133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[16:27]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa komið í seinna andsvar eingöngu í þeim tilgangi að gefa mér örlítið meiri tíma til að fjalla um málið. Það er þakkarvert.

Ég held að það sé út af fyrir sig rétt hjá hv. þingmanni að ræður okkar stjórnarandstæðinga gera ekki RÚV ohf. mikið gagn. Hv. þingmaður hefur greinilega ekki tekið eftir því að við erum að tala gegn því að það verði RÚV ohf. þannig að það er eðlilegt að ræður okkar séu ekki til mikils gagns fyrir RÚV ohf. Það sýnir að ræður okkar komast þá til skila til hv. þingmanns. Við erum að berjast gegn því að þetta verði RÚV ohf. og teljum að þá sé verið að stíga ákveðið skref í þá átt sem sölumenn RÚV vilja stíga.

Ég hef nefnt til vitnis ummæli hv. þingmanns, samflokksmanns hv. þingmanns, Péturs H. Blöndals, sem talar hreint út í málinu eins og hann gerir oft. Ég geri ráð fyrir því að hv. þingmaður hljóti að hafa heyrt þessa rödd í þingflokki sínum vegna þess að innan þeirra veggja er væntanlega mesti fjöldi sölumanna RÚV.

Í ræðu minni áðan kom ég einmitt inn á það að hæstv. menntamálaráðherra hefði talað um almenning á svipaðan hátt og hv. þingmaður. Það er svo magnað hvað sumir stjórnarþingmenn vita um almenning en eru um leið svo dauðhræddir við hann. Við erum búin að fara yfir það að við höfum meira að segja boðist til að færa gildistökuna fram yfir kosningar, til að liðka fyrir þingstörfum, þannig að kjósendur vissu nákvæmlega að þetta væri eitt af þeim málum sem lægju undir. En af einhverjum ástæðum óttast þessir sömu stjórnarliðar og virðast vita allt um skoðanir og hugsanir almennings, hvað sagt er og talað á hverri einustu kaffistofu landsins, þennan sama almenning.

Það er erfitt að fá samhengi í hlutina en það er svipað og annað í þessu máli, þegar menn hafa ekki fulla trú á málstaðnum reyna þeir að fela málið í heild sinni.