmarkaðir.

Talsvert mikið af efni hefur glatast á síðustu 10, 20, 30 árum, vegna þess að samtímavarðveisla þess var ekki í lagi. Menn höfðu ekki bolmagn til þess að geyma efni sem gífurleg eftirsjá er að eða vegna þess að fámennar og undirmannaðar deildir réðu ekki við að flokka það, skrá og sortera úr það sem hafði mest verðmæti.

Það vill svo til að ræðumaður hefur pínulitla reynslu af þessu sem starfsmaður á einni af deildum ríkissjónvarpsins um skeið. Ég veit vel að á mínum tíma þar og á árunum þar á eftir glötuðust margar gersemar og perlur úr íþróttasögu landsmanna og jafnvel fréttatengdu efni, efni sem hafði mikið fréttagildi, einfaldlega af því að mönnum voru bara ekki skapaðar þær aðstæður og þau starfsskilyrði sem þurfti til að skrá og velja úr og geyma efni.

Hið fræga viðtal og hinn frægi umræðuþáttur sem mun sennilega vera sá síðasti sem Nóbelsskáldið okkar tók þátt í þar sem hann bað um það í frægum setningum í lokin að umræðunni yrði lyft á aðeins hærra plan, sá þáttur er glataður. Það er auðvitað alveg skelfilegt. Það liggur við að maður fái sting í brjóstið þegar maður hugsar til þess hversu stórkostlegt það væri að eiga hann í dag.

Þarna hefði verið og er mikið verk að vinna og væri ánægjulegt ef við værum að ræða um það hvernig gert yrði stórátak í því að tryggja varðveislu alls þess sem til væri og eftir væri af þessu tagi, í staðinn fyrir þessi ósköp sem hér eru á dagskrá.

Þá ætla ég að ræða aðeins um mannauðinn í umræddri stofnun. Í gegnum tíðina hefur helsti styrkur Ríkisútvarpsins verið sá að þangað hefur valist oft og tíðum alveg einvalalið. Auðvitað var og er mannskapurinn t.d. sem bar uppi starfsemi Ríkisútvarpsins á löngum tímabilum mikið einvalalið. Þangað völdust andans menn og snillingar. Forustumenn á sínum sviðum úr menningar- og listalífi. Leikarar og upplesarar, tónlistarmenn og aðrir slíkir sem auðguðu þá stofnun og gáfu henni starfskrafta sína margir hverjir alla ævina. Því menn héldu yfirleitt tryggð við þann vinnustað og mjög margir af burðarásum Ríkisútvarpsins gegnum tímann hafa helgað henni alla sína starfskrafta. Þulir og upplesarar sem hafa orðið þjóðareign, elskaðir og dáðir.

Með þessu byggist upp hjá einni stofnun gríðarlegur mannauður og gríðarleg verðmæti. Fjárfesting í þekkingu og reynslu þessa fólks sem verður ómetanleg og aldrei hægt að meta neitt til fjár. Því verð ég að segja eins og er að þegar menn koma og tala algerlega eins og út úr kú um mikilvægi þess að hægt sé að breyta þessu í hlutafélag svo hægt sé að ráða og reka starfsfólk eins og í hverjum öðrum verslunarrekstri eða hvað það nú er, þá skil ég ekki hvernig fólk getur talað þannig um hlutina af því að við erum að tala í undirstöðunni um allt aðra hluti sem hér eiga við. Það er augljóslega þannig að þú nærð ekkert þeim árangri, þú færð ekkert þá stöðu, þú hefur ekki þann stuðning á bak við þig sem Ríkisútvarpið hefur þegar best hefur látið nema með því að horfa akkúrat öfugt á hlutina. Með því að undirstrika og virða verðmætin sem fólgin eru í góðum, reyndum starfsmönnum og allri þekkingunni sem þeir bera með sér.

Ég hef verið að ræða að undanförnu í nokkur skipti við nokkra mjög reynda starfsmenn Ríkisútvarpsins, hér í höfuðstöðvunum og aðra á starfsstöðvum Ríkisútvarpsins annars staðar í landinu. Við skulum taka t.d. menn með mikla starfsreynslu sem hafa sinnt fréttaöflun og dagskrárgerð fyrir Ríkisútvarpið og haft mikil samskipti við tiltekin svæði á landinu eða landshluta. Segjum fréttamann, dagskrárgerðarmann með 20–25 ára starfsreynslu. Hvaða verðmæti eru fólgin í honum? Ekki aðeins hefur hann alla þekkingu og þjálfun sem til starfsins þarf, að vera þaulvanur og rútíneraður í sínum daglegu verkefnum. Hann hefur staðarþekkingu. Hann hefur sambönd. Hann þekkir mikinn fjölda fólks. Hann hefur sína trúnaðarmenn Hann veit hvernig á að afla upplýsinga, líka um það sem lágt fer af því hann á trúnaðarvini, fólk sem hann treystir og treystir honum. Ef hann þarf að leysa einhver viðfangsefni eins og að koma sér á milli staða eða komast á áfangastað hefur hann aðferðir til þess. Hann á víða hauka í horni o.s.frv.

Við, sem starfa okkar vegna þekkjum vissa hlið á störfum fréttamanna, það gerum við stjórnmálamenn, vitum þetta af því við sjáum oft til þeirra vinna og erum í samskiptum við þá. Við erum stundum á vettvangi vegna sömu atburða og fréttamennirnir. Það má stundum ekki á milli sjá hverjir mæta fyrr á staðinn, fréttamenn, þingmenn eða ráðherrar sem málin eru skyld.

Starfsmennirnir sem þannig safna og byggja upp þekkingu og verða að þjóðareign, eru líka visst vörumerki stofnunarinnar. Þeir eru einhvers konar andlit hennar, rödd hennar gagnvart þjóðinni. Mjög margir þeirra verða eins og heimilisvinir, kunnugleg rödd les fréttirnar. Þulan eða dagskrárgerðarmaðurinn sem og þáttastjórnandinn sem rabbar við okkur á morgnana eða andlitið sem birtist okkur á sjónvarpsskjánum.

Ég held að hugmyndir manna um að menn sæki rök í fyrirkomulag eða rekstrarform fyrirtækja, þegar fjölmiðill af tagi Ríkisútvarpsins á í hlut, sé bara út í loftið. Fólk veit ekki hvað það er að tala um þegar það talar þannig. Því það er svo ósambærilegt að reka ýmsa andlitslausa starfsemi og fyrirtæki í samkeppnisrekstri þar sem allt aðrir hlutir eiga við en hér um ræðir og halda að það hafi gildi að yfirfæra upp úr kennslubókum um einhver stjórnunarform af því tagi og þetta sé bara eins og hvað annað í þeim efnum og það þurfi einmitt að vera hægt að ráða og reka fólk. Það er eitthvað sem ég fæ ekki til að ganga upp og skil ekki og held að sé byggt á algerum misskilningi. Ég held að þetta sé allt saman meira og minna skakkt hugsað.

Ég heyri stundum notað orðið að nútímavæða Ríkisútvarpið með þessu. Að nútímavæða Ríkisútvarpið. Halda menn þá að nútíminn felist í þessu? (Menntmrh.: … sjálfseignarstofnun.) Að kasta fyrir róða … (Gripið fram í.) Ég tel að það breyti heilmiklu, hæstv. ráðherra.

Hlutafélagaformið er í raun vitlausasta af öllu ef hugsað er um eðli fjölmiðilsins. Sérstaklega ef það er notað sem rök, þ.e. að með hlutafélagaforminu sé hægt að reka þetta eins og hverja aðra sjoppu. Ráða og reka fólk út og suður og nota einhverja gulrótarhagfræði við stjórnunina. Ég held að allt aðrir hlutir eigi hér við. Enda er það svo að þegar á hólminn er komið bera flestir stjórnendur auðvitað eitthvert skynbragð á verðmæti sem fólgin eru í góðu starfsfólki og hegða sér ekki eins og kennslubækur kapítalismans segja að menn eigi að gera. Auðvitað er það ekki þannig.

Japanir hafa ekki þótt neinir aukvisar í bisness og atvinnulífi. Þeir byggja á allt annarri hugmyndafræði um samskipti fyrirtækja eða atvinnurekenda og starfsfólks en hin kapítalíska hugmyndafræði og teoría Vesturlanda byggir á. Í Japan gengur allt að miklu leyti út á tryggð starfsmannsins við fyrirtækið og ábyrgð fyrirtækisins á starfsmanninum og velferð hans. Fyrirtækið lítur í raun svo á að þegar það hefur einu sinni ráðið mann í fast starf, er búið að meta hann og vega og telur hann hæfan og hann er orðinn starfsmaður þess, þá beri það ábyrgð á honum eftir það. Það er meira og minna þannig að starfsmenn í japönskum fyrirtækjum starfa þar alla starfsævina ef þeir eru á annað borð eru komnir þangað inn. Þeir eru studdir í gegnum áföll ef þau koma til sögunnar, endurþjálfaðir og þeim er hjálpað á alla lund ef á því þarf að halda. Og í ljós kemur að í staðinn fær fyrirtækið órofa tryggð starfsmannsins og ósérhlífna þjónustu hans við það alla starfsævina. Það má svo sem velta því fyrir sér hvort þetta geti ekki stundum gengið fulllangt í þessum japanska kúltúr fyrir okkar smekk þegar svo er komið að fyrirtækið er í raun farið að sjá um ýmsar fjölskylduskyldur starfsmannsins, eins og að muna eftir því að senda makanum blóm á afmælisdaginn. En það er önnur saga.

Ég er sem sagt meðal annars, herra forseti, áhyggjufullur yfir því að nálgun manna hér í sambandi við Ríkisútvarpið hvað mannauðinn snertir og hugarfarið á bak við þessar breytingar sé alls ekki hin rétta.

Ég óttast um þau verðmæti sem ég tel mest fólgin í Ríkisútvarpinu þegar maður heyrir það aftur og aftur út úr umræðum í þeirri stofnun að eldra og reyndara starfsfólkið margt óttast um sína framtíð núna. Því finnst því hálfpartinn vera stillt upp við vegg til dæmis sérstaklega menn sem eru eitthvað að nálgast eftirlaunaaldur, fastráðnir og eiga kannski árs biðlaunarétt og eru allt í einu settir í þá stöðu, eigandi að óbreyttu eftir nokkur góð ár í starfi hjá fyrirtækinu, að verða kannski að fara að velja hvort þeir eigi að taka biðlaunaréttinn og reyna svo einhvern veginn að þreyja þorrann og góuna eða bjarga sér einhvern veginn öðruvísi þangað til þeirra starfsævi lýkur eða taka ráðningunni í nýtt hlutafélag og eiga þá á hættu að þeim verði sagt upp eða þeim sparkað ef svo ber undir að geðþótta einvalds og einráðs útvarpsstjóra. Hver skilur ekki þá stöðu sem mönnum finnst þeir verða settir í með þessum hætti? En það er nú veruleikinn, herra forseti, ef menn ætla að láta sig hafa það að afgreiða þetta mál.

Er ég þá kannski kominn að fyrsta þætti frumvarpsins sjálfs sem ég ætla að gera hér svolítið að umtalsefni hafandi haft þennan stutta, almenna inngang að máli mínu, þ.e. að það á að fara að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag, ohf. að vísu, opinbert hlutafélag. (ÖS: Máttirðu hafa hávaða?) Já, já. Frammíkallandi má vera óhræddur um það. Þó ég ætli nú að fara yfir þetta allt saman mjög yfirvegað og landsföðurlega í sjálfu sér þá ætla ég ekkert að liggja á minni meiningu í sambandi við þetta mál. Ég get glatt hv. þm. Össur Skarphéðinsson meðal annars með því að ég á alveg eftir kafla minn um Framsóknarflokkinn. Hann er allur eftir.

Í fyrsta lagi þá er það hlutafélagið, ohf. Það er einkavæðing Ríkisútvarpsins. Það er mál til komið, herra forseti, að stjórnarliðið og alveg sérstaklega framsóknarmenn fari að átta sig á því að það er einkavæðing Ríkisútvarpsins að breyta því í hlutafélag. Það er einkavæðingin. Sala seinna meir er í raun aukaatriði í þeim efnum. Formbreytingin er af sviði hins opinbera réttar úr opinberum rekstri og yfir á svið einkaréttarins. Þá breytist ekkert í framhaldinu, ekki neitt. Það er sama hvort ríkið eigi fyrirtækið 100%, 75%, 50% eða ekki. Það er bara hlutafélag. Það er bara fyrirtæki og það starfar sem slíkt og heyrir undir þann rétt að breyttu breytanda. Þetta er vitleysa. Herra forseti, það er bara eitt orð um það hafa. Þetta er tóm vitleysa. Ég held að það hljóti að vera orðið öllum ljóst.

Það undarlega er að um þetta eru meira og minna fjölmargir menn bæði til vinstri og hægri í stjórnmálum sem annars deila nú oft um rekstur og rekstrarform og hlutverk hins opinbera versus einkageirans sammála. Það eru bara stjórnarliðar, ráðherrann eða þá aðrir þeir sem vilja gangast við því beinlínis að vera stuðningsmenn þessa fyrirkomulags sem enn ríghalda í það að þetta sé eitthvert vit, þ.e. að breyta útvarpinu í hlutafélag.

