133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[13:56]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Heyr á endemi. Ég var að tala um fyrirlitningu á embættismönnum og akkúrat lokaorð hv. þm. Marðar Árnasonar, þingmanns Reykjavíkur, voru hlaðin fyrirlitningu á embættismönnum, vantrú og vantrausti. Mér finnst það miður að heyra þetta af hálfu talsmanns Samfylkingarinnar í þessu máli.

En ég vil benda mönnum á eitt. Menn hafa verið að tala um sjálfseignarstofnunarfyrirkomulag. Ríkisútvarpið vinnur núna í dag á miklu hreyfanlegri markaði en nokkru sinni áður. Það er mun meiri hreyfing á þessum markaði. Á það þá að fara eftir einhverjum niðurnjörvuðum reglum sem við þurfum að fara í í gegnum sjálfseignarstofnunina?

Ég spyr. Við höfum eitt dæmi. Við höfum eitt dæmi, hv. þingmaður, um það þegar skóli breytti sínu rekstrarfyrirkomulagi. Þegar við sameinuðum Háskólann í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands, hvaða fyrirkomulag kaus Háskólinn í Reykjavík sem hafði verið sjálfseignarstofnun fram til þess? (Gripið fram í.) Af hverju kaus hann ekki sjálfseignarstofnunarfyrirkomulag fyrst það er svona brilljant að reka (Forseti hringir.) skólann sem sjálfseignarstofnun? Hann valdi hlutafélag af því það er (Forseti hringir.) gott form.