133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:33]
Hlusta

Frsm. meiri hluta menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var að reyna að svara þeim spurningum sem til mín var varpað og gerði grein fyrir tilurð 2. mgr. 1. gr. Ég hygg að Ríkisútvarpinu verði heimilt að eiga hlut í öðrum félögum eins og t.d. fasteignafélögum eða öðru sem tengist rekstri Ríkisútvarpsins, ég geri ráð fyrir því. Bannákvæðið nær bara til þess sem 2. mgr. 1. gr. kveður á um.

Hv. þingmaður spurði mig einnig að því hvort Ríkisútvarpið gæti stofnað nýja sjónvarpsrás, þ.e. íþróttarás eins og ég skildi spurninguna, hvort Ríkisútvarpið gæti notað þann ríkisstyrk sem það hlýtur, heimanmund til að fjármagna slíkan rekstur. Það er erfitt að svara þeirri spurningu og það er ekki útséð hvort Ríkisútvarpinu verði það heimilt. Mat á því hvort slíkt er heimilt fellur undir almannaþjónustuhlutverk 3. gr. frumvarpsins, þ.e. hvort það sé heimilt með hliðsjón af henni að fjármagna slíka nýja sjónvarpsrás með ríkisstyrk. Því ferli sem slíkt mat fer í gegnum er lýst og ég bendi hv. þingmanni á það m.a. í bréfi fjármálaráðuneytisins frá 9. janúar 2007 til Eftirlitsstofnunar EFTA. Ég bendi líka á ríkistyrkjareglur frá 2004 um það.

Mig langar að lokum af því að það kom ekki fram í ræðu hv. þingmanns hvað hann sjálfur vildi gera varðandi Ríkisútvarpið, en af því að hv. þingmaður sá engin vandamál á þessum markaði er hann þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið eigi að reka sem ríkisstofnun? Er hann sammála meiri hluta Samfylkingarinnar um að það eigi að gera Ríkisútvarpið að sjálfseignarstofnun eða er hann sammála hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni um að fara þá leið sem við leggjum hér til eða vill hann selja?