Ég held að það hafi verið hæstv. núverandi utanríkisráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem sagði einhvern tímann hér þegar verið var að ræða um hlutafélagavæðingu á opinberu fyrirtæki eða opinberri starfssemi — líklega hafa það verið Rafmagnsveitur ríkisins, ef ég man þetta rétt — að það væri rétt að fara með þetta yfir í hlutafélagaformið því það væri svo þekkt form. Jahá, það er vissulega þekkt form. En halda menn að það skipti engu máli hvaða starfsemi eigi í hlut? Er til dæmis bara að taka Rafmagnsveitur ríkisins og Ríkisútvarpið sambærilegt í þessum efnum? Nei. Má þó færa mörg rök fyrir því að það sé óskynsamlegt og vitlaust að breyta Rafmagnsveitum ríkisins í hlutafélag, meðal annars vegna þess að veitustarfsemi er í raun í eðli sínu almannaþjónusta, sérstaklega starfsemi af þeim toga sem Rarik hefur farið með sem fyrst og fremst sinnir eingöngu almennum markaði, almennum notendum.

En í tilviki Ríkisútvarpsins sem er svo fjarri því að vera venjulegt fyrirtæki í rekstri sem nokkuð getur verið eiginlega, er þetta alger vitleysa. Ég trúi ekki öðru, herra forseti, en að mönnum sé það mjög almennt ljóst. Ég held það skorti orðið eiginlega alla sannfæringu fyrir því að rétt sé að gera þetta. En menn finna bara því miður ekki leiðina í land. Það getur enginn viðurkennt mistökin. Það eru dapurlegustu ógæfuleiðangrar af þessu tagi sem maður verður vitni að.

Það er alveg ljóst að hlutafélagaformið og þetta o framan við er nú í raun eins og hver annar brandari því það kom hér að lokum útþynnt útgáfa á breytingum á hlutafélagalögum sem hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra, Valgerður Sverrisdóttir flutti, nema ef það var kannski fjármálaráðherrann. Nú man ég það ekki. Það breytir svo sem engu vegna þess hversu máttleysislega var þar um hlutina búið.

Það er vissulega þekkt í löggjöf sumra nágrannalandanna að ákvæðin um opinber hlutafélög skipta máli af því það eru settar svona viðamiklar kvaðir á þau sem þau verða að uppfylla og strangari skilyrði á ýmsan hátt heldur en gilda um eiginleg venjuleg hlutafélög í einkaeigu. En það var ósköp einfaldlega ekki gert í þessu tilviki. Þetta var sýndarmennska. Þetta var algjör sýndarmennska vegna þess að það er sett þarna inn í lög að fréttamenn geti setið á aðalfundunum og einhver slík nánast aukaatriði. En í raun og veru er öllu hinu lýðræðislega aðhaldi sem opinber fyrirtæki hafa sætt sleppt. Þar af leiðandi er það eins og hver önnur blekking og sýndarmennska að láta líta út fyrir að þetta sé eitthvað annað en bara venjulegt hlutafélag.

Þetta form hentar ekki af mörgum og margvíslegum ástæðum. Það er náttúrlega í fyrsta lagi vegna þess að þetta er menningarstarfsemi. Þetta er almannaþjónusta. Þetta er þjónusta sem á ekki að standa undir sér. Þvert á móti er beinlínis, ekki bara viðurkennt heldur er beinlínis ætlunin að láta hana ekki gera það vegna þess að hún á að vera óháð fjárhagslegum hagsmunum. Það er sem sagt beinlínis þannig að menn ætla að láta þessa stofnun veita þjónustu og sinna hlutverkum sem ekki eiga að ráðast af lögmálum (Gripið fram í.) markaðarins. Þar af leiðandi er það eins og hver önnur della að hafa þetta í hlutafélagaformi þegar af þeim ástæðum. Þarna er um að ræða menningarstarfsemi, almannaþjónustu, ýmsar menningarlegar skyldur og kvaðir sem eiga ekkert skylt við fyrirtækjarekstur í samkeppni.

Menn hafa keppst við að reyna að benda stjórnarflokkunum á. Ágætir menn eins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Pálsson, hafa skrifað um þetta lærða leiðara og greinargóða og bent á þetta. Hæstaréttarlögmenn og ýmsir sérfræðingar hafa bent á þetta, skrifað um þetta blaðagreinar og birt um þetta greinargerðir. Við í stjórnarandstöðunni höfum reynt að benda á þetta. Margar af umsögnunum um frumvarpið benda á þetta, frá starfsmönnum og ýmsum tengdum aðilum. En það er eins og allt komi fyrir ekki. Ríkisstjórnin er gersamlega helfrosin í þessum farvegi og hlutafélagatrúboðið um ágæti hlutafélaga út yfir gröf og dauða ber menn algerlega ofurliði. Það er engin leið að koma í veg fyrir vitleysuna.

Svo bætist það auðvitað við, og er nátengt því sem ég ræddi hér svolítið á undan, að hlutafélag er í eðli sínu þannig að það samanstendur af hlutum. Það er hægt að selja hluti í því. Það er hægt að láta út úr starfseminni þessar og hinar einingar og svo framvegis. Sporin hræða mjög í þessum efnum.

Sú ríkisstjórn sem nú er við völd, og vonandi ekki mikið lengur, á að baki mjög ljótan blekkingarferil hvað það varðar að telja mönnum trú um að háeffun sé bara einhver svona saklaus, hlutlaus kerfisbreyting og það standi ekki til að selja eða einkavæða, gera eitt eða neitt í þeim efnum. Þetta hefur margendurtekið sig. Hér úr þessum ræðustóli sagði þáverandi samgönguráðherra Halldór Blöndal, á tíunda áratugnum, að breyting Pósts og síma í Póst og síma hf. væri bara svona formbreyting, svona kerfisbreyting, það stæði ekki til að selja eða einkavæða og það yrði meira að segja bara eitt hlutabréf. „Og það sæju allir að það væri ekki hægt að skipta einu hlutabréfi.“ Það leit út eins og það yrði bara úr stáli og væri ekki hægt að hluta það neitt í sundur.

Það fór eins og það fór. Þegar frumvarp um háeffun bankanna kom hér á sínum tíma, þegar ríkisviðskiptabönkunum sem þá hétu var breytt í hlutafélagabanka, þá stóð í greinargerð með stjórnarfrumvarpinu að ekki stæði til að hrófla við hlut ríkisins í bönkunum fyrstu fjögur árin. Það stóð í greinargerð með stjórnarfrumvarpinu. Það var svikið áður en ár var liðið. Þá komu menn og hófu undirbúning að því að svíkja loforðið, fyrirheitið í greinargerð síns eigin frumvarps.

Menn þekkja loforðin sem tengdust síðan Símanum á seinni stigum o.s.frv. Reynslan er sú að það hefur aldrei verið neitt að marka þessa ríkisstjórn. Hún hefur ævinlega komið óhreint fram. Hún hefur alltaf haft annað í pokahorninu en hún hefur sagt. Þetta er nú veruleikinn, herra forseti. Dapurlegt er að þurfa að segja þetta með virðulegan forseta á forsetastóli sem er málið skylt, sem hefur verið stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar allan tímann eða jafnvel setið í henni um skeið. Þetta er því líka það sem snýr að þessu hlutafélagaformi. Það treystir því enginn meðan þessi ríkisstjórn á í hlut að staðið verði við að fara ekki í sölu á hinu einkavædda, hlutafélagavædda Ríkisútvarpi.

Hvers vegna skyldu menn treysta því í þessu tilviki þegar það er meira að segja þannig að áform annars stjórnarflokksins, eða að minnsta kosti margra kappsamra manna þar, eru opinber og liggja fyrir? Menn hafa jafnvel flutt hér þingmál um að einkavæða Ríkisútvarpið eða hluta af starfsemi þess. Áhugi Sjálfstæðisflokksins á því liggur alveg fyrir eða að stórum hluta að minnsta kosti. Hverju eigum við þá að trúa? Eigum við að trúa að það verði ístaða í Framsókn að standa gegn því? Það væri nú saga til næsta bæjar ef Framsókn færi allt í einu að standa í lappirnar í einhverju máli. Það mundi alveg slá að manni ef það gerðist. Því það hefur aldrei brugðist að Framsókn hefur lekið niður í öllum málum af þessu tagi. Allur ferilinn er varðaður slíku, allur. Menn héldu lengi að Ríkisútvarpið yrði undantekningin. Menn trúðu því lengi. Framsóknarmenn sögðu það sjálfir að menn skyldu nú sjá að þar yrði að minnsta kosti ekki gefið eftir. En nú er svona komið. Það er því algerlega á hreinu að þetta er eitt af því sem skapar tortryggnina og veldur því að menn eru enn tortryggnari og harðskeyttari í andstöðu sinni en ella við það að fara með Ríkisútvarpið yfir í hlutafélagaform.

Ég ætla að ræða nokkuð síðar í ræðu minni, virðulegur forseti, svolítið um einkavæðinguna almennt og Framsóknarflokkinn. Ég er ekki alveg kominn að þeim kafla en ég minni á að ég hef í fyrri umræðu um þetta mál spurt eftir formanni Framsóknarflokksins, fyrrverandi seðlabankastjóra, Jóni Sigurðssyni, hæstv. núverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Ég hef undrast það svolítið að formanni þessa stjórnarflokks hefur einhvern veginn verið „súblímerað“ út úr þessari umræðu og hefur aldrei sést hér. Mér finnst eiginlega ekki hægt að ljúka þessu þannig ef… (Gripið fram í: Mundir þú láta sjá þig ef þú værir ...?) Það er svo önnur saga og önnur spurning, en ég trúi því hreinlega ekki að formaður Framsóknarflokksins, sérstaklega ekki eftir ræðu síðasta ræðumanns á undan mér í kvöld, Kristins H. Gunnarssonar, ætli ekki að mæta til leiks. Ég hef mikinn áhuga á að fá formann Framsóknarflokksins hingað til umræðunnar. Vil ég nú fara fram á það við virðulegan forseta að hann geri formanni Framsóknarflokksins grein fyrir því að ég er að endurtaka óskir mínar frá 2. umr. og jafnvel líka 1. umr. um þetta mál að við þingmenn eigum þess kost einhvern tíma undir þessari umræðu að eiga orðaskipti við formann Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Ekki er hægt að láta Framsóknarflokkinn fara frá þessari umræðu öðruvísi en að formaður hans hafi komið hér og staðið vaktina og svarað fyrir flokkinn. Auðvirðileg svik af því tagi sem Framsóknarflokkurinn er hér ber að á auðvitað ekki að líða. Það verður að tryggja að það fari rækilega út til þjóðarinnar að láti Framsóknarflokkurinn þetta yfir sig ganga til enda þá er hann að bjóða upp á hýðingu á sjálfum sér. Hann býður ekki upp á neitt annað. Ég held að það megi orða það þannig að flokkurinn sé að biðja þjóðina um að hýða sig, því að hann hlýtur að vilja taka út refsingu ef hann sjálfviljugur veit upp á sig svikin með þeim hætti sem raun ber vitni. Menn hljóta að reikna með því að þeir verði að gjalda fyrir gjörðir sínar af því tagi.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur rakið það mjög skilmerkilega hvernig Framsókn gengur algerlega á bak orða sinna í þessu máli og það er auðvitað ekki í fyrsta skipti sem Framsókn lekur niður. Ég óska eftir því, virðulegur forseti, eins og alsiða er hér og ég veit að forseti kannast við úr þinghefðum og venjum, að formaður Framsóknarflokksins verði látinn vita af því að ég hef áhuga á að eiga orðastað við hann. Ef forseti hyggst fresta fundi fljótlega má það vel vera í fyrramálið mín vegna þegar ég held áfram ræðu minni, en ef til stendur að halda áfram miklu lengur mun ég biðja um að formaður Framsóknarflokksins komi til umræðunnar í kvöld því að ekki lýk ég máli mínu þegjandi og hljóðalaust nema hafa átt þess kost að bera fyrir hann spurningar og krefjast þess að hann komi upp og svari fyrir Framsóknarflokkinn í þessum efnum.

Hvernig stendur á því að Framsóknarflokkurinn ætlar að svíkja loforð sín og heitstrengingar í þessum efnum, ganga á bak þeirra orða sem talsmenn og frambjóðendur Framsóknarflokksins út um allt land hafa stært sig af? Ég er meðal tuga, hundruða vitna að framboðsfundi t.d. í Norðausturkjördæmi síðast þar sem menn báru fyrir sig flokkssamþykktirnar og töluðu hreystilega um að þarna mundu þeir standa vaktina, eins og þeir höfðu gert fjórum árum áður hvað varðar Símann. Fjórum árum áður var það Síminn, hann yrði aldrei seldur, sögðu framsóknarmenn, með grunnnetinu. Því gætu kjósendur í Norðausturkjördæmi og Norðvesturkjördæmi, og hvar annar staðar sem það nú var, treyst. Þá voru það reyndar gömlu kjördæmin. Við vitum hvernig það fór. Þessa hluti, virðulegi forseti, vil ég fá að ræða við formann Framsóknarflokksins. Ég hygg að fleiri þingmenn hafi áhuga á því að sá ágæti ráðherra komi hér til umræðunnar. Mér finnst Framsókn ekki geta verið með skottið milli fótanna og boðið upp á það að svara ekki fyrir sig og það er einfaldlega eðlilegast að formaður flokksins geri það. Það mætti að sjálfsögðu gera svipaðar kröfur til Sjálfstæðisflokksins en þó er sá munur á að ráðherra sá sem málið flytur er menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins og það er því nærtækara í því tilviki að kalla til ábyrgðar eina og sömu manneskjuna, hæstv. menntamálaráðherra, og um leið ábyrgðaraðila Sjálfstæðisflokksins í málinu, varaformanninn. Ég hef komið þessum skilaboðum til forseta og treysti því að þau verði tekin til greina.

