133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:06]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Í morgun fór fram ágætur fundur með ríkisendurskoðanda, sameiginlegur fundur fjárlaganefndar og félagsmálanefndar um málefni Byrgisins og skýrslu þá sem Ríkisendurskoðun hefur gefið út um málefni Byrgisins. Það kom fram ósk um að þingfundi yrði frestað til að fara betur yfir það mál. Þá þegar lá fyrir að það þyrfti mjög langa umfjöllun um málið og ósk um að fleiri aðilar en félagsmálaráðuneytið kæmu til viðræðu við nefndirnar þannig að þá þegar var það ljóst að þó svo þingfundi hefði verið frestað um klukkutíma, þá hefði ekki verið komin nein niðurstaða í þetta mál af hálfu nefndanna. Þær kröfur sem hafa verið uppi í morgun eru hluti af þeim leik sem menn eru að spila hér varðandi afgreiðsluna á frumvarpinu um Ríkisútvarpið. Það liggur svo ljóst fyrir að við þurfum í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð um það.

Menn tala um mikilvægi mála og það er algerlega augljóst af þeirri mælendaskrá sem liggur fyrir um frumvarpið um Ríkisútvarpið að menn telja það mjög mikilvægt mál. Ég held að það væri kannski ráð að menn færu að vega og meta það hvað væri mikilvægast hér í umræðum í þinginu (Gripið fram í.) þegar óskir liggja svona sitt á hvað, hv. þingmaður. Menn tala um herlög og kalla það hinum ýmsu nöfnum að hér skuli vera haldnir þingfundir um svo mikilvæg mál sem menn vilja ræða. Það sést af mælendaskránni þannig að það er algerlega ljóst af minni hálfu að ég tel að það sé mjög mikilvægt að við höldum áfram þeirri umfjöllum sem stendur yfir um Ríkisútvarpið. Við þurfum lengri tíma í fjárlaganefnd og félagsmálanefnd til að fjalla um málefni Byrgisins og þar hefur verið óskað eftir bæði upplýsingum og gestum á fundi sem hefði ekki verið lokið í dag þó hæstv. forseti hefði tekið þá ákvörðun að fresta þessum fundi í einn klukkutíma.

Þetta vildi ég láta koma fram, hæstv. forseti, að málinu hefði ekki verið lokið af hálfu nefndanna þó svo að forseti hefði frestað fundi.