133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[12:10]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég tel á þessu stigi rétt að fara yfir nokkur atriði sem hafa verið rædd hér á undanförnum dögum vegna frumvarps sem nú er til umræðu um Ríkisútvarpið ohf. Þetta hafa verið langar og efnismiklar ræður, margar hverjar, enda um mikið hagsmunamál að ræða. Ég er fegin að heyra að það er samhljómur á hinu háa Alþingi um að við viljum stuðla að því að efla Ríkisútvarpið, styrkja það í því hlutverki sem því ber að sinna. Það er fyrst og fremst almannaþjónustuhlutverkið og fyrir mína parta menningarþjónustan og -hlutverkið sem það á að gegna enda eru gerðar ríkari kröfur en áður til Ríkisútvarpsins í gegnum þetta frumvarp og þann þjónustusamning sem liggur fyrir og þau drög sem fylgja með frumvarpinu sem fylgiskjöl.

Ég ætla að fara yfir nokkur atriði en ég verð engu að síður að ítreka það sem ég sagði áðan. Ég tel afar mikilvægt að þingið hafi tækifæri til að ræða mikilvæg mál eins og þetta með umfangsmiklum hætti eins og við höfum gert núna á undanförnum dögum. Það er afar mikilvægt að þegar þingmenn, stjórn sem stjórnarandstaða, vilja ræða mikilvæg mál fái þeir tækifæri til þess. Þess vegna vil ég sérstaklega hrósa forseta fyrir að hafa veitt þetta svigrúm, að þingið fái tækifæri til þess að tjá sig og þingmenn tækifæri til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í mikilvægum málum.

Það hefur verið gert. Það hefur sérstaklega verið komið til móts við stjórnarandstöðuna hvað það varðar að veita hér svigrúm til þess að tjá sig um málefni Ríkisútvarpsins. Það er gott og það er vel. Síðan er alltaf álitamál hversu lengi menn eiga að tjá sig. Hér eru kjarnyrtir menn og konur sem eiga að geta komið orðum að því sem þeim liggur á hjarta, hvernig þau telja að málefnum Ríkisútvarpsins sé best komið.

Ég er sannfærð um að sú leið sem hér er farin er sú sem mun leiða til farsældar fyrir Ríkisútvarpið. Við munum og við þurfum — og það hefur ekki mátt segja það í þessum þingsal — að nútímavæða Ríkisútvarpið, hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon. Við þurfum að gera það en það virðist sem ekki megi ræða það. Ég tel að allt annað sé, liggur við, draugar aftan úr grárri forneskju, að ekki megi ræða það að breyta Ríkisútvarpinu þótt það sér alveg ljóst að í núverandi mynd sé okkur ekki lengur stætt á að hafa Ríkisútvarpið. Það er ljóst að ESA hefur mikilvægar og alvarlegar ábendingar varðandi Ríkisútvarpið eins og það er rekið nú undir núverandi fyrirkomulagi og skipulagi.

Ég fann það áðan þegar ég ámálgaði hvað búið væri að ræða þetta lengi — í rauninni má líka taka undir með hv. þingmanni sem leggur þetta allt saman saman, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, formanni menntamálanefndar, þegar við erum búin að ræða þetta frumvarp. Menn hafa sagt: Það er verið að ræða sama frumvarpið. Menn hafa sagt hér í ræðum: Þó að það sé búið að ræða þessi mál á þremur þingum er þetta nokkurn veginn sama frumvarpið. Einn orðaði það svo: „með litlum breytingum“. Ég tel reyndar að við höfum gert veigamiklar breytingar á frumvarpinu af því að við höfum komið til móts við hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni, t.d. hvað varðar upplýsingalögin, og í mikilvægum atriðum hefur verið rétt út sáttarhönd sem menn hafa sem betur fer sammælst um að taka í. Ég vil t.d. benda á að ákvæði upplýsingalaga er nú komið inn í frumvarpið sem var eitt af þeim meginatriðum sem menn ræddu hér um að þyrfti að koma inn, t.d. sagði varaformaður Samfylkingarinnar að það væri eitt af mikilvægu atriðunum. Hann nefndi reyndar bara tvö, annars vegar ritstjórnarlegt sjálfstæði og hins vegar það að um þetta ættu að gilda upplýsingalög. Ég vil sérstaklega ítreka að það er komið inn.

Við erum búin að margræða þetta mál og allir eiga að þekkja efnisatriðin mjög vel, allir þessir vel læsu menn sem eru hér á hinu (Gripið fram í.) háa Alþingi. Það er svo í pottinn búið að við erum búin að ræða þetta mál lengur en, eins og ég gat um áðan, menn ræddu á tveimur þingum um það að vera aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Við erum búin að ræða málefni Ríkisútvarpsins lengur en það, við erum búin að ræða málefni Ríkisútvarpsins lengur en t.d. menn ræddu á sínum tíma um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Þar voru nefndarfundir 18, gestir 116 og umræður í 57 klukkustundir. Það er reyndar mál sem var rætt á kaffistofum almennings og á hinum ýmsu vinnustöðum í landinu. Ég hef ekki orðið þess vör að menn séu á torgum úti að ræða málefni Ríkisútvarpsins (Gripið fram í.) með þessum hætti eins og menn halda.