Í öðru lagi varðandi efni frumvarpsins þá ætla ég að ræða um stjórnunarfyrirkomulag útvarpsins. Það er að mínu mati eitt af því sem er afar mislukkað af ástæðum sem ég hef sumpart þegar nefnt og aðrar ekki. Ég held að það samrýmist illa að nokkru leyti viðkvæmu eðli þessarar starfsemi að hugsa hana eins og pýramídalagaða stjórnun í einkafyrirtæki þar sem menn reyna að skrúfa arð og afköst út úr starfsfólki við einhverja rútínuframleiðslu eða hvað það er. Þetta er ekki slíkt verkefni. Og hafa síðan einhvern alráðan stjórnanda, ég tala ekki um ef hann á bæði að hafa alræðisvald hvað varðar rekstur, mannahald og stjórnun og svo hins vegar dagskrárgerð, framleiðslu menningarefnis o.s.frv. Það má þá ekki vera neinn aukvisi ef hann á að fara létt með hvort tveggja því þetta eru ekki endilega alveg samrýmanlegir hlutir. Menn hafa talið ástæðu til þess hingað til, og mjög víða annars staðar í löggjöf og starfsreglum fyrir fjölmiðla af þessu tagi, að skipta þessu talsvert upp og búa öðruvísi um hnútana, t.d. þannig að dagskrárgerðin, ákvarðanir um efnistök, fréttaflutning, framleiðslu efnis og annað slíkt sé tiltölulega sjálfstætt og um það búið með öðrum hætti, að fleirum sé opnaður aðgangur að því, að fleiri geti lagt hönd á plóginn og komið sjónarmiðum sínum á framfæri, tryggt þá breidd, fjölbreytni, grósku og gerjun sem þarf í raun og veru að vera í slíkri menningar- og listsköpun. Því það vita allir ef þeir vita eitthvað að það er ekki eitthvað sem menn reikna út með tölvu eða línuritum og formúlum sem þeir hafa lært í skóla um bisness. Það er ekki þannig. Auðvitað er hægt að sitja og reikna út stöðuna og afkomuna og hvernig stendur í kassanum og allt það með slík fræði að vopni, menn geta lært almennar reglur í stjórnun og hvernig á að standa að mannahaldi, samskiptum við starfsmenn o.s.frv. en að þeir séu líka afburðamenn á sviði menningar og listsköpunar er til mikils mælst. Ég veit ekki hvort það eru margir slíkir snillingar og slík ofurmenni gangandi um á jörðinni, hvað þá á okkar litla 307 þúsund manna Íslandi.

Sú hugsun að einn allsráðandi stjórnandi hafi þetta verkefni allt með höndum hugnast mér ekki. Mér finnst framganga núverandi útvarpsstjóra, með fullri virðingu fyrir honum, og íblöndun hans í þessi pólitísku mál upp á síðkastið ekki heldur vera sérstaklega trúverðug eða lofa góðu um framhaldið, ef það kemur síðan í hans hlut að verða fyrsti útvarpsstjórinn í hinu hlutafélagavædda útvarpi. Það hefur læðst að mönnum sá grunur, herra forseti, að það standi til og lái þeim hver sem vill.

Hvaða annað fyrirkomulag væri þá hægt að hugsa sér varðandi þetta? Þar getur margt komið til greina. Í fyrsta lagi á ég ekki endilega við óbreytt fyrirkomulag sem í raun og veru hefur verið mikill áhugi á að breyta að ég hygg í öllum flokkum og býsna lengi verið samstaða um að það út af fyrir sig gæti þurft að taka til endurskoðunar, að hlutverk útvarpsráðs eins og það er sett og skipað væri kannski sumpart búið að þjóna tilgangi sínum og gæti verið ástæða til að gera breytingar þar á. Það er ekki vandinn að menn hafi ekki verið tilbúnir til að ræða það. Nei, í fyrsta lagi gæti maður hugsað sér að meira dreifræði væri ástundað innan stofnunarinnar. Af hverju eru ekki aðrir æðstu yfirmenn og stjórnendur útvarpsins látnir hafa meira hönd í bagga þannig að stjórnun stofnunarinnar sé hugsuð sem hópvinna? Að menn séu það sem stundum er kallað á vondu máli „team“ Hvað er að því? Er það ekki víða viðhaft? Það nota mjög margir ágætir stjórnendur í einkalífinu einmitt það form en hér á að bjóða upp á það og hér er andinn í málinu sá að þetta eigi að vera einn maður, eitt heljarmenni, eitt ofurmenni, einn andlegur stórsnillingur sem sé afburðamaður, bæði á sviði rekstrar, stjórnunar og mannahalds og í menningarlegum efnum. Hann á að hafa þarna meira og minna alræðisvöld. Hvað með starfsmenn, herra forseti? Hvað með starfsmannalýðræði? Er það bara orð sem er gleymt og grafið í umræðu á Íslandi? Er svo komið eftir 16 ára frostavetur íhaldsins við landstjórnina? Það er vissulega búið að hreinsa það mjög víða út úr lögum, það er alveg rétt. Ríkisstjórnin hefur þrætt upp löggjöf og hent út meira og minna öllu sem hægt er að kalla starfsmannalýðræði. Það er eitur í beinum íhaldsins að starfsmenn hafi eitthvað um málin að segja. Ég veit það vel. Þeim hefur verið hent út úr stjórnum þar sem þeir voru áður inni samkvæmt lögum. Stjórnir hafa verið lagðar niður þar sem starfsmönnum var tryggð aðild, t.d. í heilbrigðisgeiranum, stjórnir heilsugæslustöðva og aðrir slíkir hlutir, heimamenn á viðkomandi svæðum. Þeim er hent út og miklu betra að einn ráðherra ráði þessu, einn snillingur, einn framsóknarmaður, einn sjálfstæðismaður.

Þetta er andinn, þetta er vandinn, þetta er villan, herra forseti. Þessi stjórn er algerlega frosin föst í, að mínu mati, áratuga gömlum kreddum um stjórnun af þessu tagi, sem menn héldu í árdögum hins hráa nýkapítalisma, nýfrjálshyggjunnar, að væri eitthvað voðalega sniðug en menn hafa mjög víða endurskoðað og horfið frá. En það er eins og eftirhreytur og eftirlegukindur slíkra strauma sem berast annars staðar að lifi stundum ótrúlega lengi hér á Íslandi og það birtist m.a. í þessu. Þar sem aftur á móti sá tími er alveg liðinn víða erlendis, þar sem þessi veiki kannski grasseraði um skeið, og menn hafa aftur tekið til við að rækta góð samskipti við starfsmenn og samtök þeirra og starfsmannalýðræði er aftur í hávegum haft, eins og t.d. á hinum Norðurlöndunum. Ég fullyrði að þetta er að mestu leyti um garð gengið á hinum Norðurlöndunum en hér er þetta enn þá alveg helfrosið í mönnum. Starfsmenn hafa þó átt þá aðild sem raun ber vitni í gegnum útvarpsráð. Og hvernig væri það nú að þeim væri bókstaflega tryggður ákveðinn sess í þessu kerfi og aðkoma að stjórnun útvarpsins þannig að rödd þeirra væri a.m.k. til staðar, að sjónarmið þeirra gætu heyrst, að einhver væri á varðbergi gagnvart hagsmunum þeirra og þeir kæmu rökum sínum að?

Ég vil líka nefna þá leið sem hægt er að hugsa sér í ýmsum myndum, að reynt sé að búa til einhvern breiðan skjöld, einhverja skjaldborg sem slegið sé um Ríkisútvarpið til að tryggja henni öflugt bakland, stuðning víða að úr þjóðfélaginu. Það er t.d. mjög auðvelt að gera með aðkomu einhvers konar fulltrúaráðs, dagskrárgerðarráðs að dagskrárgerð og framleiðslu menningarefnis og miðlunar þess. Það eru hæg heimatökin og nærtækt að kalla þá til sögunnar fulltrúa listamanna og úr menningarlífinu og starfsmanna. Það er af ærnum mannauði að taka þar sem eru starfsmenn og velunnarar Ríkisútvarpsins og ýmsir andans menn og lista í landinu. Halda menn að það væri eitthvert vandamál að kalla slíka aðila til og njóta góðs af þekkingu þeirra, reynslu og hugmyndaauðgi? Af hverju þarf að nálgast þetta svona, að þetta eigi að vera einhver stjórnandi sem fer í þetta starf eins og það sé einhver harðsvíraður bisness, sem ræður og rekur, kaupir og selur, deilir og drottnar? Ég held að þetta sé bara tóm vitleysa. Það er þetta sem er úrelt. Ég held að þetta sé akkúrat ekki að nútímavæða. Þarna eru menn frosnir fastir í fyrsta lagi í gömlum kreddum, sem eru sem betur fer víða á undanhaldi annars staðar, og í öðru lagi í hlutum sem eiga ekkert við þessa starfsemi.

Ég ætla þá að nefna í þriðja lagi einn anga málsins og það er tekjustofninn sem Ríkisútvarpið á að hafa. Þar kem ég sömuleiðis að þáttum sem ég hef miklar áhyggjur af. Það er vissulega svo að sá tekjustofn sem nú hefur verið notast við, þ.e. afnotagjald eða leyfisgjald af einhverju tagi hefur verið gagnrýnt og á það hefur verið deilt, kannski sérstaklega vegna þess að menn lentu í óheppilegri skilgreiningu eða orðanotkun og farið var að tala um einhvers konar skylduáskrift. Menn upplifðu þetta sem þvingaða aðgerð af þessu tagi í staðinn fyrir að líta á þetta sem vægt gjald fyrir afnot af þeirri almannaþjónustu sem stendur öllum til boða, er öllum opin sem á annað borð komast í aðstöðu til að njóta hennar með því að eignast viðtæki. Þegar maður nálgast málið svona er þetta að mörgu leyti fullkomlega eðlilegt fyrirkomulag enda algengasta formið á tekjustofni, t.d. meðal Evrópuríkja, þegar kemur að útvarpsstöðvum eða fjölmiðlum sem flokkaðir eru sem almannaútvarp eða opinber þjónustufyrirtæki.

Menn hafa vissulega lengi rætt um möguleikann á því að finna þarna einhvers konar aðra viðmiðun eða þá hreinlega að taka Ríkisútvarpið á föst fjárlög. Ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að að mörgu leyti væri það einfaldast og nærtækast og það sé kannski kjarkleysi af manni að hafa ekki þorað beinlínis að leggja það blákalt til. Ég verð hins vegar að játa að þá kemur til hræðsla manns við að metnaðarleysi manna, ræfildómur fyrir hönd þessarar menningarstarfsemi gæti átt eftir að reynast svo mikill, t.d. á einhverjum erfiðleikaárum í ríkisbúskapnum, að menn skæru þetta allt niður við trog. Ég hef líka óttast að menn sem væru lítt velviljaðir Ríkisútvarpinu mundu nota tækifærið ef þeir væru við völd og ganga meira og minna milli bols og höfuðs á því ef Ríkisútvarpið væri að þessu leyti berskjaldað með tekjur sínar, að það væri háð framlögum samkvæmt fjárlögum árlega og engin festa væri tryggð eða innbyggð í það. (Gripið fram í: Það er engu að treysta með nefskattinn.) Það er að vísu hárrétt sem fram kemur í innskoti úr salnum að það er engu að treysta með nefskattinn. Það er að út af fyrir sig alveg rétt. Hann getur reynst hverfull tekjustofn eins og hverjir aðrir. Það er náttúrlega ástæðan fyrir því að menn hafa verið að leita leiða og hafa reynt að verja lögvarinn sérstakan merktan tekjustofn, trú manna hefur verið sú að hann væri betur varinn, öruggari en bein fjárveiting. Það hefur iðulega reynst svo. Það er t.d. ákaflega auðvelt að krukka í slíkan tekjustofn. Það gæti komið tímabil þar sem menn einfaldlega frystu hann, létu hann ekki fylgja verðlagi og það bæri ekki mikið á því á hverju ári, í kannski 2–5% verðbólgu. Það yrði þó fljótt að segja til sín og innan fárra ára væri viðkomandi stofnun komin í miklar þrengingar.

