133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:28]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Það vill svo vel til að ég ætlaði einmitt að ræða mjög stutt um fundarstjórn forseta. Spurning mín til hæstv. forseta sem ég óska eftir að fá svar við sem allra fyrst er ofur einföld.

Meðal þingmanna er rætt að það sé hugmynd forseta Alþingis að hafa fund allan næstkomandi föstudag og allan laugardag. Ef þessi hugmynd er í gangi krefst ég þess að það verði látið koma fram núna. En til að spara mér eina ferð í ræðustól undir þessum lið vil ég segja þetta, virðulegi forseti: Að mínu mati kemur það ekki til greina.

Þannig er mál með vexti að búið er að boða kjördæmaþing næstkomandi laugardag í a.m.k. tveimur kjördæmum hjá þremur flokkum og menn höfðu að sjálfsögðu starfsáætlun Alþingis fyrir framan sig. Sjálfstæðisflokkurinn í Suðurkjördæmi ætlar að taka sitt kjördæmi og klára listann ef ekkert kemur upp á. (Gripið fram í: Hvað getur komið upp á?) Það geta orðið einhver tæknileg mistök við boðun fundarins. Sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi ætla að koma saman á Mývatni næsta laugardag og ganga frá sínum lista. Samfylkingin í Norðausturkjördæmi hefur boðað fund næsta laugardag. Og síðast en ekki síst er prófkjör, er það ekki, hjá framsóknarmönnum í Suðurkjördæmi næsta laugardag.

Ég vil því fara þess á leit, virðulegi forseti, að fá svar við því hvort það sé virkilega hugmynd forseta að verði umræðu um hið umdeilda einkavæðingarfrumvarp ríkisstjórnarinnar um Ríkisútvarpið ekki lokið séu uppi hugmyndir um að halda fund fram eftir degi á föstudag og síðan á laugardag.

Þetta er erindi mitt, virðulegi forseti, og ég þakka fyrir áminningu um að ræða fundarstjórn forseta. Ég óska eftir því að fá skýr svör svo ég þurfi ekki að koma áfram fram eftir þessum degi. Vegna þess að það segir sig sjálft að það er töluvert mál að boða fólk alls staðar úr kjördæmi til kjördæmaráðsfunda. Þeim verður ekki raskað út af hálfgerðum herlögum sem nú ríkja á Alþingi og ég held að sú vá sem það virðist vera fyrir íslenska þjóð að geta ekki klárað umræðu um einkavæðingu Ríkisútvarpið á allra næstu dögum sé ekki svo mikil að ekki sé hægt að doka við.

Virðulegi forseti. Ég óska eftir skýru svari við þessari spurningu undir liðum um fundarstjórn forseta.