Ég vil sérstaklega benda á það að við höfum rætt þetta mun lengur eins og hefur reyndar komið fram í blöðum í dag, við höfum rætt þetta tvisvar sinnum lengur en þegar samþykkt var að fara í Kárahnjúkavirkjun. Ég veit að hv. þm. Einar Már Sigurðarson, stóriðjuþingmaðurinn mikli fyrir hönd Samfylkingarinnar, var afar ánægður með að það mál skyldi komast í gegn en það er rétt að það verði líka undirstrikað að það voru þingmenn Vinstri grænna sem einir stóðu að málþófi á sínum tíma varðandi það mál og héldu líka þá uppi málefnalegri andstöðu svo að því sé til skila haldið.

Það er ágætt að setja þetta, frú forseti, í samhengi við þau mál sem hafa verið okkur hugleikin í þessum þingsal. Við erum búin að ræða núna Ríkisútvarpið í um 110 klukkustundir. EES-samningurinn var ræddur á tveimur þingum í 100 klukkustundir og 36 mínútur, fundir í nefndunum voru 11. Ég undirstrika að fundir í menntamálanefnd út af þessu máli hafa verið 39 og gestir út af þessu máli, Ríkisútvarpinu, 151 en þeir voru 46 vegna Evrópska efnahagssvæðisins. (Gripið fram í.) Það var á tveimur árum eins og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson veit. Það var rætt um Evrópska efnahagssvæðið á tveimur þingum eins og menn vita sem þekkja löggjöfina og söguna.

Þegar menn hafa þennan tíma í huga sem eytt hefur verið í umræður er eðlileg spurning sem maður fær gjarnan núna: Hvenær fá lýðræðislega kjörnir þingmenn — og það er eitt af meginhlutverkum og ein af meginskyldum þingmanna, að greiða hér atkvæði? Ég tel með allt þetta gáfaða og greinda fólk, kjarnyrta menn eins og hv. þm. Ögmund Jónasson, formann BSRB vel að merkja líka, að það geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri á 110 klukkustundum varðandi þetta mál. (Gripið fram í.) Ég held að menn geti komið á framfæri sjónarmiðum sínum varðandi þetta málefni á þeim tíma sem það hefur verið rætt þannig að við getum tekið til við það hlutverk okkar að greiða atkvæði í málinu.

Er það lýðræði að koma í veg fyrir að þingmenn geti greitt atkvæði? Ég segi nei. Ég tel að við eigum eftir þessar miklu umræður — ég er vel að merkja ekki að segja að menn eigi endilega að fara að stytta mál sitt, ég vil bara að það komi eitthvað nýtt fram, eitthvað annað, einhverjar málefnalegar ábendingar varðandi málið. Engu að síður ætla ég að fara núna yfir þau atriði sem hafa komið hvað mest til umfjöllunar og rétt að ítreka það sem komið hefur fram að við erum að sjálfsögðu að ræða þetta mál til þess að stuðla að því að farsæld Ríkisútvarpsins verði enn meiri en hún er í dag. Við erum komin að ákveðnum tímamótum í sögu útvarpsins, Ríkisútvarpið býr við annað umhverfi en það bjó við þegar því var komið á laggirnar fyrir rúmum 75 árum eða svo og þess vegna er mikilvægt að það hafi tækin og tólin til þess að takast á við nýja tíma.

Af hverju erum við þá að breyta þessu? Jú, við erum að breyta þessu til þess að Ríkisútvarpið geti staðið undir þeim kröfum sem við gerum til þess og það er fyrst og fremst á sviði menningarþjónustunnar, alhliða þjónustunnar, alþjónustukvaðarinnar gagnvart Ríkisútvarpinu, að það verði með öfluga fréttaþjónustu og öfluga innlenda dagskrárgerð. Það er hægt að gagnrýna okkur sem tilheyrum stjórnvöldum fyrir að við höfum ekki fyrr skilgreint hlutverk Ríkisútvarpsins jafnskilmerkilega og gert er í þessu frumvarpi. Við erum að forgangsraða fjármununum í þágu íslenskrar dagskrárgerðar, í þágu fréttaþjónustunnar og í þágu öryggishagsmuna þjóðarinnar. Þetta er það sem við erum að gera.

Við erum sannfærð um að leiðin til þess er að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins í það form sem við þekkjum vel. Og hvaða form þekkjum við vel, hvaða rekstrarform þekkjum við vel og treystum og er algilt og alþekkt? Það er að sjálfsögðu hlutafélagaformið. Við erum að breyta því hér í opinbert hlutafélag.

Það dylst engum sem fylgst hefur með rekstri Ríkisútvarpsins á síðustu árum að það form sem nú er á rekstri Ríkisútvarpsins er farið að há stofnuninni verulega. Það liggur jafnframt fyrir vegna alþjóðlegra skuldbindinga okkar eins og ég kom inn á áðan að okkur er nauðsynlegt að afmarka með skýrum hætti almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins, þ.e. þann hluta sem nýtur góðs af opinberum stuðningi og síðan hitt að flokka það sérstaklega sem fellur undir samkeppnisreksturinn. Óbreytt ástand er í rauninni ekki líðandi, við verðum að breyta því og við leitum þá að sjálfsögðu til þess rekstrarforms sem við þekkjum. Það er ekki út af engu sem hér hafa verið samþykktar lagagreinar um opinber hlutafélög. Ef við samþykkjum lagagreinar um opinber hlutafélög hljótum við náttúrlega að gera ráð fyrir því að nota slík ákvæði. Ég fullyrði að lagagreinar um opinber hlutafélög eru í rauninni nær ríkisrekstri en t.d. tillögur Samfylkingarinnar um sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið, fyrir utan það að sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið er mjög þungt í vöfum. Af hverju er það þungt í vöfum? Af því að lagaramminn um sjálfseignarstofnanir er mjög óljós, það gilda mjög óljósar reglur um sjálfseignarstofnanir.