En ég hef mjög miklar efasemdir um þá tilhögun sem hér er lögð til, þ.e. fyrirkomulag nefskattsins. Í fyrsta lagi er nánast aldrei hægt að segja að nefskattur sé mjög sanngjarn eða réttlátur tekjustofn. Hann er eins fullkomlega blindur gagnvart getu eða aðstöðu greiðandans til að inna greiðsluna af hendi og nokkur skattur getur verið. Það má held ég segja að það sé alveg öruggt að enginn skattur getur verið blindari en nefskattur. Aðrar beinar álögur sem eru þó tengdar einhverri sjálfstæðri ákvörðun þolandans, greiðandans, eru þó strax þannig að það á að heita svo a.m.k. að viðkomandi eigi val. Að því leyti eru afnotagjöldin strax aðeins öðruvísi en nefskatturinn því sá sem alls ekkert útvarp eða viðtæki á er ekki þvingaður til að greiða neitt gjald. Þó að með því sé að sjálfsögðu ekki loku fyrir það skotið að hann njóti aðgangs að slíku tæki og hlusti á útvarpið eða horfi á sjónvarp hjá einhverjum öðrum.

Nefskatturinn er sem sagt þannig að hann greiða allir jafnt án tillits til aðstæðna og tekna og í raun án tillits til þess hvort þeir eru notendur viðkomandi þjónustu, í þessu tilviki að meira eða minna leyti eða hreinlega alls ekki. Ég sé því ekki, herra forseti, í því tilliti framförina. Ég sé ekki framförina frá afnotagjöldunum. Eigi rökin að vera þau að menn séu að reyna að bregðast við þeirri gagnrýni og þeim óvinsældum sem mönnum hefur tekist að baka afnotagjöldunum að mínu mati sumpart ranglega, sumpart með útúrsnúningum, sumpart með því að kalla þau óheppilegum nöfnum eins og skylduáskrift eða eitthvað því um líkt, hver er þá framförin? Fólgin í nefskatti sem allir hver einasti landsmaður kominn á tiltekinn aldur á að greiða. Er það ekki enn þá ríkari þvingunaraðgerð? Jú, það er það.

Einn nefskattur er til staðar í skattkerfinu, það er gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra. Fróðlegt væri fyrir þingmenn sem það hafa ekki gert að kynna sér umræðurnar sem urðu um það mál á sínum tíma. Gríðarleg samstaða var um það þegar verið var að setja lögin um Framkvæmdasjóð fatlaðra, eða hvort það voru lög um málefni aldraðra sem svo hétu þá strax, og að ráðast í það mikla átak sem þá var dregið upp að gera ætti í sambandi við dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Það var mikil samstaða og mikill hugur í mönnum þegar þau lög voru sett í lok 8. áratugarins, ef ég man rétt.

En það urðu strax deilur um hvort eina leiðin til að fjármagna átakið væri sú sem þar var valin, að leggja á nefskatt. Þó voru auðvitað mjög mörg og sterk rök fyrir því að þarna væri um sérstakt, verðugt og mikilvægt viðfangsefni að ræða sem varðaði allt samfélagið vegna þess að velflest verðum við sem betur fer gömul þótt það sé í sjálfu sér ekki markmið hjá neinum að verða það þá gerist það ef menn eru svo heppnir að halda heilsu og ná háum aldri. Að minnsta kosti er það þannig að í öllum fjölskyldum og í vina- og kunningjahópi okkar allra er aldrað fólk. Það væri því ekki vandamál varðandi það að útskýra og réttlæta nefskattinn að auðvitað nyti allt samfélagið, allir, með einum eða öðrum hætti góðs af því átaki sem þar var sett af stað. Auðvitað líka hinir sem eru svo stálheppnir að halda fullri heilsu og geta búið heima hjá sér kannski allt til loka. Líka vegna þess að þannig þjóðfélag viljum við hafa. Engu að síður urðu margir til að gagnrýna nefskattinn út frá eðli hans, að það væri í eðli sínu óheppilegt og rangt að halda út á þá braut að þvinga fram jafnar greiðslur allra sem náð hefðu framtalsskyldu eða lögaldri eða fjárræðisaldri í þessum efnum algerlega óháð tilliti til aðstöðu þeirra, efnahags o.s.frv.

Augljóst er að ef menn ganga lengra og lengra á þeirri braut, hækka viðkomandi skatt eða bæta fleirum við endar það með ósköpum. Það er því algerlega borðleggjandi hverjum manni og augljóst að þetta getur aldrei gengið nema í einhverjum mjög hóflegum, takmörkuðum mæli. Í raun má skattlagning af þessu tagi aldrei verða nema svo óveruleg að hún sé þá auðveldlega viðráðanleg hverjum einasta manni sem á annað borð hefur einhvern sjálfstæðan fjárhag. Þar með talið hjá þeim sem lifa á allra lægstu launum eða bótum almannatryggingakerfisins einum saman og hafa ekkert annað sér til framfærslu. Ég hygg að það væri hollt fyrir þingmenn að lesa t.d. ræðu sem hv. fyrrverandi þingmaður, Vilmundur Gylfason, flutti við þetta tækifæri og kom upp í hendur mínar ekki fyrir löngu og ég las í gegn. Ég verð að segja alveg eins og er að ég dáðist að því af hvaða einurð hann flutti þar rökin gegn nefskattinum þótt þetta þarfa og brýna málefni ætti í hlut, m.a. með þeim einföldu rökum að það væri svo auðvelt að bæta öðrum þörfum, gildum og góðum verkefnum við. Með nákvæmlega sama hætti og hægt væri að rökstyðja hversu gott og mikið átak ætti að gera í sambandi við uppbyggingu þjónustu við aldraða að allir ættu að geta sæst á skattinn. Þá benti hann á, og það er fullgilt enn þann dag í dag, að þau eru bara svo mörg verkefnin af því tagi. Hér eru menn að koma með Ríkisútvarpið og síðan gæti dottið í menn kannski eftir nokkur ár að bæta þriðja verkefninu við. Því ekki? Ef menn telja í lagi að bæta þetta mörgum þúsundköllum ofan á þann nefskatt sem fyrir er í kerfinu. Kæmu svo kannski með þriðja málið sem væri eitthvað ákaflega brýnt.

Segjum að mönnum dytti allt í einu í hug að leggja nefskatt á landsmenn til þess að kljást við fíkniefnavána. Eru ekki allir ævinlega sammála um að það sé eitt svakalegasta böl samfélagsins, misnotkun áfengis- og vímuefna, og það sé eiginlega allt á sig leggjandi til þess að kljást við það? Hvað ætla menn að gera ef einhver kemur með þá tillögu að stórauka fé í forvarnir og fræðslu og baráttu gegn þeim vágesti í samfélaginu með því að leggja á um 20 þús. kr. nefskatt. Eru þá ekki öll sömu rökin til staðar? Jú. En það breytir engu um eðli nefskattsins, að hann er hryllilega ósanngjarn skattur vegna þess að hann bitnar svo þungt á þeim sem minnsta hafa greiðslugetuna. Hér eru menn því líka, að mínu mati, að lenda á villigötum. Þetta á ekki eftir að reynast Ríkisútvarpinu vel, held ég. Ég held að það eigi eftir að verða um þetta ófriður og vandræðagangur. Reyndar er mér til efs að nokkurn tímann verði af innheimtu þessa nefskatts sem tekjustofns fyrir Ríkisútvarpið.

Það er ekki sérstaklega trúverðugt að menn þjösni frumvarpinu fram en slái gildistöku tekjustofnsbreytingarinnar á frest svo árum nemur.

Virðulegi forseti. Í fjórða lagi ætla ég að ræða aðeins um samkeppnisþátt málsins og hvernig menn eru hörmulega að klúðra honum. Ég hef áður sagt og stend við það að ég tel að menn séu að efna til þess, ef af verður, með lögum þessum að Ríkisútvarpið verði í ólgusjó kærumála og málaferla um mörg ókomin ár. Af því menn eru að blanda öllu saman á eins grautarlegan og óskynsamlegan hátt og verið getur.

Nú er alveg ljóst að hin lögvarða innheimta Ríkisútvarpsins á tekjum er skattur, ígildi ríkisframlags. Um það er ekki deilt, öll samkeppnisyfirvöld og öll löggjöf staðfesta það og það liggur fyrir samkvæmt dómum og hvaðeina. Það er því ríkisstuðningur við starfsemina. Hana á engu að síður að setja yfir í hlutafélag. Hana á samkvæmt frumvarpinu að færa af sviði hins opinbera rekstrar og yfir á svið einkareksturs. Það er alveg augljóst mál að þar með heyrir hún undir samkeppnislög. Þetta er fyrirtæki. Þetta er hlutafélag og það er í samkeppni við önnur sem starfa á sama eða nær sama markaði.

Fyrirtækið á ekki bara að vera í samkeppni enda þyrfti þá að færa einhver rök sem héldu fyrir því að það nyti forréttinda. Það gæti hugsast, það væri til dæmis ekki útilokað ef slíkt fyrirtæki væri starfandi á landsbyggðinni, á svæði sem væri skilgreint sem þróunarsvæði samkvæmt reglum Evrópuréttarins, að þá mætti það njóta einhverrar ívilnunar sökum þess. En það á ekki við hér. Nei, rökin eiga þá að vera þau að fyrirtækið hefur með höndum sérstaka starfsemi sem því er uppálagt, sem er annars eðlis. Það hefur skyldum að gegna. Það hvíla á því kvaðir sem því eru bættar með hinum opinberu tekjum. Þá á þar líka að láta staðar numið því um leið og ekki er hægt að sýna fram á að ríkisstyrkurinn, ríkisstuðningurinn, jafni nákvæmlega útgjöldin sem af þessu leiðir er orðið um samkeppnislagabrot að ræða.

Þó svo að menn reyni þarna einhverjar nákvæmlega skilgreindar skyldur og einhvern fjárhagslegan og bókhaldslegan aðskilnað samkeppnisþátta og annarra þátta sér hver heilvita maður að það er eiginlega engin leið að draga það sundur og sortera það þannig að eitthvert vit komi út úr því. Ergó, þetta bíður upp á endalaus klögumál og kærumál. Það er alveg augljóst mál.

Allt aðrir og öðruvísi hlutir kunna að reynast en menn sjá fyrir í fyrstu. Það kom til dæmis upp á sínum tíma að Póstur og sími og Síminn voru komnir í samkeppni og Símanum hafði verið breytt í hlutafélag en hann hafði enn það hlutverk með höndum að gefa út símaskrána. Þá ráku menn sig allt í einu á það að Síminn kynnti starfsemi sína í símaskránni. „Heyrðu, þetta voru ókeypis auglýsingar, sögðu menn. Þetta gengur ekki. Brot á samkeppnislögum.“ Úr þessu var mikil rekistefna, kærumál o.s.frv.

Sambúð slíkra verkefna, hvort sem það er einkaleyfisbundin starfsemi eða kvaðir og skyldur af þessu tagi, og samkeppnisþátta er ekki einfalt mál. Það verður enn þá fáránlegra þegar viðkomandi starfsemi er komin yfir í fyrirtækisform, orðin hlutafélag, enda er það ekki að ástæðulausu að þetta hefur orðið einn fyrirferðarmesti þáttur málsins upp á síðkastið. Út á þetta ganga bréfaskriftirnar milli Eftirlitsstofnunar Evrópska efnahagssvæðisins, ESA, og ráðuneytisins. Út á þetta gengur hið harðorða álit Samkeppnisstofnunar. Umsögn Samkeppniseftirlitsins tekur auðvitað á þessu og skyldi engan undra. Hún talar enga tæpitungu á köflum af því fjölmargar greinar samkeppnislaga geta átt við.

Ríkisútvarpið er nánast einokunarrisi á þessum markaði. Það er að minnsta kosti algerlega markaðsráðandi risi samkvæmt öllum venjulegum skilgreiningum. Hvernig í ósköpunum ætla menn að sortera út hvað af stöðu þess það á að þakka framleiðslu á menningarefni og hlutum sem því er kleift að gera vegna stuðnings frá ríkinu sem aftur þýðir að áhorf eða hlustun er meiri sem aftur þýðir að staða þess á auglýsingamarkaði styrkist o.s.frv.? Allir sjá að þetta er ekkert þannig að það sé eitthvert einfalt mál og að hægt sé að sortera þetta eitthvað í sundur. Ég fæ engan botn í það og held að það sé algerlega augljóst mál að þarna munu klögumálin ganga á víxl. Á það þá að verða dómstólanna eftir kannski margendurtekin málaferli og niðurstöður fyrir dómstólum að reyna að draga þarna upp einhver landamæri? Er það virkilega þannig sem menn ætla að láta þetta gerast, að henda Ríkisútvarpinu út í þetta umhverfi, kalla yfir það kærur, klögumál og vandræði? Svo myndast í fyllingu tímans smátt og smátt einhver lína, kannski hlykkjótt sem dregst upp af niðurstöðum málaferla og dómum. Það er eiginlega ekki annað að sjá ef maður reynir að hugsa þetta fram í tímann.

Herra forseti. Þetta er því fullkomlega óframbærilegt eins og málið er lagt fyrir og af þessum sökum eða þessari einu ástæðu er auðvitað algerlega fráleitt að troða málinu í gegn nú. Það er miklu meira en nógu ófriðlegt að ýmsu leyti má segja á fjölmiðlamarkaðnum. Vandamálin eru þar ýmis og ærin og deilur undangenginna ára eru ekki beinlínis allar saman grónar. Það er ekki eins og öll sárin og örin séu gróin.

