133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er afskaplega mikilvægt að undirstrika það að öll samskipti menntamálaráðuneytisins við ESA hafa alltaf verið uppi á borðum. Það hefur alltaf verið þannig unnið að hafi menntamálanefnd óskað eftir gögnum hefur hún fengið gögnin. Engin leynd hefur verið yfir gögnum, þannig er það ekki.

Bréfaskiptin sem bættust við í nóvember og sem síðan var farið yfir í janúar voru nánari útfærsla á því hvernig við ætluðum að haga málum í þjónustusamningnum. Þar var ekkert nýtt eins og ég segi. Það var nánari útfærsla á því hvernig við ætluðum að haga þeim málum, útskýringar á því hvernig við ætluðum að framfylgja þjónustusamningnum hvað þetta mál varðar þannig að það sé alveg skýrt og þannig að menn séu líka með það á hreinu að ESA getur ekki lokið málinu fyrr en við erum búin að klára málin hér af okkar hálfu, þ.e. með því að samþykkja frumvarpið. Þannig er það. Fyrr getur ESA ekki gefið út neitt lokabréf. (Gripið fram í.) Menn hafa fullyrt hér annað (Forseti hringir.) en það er bara rangt. Við verðum að klára málið og það er best að samþykkja það sem fyrst.