Hvað þýðir það? Það þýðir að við þyrftum að niðurnjörva í löggjöfina allt sem snertir Ríkisútvarpið og stjórnunina og hvernig skipulag þetta ætti að vera. (Gripið fram í.) Við sjáum hvernig það er og við sjáum náttúrlega núna í dag, frú forseti, hvernig það er að breyta lögum um Ríkisútvarpið. Það er ekkert áhlaupaverk að breyta lögum um Ríkisútvarpið miðað við hvernig þingmenn tala og haga sér. Ég spyr líka: Af hverju eru þá ekki fleiri fyrirtæki rekin undir sjálfseignarstofnunarfyrirkomulaginu? Af því að menn þekkja ekki nægjanlega vel til fyrirkomulagsins og það er óhagræði að sjálfseignarstofnunarfyrirkomulaginu. Þess vegna eigum við að nota það sem við þekkjum vel og hefur reynst afar vel hjá grannþjóðum okkar, t.d. Norðmönnum. Það hefur verið bent á það að Danir eru með sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið. Víst er það, en þar er lagaramminn miklu skýrari um sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagið en hér og þar er það miklu algengara fyrirkomulag en hér. Við eigum auðvitað að líta til íslensks veruleika þegar við veljum rekstrarform. Við eigum að beita því sem við þekkjum og horfa á íslenskan veruleika.

Þess vegna bendi ég enn og aftur á það að lagaákvæði um opinber hlutafélög henta vel í þessu máli og henta ekki einungis fyrirtækjum sem rekin eru í hagnaðarskyni, heldur hentar það þvert á móti flestum rekstri betur en önnur form. Rekstur Ríkisútvarpsins er mjög umfangsmikill, hann er flókinn og hlutafélag í þeim tilvikum er mun hentugra rekstrarform en önnur. Af hverju er það? Til dæmis vegna þess að stjórnkerfi hlutafélaga er mun fastmótaðra, það er gegnsærra og það er formbundnara stjórnkerfi en annarra, (MÁ: … hluta… …) t.d. sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagsins sem Samfylkingin hefur (Gripið fram í.) boðað að hún styðji, fyrir utan varaformanninn. (MÁ: Hvað með hlutafélaga…?)

Það er rétt að það komi fram líka að menn hafa sagt að það sé lítill stuðningur við frumvarpið, m.a. voru bornar brigður á þau orð útvarpsstjóra í grein sem hann skrifaði að það væri mikill stuðningur við frumvarpið. Síður en svo. Í margumtalaðri skoðanakönnun, sem er rétt að menn fari aðeins yfir, skoðanakönnun sem er gerð á um tveggja ára fresti — á tveggja ára fresti er gerð skoðanakönnun hjá Ríkisútvarpinu. (Gripið fram í: Um frumvarp …?) Það er greinilegt að menn þekkja ekki þá almannaþjónustukvöð sem hvílir á Ríkisútvarpinu, menn gjamma fram í af mikilli vanþekkingu. Það er hlutverk Ríkisútvarpsins að átta sig á viðhorfi landsmanna til Ríkisútvarpsins. Þetta er alþekkt og þeir sem hafa starfað hjá Ríkisútvarpinu (Gripið fram í: … frumvarp …) eiga að vita það.

Fyrir tveimur árum frekar en fjórum var spurt um viðhorf landsmanna til afnotagjalda. Ríkisútvarpið er að reyna að fylgjast með því hvert viðhorf landsmanna er til Ríkisútvarpsins hverju sinni. Það er spurt um dagskrá, það er verið að spyrja um alls konar hluti er tengjast Ríkisútvarpinu og fyrir tveimur árum var spurt um viðhorf landsmanna til afnotagjaldanna, hvort fólk vildi frekar taka upp nefskatt — sem það vildi reyndar, frekar en afnotagjöld — og þetta árið var farið yfir ýmsa þætti, þar á meðal og eðlilega yfir viðhorf landsmanna til fyrirhugaðrar breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Það vill svo til að í þessari reglubundnu könnun Ríkisútvarpsins á viðhorfi landsmanna til Ríkisútvarpsins kom í ljós að meiri hluti landsmanna er fylgjandi breytingum á rekstrarformi Ríkisútvarpsins, (ÖJ: Þetta er ósatt.) (Gripið fram í.) er fylgjandi breytingum á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. (LB: Hefur ráðherra skoðað könnunina?) (Forseti hringir.) Það er rétt að ítreka að það er meiri hluti sem (ÖJ: Það er farið með ósannindi.) er fylgjandi því. (Gripið fram í.) Síðan er rétt að draga — (Gripið fram í: … prósent …) (Forseti hringir.) (ÖJ: Það er verið að fara með ósannindi.) Það er ekki rétt.

(Forseti (JóhS): Forseti vill biðja hv. þingmenn að hafa inngrip í ræðu menntamálaráðherra hófleg. Þingmenn komast að eftir að ráðherra lýkur máli sínu og þó að það kryddi vissulega tilveruna hér að vera með frammíköll má öllu ofgera.) (Gripið fram í: … prósent.)