Miklar sviptingar hafa verið í eignarhaldi og markaðsstöðu annarra fjölmiðla í landinu og ekki hægt að einangra Ríkisútvarpið frá því. Maður hefur haft á köflum verulegar áhyggjur af því hversu staða annarrar fjölmiðlunar hefur verið veik og efast um að hér væru innstæður fyrir þeirri fjölbreytni og samkeppni sem að sjálfsögðu er æskileg og holl í fjölmiðlun eins og á öðrum sviðum. Ég er síður en svo einhver sérstakur talsmaður þess að allt eigi þetta að vera á höndum ríkisins og hef að sjálfsögðu aldrei verið. Hér hefur verið samkeppni í fjölmiðlun, til dæmis í blaðaútgáfu, um mjög langt skeið. Umtalsverð gróska hófst í blaðaútgáfu hér á landi á 19. öld og hefur sem betur fer viðhaldist síðan í mismunandi myndum þó sumpart hafi heldur sigið á ógæfuhliðina upp á síðkastið hjá prentmiðlum og blöðum fækkað og orðið þar meiri þrengsli og eignatengsl myndast á milli þeirra þó fáu sem í gangi eru o.s.frv. En það er önnur saga. Á öðrum sviðum hefur orðið gróska, eins og til dæmis í útvarps- eða hljóðvarpsstarfsemi, og bara á köflum býsna lífleg. Þar er þröskuldurinn lægri til að hefja nýja starfsemi og möguleikarnir meiri til að marka sér bás, finna sér markhópa og þjónusta þá. Annað er svo viðameira, eins og að starfrækja sjónvarpsstöðvar eða gefa út dagblöð.

Herra forseti. Þessir þættir eru náttúrlega ekki á nokkurn hátt komnir í það form í frumvarpinu að það sé til mikilla farsælda fallið. Aftur dregur það athyglina að því að menn eru hér að byrja á öfugum enda. Hér átti auðvitað fyrst að setja hin almennu samkeppnis- og útvarpslög, leggja grunninn, reyna að halda áfram þeirri vinnu að laða fram samstöðu um sæmilega sanngjarna og hófsamlega löggjöf sem væri að því sniðin að reyna að ná fram markmiðum um fjölbreytni, um ritstjórnarlegt sjálfstæði og óhæði fjölmiðlunar, um möguleika manna til að keppa í dreifikerfunum o.s.frv. Í kjölfarið átti svo að taka fyrir málefni Ríkisútvarpsins og reyna að koma því í skikkanlegt horf.

Síðasti þátturinn í frumvarpinu sem ég ætlaði að gera aðeins að umtalsefni er réttindi starfsmanna, staða starfsmanna. Hef ég þó vissulega komið inn á það mál áður þegar ég ræddi fyrr í ræðu minni um mannauðinn sem er fólginn í starfsmönnum Ríkisútvarpsins. En staða þeirra sem launamanna, starfsréttindi þeirra og starfskjör eru svo auðvitað sjálfstæður þáttur sem hér verður að skoða og menn verða að vanda sig sérstaklega þegar glímt er við.

Það er auðvitað ósköp einfalt mál, herra forseti, að aðstandendum frumvarpsins hefur mistekist að sýna fram á það og sanna fullyrðingar sínar um að ekki eigi að hafa réttindi af starfsmönnum. Það verður gert með þessu frumvarpi. Það er bara einfaldlega svoleiðis.

Þótt menn væru búnir að leggja í alla þá vinnu sem til þyrfti að reikna algerlega til verðs hin margþættu starfsréttindi, lögvarin og umsamin sem hér koma við sögu og breytast með því að starfsemin hættir að vera opinber og verður að fyrirtæki og rekstri og hlutafélagi þá stæði auðvitað eftir sú einfalda staðreynd að fjölmargir starfsmenn þurfa að gera það upp við sig hvort þeir eigi að fara úr hinu eldra umhverfi yfir í hið nýja eða hvort þeir eigi að taka út þau réttindi sem þeir eiga við formbreytinguna.

Eins og ég nefndi hér fyrr í kvöld þá eru fjölmargir af reyndari starfsmönnum útvarpsins í þessum sporum. Í mörgum þeirra er uppsafnaður ekki síst hinn mikli mannauður, reynsla og þekking sem Ríkisútvarpið býr að. Þeir þurfa þá að gera það upp við sig hvort þeir eigi að taka þann rétt sem þeir eiga til biðlauna og leita sér síðan að öðrum störfum eða ráða sig til hins nýja hlutafélags og taka þá áhættuna af því að vera í öðru og ótryggara starfsumhverfi þaðan af, hafandi ekki nýtt sér réttinn sem þeir áttu við kerfisbreytinguna.

Þetta getur verið ákaflega erfitt val. Ég hygg að margir starfsmenn sem svona er ástatt hjá upplifi sig upp við vegg, upplifi sig úti í horni. Það ganga sögur ljósum logum um stofnunina og út úr henni, herra forseti, að ýmsum af eldri og reyndari starfsmönnum útvarpsins sé hugsuð þegjandi þörfin, það sé einmitt þar sem eigi að taka til og það sé m.a. ein ástæðan fyrir því að menn hungrar og þyrstir svona óskaplega í hlutafélagið, að ætlunin sé að hreinsa heilmikið til og ráða svo sjálfsagt einhverja gulldrengi í staðinn af því að menn tala um það á góðum stundum að þeir ætli að nútímavæða Ríkisútvarpið með slíkum aðferðum. Með því að sólunda kannski verðmætustu eign þess og umgangast hana af gáleysi, þar sem er mannauðurinn sem er auðvitað mikilvægari í þessari starfsemi en flestri, næstum því hverri annarri. Það væri kannski helst hægt að segja að reynsla og þekking, uppsafnaður mannauður í starfsfólki sem vinnur afburða viðkvæm störf, t.d. í heilbrigðiskerfinu, gæti verið sambærilegt þar sem ég held að flestir viðurkenni að vilja helst ekki vera í höndunum á viðvaningum, á nýliðum, á reynslulausu fólki ef um líf eða dauða er að tefla. En það er ákaflega mikið í húfi líka þegar þættir af því tagi sem við erum hér að fjalla um, varðveisla menningararfsins og miðlun, sú reynsla og þekking, staðkunnugleiki og allt það sem þrautreyndir starfsmenn búa yfir.

Ríkisstjórnin hefur einkavætt meira á undanförnum mánuðum en bara þessi áform um Ríkisútvarpið vísa til. Ríkisútvarpið lýtur t.d. að þessu leyti alveg sömu lögmálum og starfsemi sem færðist af sviði hins opinbera rekstrar, hinnar opinberu þjónustu, hinnar opinberu starfsemi um síðustu áramót og yfir í hlutafélagaformið. Fyrirtækið Flugstoðir ohf. tók við að stærstum hluta af starfsemi Flugmálastjórnar svo gáfulegt sem það nú var eða hitt þó heldur, að mínu mati, að fara að setja viðkvæma hluti eins og flugumsjón og þess vegna rekstur lykilsamgöngumannvirkja undir hlutafélag. Hvernig gekk það, herra forseti? Gekk það ekki þannig að það lá við ófremdarástandi sem menn voru að reyna að bjarga á síðustu stundu vegna þess að starfsfólkið margt hvað, flugumferðarstjórar létu ekki bjóða sér þegjandi og hljóðalaust að höfð væru af þeim réttindi með þeim hætti og eiga að mínu mati heiður skilið fyrir að sýna þá samstöðu sem þeir sýndu.

Það sama á við um fyrirtækið Matís ohf. og er kannski ekki síður ljót sú saga því fjöldi starfsmanna þar á um sárt að binda og er grátt leikinn vegna þess hvernig komið var fram við það. Að þvinga menn, stilla mönnum upp við vegg til að undirgangast slíkar kerfisbreytingar og fara úr einu réttarumhverfi yfir í annað, stilla þeim upp við vegg og láta þá velja á milli slíkra kosta eins og ég hef verið að teikna hér upp. Menn ættu ekki að gera lítið úr því hversu erfitt þetta getur verið viðkomandi og sársaukafullt, hvaða óöryggi og vanlíðan það getur skapað, hversu ósanngjarnt það er gagnvart starfsmanni sem hefur kannski ráðið sig strax að loknu námi eða við upphaf starfsferils inn í tiltekið réttarumhverfi, unnið allan sinn starfsaldur meira og minna sem slíkur, sem opinber starfsmaður, og á örfá ár eftir í að ljúka starfsævi sinni og taka út þau uppbyggðu réttindi sem safnast hafa á starfsævinni. Örfáum árum áður en þetta gerist er komið og sagt: Nei. Nú verður þú bara annaðhvort að hætta, taka þau réttindi sem þú átt eða þú verður að stinga þér út í djúpu laugina, köldu laugina og taka sénsinn á því hvort við viljum hafa þig hér í vinnu í hinu nýja fyrirkomulagi þar sem aðalsmerkið er að geta ráðið og rekið starfsfólk að geðþótta. Þetta er það sem þarna er að gerast og reynslan er ekki allt of góð, herra forseti, af því hvernig þetta hefur gerst og gengið fyrir sig í hverju tilvikinu á fætur öðru.

Ég held að það sé að renna betur upp fyrir mönnum, eins og þau tilvik sem ég nefndi áðan hafa leitt í ljós, að þetta er flóknara mál en menn höfðu áttað sig á. Menn halda kannski að þetta snúist bara um annars vegar kaupgjaldið og hins vegar þá fyrst og fremst lífeyrisréttindin og ráðningarsambandið eða ráðningaröryggið, en í ljós kemur að þetta er miklu flóknara mál en svo og mjög erfitt að meta að fullu til verðs og reikna þá hluti sem erfitt er og ómögulegt að reikna út, eins og hvers virði starfsöryggið sé, þegar betur er að gáð í þessum efnum og það hefur komið á daginn.

Ég hef, virðulegur forseti, farið yfir fimm meginþætti í frumvarpinu eins og þeir snúa að mér. Ég viðurkenni vissulega að ég hef verið að ræða gagnrýnisatriðin, það sem ég set út á í frumvarpinu. Það er að sjálfsögðu ekki þannig að allt sé ómögulegt þar. Ég er í sjálfu sér ekkert ósáttur í aðalatriðum við upptalninguna í II. kafla í 3. gr., um hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins bara ef það fengi að vera ríkisútvarp í friði. Það er allt meira og minna í góðri sátt við mig að leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð, að senda út til landsins alls og næstu miða, það má ekki gleyma þeim, þjónustunni við sjómenn og miðin. Að vísu segir svo, því miður: „… a.m.k. eina hljóðvarps- og sjónvarpsdagskrá árið um kring.“ Það finnst mér auðvitað mjög sérkennilegt og metnaðarlítið að ekki skuli einu sinni vera bundið að það skuli þá a.m.k. sinna þeirri starfsemi sem það hefur með höndum í dag, þ.e. senda út tvær hljóðvarpsrásir og að lágmarki eina sjónvarpsdagskrá, sem mér finnst reyndar vera alger tímaskekkja að skuli ekki fyrir löngu vera orðin a.m.k. að tveimur eins og þróunin hefur verið má segja alls staðar í löndunum í kringum okkur. Það er auðvitað alveg stórfurðulegt að sjónvarpið skuli ekki a.m.k. vera á tveimur rásum. Annars vegar væri hægt að hugsa sér að ýmiss konar afþreyingarefni, íþróttir og fleira væri kannski þyngra á dagskrá annarrar rásarinnar og dagskrárgerð, menningarefni, fréttir og slíkir hlutir e.t.v. heldur þyngra hinum megin, sumpart með svipuðum hætti og þróunin hefur orðið á milli Rásar 1 og Rásar 2. Að öðru leyti er að mestu leyti sýnist mér eðlilega um málin fjallað og … (Gripið fram í.) Ja, það eru vissir kaflar góðir í því, það er alveg rétt, það er ekki allt ónýtt í frumvarpinu. En því miður drukknar það sem er í lagi og víkur fyrir hinu sem ekki er í lagi sem eru aðalatriðin og vega miklum mun þyngra þegar kemur að ágöllum frumvarpsins, sem er formið, stjórnunarfyrirkomulagið, tekjustofninn, samkeppnisþættirnir og frágangur á réttindum starfsmanna.

Ég ætla síðan, virðulegur forseti, að hverfa aftur að því að ræða um friðarskylduna gagnvart Ríkisútvarpinu sem menntamálaráðherra er að bregðast. Svo ítreka ég óskir mínar, áður en ég lýk ræðu minni, að ég fái upplýst hvort formaður Framsóknarflokksins er á leið til umræðunnar eða ég þurfi að gera hlé á ræðu minni og við frestum umræðunum og ég geti þá átt við hann orðastað í fyrramálið. Mér er sama hvort er. En ég bað um það fyrir um hálftíma að formanni Framsóknarflokksins yrði gert viðvart um að viðveru hans væri óskað og nú vil ég fá upplýsingar um hvar málið er á vegi statt.

