133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

lífeyrisréttindi starfsmanna RÚV – málefni Byrgisins.

[10:51]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það er eðlilegt að hv. þingmenn veki sérstaka athygli á því að það var sameiginlegur fundur í morgun með fjárlaganefnd og félagsmálanefnd um hið alvarlega mál sem tengist Byrginu sem er því miður væntanlega aðeins táknrænt um það sem við getum átt von á mjög víða. Þetta er algjörlega í anda þess sem við höfum margoft bent á við afgreiðslu fjárlaga og alla þá vinnu, að kæruleysið og vinnubrögðin sem viðhöfð eru eru fyrir neðan allar hellur. Það er ekki síst, því miður, í ráðuneytunum og eftirlitsskyldu þeirra sem virðist vera ábótavant.

Við fengum það upplýst í morgun, án þess að ég ætli að fara efnislega yfir þau mál heldur aðeins vekja athygli á þeim, að hvorki fjárlaganefnd né Ríkisendurskoðun höfðu hugmynd um að gerð hefði verið skýrsla um starfsemi Byrgisins árið 2002, skýrsla sem skilar nákvæmlega sömu niðurstöðu og skýrsla Ríkisendurskoðunar nú. Þessi skýrsla var til í félagsmálaráðuneytinu, því ráðuneyti sem gerir síðan samning við viðkomandi aðila án þess að hann sé undirritaður af viðkomandi aðilum en þrátt fyrir það virðir ráðuneytið þann hluta samningsins sem snýr að útdeilingu fjármuna. Aðrir hlutar samningsins liggja til hliðar.

Frú forseti. Þess vegna var full ástæða til að óska eftir því í morgun að fundir nefndanna fengju að halda áfram þannig að ræða mætti málið við ráðuneytið í samhengi við það sem kom fram í máli ríkisendurskoðanda. Því miður skal allt annað víkja vegna þeirrar þráhyggju sem hér hefur tekið völdin varðandi Ríkisútvarpið.

Frú forseti. Er ekki kominn tími til að málum sé raðað í forgangsröð í þingsölum?