Það er rétt að taka fram að ég hef sérstaklega skoðað könnunina og af þeim sem tóku afstöðu er meiri hluti þjóðarinnar fylgjandi þessari breytingu. Ég þakka frú forseta fyrir þetta inngrip og vek jafnframt athygli á því að hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem kallar hér fram í, er víst næstur á mælendaskrá og þá getur hann tjáð hug sinn einmitt til okkar sem tilheyrum Alþingi varðandi m.a. skoðanakönnun, þessa alþekktu og reglubundnu skoðanakönnun sem Ríkisútvarpið lætur framkvæma reglulega og allir menn eiga að vita og þekkja til sem hafa unnið hjá Ríkisútvarpinu, vita að svona er gert. (Gripið fram í.)

Ég hef farið sérstaklega yfir það af hverju við ákváðum að fara þessa leið. Við sjáum að það er góð reynsla af þessu í Noregi. Það er líka rétt að undirstrika að athugasemdir ESA, eins og sumir hafa reynt að segja hér, snerti rekstrarfyrirkomulagið. Ég veit að hv. þingmenn, sérstaklega þeir sem eru í menntamálanefnd, hafa farið yfir gögnin frá ESA, hafa lesið þau gaumgæfilega. Þá mega þeir sjá að athugasemdir ESA snerta ekki rekstrarfyrirkomulag stofnunarinnar, síður en svo. Norðmenn, sem eru með hlutafélagaformið, eru líka með ákveðið mál í gangi fyrir ESA, einmitt hvað fellur undir samkeppnisrekstur annars vegar og hins vegar alþjónustukvöðina. Athugasemdir ESA snerta því ekki rekstrarformið, heldur það hvað eigi að flokka undir alþjónustukvöð og hvað ekki.

Þá er líka rétt að undirstrika það, af því að ég er komin út í það að ræða ESA, að menn hafa haldið því fram að hér hafi gögnum verið leynt en það er ekki þannig. Undir eins og beiðnir hafa borist frá þingnefndum og þingmönnum hefur sérstaklega gögnum frá ESA verið komið á framfæri við viðkomandi þingmenn. Formaður nefndarinnar, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, lét sérstaklega hringja í nefndarmenn í menntamálanefnd til þess að láta að vita að gögnin væru komin strax og þau voru komin. (Gripið fram í.) Þannig hefur þetta verið. Aftur á móti finnst mér sú umræða er tengist meintri leynd, sem er náttúrlega algjör fásinna og ekkert annað en fyrirsláttur — ég segi enn og aftur að ef ESA hefði ekki komið til hefði bara verið fundið eitthvað annað til að jarma um.

Síðan er það hitt, af því að menn tala um að það hafi komið þeim á óvart að ESA skuli hafa skrifað fleiri bréf og það hafi verið frekari samskipti á milli ráðuneytisins og ESA, (Gripið fram í.) af hverju kom það mönnum á óvart? Ef menn hefðu lesið gögnin sem fyrir lágu í menntamálanefndinni, sem þegar lágu fyrir, máttu menn eðlilega sjá að samskipti ESA og ráðuneytisins halda áfram, ekki síst út af því sem m.a. kemur fram í minnihlutaáliti menntamálanefndar, að ESA er ekki búið að móta stefnu hvað varðar alþjónustuhlutverkið eða hvað varðar nýja þjónustu sem fellur undir alþjónustuhlutverkið.

Eftir hverju er verið að bíða? Eftir hverju er ESA að bíða? Er hún ekki að bíða eftir okkur? Nema að því leytinu til að ESA getur ekki klárað málið af sinni hálfu fyrr en við erum búin að samþykkja frumvarpið. Það er alveg ljóst að ef við samþykkjum ekki breytingar á núverandi fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins munu athugasemdir ESA koma mjög fljótt fram. (Gripið fram í.)

Síðan er hitt að það er sérstakt að fylgjast með því að vinstri grænir skuli með Ögmund Jónasson í broddi fylkingar í þessu máli skýla sér á bak við það að það þurfi að bíða með málið, m.a. út af ESA og framkvæmdastjórn ESB. Öðruvísi mér áður brá. Vinstri grænir eru núna byrjaðir að bíða eftir fyrirmælum frá Evrópusambandinu. Kannski er um stefnubreytingu að ræða. Hver veit?

En það er alveg ljóst að það truflar ekki ESA hvað t.d. Norðmenn varðar að þeir taka undir hlutafélagaformið. Rekstrarformið skiptir engu máli varðandi ESA þannig að það sé alveg skýrt. Allt annað er fyrirsláttur.

Ég ræddi um stuðning ýmissa við frumvarpið og það var viðkvæmt að ræða hér að meiri hluti þjóðarinnar er fylgjandi breytingum á rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins samkvæmt skoðanakönnun sem gerð var. Það er líka rétt að undirstrika að Bandalag íslenskra listamanna hefur lýst yfir stuðningi sínum við það að breyta því. FK hefur gert það líka. Síðan má að að sjálfsögðu rifja upp stuðning ýmissa einstaklinga eins og (Gripið fram í.) þeirra ágætu samfylkingarmanna Jakobs Frímanns Magnússonar, Gunnar Svavarssonar frá Hafnarfirði og Ágústs Ólafs Ágústssonar, varaformanns Samfylkingarinnar, sem hafa lýst því yfir að þeir eru hlynntir því að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag. Samfylkingunni er þá ekki alls varnað. Við verðum að segja það sem satt er. Samfylkingunni er ekki alls varnað í þessu máli.