(Forseti (BÁ): Forseti vill í fyrsta lagi geta þess að skilaboðum hefur verið komið á framfæri við hæstv. ráðherra, Jón Sigurðsson, um ósk hv. þingmanns en forseta er ekki ljóst hvort eða hvaða viðbrögð eru komin fram við því. Forseti vill hins vegar geta þess að hæstv. ráðherra er ekki sá ráðherra sem flutti þetta frumvarp. Forseti telur því að ekki sé tilefni til að gera hlé á umræðunni þó hann komi ekki á staðinn en hins vegar hefur þessari ósk verið komið á framfæri eftir því sem starfsmenn þingsins gátu best gert.)

Virðulegi forseti. Ég er ákaflega ósáttur við þessa meðhöndlun hæstv. forseta. Ég er mjög ósáttur við að þessi ósk mín, rökstudda ósk sem ég er að endurtaka frá því við 2. umr. og gerði þá ekki að ásteytingarsteini að henni lyki þó svo tækist þá að formaður Framsóknarflokksins sá ekki ástæðu til að verða við beiðninni um að koma hingað til umræðunnar og svara fyrir flokk sinn og aðild sína að málinu. Ég vil leyfa mér að segja við virðulegan forseta að ég hef marga fjöruna sopið í umræðum á Alþingi og kann þinghefðirnar býsna vel eftir bráðum 24 ár hérna. Ég fullyrði að það er að verða ansi lítið gert með óskir af þessu tagi sem þótti sjálfsagt og sjálfgefið að verða við á sínum tíma þegar menn tóku skyldur sínar gagnvart verkum sínum á Alþingi alvarlega.

Það er að vísu svo að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra er ekki kjörinn þingmaður en í raun hefur hann þingskyldum að gegna engu að síður af því að hann á sæti á Alþingi sem ráðherra (Gripið fram í: Og hann má flytja mál meira að segja.) og hann er formaður annars stjórnarflokksins. Það er undarlegt ef ekkert er með það gert að eftir því er ítrekað óskað að mönnum gefist færi á að eiga við hann orðastað, leggja fyrir hann spurningar og biðja hann að svara fyrir ábyrgð annars stjórnarflokksins á þessu máli, að ekkert er með það gert. Ég er ekki búinn að segja mitt síðasta orð í þessu, herra forseti, því einhver verður stundum að standa upp fyrir hönd þeirra hefða og þeirra venja sem hér á að halda í heiðri, að menn geti átt hér einarðlega orðastað. Það léttir ekkert minn málflutning í garð Framsóknarflokksins endilega ef hann ætlar að reyna að fela sig út úr umræðunni, þegja sig og sofa sig heima í rúmi út úr umræðunni. Hvar eru aðrir framsóknarmenn sem eiga að gegna þingskyldum eins og við hin? Ég hef yfirleitt ekki kveinkað mér mikið undan því að vera á fundum og jafnvel þó þeir teygist eitthvað á langinn. Mér finnst að það eigi ekki að vorkenna öðrum að gera þá slíkt hið sama. Við höfum öll okkar lögboðnu þingskyldur. Alþingismenn eru einu sinni ein sú stétt í landinu, nánast sú eina sem ég beinlínis veit um að það eru landslög að við eigum að mæta í vinnuna okkar. Það er brot á landslögum ef við mætum ekki í vinnuna okkar, (Gripið fram í.) hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. (SKK: Ég mæti í vinnuna.) Og ef við höfum ekki algerlega lögmæt og fullgild forföll þá eigum við að vera hér. Ég vil því ekki sætta mig við þessa niðurstöðu virðulegs forseta. Það eru ekki haldbær rök að hæstv. iðnaðarráðherra, formaður Framsóknarflokksins, Jón Sigurðsson, sé ekki flutningsmaður málsins, það er mér vel ljóst. (Gripið fram í: Hann er ekki alþingismaður.) Hann er ráðherra, hann hefur þingskyldur sem ráðherra og hann er formaður annars stjórnarflokksins síðast þegar ég vissi, var sóttur upp í Seðlabanka til að gegna því verkefni, taka það að sér. (Gripið fram í: …ráðherradómi …) Fara í það eftirsóknarverða starf eða hitt þó heldur. Það er ekki gamanmál í mínum huga, virðulegi forseti, hvernig Framsóknarflokkurinn er ber að svikum og ómerkilegheitum í þessu máli og það er þannig að menn eiga að standa reikningsskap gerða sinna á Alþingi, sem þingmenn og ráðherrar og ábyrgðarmenn stjórnarfrumvarpa. Þetta er stjórnarfrumvarp, stjórnarflokkarnir báðir bera á því ábyrgð, hver ein og einasti maður nema þeir hafi sagt sig frá því eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson ku hafa gert.

Nú er komið miðnætti, herra forseti, og ég var búinn að spyrja forseta að því fyrr í kvöld hversu lengi ég ætti að reikna með því að hér mundi standa fundur. Mér væri ekkert að vanbúnaði að gera hlé á ræðu minni ef svo bæri undir og ég ímynda mér þá að það hljóti að vera komið að þeim tímamótum því að nú breytist síðkvöldið í nótt og ekki hafði ég neinar upplýsingar um að hér stæði til næturfundur. Ég á líka eftir þennan orðastað við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem ég vil eiga, þannig að ég vil spyrja forseta að því hvort það sé meiningin að fresta nú fundi.

(Forseti (BÁ): Forseti vill í tilefni af ummælum hv. þingmanns geta þess að ætlun forseta er að halda umræðum áfram um sinn.)

Þetta eru nú afskaplega loðin svör, herra forseti. Er þetta eina lýsingin sem forseti kann hvað varðar tíma, þ.e. að tala í þessum véfréttarlega stíl „um sinn“? Það er endalaust sagt hér þó að klukkutímar líði á milli að það standi til að halda fundinum áfram um sinn. Þetta var nú sagt mikið fyrr í kvöld og ég verð að segja að þetta „um sinn“ er að verða nokkuð langt, eins og fraukan sagði, þetta fer nú að verða nokkuð langt.

Ég mótmæli því, herra forseti, að það sé ekki gert hlé á fundinum og iðnaðar- og viðskiptaráðherra sóttur eða þá að ég fái að gera hlé á máli mínu og við höldum umræðunni áfram þegar hann hefur aðstöðu til þess að koma í hús. Mér finnst þetta ekki boðlegt. (Gripið fram í.) Ég sætti mig ekki við það að svona (Forseti hringir.) sé komið fram við mig, herra forseti.

(Forseti (BÁ): Forseti vill ítreka þá afstöðu sína að ekki sé tilefni til að gera hlé á fundi þó að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra komi ekki. Forseti vill geta þess í tilefni af orðum hv. þingmanns að þingmenn Framsóknarflokksins, þar á meðal þeir hv. þingmenn sem setið hafa í menntamálanefnd og fjallað um málið þar hafa tekið þátt í umræðum bæði í dag og undanfarna daga. Og þótt að sjálfsögðu hafi verið orðið við ósk hv. þingmanns um að gera hæstv. ráðherra viðvart um beiðnina þá er ekki tilefni til að gera hlé á þingfundi þó að það hafi ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt.)

Já, herra forseti, ég hef komið mótmælum mínum á framfæri. Forseti ræður auðvitað, ég ætla ekki að vefengja vald forseta til þess að fara svona með forsetavald sitt þó að ég sé ósáttur við það og mér finnist það heldur ómaklegt, sérstaklega í ljósi þess að ég gerði ekki kröfur um það við 2. umr. að umræðu yrði þá frestað eða það fór ekki í meiri hörku þegar hið sama var uppi á teningunum að formaður Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, varð ekki við óskum um að koma til umræðunnar.

Þetta er auðvitað að verða mjög athyglisvert, herra forseti, ef formaður Framsóknarflokksins felur sig frá umræðunni aftur og aftur, ef formaður Framsóknarflokksins þorir ekki til umræðunnar um þetta mál, hvorki við 1., 2. né 3. umr. málsins. Er formaður Framsóknarflokksins með svona vonda samvisku? Er hann svona kjarklaus? Er hann svona kvöldsvæfur? Hvað veldur því að það er engin leið að aka formanni Framsóknarflokksins hingað til viðræðna um þessi mál? Er honum þetta eitthvað erfitt? (Gripið fram í: Hann er hræddur við málið.) Ja, það skyldi nú ekki vera að það væru einhverjar krumpur á formanni Framsóknarflokksins gagnvart þessu máli, en eigum við þá að vægjast við slíku? (Gripið fram í.) Er það ekki skylda formanns Framsóknarflokksins að svara fyrir sinn flokk og verk hans hér, hans pólitík, (Gripið fram í.) ábyrgð hans á málum af þessu tagi? Ég hefði nú haldið það, virðulegur forseti, að það væri ástæða til.

Ég ætla þá að ræða — þó að vísu þyki mér það miður — svolítið um Framsóknarflokkinn og þátt hans í þessum einkavæðingarmálum og þar með talið auðvitað og ekki síst hvað útvarpið snertir. Það var m.a. það sem ég ætlaði að eiga orðastað við formann Framsóknarflokksins um, tengja það sem nú á að fara að gera með Ríkisútvarpið við afrek Framsóknarflokksins á sama sviði að undanförnu, á undanförnum árum og missirum, en það er náttúrlega þó nokkur efniviður, herra forseti, eins og ég hef áttað mig á að forseti veit. Þar er af nógu að taka og ég get svo sem boðið upp á ýmislegt í þeim efnum eftir því hversu langt aftur við förum til árdaga, um aðkomu Framsóknarflokksins að málum af þessu tagi.

Þó væri enn skemmtilegra, hygg ég, fyrir menn að ég færi yfir hinn stutta kafla í ævi Framsóknarflokksins nú á seinni áratugum sem hann var í stjórnarandstöðu, því að þannig er nefnilega að Framsóknarflokkurinn var í stjórnarandstöðu árin 1991–1995 og hafði þá í raun og veru allt aðra afstöðu til þessara mála heldur en umsvifalaust eftir að hann komst í valdastólana, illu heilli, vorið 1995. Ég man t.d. eftir því þegar þáverandi varaformaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, var formaður efnahags- og viðskiptanefndar á þessum árum og þar komu inn einkavæðingarmál eins og Síldarverksmiðjur ríkisins og það var fjallað um fleiri mál sem tengdust eignarhaldi á ríkisfyrirtækjum og rekstrarformi þeirra. Í stjórnarandstöðu var Framsókn mjög gagnrýnin á það að vera að fara með þau fyrirtæki eins og Alþýðuflokkurinn sálugi og Sjálfstæðisflokkurinn þá voru að gera, vildi t.d. tryggja aðild þingsins að stjórnun þeirra fyrirtækja, a.m.k. svo lengi sem meiri hlutinn væri í eigu ríkisins, vildi ekki þá ráðherravæðingu sem síðar hefur orðið algjör regla í tilvikum af þessu tagi. Þegar opinberri stofnun, jafnvel stofnun eða fyrirtæki sem áður hafði þingkjörna stjórn, hefur verið breytt í hlutafélag þá hefur fyrsta verk manna ævinlega verið að henda öllu slíku út. Og til þess að gera hvað? Til þess að handvelja menn úr stjórnarflokkunum, menn handgengna ráðherrunum, stjórnarflokkunum, inn í stjórnirnar. Þetta kalla menn að láta af pólitískum afskiptum af fyrirtækjunum. Svona hefur þetta nú verið, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson.

Lýðræðislega og hvað varðar t.d. stöðu þingræðisins í landinu hefur verið stórfelld afturför fólgin í þessu. Helst vilja ráðherrarnir auðvitað bara hafa þetta þannig að þeir ráði þessu alveg einir en til vara má kannski hugsa sér, eins og lagt er til í frumvarpinu um Ríkisútvarpið, að menn séu kosnir af meiri hlutanum á Alþingi þannig að einfaldur meiri hluti ráði meiri hluta í stjórn viðkomandi fyrirtækis og það sé þá gert árlega þannig að menn geti örugglega komist að þessum málum um leið og þeir fá völdin í hendur og ráðskast með það.

Framsóknarflokkurinn, saga hans og aðkoma að þessum einkavæðingarmálum er náttúrlega alveg kapítuli út af fyrir sig. Ef við tökum t.d. bara aðild Framsóknarflokksins að þessu frá og með því að hann kemur til valda, skiptir inn á fyrir Alþýðuflokkinn 1995, þegar Viðeyjarstjórnin gaf upp öndina, þá er það nú þannig að í kjölfarið sigla m.a. breytingarnar á Pósti og síma. Ég hygg að ég muni það rétt að fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra, 2. þm. Norðaust., Halldór Blöndal, hafi verið búinn að ná að breyta Pósti og síma heitnum í Póst og síma hf., en ætli málið hafi ekki verið þar statt þegar Framsókn tók við af krötunum og í framhaldinu sigldi uppskipting fyrirtækisins líklega fyrst í Landssímann hf. og Íslandspóst og svo Símann og allt það. Þá er Framsókn komin að málum.

