133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:37]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kem hér í annað sinn í þessari viku, á örfáum dögum, til að gera hæstv. forseta viðvart um það að enn berst ekki svar við fyrirspurn sem ég bar upp við hæstv. menntamálaráðherra á þskj. 565 þann 7. desember sl. Samkvæmt þingskapalögum hefur hæstv. ráðherra 10 virka daga til að svara fyrirspurninni.

Hún er mikilvæg fyrir málið sem við hér ætlum að fara að ræða, Ríkisútvarpið ohf., því að ég spyr um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins miðað við 1. desember 2006. Ég óska eftir nánari útlistun en hægt er að sjá í niðurstöðu matsnefndar þeirrar sem var falið að semja mögulegan stofnefnahagsreikning fyrir hið nýja félag. Ég bið um að þar verði tilgreindar helstu stærðir í efnahags- og rekstrarreikningi, þar með talin sundurliðun á skuldum og um stöðuna gagnvart ríkissjóði. Sömuleiðis bið ég um sambærilega stöðu í lok áranna 2004 og 2005.

Ég tel þessar upplýsingar mjög mikilvægar fyrir framhald umræðunnar. Ég tel mig ekki geta flutt mína síðari ræðu í málinu án þess að þessar upplýsingar liggi fyrir.

Það hefur verið hringt á vegum Alþingis upp í menntamálaráðuneyti á hverjum degi þessa viku til að kanna hvar málið er statt. Ævinlega er sagt: Jú, jú, þetta mun vera tilbúið og kemur í dag eða á morgun.

Þetta er allsendis óásættanlegt, hæstv. forseti. Ég bið hæstv. forseta að hlutast til um að svar við þessari fyrirspurn verði lagt fram í þingsölum eigi síðar en núna strax.

(Forseti (SP): Forseti mun kanna þetta mál.)