Ég vil fara hér stuttlega yfir þau atriði er snerta ESA. Ég vil samt fyrst byrja á lífeyrismálunum og þá þeirri umræðu sem hefur verið vegna lífeyrismála starfsmanna Ríkisútvarpsins. Ég vil sérstaklega minna á að starfsmenn sem eiga aðild að stéttarfélögum innan heildarsamtaka opinberra starfsmanna eins og BHM, KÍ og BSRB hafa rétt á aðild í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, svo lengi sem þeir eiga aðild að viðkomandi stéttarfélagi, enda liggi samþykki vinnuveitenda fyrir þeim skuldbindingum sem aðildinni fylgja frá vinnuveitanda, þ.e. mótframlaginu.

Því hefur verið lýst yfir, rétt að undirstrika það, m.a. af Páli Magnússyni útvarpsstjóra fyrir hv. menntamálanefnd, og ég get líka staðfest það hér, að hið nýja félag muni samþykkja mótframlag að A-deildinni í samræmi við gildandi lög um lífeyrissjóðina og samþykktir hans. (ÖJ: Hvað með nýráðna?)

Ég vil taka undir með hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að ég tel mikilvægt þegar verið er að breyta ríkisstofnunum í hlutafélög eins og gert hefur verið og við þekkjum vel á öðrum sviðum að hið sama gildi um þá starfsmenn þessarar ríkisstofnunar sem verið er að breyta í hlutafélag. Nema að einu leyti er þetta mál frábrugðið, þ.e. að biðlaunarétturinn helst til ársins 2009, m.a. út af ýmsum breytingum sem eru fyrirhugaðar á afnotagjaldinu og tengist innheimtudeildinni. (Gripið fram í.) Það er líka alveg ljóst að það hefur verið mikið samráð og mikil samvinna, veit ég, meðal forstöðumanna Ríkisútvarpsins við starfsmenn hvernig og með hvaða hætti verði farið í samningaviðræður þegar þar að kemur.

Ég tel ekki rétt að taka samningsréttinn af starfsmönnum Ríkisútvarpsins ohf. þegar fram í sækir. (Gripið fram í.) Ég tel rétt að þeir hafi réttinn og ákveði hvort þeir láti sín félög, þau þrjú félög sem eru starfandi innan Ríkisútvarpsins, semja fyrir sig ef þeir svo kjósa að þeir myndi eitt félag til að semja fyrir sína hönd. Ég tel mér ekki stætt á því að taka þennan samningsrétt af starfsmönnum Ríkisútvarpsins. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Formaður BSRB, Ögmundur Jónasson, formaður þingflokks Vinstri grænna, vill taka þennan samningsrétt af starfsmönnum Ríkisútvarpsins.

Ég tel miklu skipta að starfsmenn Ríkisútvarpsins fái sjálfir að semja um það og ákveða hvaða fyrirkomulag þeir hafa þegar þeir fara í samningaviðræður þegar þar að kemur og samningar renna út.

Ég vil einnig minna á að starfsmenn sem eru aðilar að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eiga einstaklingsbundinn rétt á áframhaldandi aðild skv. 2. mgr. 30. gr. laganna um lífeyrissjóðinn og ber þá viðkomandi einstaklingur ábyrgð á greiðslu til sjóðsins, þ.e. eigin iðgjaldi og mótframlagi vinnuveitanda.

Ég vil einnig segja að framangreind réttarstaða starfsmanna Ríkisútvarpsins við flutning starfa þeirra yfir til hins opinbera hlutafélags er nákvæmlega sú sama og ég gat um áðan og tíðkast hefur í sambærilegum málum. Ég minni á að samkvæmt frumvarpinu er, eins og ég gat um áðan, starfsmönnum Ríkisútvarpsins að auki tryggður áframhaldandi biðlaunaréttur verði starf þeirra lagt niður, fram til 31. desember 2009. (Gripið fram í.)

Þarna er um aukinn rétt að ræða (ÖJ: Nei, þetta er skerðing á réttindum.) frá því sem (Forseti hringir.) tíðkast hefur við breytingu á rekstrarformi ríkisstofnunar. (ÖJ: Það er verið að afnema með lögum … rétt.)

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja þingmenn um að takmarka frammíköll sín og leyfa hæstv. ráðherra að ljúka hér máli sínu. (ÖJ: Það er erfitt …) Flestir þeirra sem hér hafa gripið fram í eru á mælendaskrá. Ég hef sagt að hófleg frammíköll séu í lagi en það er allt of mikill órói í salnum. )

(ÖJ: … Það er svo mikið um ósannindi.)

Menn hafa rætt hér lífeyrismál starfsmanna Flugstoða ohf. og réttindamál starfsmanna Ríkisútvarpsins. Ég vil undirstrika að þau eru ósambærileg eins og m.a. formaður menntamálanefndar hefur upplýst og fram hefur komið á fundum nefndarinnar þar sem starfsmenn RÚV eiga aðild að heildarsamtökum starfsmanna ríkisins en því var ekki til að dreifa um flugumferðarstjóra sem boðin var síðan vinna hjá Flugstoðum. Það er rétt að menn átti sig á þeim mun sem er á starfsmönnum þessara fyrirtækja.

Alltaf hefur verið sett fram sú klisja að þetta sé bara eitt skrefið í átt að einkavæðingu RÚV. Ég vil undirstrika að enginn stjórnmálaflokkur er með það á stefnuskrá sinni að selja Ríkisútvarpið. Enginn. Enginn stjórnmálaflokkur í landinu hefur það á stefnuskrá sinni að selja Ríkisútvarpið, miklu frekar erum við að ræða um það hvernig hægt er að efla og styrkja Ríkisútvarpið til þess að það geti sinnt því sem við viljum að það sinni, þ.e. öflugri alþjónustu og almannaþjónustu, menningarhlutverki o.fl., m.a. sem er tiltekið í viðkomandi samningi sem fylgir með frumvarpinu.