Þá hefst nú t.d. darraðardansinn og loforðaflaumurinn um Símann hjá Framsókn. Þá er það fyrst í stað þannig að Framsókn náttúrlega sver og sárt við leggur að ekki komi til greina að einkavæða Símann, það sé ekkert á dagskrá, það standi ekkert til. Ég held ég muni það rétt að þetta var í flokkssamþykktum hjá þeim á fyrstu árunum.

Síðan taka þeir til við að álykta um að kannski komi það til greina, og það lendir svo inni í stjórnarsáttmála ef ég man rétt, að einkavæða Símann eða gefa eftir eignarhald ríkisins á honum, en það verði aldrei gert með þeirra stuðningi nema dreifikerfinu sé haldið eftir. Skömmu síðar tók svo Samfylkingin upp þessa sömu stefnu en það er nú önnur saga. Þetta sögðu framsóknarmenn í næstu umferð um Símann þegar þeir voru byrjaðir að gefa eftir, byrjaðir að svíkja, að þeir gætu að vísu hugsað sér að selja Símann eins og þeir höfðu þó ekki ætlað að gera en dreifikerfið færi ekki með honum.

Svo lak þetta niður eins og allt annað og stjórnarflokkarnir gerðu tilraun til þess að selja Símann strax á árinu 2001 með dreifikerfinu, með öllu, með manni og mús. Það mistókst nú að vísu sem betur fer, mistókst hrapallega og þjóðin stórgræddi á því að það mistókst að selja Símann. Þjóðin varð einum 35 milljörðum kr. ríkari örfáum árum síðar þegar Síminn var svo loksins seldur, sem segir nú sitt um það hvers konar ráðslag þetta er og hversu góður bisness þetta er. Þjóðin græddi þetta vegna þess að Síminn var í millitíðinni á fjórum árum búinn að borga samtals milli 12 og 13 milljarða, ef ég man rétt, í arð og verðmæti fyrirtækisins hafði aukist yfir 20 milljarða, þannig að í staðinn fyrir að fara á þá áformuðu 40 milljarða rúma sem ætlunin var að selja Símann á, með stuðningi framsóknarmanna 2001, þá fór hann á hátt á sjöunda tug milljarða fjórum árum síðar eða svo.

Eftir stóðu svikin loforð Framsóknarflokksins, eftir stóðu ómerkilegheit Framsóknarflokksins. Eftir stóð að Framsóknarflokkurinn lét hafa sig í að einkavæða almannaþjónustu af tagi símans, fjarskiptanna, undirstöðu fjarskiptanna í landinu þó verið væri þar með að búa til fákeppniseinokunarrisa á viðkomandi sviði.

Þá skulum við aðeins minnast á bankana, herra forseti, eigum við aðeins að nefna bankana og frammistöðu Framsóknarflokksins þar? Áfram í verkunum fyrir Sjálfstæðisflokkinn meira og minna og nú beinlínis, því nú var það hlutverk viðskiptaráðherra að standa fyrir einkavæðingunni. Það voru nú stórkostlegar æfingar ef það væri allt saman rifjað upp. Ríkisviðskiptabönkunum er fyrst breytt í hlutafélög. Þá er sagt í greinargerð með stjórnarfrumvarpinu: Það kemur ekki til álita á næstu fjórum árum að breyta eignarhaldi ríkisins, það verður ekki gert. Það var svikið, eins og var reyndar líka svikið með fjárfestingarsjóði sem breytt var um svipað leyti og fóru þá leið sem raun ber vitni.

Síðan átti einu sinni að sameina bankana með glæsilegum hætti eða hitt þó heldur og samkeppnisyfirvöld komu í veg fyrir það. Svo tóku þeir sig til og seldu eða kannski væri nær að segja gáfu báða bankana í einu lagi á grundvelli helmingaskiptareglunnar þannig að annan bankann fengu aðilar sem voru öðrum stjórnarflokknum vel þóknanlegir og hinn bankann fengu framsóknarmenn, fengu tæki í hendur til að þéna á örfáum missirum tugi milljarða króna. Þetta er veruleikinn. Aðilar nátengdir Framsóknarflokknum fengu Búnaðarbankann og voru nokkrum missirum síðar tugum milljóna króna ríkari. Það er bara þannig.

Í þessari einkavæðingarsögu Framsóknarflokksins eru a.m.k. tvö rosaleg dæmi um það að þeir voru meira og minna að selja sjálfum sér ríkisfyrirtæki, bæði í tilviki Búnaðarbankans og Íslenskra aðalverktaka. Ég spái því að einhvern tímann muni duglegir sagnfræðingar framtíðarinnar grafast fyrir um og upplýsa þessa einkavæðingarsögu að því marki sem það verður yfir höfuð hægt, en hún er rosaleg. Vinnubrögð mörg í kringum þetta og hvernig menn hafa farið með almannaeigur og ráðstafað þeim og útdeilt með þeim aðstöðu til að auðgast og miklum völdum í viðskiptalífinu í leiðinni. Þetta er rosaleg saga. Hún er auðvitað ekki jafnsvört, enda ekki við því að búast í okkar þó þróaða réttarríki, eins og kannski rosalegustu dæmin úr austurhluta álfunnar þar sem ýmsir urðu flugríkir á örfáum umbrotamánuðum og -missirum. Til dæmis í Rússíá og þar um slóðir, hvaðan allt í einu komu nokkrir af ríkustu mönnum heims eins og hendi væri veifað og fluttu margir auðinn til Vesturlanda, keyptu sumir knattspyrnulið eða hvað það var. Þetta er þó býsna hliðstætt í míníatúrútgáfu sem hér hefur gerst.

Svo getur maður alltaf velt því fyrir sér hvort maður eigi að vera að segja svona lagað og tala svona því það lítur þá út eins og maður sé að vega að þeim mönnum sem þarna áttu í hlut, þ.e. af hálfu þeirra sem keyptu. Í raun er ekki við þá að sakast sem fóru að lögum og gripu þau tækifæri sem þeim voru rétt upp í hendurnar. Stjórnvöldin bera ábyrgðina. Þangað verður að vísa henni og alveg sérstaklega á Framsóknarflokkinn. Framsóknarflokkurinn hefur margt til að svara fyrir í þessum efnum. Það vantar mjög mikið upp á að vinnubrögðin hafi verið gagnsæ, hafin yfir gagnrýni og í reynd er þetta einkavæðingarferli, þegar það er betur skoðað, meira og minna varðað af aðfinnslum eftir á af hálfu aðila eins og Ríkisendurskoðunar, umboðsmanns Alþingis þess vegna og jafnvel hefur það fengið ágjöf fyrir dómstólum vegna þess að þetta var flausturslega og illa unnið og býður upp á mikla tortryggni svo ekki sé fastar að orði kveðið. Leikreglur voru búnar til jafnóðum og þeim breytt reglubundið til þess að þjóna pólitískum markmiðum stjórnarflokkana hverju sinni. Loforð voru svikin. Hlutum snúið á haus. Það sem í einni umferð var mjög mikilvægt, eins og t.d. hugtakið dreifð eignaraðild, snerist allt í einu í höndunum á mönnum upp í andstæðu sína. Ræðuhöld og útlistanir í greinargerðum frumvarpa um mikilvægi þess að tryggja dreifða eignaraðild að fjármálastofnunum var í næstu umferð allt í einu orðið að mikilvægi þess að finna kjölfestueiganda, kjölfestufjárfesti. Þá var komin réttlæting fyrir því að velja einn aðila og afhenda honum banka. Stundum þann sem bauð lægst í banka, bauð minnst fyrir hann. Á svo hátt stig komst snilldin hjá Framsókn að hún seldi þeim sem bauð minnst í hlutinn. Sá sem bauð lægst í banka var valinn til viðræðna um að kaupa hann. Þetta liggur fyrir. Þetta er alveg rosalegt. Það hlýtur að vera ömurlegt fyrir menn eins og hv. þm. Jón Kristjánsson, mætan sómamann, að fara út úr pólitík með þetta á bakinu. Að hafa átt aðild að því, stutt ríkisstjórn eða jafnvel setið í henni sem á slíka arfleifð og mun á spjöldum sögunnar fá þá ofanígjöf sem hún hlýtur að fá þegar þetta verður gert upp hvað þessi vinnubrögð öll varðar.

Að mörgu leyti hlýtur þetta að vera eitraðast inn á við í viðkomandi flokkum og þá auðvitað fyrst og fremst hjá Framsókn vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf viljað þetta. Sá er kannski munurinn á arfleið annars vegar Sjálfstæðisflokksins og hins vegar Framsóknar í þessu að í sjálfu sér hefur Sjálfstæðisflokkurinn bara verið að gera það sem allir vissu að hugur hans stóð til. Hann er meira og minna á móti því að nokkrir skapaðir hlutir séu í sameign og á félagslegum forsendum. Talsmenn hans hafa jafnvel gengið svo langt að segja að það sé svo mikilvægt að einkavæða hluti bara til að einkavæða þá og koma þeim í eigur og hendur á einkaaðilum að verðið skipti ekki aðalmáli. Einu sinni urðu fræg ummæli ónefnds ráðherra Sjálfstæðisflokksins um að þetta væri svo mikilvægt að þess vegna gæti verið réttlætanlegt að selja viðkomandi fyrirtæki eða stofnun á hálfvirði. Það væri svo mikilvægt og göfugt markmið að einkavæða að jafnvel þó að menn fengju ekki nema bara hálfvirði gæti það verið réttlætanlegt. Þannig hefur Sjálfstæðisflokkurinn hugsað. Þannig er nálgun hans, en Framsókn hefur alltaf verið að reyna að halda því að þjóðinni af og til að hún sé með einhverja félagslega hugsun eftir í þessum efnum. Henni sé ekki alveg sama, hún ætli að standa vörð um einhverja hluti, einhver gildi. Það er náttúrlega algjörlega ömurlegt að sjá hvernig hún hefur farið. Hvernig ætli það sé innan flokksins? Ætli það sé von að ástandið sé björgulegt þegar menn standa frammi fyrir hlutum af þessu tagi gagnvart trúnaði við sjálfan sig, stefnu sína og flokkssamþykktir sínar, eins og Framsóknarflokkurinn gerir nú gagnvart útvarpinu og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson fór rækilega yfir í kvöld.

Ég vildi ekki vera í þeim sporum. Ég öfunda þá ekki, framsóknarmennina, og hef svo sem aldrei gert, af því að vera með þá hluti á bakinu sem þeir eru með í þessum efnum gagnvart þjóðinni, gagnvart kjósendum sínum, fyrrverandi kjósendum sínum aðallega, og gagnvart flokknum, gagnvart sjálfsvirðingu sinni. Gagnvart því að gera ekkert með það sem menn álykta um á landsfundum, á því sem menn heita í kosningum. Auðvitað er Framsóknarflokkurinn genginn upp að hnjám. Hann er útslitinn af þjónkun sinni við tvennt, valdsetuna og Sjálfstæðisflokkinn, og ástand hans er auðvitað eins og raun ber vitni. Þess vegna getur maður kannski vorkennt einum manni umfram alla aðra og það er formaður Framsóknarflokksins. Það er auðvitað rosalegt hlutskipti sem einum manni er fært, að taka við þessum flokki. Það má að mörgu leyti kalla það hreystilegt af hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jóni Sigurðssyni, að gangast undir það að taka við hróinu eins og það var á sig komið síðastliðið sumar. Segja má að maðurinn sé kjarkmaður en það varð auðvitað að sækja hann út fyrir þingflokkinn. Varaformaðurinn lagði ekki í það og er nú að honum sótt, eins og kunnugt er, af öðrum forustumanni Framsóknarflokksins, formanni þingflokksins. Það segir kannski sína sögu um ástandið á bænum.

Herra forseti. Það er margt ósagt og margt óuppgert í þeim málum sem snúa að Framsókn og ferli þess flokks í einkavæðingarmálunum. Mér finnst að mörgu leyti að frumvarpið um Ríkisútvarpið, og eiginlega skiptir ekki máli úr þessu hver örlög frumvarpsins verða því að ásetningur Framsóknarflokksins liggur fyrir — það er að mörgu leyti ekki nógu góð samlíking að segja að það sé kórónan á sköpunarverkinu því það er kannski frekar kornið sem fyllir mælinn. Það er punkturinn yfir i-ið. Það fullkomnar niðurlægingu Framsóknarflokksins í þessum efnum. Það verður ekkert lengra gengið. Það er ekki hægt að leggjast miklu lægra en Framsókn er að gera í málinu vegna þess hvað á í hlut, vegna þess hvernig framsóknarmenn hafa talað í málinu gegnum tíðina, vegna þess hvernig þeir svíkja sjálfa sig og loforð sín. Þetta er væntanlega endirinn, lokakaflinn á löngu ferli í langri sögu þar sem er öll framganga Framsóknarflokksins í þessu einkavæðingar- og háeffunar- og markaðsvæðingarferli. Það er kannski táknrænt og rammar þetta inn með viðeigandi hætti að það skuli þá vera að síðustu þegar Framsóknarflokkurinn er á síðustu metrum stjórnarþátttöku sinnar vonandi í mjög langan tíma. Í raun getur ekkert annað legið fyrir því ef einhver flokkur undir sólinni þarf á langri endurhæfingu að halda er það Framsóknarflokkurinn. Um það eru flestir sammála og væntanlega flokksmenn þar einnig. Afrekin verða þá ekki fleiri í bráð. Það má treysta því að þetta sé síðasta málið af þessu tagi sem Framsókn getur sett mark sitt á um mjög langt árabil í íslenskum stjórnmálum. Það verður þá mjög táknrænt að síðustu svikin, síðasta uppgjöfin, síðasta niðurlægingin í sögu Framsóknar var Ríkisútvarpið. Þess munu menn mjög minnast.

