133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:19]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega erfitt við þetta að eiga, þessi pólitíska þráhyggja er smitandi. Nú hefur hún farið af hæstv. menntamálaráðherra sem hefur hina pólitísku þráhyggju gagnvart frumvarpi sínu (SKK: Hann heyrir …) yfir á hv. þingmann, formann menntamálanefndar sem virðist hafa alveg sérkennilega pólitíska þráhyggju varðandi ákveðið mál.

Ég veit ekki hvort ég get ráðið við það að lagfæra þessa hluti. Ég held að ég hafi svarað því afar skýrt í fyrra andsvari mínu að stefna okkar er mjög skýr í þessu máli og ég hef ekki lagt mig fram um það að vera neitt að garfa í því hvort aðrar leiðir væru færar. Ég hef hins vegar sagt að við værum opin fyrir viðræðum um ýmsa hluti. Þannig er það auðvitað og ég endurtek að það er friður í kringum Ríkisútvarpið sem er aðalatriðið þótt sölumenn RÚV vilji eitthvað annað.

Frú forseti. Það sem kom mér á óvart þegar hv. þingmaður kom í andsvar við mig var að hann skyldi ekki nýta það tækifæri og þakka mér sérstaklega fyrir að hafa reist hann við í samskiptum við hæstv. ráðherra.

Ég lagði mig verulega fram um það, ég verð að segja það, frú forseti, að verja minn formann. Ég taldi að ég hefði átt skilið að minnsta kosti örlítið þakkarorð í þá átt að ég hefði staðið mig í áttina að því að nálgast hina mögnuðu ræðu hv. þingmanns hér í gær, a.m.k. í þeim þætti ræðu minnar þegar ég einbeitti mér að því að endurreisa formann minn sem ég taldi auðvitað skyldu mína að gera.

Þetta tímabil sem varaformaður hv. þingmanns hefur lagt á hann mikla vinnu við RÚV-málið veldur vafalaust þessari pólitísku þráhyggju, og útrásinni er beint, kannski eðlilega, að varaformanni í öðrum flokki.