133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[14:08]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg einsýnt eins og ég benti forseta á í morgun að það er ákveðinn galli í þessu frumvarpi og þar af leiðandi fyndist mér mjög eðlilegt að þingnefnd yrði kölluð aftur saman til að fara yfir það atriði. Sá galli felst í því að talað er hér um réttindi og skyldur starfsmanna og þær fullyrðingar hafa komið fram að verði frumvarpið samþykkt teljist starfsmenn Ríkisútvarpsins ekki lengur opinberir starfsmenn og þar af leiðandi geta lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna ekki gilt fyrir þá. Með þessu frumvarpi er, væntanlega óafvitandi, ég reikna með því að það sé ekki vísvitandi, við skulum reikna með að það sé óafvitandi, verið að kippa úr sambandi fyrir starfsmenn Ríkisútvarpsins lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Þetta hljóta að vera mistök, ég trúi ekki að það sé ætlunin, frú forseti, og þess vegna vildi ég koma með þessa ábendingu hér enn og aftur.

(Forseti (JóhS): Þessari ábendingu verður komið áleiðis.)