Virðulegur forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka fyrir að þessu sinni miklu fleiri efnisþætti í málinu. Ég sé ekki endilega ástæðu til að flytja stærri hluta ræðu minnar um Framsókn aðallega vegna að (Gripið fram í: Við viljum fá Jón Sigurðsson.) ekki hefur verið orðið af ósk minni um að formaður Framsóknarflokksins kæmi hingað til fundar. Mér finnast forsetarnir, satt best að segja, ekki standa sig neitt sérstaklega vel í stykkinu í þessum efnum. Það er umhugsunarefni hvernig forsetar á Alþingi hugsa orðið hlutskipti sitt oft og tíðum. Ég hef velt því talsvert fyrir mér upp á síðkastið að það er eins og hægt og hljóðlega hafi læðst aftan að okkur dálítil breyting í þeim efnum, að forsetarnir upplifi sig einhvern veginn, sérstaklega forsetar meiri hlutans sem eru yfirleitt tilkallaðir og sitja oftast í stólnum þegar harðnar á dalnum, ekki með sama hætti og ég upplifði að forsetar gerðu fyrr á árum. Þeir tóku alltaf upp þykkjuna fyrir þingið og réttindi þingmanna ef þeir áttu þess kost, innan ramma þess að verða auðvitað að virða vilja þingmeirihlutans sem þeir voru hluti af ef lýðræðislega var um það búið að þar hefðu verið samþykktir einhverjir hlutir sem lutu að afgreiðslu mála eða öðru slíku.

Það er nefnilega misskilningur að forsetar eigi að hlýða fyrirmælum ráðherra. Það er algjör misskilningur. Forsetar verða eðlilega að taka mið af því sem meiri hlutinn á Alþingi ákveður. Það er ljóst. En það eru ekki ráðherrarnir sem slíkir. Ráðherrarnir starfa í umboði meiri hlutans. Þeir sækja umboð sitt til hans en ekki öfugt. Meiri hluti stjórnarliðsins á Alþingi sækir ekki umboð sitt til ráðherrana. Er þetta farið að snúast eitthvað við, herra forseti? Er ykkur farið að finnast, herra forseti, að þið sækið umboð ykkar til ráðherrana? Að þangað farið þið eftir fyrirmælum? Það er spurning. Er þetta af einhverri hlífð, af vægð við ráðherrana sem þeim er hlíft við því að koma og svara fyrir ábyrgð sína á stjórnarathöfnum og stjórnarfrumvörpum eins og þeir eiga að gera samkvæmt stjórnarskrá landsins?

Ég veit að forsetinn er vel að sér í stjórnarskránni. Hann veit að ráðherrar eiga að koma og svara fyrir stjórnarathafnir og ábyrgð sína á stjórnarathöfnum á þingi. Það er stjórnarskrárvarinn réttur okkar þingmanna að ráðherrar geri það. Við sitjum báðir í stjórnarskrárnefnd, ég og virðulegur forseti, og við vitum þetta. Ég verð því að segja alveg eins og er að ég er býsna hugsi yfir því og mér finnst það býsna dapurlegt að forsetar skuli láta eins og þeir þurfi ekki að taka óskir, rökstuddar beiðnir af því tagi sem ég hef sett fram alvarlega. Öðruvísi mér áður brá.

Ég fullyrði það, virðulegi forseti, að fyrir eins og 15–20 árum hefði það ekki gerst að formaður stjórnarandstöðuflokks hefði sett fram beiðni af því tagi sem ég hef gert ítrekað í þessum umræðum um að formaður annars stjórnmálaflokks, stjórnarflokks í þessu tilviki, kæmi til umræðunnar. Það hefði ekki gerst að þeirri beiðni hefði verið hafnað eða hún hunsuð. Ég get alveg fullyrt það, að þó virðulegur forseti fari í þingtíðindin og fletti upp á þessum hlutum hefði ekki verið komið svona fram við mann fyrir 15–20 árum síðan. Menn báru meiri virðingu hver fyrir öðrum þá. Menn tóku skyldur sínar sem þingmenn og ráðherrar alvarlegar en menn eru greinilega farnir að gera í dag. Menn höfðu meiri metnað fyrir hönd þingsins og réttindanna sem hér eru lögvarin og stjórnarskrárbundin.

Eitt er víst, að forsetar voru ekki svona mjúkir í hnjáliðunum gagnvart sínum eigin ráðherrum. Það var ekki þannig. Ég hygg að það hafi verið forseti úr stjórnarandstöðunni sem var á forsetastól þegar ég var einu sinni vakinn upp heima hjá mér og drifinn fram úr rúminu að ganga þrjú um nótt vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal hafði óskað eftir viðveru minni í efri deild. Ég dreif mig í fötin og spýttist hingað niður eftir en náði samt ekki að komast í fundarsal efri deildar áður en hv. þm. Halldór Blöndal var genginn þaðan út engu að síður hafandi sett fram þessa kröfu og við mættumst á tröppunum. En að það hvarflaði að mér að verða ekki við beiðninni, það kom ekki til greina. Þá var það einfaldlega þannig að menn mættu, stóðu sína plikt, svöruðu fyrir störf sín og lögðu mikið á sig til þess að gera það af því að mönnum var það skylt. Auðvitað líka vegna þess að reynslan kann að hafa kennt mönnum og gæti átt eftir að gera það oftar, að með því greiddu þeir fyrir þingstörfum. Forseti er ekki að greiða fyrir þingstörfum með því að hunsa þessa beiðni mína. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, er ekki að greiða fyrir þingstörfum með því að sofa heima í rúmi þegar ég hef ítrekað beðið hann um að koma hingað til þess að eiga við mig orð. Ég hélt kannski að einhverjir myndu það að ég hef ekki alltaf tekið slíku þegjandi þegar ráðherrar hunsa það að koma í salinn og svara spurningum eins og þeim ber að gera.

Hæstv. forseti er því ekki búinn að bíta úr nálinni með þetta. Forsetar sem hafa átt hér mikinn fund á bak við mig og ráðgast mikið og ráðslagast saman ættu kannski að hugsa sinn gang. Ég er t.d. tilbúinn til þess, virðulegur forseti, að gera hlé á máli mínu ef forseti vill gera eins og 15 mínútna fundarhlé og ræða málin. Ég er til í það. Býð forseta upp á það. Það væri ágætt að fá viðbrögð við því hvort forseti hefði áhuga á að þiggja slíkt boð. Einstöku sinnum hefur verið gripið til þess ráðs ef mönnum er eitthvað að daprast flugið í fundarstjórn og tökin á framvindu þingstarfanna kannski ekki sem best að þá hreinlega hugsi menn málið. Beri menn saman bækur sínar, taki sér hlé, skjóti á fundi og ræði saman. Til dæmis að formenn þingflokka sem hér eru á svæðinu og forsetinn haldi smá fund. (Gripið fram í: Það vantar reyndar þingflokksformann Framsóknar.) Nú er spurning hvort forseti vilji bregðast við ummælum mínum og óskum og svara tilboði mínu.

(Forseti (BÁ): Forseti er ekki viss um að það sé tilefni til að gera hlé á þingfundi að svo stöddu og óskar eftir því við hv. þingmann að hann haldi áfram ræðu sinni.)

Ég verð að segja eins og er að mér finnast undirtektir forseta heldur fara versnandi og daprast í hverri umferð. Það er frekar sjaldgæft að eftir langan og strangan vinnudag og mikinn fund sé ekki einu sinni hægt að gera örstutt fundarhlé þannig að menn geti borið saman bækur sínar. Ég ætlaði t.d. að nota tækifærið og biðja um að gengið yrði úr skugga um það með samtölum við formann Framsóknarflokksins hvort hann hygðist yfir höfuð koma hér eitthvað til umræðna um þessi mál.

Ég á vissulega eftir annað tækifæri. Ég á aðra ræðu eftir í málinu til þess að eiga við hann orðastað og geri það ekki að sáluhjálparatriði hvort ég næ til hans nú, sem hefði auðvitað verið eðlilegast, eða að það verði seinna. Mér finnst það ekki ganga, mér finnst það ekki ná nokkurri átt, m.a. í ljósi þeirra pólitísku tíðinda sem urðu í kvöld þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flutti mál sitt, að formaður Framsóknarflokksins komist upp með að hunsa umræðuna. Láta eins og hún sé ekki til. Ég legg þá til að formaður Framsóknarflokksins segi af sér. Ég legg til að hann viðurkenni ósigur sinn og uppgjöf ef hann getur ekki komið til þings og svarað fyrir sinn flokk og ábyrgð hans á þessum málum. Þá finnst mér að formaður Framsóknarflokksins sé ekki á réttri hillu. Þá finnst mér að hann eigi bara að leita aftur í fyrri störf. Vita hvort hann getur ekki fengið sér vinnu í banka því það er eitt af meginhlutverkum forustumanna í stjórnmálum að bera ábyrgð og axla hana við aðstæður af þessu tagi.

Nú hefur einn þingmanna Framsóknarflokksins sagt sig alveg frá málinu. Farið mjög hörðum orðum eða þungum mundi ég kannski frekar segja um það hvernig Framsóknarflokkurinn hefur unnið í málinu. Svikið samþykktir sínar o.s.frv. Við sem þekkjum til framgöngu framsóknarmanna á þessu sviði erum sama sinnis. Þess vegna er það með endemum ef þannig er komið fyrir Framsókn að hún á engan sem getur komið og reynt að bera af henni blak. Engan sem getur komið og svarað fyrir hana.

Umræðu eftir umræðu felur formaður Framsóknarflokksins sig í málinu. Lætur ekki sjá sig. Auðvitað má segja að það sé ákveðin tegund af svörun. Það má kannski þegar maður fer að hugsa málið velta því fyrir sér hvort það séu ekki einmitt sterkustu svör sem formaður Framsóknarflokksins getur veitt okkur, að þora ekki, að láta ekki sjá sig. Að megna ekki að koma og reyna að vera formaður Framsóknarflokksins eins og honum sé það bara fyrirmunað, hann valdi því ekki. Hann ráði ekki við það. Samviskan bjóði ekki upp á það. Kjarkurinn nægi ekki. Málstaðurinn sé svo hroðalegur að af tvennu illu velji formaður Framsóknarflokksins að fela sig eins og flestir framsóknarmenn hafa gert nema einstöku manneskjur sem hafa komið og rætt um einhver tæknileg atriði málsins.

Virðulegur forseti. Það var ekki ætlun mín að þvæla um þetta. Ég tel mig hafa flutt efnislega ræðu og vel rökstudda. Ég hef haldið mig við efni málsins. Ég hef farið yfir efni frumvarpsins. Ég hef rætt pólitískar kringumstæður þess og undir lokin ætlaði ég að gera að aðalumtalsefni þá þætti sem snúa að ábyrgð stjórnarflokkanna og þá sérstaklega Framsóknarflokksins vegna þess að hann er öðruvísi staddur í málinu að ýmsu leyti en Sjálfstæðisflokkurinn. Sá er líka munur á að hæstv. menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur verið til staðar undir umræðunni meira og minna, ég sé hana reyndar ekki í salnum sem stendur. Það má því segja að það hafi verið með fullnægjandi hætti séð fyrir því að annar stjórnarflokkurinn væri representeraður.

(Forseti (BÁ): Forseti vill gjarnan inna hv. þingmann eftir því hvort hann telji að hann eigi langt eftir af ræðu sinni.)

Ég á þó nokkuð eftir. Þessi miðkafli minn sem átti að snúa að Framsóknarflokknum og formanni hans verður að vísu eitthvað styttri sökum aðstæðna en til stóð en það eru nokkur atriði eftir sem ég hef ekkert komist í svo sem eins og að ræða frumvarp okkar þingmanna VG um málið, stöðu virðulegs menntamálaráðherra, hæstv. ráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur. (Gripið fram í.) Ég ætlaði aðeins að fara yfir það vegna þess að ég verð að segja alveg eins og er að ég hef af því mikla ömun hvernig hæstv. ráðherra er að fara út úr málinu og hef af því dauðans áhyggjur að þetta skaði pólitískan feril hennar og það mundi taka mig þó nokkra stund að gera því máli viðhlítandi skil. Ég hlýt því að svara því svo að ég eigi þó nokkuð eftir af ræðu minni.

(Forseti (BÁ): Forseti telur þá rétt í ljósi aðstæðna að gera örstutt fundarhlé og hyggst eiga samræður við þá formenn þingflokka sem hér eru staddir til þess að ræða framhald fundarins. Verður fundi því frestað í 15 mínútur eða þar um bil og gert ráð fyrir að við byrjum aftur fimm mínútur fyrir eitt. Fundi er frestað.)