133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

málefni Byrgisins, þingstörfin fram undan o.fl.

[12:03]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki á mér setið að koma örstutt í umræðu um fundarstjórn út af því hvernig þessi umræða hefur þróast og taka það sérstaklega fram að ég hef til margra ára verið mikill talsmaður þess að gera breytingar á störfum þingsins, að það starfi lengur yfir árið, styttri hlé gildi um þingið og skipulagið sé allt annað en það er í dag. Sjálf hef ég mikla sannfæringu fyrir því að með þannig breytingum mundum við nálgast til muna betri vinnubrögð á öllum sviðum.

Auk þess hef ég jafnframt verið talsmaður þess að setja ræðutíma í bönd, en ekki bara til þess að fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafi hér völdin í þinginu, ráði öllu og ráði hver ræðutíminn verður og að við leikum okkar hlutverk innan hans. Ég hlýt að geta þess, virðulegi forseti, að alls staðar annars staðar á Norðurlöndunum er þetta með öðru lagi en hér. Þar er ræðutíminn í böndum en þar kemur stjórnarandstaðan ríkulega að stjórn þinganna. Oftast eða mjög oft er forseti þingsins frá stjórnarandstöðunni auk þess sem í miklu ríkari mæli fer fram mikil umræða innan nefndanna sjálfra og þær ákveða hversu langur ræðutími verður um hvert mál og hvernig honum er skipt.

Í sumum þinganna er hefðin sú að ræðutími er þannig ótakmarkaður að ef að þingmönnum er þrengt er hægt að taka upp þennan óbundna ræðutíma. Ég hlýt að nefna það hér þar sem er svo rík hefð fyrir meirihlutastjórnum, þar sem er svo mikið meirihlutavald, að ef við viljum þróa þetta þing inn í framtíðina verður þessu að fara að linna.

Af hverju hef ég þá kvatt mér hljóðs hér? Það er vegna þess að ég vil koma því á framfæri í tengslum við það mál sem hér er verið að ræða núna að frá Danmörku, sem að svo miklu leyti er fyrirmynd fyrir okkur í löggjöf og í þinghaldi, hefur einn æðsti embættismaður í því þingi sagt mér að engri ríkisstjórn, sama hvaða meiri hluta hún hefur, mundi detta í hug að fara með þingmál í gegn með meirihlutavaldi ef það snertir almannahag. Þá sé leitað samstarfs og stuðnings þannig að á bak við það mál sé allt að 80% stuðningur þingmanna. Þetta er það sem viðgengst annars staðar.

Hér horfum við á töfluna aftur og aftur í stórum málum og það eru 20 þingmenn sem gera mál að lögum. Þessu þarf að breyta, virðulegi forseti, en við skulum muna það (Forseti hringir.) í allri umræðunni að það þarf að horfa til beggja hliða.