133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

lífeyrisréttindi starfsmanna RÚV – málefni Byrgisins.

[10:41]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á sameiginlegum fundi fjárlaganefndar og félagsmálanefndar í morgun um málefni Byrgisins var hunsuð sú ósk okkar í minni hlutanum að halda fundi áfram í nefndinni og að bera fram ósk til forseta þingsins um að fundi yrði frestað á meðan við fengjum að ræða áfram stöðu Byrgisins og það alvarlega mál sem upp er komið. Við höfðum einungis tíma til að ræða við ríkisendurskoðanda á þeim tíma sem við höfðum, tvo klukkutíma, og áttum auðvitað eftir að ræða við ráðuneytin. Eins og staða málsins er núna beinast spjótin mjög að félagsmálaráðuneytinu.

Úttektin sem gerð var 2002 að beiðni utanríkisráðuneytisins sem skýrsla hafði legið fyrir um allar götur síðan er miklu alvarlegri en mig grunaði. Þar kemur m.a. fram að fjármálastjórn Byrgisins sé í molum. Samt var skýrslan ekki kynnt fjárlaganefnd og ekki ríkisendurskoðanda. Ríkisendurskoðandi vissi ekki um þetta mál fyrr en nú í nóvember. Það er auðvitað mjög alvarlegt að meiri hlutinn hafi samt sem áður haldið áfram fjárveitingum til Byrgisins alveg frá 2003. Það er alveg ljóst að miðað við þessa svörtu skýrslu sem lá fyrir 2002 hefði ekki átt að semja við Byrgið árið 2003 um fjárframlög miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir.

Það liggur fyrir samningur sem átti að gera sem ekki er undirritaður, hvorki af Byrginu né félagsmálaráðuneytinu, þar sem m.a. kemur fram að það hafi átt að skila reglulega ársreikningum. Ríkisendurskoðandi átti að hafa eftirlit með Byrginu o.s.frv. Ekkert af þessu hefur gengið eftir. Staða málsins er mjög alvarleg, virðulegi forseti, og auðvitað hefði átt að gefa félagsmálanefnd eðlilegan tíma á þessum morgni til að fjalla um þetta mál.

Ekki eru öll kurl komin til grafar í þessu efni. Það verður fundur aftur í fyrramálið en ég ítreka það að staða málsins er miklu alvarlegri en mig óraði fyrir.