133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra sýnir mikinn þvergirðingshátt í þessu máli. Hér er um að ræða einkavæðingu Ríkisútvarpsins þar sem verið er að færa opinbera menningarstofnun sem gegnir mikilvægu almannahlutverki, lýðræðislegu hlutverki, úr umhverfi opinbers réttar inn í umhverfi einkaréttar.

Við þessa breytingu eru réttindi starfsmanna fyrir borð borin að mjög mörgu leyti. Hæstv. menntamálaráðherra sem hefur farið með ýmsar rangfærslur í ræðu sinni fer auðvitað ekki inn í málefni starfsmanna af því hún þorir því ekki. Vegna þess að hún veit sem er að eftir allan þennan tíma stendur eftir sú staðreynd að jafnræðisregla, andmælaréttur, rannsóknarregla og meðalhófsregla verða teknar frá starfsmönnum.

Það er ljóst að nýir starfsmenn Ríkisútvarpsins munu ekki njóta þeirra réttinda sem þeir annars nytu ef þeir væru nýir starfsmenn Ríkisútvarpsins eins og það er í dag.

Það er misfarið með biðlaunarétt sem heyrir undir eignarrétt í stjórnarskrá. (Forseti hringir.) Ég gæti talið áfram lengi og ég átel (Forseti hringir.) hæstv. menntamálaráðherra fyrir að svara engri af þessum ávirðingum í sinni ræðu.