133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:17]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er erfitt að eiga við menn eins og þennan hv. þingmann í svona umræðum. Ég spurði hann mjög einfaldrar spurningar, hvort hann væri sammála varaformanni sínum, hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni, sem lýsti því yfir í Fréttablaðinu þann 10. nóvember og aftur í Morgunblaðinu í gær að hann væri hlynntur því að breyta Ríkisútvarpinu í opinbert hlutafélag. Hv. þingmaður sem hefur tekið mikinn þátt í umræðunum hérna í þinginu og á sæti í hv. menntamálanefnd Alþingis gat ekki svarað spurningunni skýrt.

Það er illa fyrir mönnum komið ef þeir geta ekki svarað bara já eða nei. Ég svo sem las út úr svarinu, ég veit ekki hvort skilningurinn hafi verið algerlega réttur og hv. þingmaður getur þá leiðrétt mig ef skilningur minn var rangur en ég las á milli línanna að hv. þingmaður er ekki sammála varaformanni sínum. Það þarf í sjálfu sér kannski ekkert að koma á óvart enda var fyrirsögnin á þessari fréttaskýringu Magnúsar Halldórssonar í Fréttablaðinu ósamstiga þingmanninum í mikilvægum atriðum sem kristallast nú í þessu máli og þessu svari þingmannsins.

Úr því að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, var ekki við ræðu mína hér í gær, einhverra hluta vegna, hef ég hugsað mér að koma í andsvör við fleiri þingmenn Samfylkingarinnar og spyrja þá sömu spurninga og gera létta könnun á stuðningi við viðhorf hans til þessara mála innan þingflokks Samfylkingarinnar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef hann er ekki sammála varaformanni sínum í þessu máli, veit hann til þess að yfirleitt einhver í Samfylkingunni styðji þau viðhorf sem hv. þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar reifaði í Fréttablaðinu þann 10. nóvember og ítrekaði af mikilli ákveðni í Morgunblaðinu í gær, að hann styddi hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins og þar með frumvarp hæstv. menntamálaráðherra?