133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:08]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs undir fundarstjórn forseta til að vekja athygli hæstv. forseta á því að það frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu, Ríkisútvarpið ohf., felur í sér samkvæmt áliti margra lögfræðinga mjög svo alvarlegan galla. (GÓJ: Er þetta mál ekki á dagskrá á eftir?) Það er yfirleitt þannig þegar menn eru með svona frammíköll og annað þá eru þeir að taka þátt í að reyna að fela þennan galla. Þetta er mjög alvarlegur galli Guðjón, við skulum taka þetta alvarlega. (GÓJ: Á ekki að ræða þetta undir dagskrárliðnum?) Nei. (Gripið fram í.)

(Forseti (SP): Forseti biður þingmenn um að gefa hv. ræðumanni hljóð.)

Frú forseti. Þessi galli snýst um að verði þetta frumvarp samþykkt muni það fella úr gildi lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna gagnvart þeim starfsmönnum sem starfa hjá Ríkisútvarpinu. Það segir í frumvarpinu að þessi lög eigi að gilda áfram um starfsfólkið en ef frumvarpið verður samþykkt, sem ég vona að verði aldrei, en ef svo færi að það yrði samþykkt þá verða starfsmennirnir ekki lengur opinberir starfsmenn og þar af leiðandi falla þessi lög úr gildi, frú forseti.

(Forseti (SP): Forseti vill spyrja hv. þingmann hvort hann sé að ræða um fundarstjórn forseta eða efni frumvarpsins sem er hér á dagskrá í dag.)

Frú forseti. Ég er að benda á galla í frumvarpinu, mjög svo alvarlegan galla.

(Forseti (SP): Það gerir hv. þingmaður undir þeim lið sem er á dagskrá þegar hann fer á mælendaskrá en ekki undir liðnum um fundarstjórn forseta.)

Já, það má vel vera að það sé nýliðabrek, frú forseti, en …

(Forseti (SP): Það eru ekki nýlegar breytingar.)

Nýliðabrek, það má vera að það sé nýliðabrek, frú forseti.

(Forseti (SP): Nýliðabrek, það má vera, hv. þingmaður.)

[Hlátrasköll í þingsal.] Frú forseti. Ég tel nauðsynlegt að upplýsa forseta um þetta af því að þrátt fyrir að ég hafi haldið mjög langa ræðu um þetta mál þá eru menn að reyna að úthrópa mig sem einhvern varðhund starfsmanna Ríkisútvarpsins en ég er með nokkur lögfræðiálit fyrir því að hér er galli, og ég trúi því ekki, frú forseti, að forseti vilji áfram láta ræða um frumvarp sem inniheldur svona stóran galla. Það kippir úr sambandi öðrum lögum. En kannski eru menn að ræða þetta hér áfram af því að það er akkúrat megintilgangur frumvarpsins, að kippa úr sambandi lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Enda er, frú forseti, þegar byrjað að vinna eftir frumvarpinu. Eins og ég tók fram í ræðu minni er útvarpsstjóri byrjaður að vinna eftir frumvarpinu. Hann sagði það sjálfur í Viðskiptablaðinu að hann væri byrjaður að ráða starfsfólk án þess að auglýsa af því að hann hafi ekki haft þolinmæði til að bíða eftir að frumvarpið yrði samþykkt.