133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:36]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson skaut sér undan því að svara því hreint út að eins og frumvarpið liggur fyrir er erfitt að túlka það á annan veg en að Ríkisútvarpinu verði heimilt að opna nýjar rásir um íþróttir eða dægurmál o.s.frv. (Gripið fram í.) Það er það sem spurningin snerist um og meðan skilgreiningin á almannaþjónustunni er jafnvíðfeðm og hér er er vandséð að ríkisendurskoðanda eða Samkeppniseftirlitinu verði skotaskuld úr því. (Gripið fram í.) Að minnsta kosti segir hv. þingmaður að þetta sé óljóst. (SKK: ESA fer með ríkis…)

(Forseti (RG): Forseti beinir því til hv. þingmanna að vera ekki með samræður sín á milli.)

Þannig að það liggur fyrir.

Í annan stað beindi hv. þingmaður til mín spurningum sem mér er bæði ljúft og skylt að svara. Samfylkingin hefur haft mjög skýra stefnu í þessu máli. Hún hefur komið fram á blaðamannafundum og hún hefur komið fram annars staðar þannig að við höfum rætt okkur niður á þá stefnu. Hv. þingmanni hefur hins vegar verið tíðrætt um það hvort varaformaður Samfylkingarinnar fylgi þeirri stefnu. Það gerir hann, hann fylgir okkar stefnu. Hann flutti ágæta ræðu í gær þar sem hann útskýrði vandlega sjónarmið sín og ég leyfi mér að fullyrða það að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson mun aldrei styðja það að ríkið stofni fyrirtæki sem eitthvert forréttindafélag sem stundi starfsemi á fjölmiðlamarkaði.