Þetta frumvarp breytir engu um það ef menn vildu einhvern tímann í framtíðinni einkavæða Ríkisútvarpið. (Gripið fram í.) Þetta frumvarp breytir engu. Það er alveg ljóst að það þarf alltaf meiri hluta þingsins og það er í raun sama um hvaða form við værum að ræða, núverandi fyrirkomulag eða annað, það er hægt að leggja núverandi fyrirkomulag stofnunarinnar og í rauninni stofnunina niður með einföldum meiri hluta á þingi. Það sama gildir að sjálfsögðu um það frumvarp sem við ræðum hér. Ef menn vilja þarf bara einfaldan meiri hluta til að selja Ríkisútvarpið og ég ítreka enn og aftur að það er ekki á dagskrá hjá neinum stjórnmálaflokki.

Það væri svo sem ágætt að ákveðnir þingmenn innan stjórnarandstöðunnar, sérstaklega innan Samfylkingarinnar, færu að gera upp við sig hvort um ríkisvæðingu er að ræða eða einkavæðingu. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hefur haldið fram hinu fyrra og fullyrt að hér væri um aukna ríkisvæðingu að ræða. Það kom fram sama dag og annar hv. þingmaður skrifaði að það væri örugglega um einkavæðingu að ræða, sú væri afleiðing þessa frumvarps. Ég bið hv. stjórnarandstöðuþingmenn að koma fyrst skipulagi á hugsanir sínar og stefnu og koma sér saman um það út á hvað þetta frumvarp gengur, hvort um einkavæðingu eða ríkisvæðingu sé að ræða.

Í rauninni er það ekki mikilvægast. Mikilvægast í þessu er að við erum að efla Ríkisútvarpið til að það geti sinnt þeirri skyldu og þeim kröfum sem við gerum til þess alla jafna. Við erum að forgangsraða fjármunum Ríkisútvarpsins í þágu innlendrar dagskrár, í þágu menningardagskrár til okkar allra og um leið efla dreifikerfið o.fl. sem fellur undir skyldur Ríkisútvarpsins.

Það er rétt að undirstrika nokkuð varðandi ESA og samkeppnismálin. Ég vil ítreka að athugasemdir ESA snerta ekki rekstrarformið. Samskipti ráðuneytisins og ESA hafa verið þannig að þessar stofnanir, ESA og menntamálaráðuneytið, hafa verið að vinna saman að því hvernig best er að útfæra alþjónustuákvæðið.

ESA gerir engar athugasemdir við 3. gr. frumvarpsins eins og hún liggur fyrir, annars vegar í frumvarpinu og hins vegar í dagskrársamningnum sem er fylgiskjal með frumvarpinu. Hún gerir heldur engar athugasemdir við 4. gr. þar sem fjallað er um samkeppnishlutann. Það er rangt sem hér hefur verið haldið fram, að þetta sé allt eitthvað óljóst. Þetta er alveg skýrt af hálfu ESA.

Mér finnst hálfmiður að heyra löglærða menn efast um að sérlög gangi framar almennum lögum og vil því undirstrika að svo er. Sérlög ganga framar almennum lögum. Ríkisútvarpið fellur undir samkeppnislög nema hvað varðar 3. gr. sem er alþjónustugrein.

Hver hefur þá eftirlit? Það ræddum m.a. við ESA. Ég viðurkenni það alveg að ESA fannst það ekki nægilega skýrt í byrjun en við erum búin að fara yfir það mjög gaumgæfilega, líka í nefndinni, hver hefur þá eftirlit með alþjónustunni og alþjónustukvöðinni, 3. gr. Og hver er það? Það er ríkisendurskoðandi. Það er alveg skýrt að það er ríkisendurskoðandi sem mun hafa eftirlit með því að Ríkisútvarpið, sú alþjónusta sem það býður upp á, falli undir 3. gr. um almannaþjónustuna. Samkeppniseftirlitið hefur umsjón með öðru af því að þar koma samkeppnislögin til skjalanna.

ESA hefur haft þessa umsjón og þetta eftirlit með því hvað fellur undir almannaþjónustuna og hvað fellur undir ríkisstyrkjareglur EES. Það er ESA sem hefur komið með þær ábendingar og þetta er alveg á tæru og alveg skýrt. Frumvarpið, eins og það liggur fyrir og hefur verið unnið, og samningurinn er hvort tveggja alveg skýrt og fellur vel að því sem gengur og gerist í öðrum löndum Evrópu. Við erum ekki að gera neitt umfram það sem önnur ríki Evrópu eru að gera. Við erum að gera það sem er alþekkt. Við erum að gera það sem er alkunna í Evrópu. Það er það sem við erum að gera.

Það hefur líka komið upp sá misskilningur að auglýsingar á milli dagskrárliða sem falla undir almannaþjónustu valdi því að erfitt sé að aðskilja milli almannaþjónustu og samkeppnisrekstrar. Í 5. og 6. gr. almannaþjónustusamningsins eru mjög ítarleg fyrirmæli um aðskilnað bókhalds, verðlagningu auglýsinga og eftirlits með bæði almannaþjónustu og samkeppnisrekstri. Þar er sérstaklega kveðið á um upplýsingagjöf Ríkisútvarpsins til ríkisendurskoðanda og Samkeppniseftirlitsins. Þær útfærslur sem finna má í bréflegum samskiptum milli stjórnvalda og ESA sem stjórnarandstöðuþingmenn telja vera nýmæli eru í raun aðeins nánari útfærsla á því sem þegar er í samningnum.

