133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:34]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég ítreka spurningar sem hafa komið fram til hæstv. forseta um hvernig þinghaldinu verði hagað, bæði í dag og svo er orðrómur kominn upp um að hér eigi líka að vera þinghald á morgun og laugardag. Ég vil inna hæstv. forseta eftir því hvort forseti hafi ekki hjá sér starfsáætlun fyrir vorþingið og hvort forseti hyggist þá ekki fara eftir þeirri áætlun sem þar er.

Það er til lítils að samþykkja áætlun um starfsdaga þingsins ef ekki er svo farið eftir henni. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, talaði um að við ættum ekki að þurfa að vera að ræða um herlög. Ég er alveg sammála henni í því. Það er dapurlegt að við þingmenn skulum þurfa að taka okkur þau orð í munn að það sé hreint eins og sett hafi verið herlög á Alþingi. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er dapurlegt að þurfa að taka sér svoleiðis orð í munn og ég vona að við þurfum ekki að gera það oft.

Í morgun funduðu nefndir um starfsemi Byrgisins. Forseti sagði í gær að nefndinni yrði gefið nægilegt svigrúm til að fara ofan í það mál. Við það var ekki staðið í morgun, ekki að mínu mati. Það var búið að kalla saman tvær nefndir, félagsmálanefnd og fjárlaganefnd, út af grafalvarlegu máli. Það var óskað eftir því að nefndirnar fengju rýmri tíma, nauðsynlegan rýmri tíma. Allir voru sammála um að það þyrfti rýmri tíma til að fara í gegnum þetta mál. Forseti hafði lofað því í gær. Forseti ítrekaði úr forsetastóli áðan að nefndum yrði gefinn nægur tími til að fara ofan í það mál. En við það var að mínu mati ekki staðið í morgun.

Þetta er grafalvarlegt mál sem snertir faglega ábyrgð stjórnsýslunnar, ráðuneytis, Alþingis, snertir fjárhagslega ábyrgð og meðferð fjármuna ríkisins, stjórnsýslulega ábyrgð ráðuneytis og þeirra sem þar fara með ábyrgð.

Ég spyr enn virðulegan forseta hvort forseti hafi sett sig inn í alvarleika þessa máls þannig að ekki megi taka það á dagskrá þingsins í staðinn fyrir að setja hér herlög til að keyra í gegn einkavæðingu Ríkisútvarpsins, mál sem er ekki einu sinni á dagskrá, ekki (Forseti hringir.) einu sinni í ríkisstjórnarsáttmálanum, mál sem Framsóknarflokkurinn hefur aldrei samþykkt en ætlar þó að styðja hér.

(Forseti (SP): Forseti vill nú taka undir þá ábendingu sem hefur komið fram hér áður. Það er ákaflega óviðkunnanlegt að tala um að herlög hafi verið sett á Alþingi.)