133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þinghaldið fram undan o.fl.

[11:39]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nú er að verða kominn sólarhringur síðan ummæli þau féllu af hálfu forseta Alþingis sem ég spurði hér eftir í gær og harma ég að ekki skuli hafa tekist að halda þannig á málum að hinn kjörni forseti þingsins hafi fengið tækifæri til að svara fyrirspurnum mínum.

Þær fjölluðu um það að í hádegisfréttum Stöðvar 2 í gær skýrði forseti, hinn kjörni, það út fyrir þjóðinni að ástandið sem hér hefur verið kennt við herlög, forseti, væri jú því að kenna, að hluta til að minnsta kosti, og eina ástæðan sem forsetinn nefndi, að það væri ótakmarkaður ræðutími við 2. og 3. umr. um frumvörp. Þetta þekktist hvergi á byggðu bóli, að minnsta kosti ekki hér í kringum okkur. Hvergi á þjóðþingum nágrannalandanna.

Það getur vel verið. Ég þekki eitt þjóðþing þar sem þetta tíðkast. Það er sjálf öldungadeild Bandaríkjanna en það er sjálfsagt ekki nágrannaland í þeim skilningi þótt það sé það í einhverjum öðrum skilningi.

Forseti þarf þá að taka fram hvar í þjóðþingum nágrannalandanna það þekkist að ekki nema örfá mál frá þingmönnum úr stjórnarandstöðu fái umræður og afgreiðslu heldur sofni í nefndum, að þingnefndir hafi ekki rannsóknarvald og að þingið geti ekki, eða sé að minnsta kosti ekki leyft, að kjósa rannsóknarnefndir.

Hvar ráðherraábyrgð er háttað í nágrannalöndunum með þeim hætti sem hér er, að hún er engin, ráðherra getur tekið á sig hvaða ábyrgð sem er og gert hvað sem er án þess að sæta henni nokkurn tíma — nema þá í kosningum — veit ég ekki.

Hvar í nágrannalöndunum er háttað um sjálfstæði þingsins eins og er hér á Íslandi? Að það er knúið áfram og drifið áfram af framkvæmdarvaldinu fram og aftur. Hvar í nágrannalöndunum er það haft þannig að forseti þingsins hagi sér ekki eins og forseti allra þingmanna, heldur eins og hann sé í vinnu hjá framkvæmdarvaldinu?

Það er þetta sem við þurfum að skýra í heild sinni þegar fjallað er um ástandið hér á þinginu, bæði núna í dag og á umliðnum árum. Þegar forseti þingsins skýrir út hvernig standi á því að þingið gengur ekkert hjá honum þarf hann að líta yfir allt sviðið og ekki að taka eitt atriði út úr, sem satt að segja, forseti góður, hljómar eins og hótun forseta gagnvart þingmönnum sem hér eru að ræða þau mál sem á dagskrá eru.