Athugasemdir ESA varðandi umsvif RÚV á auglýsingamarkaði hafa snúið að verðlagningu auglýsinga. Að tillögu ESA hefur sérstaklega verið tekið upp ákvæði um gagnsæi varðandi viðskiptakjör og verðlagningu auglýsinga í 5. gr. þjónustusamningsins. Menn skulu hafa hugfast að upplýsingalögin gilda þannig að það á ekki að vera með nokkru móti hægt að mismuna auglýsendum. Þetta verður miklu gegnsærra og betra þegar við erum búin að koma breytingunum í gegn miðað við núverandi ástand. Þetta verður allt skýrara og gegnsærra og það má líka segja að þetta verði lýðræðislegra. Ég á eftir að koma að því á eftir að við erum sérstaklega í frumvarpinu, (Gripið fram í.) að klippa á hin meintu pólitísku tengsl sem menn hafa oft haldið fram að væru til staðar. Hér eru m.a. hv. þingmenn sem hafa setið í útvarpsráði, að sjálfsögðu ekki pólitískir, er það? Nei, en engu að síður hafa þeir setið í útvarpsráði. Í frumvarpinu er verið að klippa eins og hægt er á pólitísk tengsl. Við viljum að Ríkisútvarpið sé rekið eins og fyrirtæki. Við viljum að sá sem stjórnar Ríkisútvarpinu hafi þau tæki og tól sem hann þarf á að halda til að sinna skyldum sínum, að reka öflugt ríkisútvarp í almannaþágu. (Gripið fram í.) Þá förum við auðvitað í rekstrarfyrirkomulag sem heitir Lög um opinber hlutafélög.

Ég spyr enn og aftur: Ef við samþykkjum ákvæði um opinber hlutafélög af hverju má ekki nota það? Af hverju er tortryggni til staðar? (Gripið fram í.) Ég spyr líka af því að menn hafa verið að efast um það hverjir eigi að kjósa stjórn Ríkisútvarpsins, Ríkisútvarpið er í eigu landsmanna, Ríkisútvarpið er í eigu þjóðarinnar. Af hverju má þá ekki ríkið skipa stjórnina? Er eitthvað að því? Er eitthvað að því að ríkisvaldið skipi stjórnina og hvað er þá eðlilegra en að lýðræðislega kjörnir þingmenn sem sumir hverjir eru hræddir við að beita lýðræðislegu valdi sínu og vilja ekki kjósa um mál þrátt fyrir að þau hafi verið rædd fram og til baka, hvað er þá eðlilegra en þessir lýðræðislega kjörnu þingmenn fái tækifæri til að kjósa stjórn í hlutafélag sem er í eigu allra landsmanna? Að sjálfsögðu er það eðlilegt. (ÖJ: Gæti verið að ráðherrann sé ...) Það er að sjálfsögðu eðlilegt að þingið kjósi stjórn Ríkisútvarpsins og stjórnin hefur, það er rétt að undirstrika það, það er mjög mikilvægur punktur, ekkert dagskrárvald eins og núverandi útvarpsráð, hefur ekkert vald til þess að ráða dagskrárgerðarmenn, fréttamenn eða hvaðeina sem gert hefur verið í gegnum tíðina. Búið er að klippa á það vald (Gripið fram í: ... ráðgefandi aðili, umsagnaraðili.) af því að við viljum hafa þetta gegnsætt og við viljum að Ríkisútvarpið sé það sem ekki má nefna, við viljum að það sé nútímavætt. (ÖJ: Ræður ... útvarpsstjóra?) Það er alveg rétt. Ríkisútvarpsstjóra er hægt að ráða og reka af stjórn Ríkisútvarpsins. (ÖJ: Hver ræður fréttamenn núna?) Stjórnin getur ráðið og rekið útvarpsstjóra sem hefur vald eins og framkvæmdastjórar í hlutafélögum. Við verðum að treysta þeim sem við höfum valið til að stjórna fyrirtækjum eins og fjölmiðlinum sem við ræðum í dag og nefnist Ríkisútvarpið. Við verðum að treysta þeim.

Ég treysti Páli Magnússyni fullkomlega sem hefur allt að því verið rægður í þingstól af hálfu formanns BSRB, hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Hann hefur verið vændur um að fara með ósannindi. Það er eins og að einhver embættismannafóbía sé í gangi hjá hv. þingmönnum. Embættismenn mega ekkert segja og ekkert gera. Ég hef aldrei kvartað undan því þegar t.d. menn hafa rætt um að forstöðumenn háskóla hafi verið mjög gagnrýnir á stefnu stjórnvalda. Það er allt í lagi þegar stjórnarandstaðan vitnar í það en forstöðumenn ríkisstofnana skulu bara veskú halda kjafti ef þeim leyfist að vera ósammála stjórnarandstöðunni. Hins vegar er allt í lagi að vitna í forstöðumenn ríkisstofnana ef þeir eru á öndverðum meiði við stefnu stjórnvalda. (Gripið fram í.) Ég get vitnað í mýmargar ræður þar sem forstöðumenn hafa ekki alltaf verið á eitt sáttir varðandi breytingar á fyrirtækjum úr ríkisstofnunum. Þannig er það. Það er lýðræðið sem við búum við. Alveg eins og stjórnvöld verða að búa við það að sæta gagnrýni og fá mismunandi skoðanir verður stjórnarandstaðan veskú líka að gera það. Ég vona að hv. þingmenn fari að sýna embættismönnum landsins aðeins meiri háttvísi en þeir hafa gert í umræðu um þessi mál þar sem embættismenn hafa allt að því verið sakaðir um rangfærslur og ósannindi. Ég vil segja það skýrt og skorinort að ég treysti Páli Magnússyni algjörlega. Ég treysti þeim manni af því að hann hefur víðtæka og áralanga reynslu varðandi rekstur fjölmiðla, það sem málið snýst um. Hann þekkir það út og inn.

Þess vegna treysti ég honum betur en hv. þm. Ögmundi Jónassyni, betur en hv. þm. Merði Árnasyni og öðrum talsmönnum stjórnarandstöðunnar í málinu. Ég treysti þeim manni til að reka Ríkisútvarpið þannig að sómi verði að eins og hann hefur gert og sýnt fram til þessa. Hann hefur staðið sig frábærlega og Ríkisútvarpið hefur alla burði til að fara í nýja tíma og verða enn öflugra en áður hvað varðar menningarhlutverkið og almannaþjónustuna þannig að það sé skýrt.

Það hefur líka verið rætt um Sinfóníuhljómsveitina og tengsl hennar við Ríkisútvarpið. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur m.a. nefnt þau. Það er alveg rétt að líta ber á sögu þessara tveggja menningarstofnana sem er mjög merk. Hv. þm. Mörður Árnason hefur líka farið ágætlega yfir þá sögu alla. Sumir hafa sagt að það hefði mátt útvarpa meira. Ég held að útvarpið hafi sinnt því hlutverki ágætlega. Menn eru hræddir um að tengsl Sinfóníuhljómsveitarinnar og Ríkisútvarpsins verði rofin. Ég er sannfærð um að svo verður ekki.

Ég vil rifja upp þá sögu að fyrir áratugum var útvarpshljómsveitin svokallaða lögð í Sinfóníuna. Jafnframt var staðfest með lögum að RÚV skyldi greiða í Sinfóníuna. Nú hefur verið tekin ákvörðun í ljósi frumvarpsins sem við ræðum nú um að slíta á þau tengsl en um leið, sem skiptir svo miklu máli, að tryggja rekstur og rekstrargrundvöll Sinfóníunnar. Ríkisvaldið mun yfirtaka fjárhagslegar skuldbindingar Ríkisútvarpsins varðandi Sinfóníuhljómsveitina þannig að hún á að geta haldið áfram starfsemi sinni óbreyttri.

Ég vil einnig vekja athygli á þjónustusamningnum um útvarpsþjónustu í almannaþágu sem fylgir frumvarpinu. Það er mjög merkilegt plagg, afar merkilegt plagg, brautryðjendaplagg varðandi samskipti Ríkisútvarpsins og stjórnvalda. Þegar við sömdum samninginn litum við sérstaklega til þeirra landa sem við lítum gjarnan til, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur, þar sem við erum að reyna að skilgreina og skerpa betur þá sýn og þá stefnu sem Ríkisútvarpið á að fylgja eftir, m.a. í ljósi þess að það er aukin samkeppni á markaði. Það þarf að taka líka tillit til þess. Við viljum beina Ríkisútvarpinu í ákveðinn farveg þannig að það forgangsraði fjármunum sínum í almannaþjónustu.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á því að í þjónustusamningnum um útvarpsþjónustu í almannaþágu er m.a. kveðið á um menningarhlutverk Ríkisútvarpsins. Eftir breytingarnar mun Ríkisútvarpið og Sinfónían gera með sér samning á frjálsum grunni, ekki lögbundinn, um m.a. að útvarpa og hljóðrita tónleika. Tengslin þarna á milli verða því eftir sem áður með öðrum hætti, þau verða ekki lögbundin eins og þau eru í dag. Þau verða á frjálsum grunni á milli stofnananna. Þetta er eitt af hinum mikilvægu hlutverkum, menningarhlutverkum, sem Ríkisútvarpið ber skylda til að standa fyrir og undir.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson talaði um víðtæka sátt. Iðulega þegar ég heyri stjórnarandstöðuna tala um víðtæka sátt sýnist mér að hún verði að byrja fyrst á að vinna heimavinnuna því reynsla mín hefur sýnt fram á að þetta er frasi sem er notaður þegar stjórnarandstaðan getur ekki komið sér saman um málið. Umræðurnar hafa verið langar hérna og ég hef hlustað nokkurn veginn á allar ræður hv. þingmanna og farið vel yfir ræður þeirra.

(Forseti (JóhS): Forseti vill spyrja hv. ræðumann hvort hún geti fundið hentugan stað í ræðu sinni til þess að fresta ræðunni ef hún getur ekki lokið henni á næstu tveimur mínútum vegna þess að hér verður gert matarhlé frá kl. eitt til hálftvö.)

Ég á um það bil tíu mínútur eftir af ræðu minni. Ég held því að rétt sé að ég bíði með ræðuna í bili og haldi áfram kl. hálftvö að ræða um þá víðtæku sátt sem hefur gjarnan verið talað um, en er að mínu mati lítið annað en frasi sem stjórnarandstaðan hefur haldið uppi til þess að þæfa og tefja málið. En ég mun þá halda áfram kl. hálftvö, frú forseti.