133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[17:46]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram mjög athyglisverð umræða um frumvarp ríkisstjórnarinnar um að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið. Við heyrðum í dag að hæstv. menntamálaráðherra vill að umræðu ljúki hið fyrsta þannig að lýðræðislegur vilji nái fram að ganga.

Í andsvörum við hæstv. ráðherra höfum við rifjað upp að þessi langa umræða um hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins hafi ekki verið til einskis. Við minnumst þess að þetta er þriðja útgáfan af frumvarpi ríkisstjórnarinnar um að hlutafélagavæða eða öllu heldur um að breyta rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Fyrsta útgáfan var einmitt ekki um hlutafélag heldur sameignarfélag. Það var fyrsta útgáfan frá ríkisstjórninni, frumvarp sem var rætt lengi vel og menn furðuðu sig á því að til stæði að stofna sameignarfélag um fyrirtæki eða stofnun þar sem eigandinn væri einn. Menn sáu ýmsa mjög alvarlega galla við frumvarpið sem komu betur í ljós eftir því sem leið á umræðuna. Niðurstaðan var sú að það var á endanum dregið til baka.

Þá kom næsta útgáfa. Það var frumvarp um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi, Ríkisútvarpið hf. Einnig um þá útgáfu fór fram mikil umræða. Á endanum var einnig það frumvarp var dregið til baka og allir viðurkenndu að það hefði verið svo gallað að ekki væri forsvaranlegt að samþykkja það. En, vel að merkja, því var lengi vel stíft haldið fram af hálfu hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar að frumvarpið væri eins gott og á væri kosið.

Síðan kom þriðja útgáfan. Það er sú útgáfan sem við glímum við í dag. Það heitir Ríkisútvarpið ohf. Ríkisútvarpið opinbert hlutafélag. Það á stoð í lögum sem sett voru fyrir fáeinum mánuðum um opinber hlutafélög, sem er nýmæli í íslenskri lagaflóru. Það sem er frábrugðið í opinberu hlutafélögum frá hinu almenna hlutafélagsformi er fyrst og fremst að þau eiga að heyra undir upplýsingalög. Einn þáttur í gagnrýni okkar er sá að hlutafélagið Ríkisútvarpið hf. yrði tekið undan upplýsingalögunum. Síðan var annað ákvæði sem vakti nokkra athygli, þ.e. um skipan í stjórn þar sem kveðið var á um jafnan hlut karla og kvenna. Einnig þetta var skref fram á við.

En í umræðu um hin opinberu hlutafélög þótti okkur mörgum mikið áfátt. Við áttum erfitt með að skilja hvers vegna ástæða væri til að taka stofnanir og starfsemi, sem fjármögnuð er með almannafé, og færa hana undan þeim lögum og reglum sem sett hafa verið í áratuga rás til að tryggja jafnræði samkvæmt stjórnsýslulögum, gagnsæi og upplýsingaflæði, samkvæmt upplýsingalögum, og réttarstöðu starfsmanna, sem er að finna í samningum um réttarstöðu og skyldur opinberra starfsmanna. Ég legg áherslu á réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Allt eru þetta lög sem samfélagið hefur sameinast um og sátt hefur náðst um á Alþingi til að tryggja að vel sé staðið að opinberri þjónustu, þjónustu sem fjármögnuð er með peningum frá okkur öllum, skattfé almennings.

Nú er það skyndilega mikið hagsmunamál, stórmál að mati ríkisstjórnarinnar, að taka stofnanir og starfsemi sem hefur heyrt undir þessi lög og undanþiggja lögunum. Við sjáum hvert dæmið um þetta á fætur öðru. Nýlega var stofnað fyrirtækið Matís ohf. en Matís er sprottið upp úr nokkrum opinberum stofnunum, Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins, sem sameinuð var Matvælarannsóknum á Keldnaholti og Rannsóknarstofu umhverfisstofnunar. Þessar stofnanir voru sameinaðar í fyrirtækinu Matís ohf. sem fyrst í stað átti reyndar að heita Matvælarannsóknir.

Þegar þetta var gert var talað fyrir því í þinginu að allt yrði léttara eftir að þessar stofnanir hefðu verið gerðar að hlutafélagi. Öll stjórnun og stjórnsýsla átti að verða skilvirkari, var okkur sagt, og nú er komið í ljós í hverju sú skilvirkni er fólgin. Yfir stofnunina var sett stjórn og skipaður formaður þeirrar stjórnar. Hver skyldi nú hafa verið fenginn til þess starfa? Jú, það var fyrsti formaður Félags frjálshyggjumanna á Íslandi. Frjálshyggjufélagið var stofnað undir lok 8. áratugar síðustu aldar. Ég held ég fari rétt með að það hafi verið gert vorið 1979. Sá maður heitir Friðrik Friðriksson og er hinn mætasti maður að öðru leyti en hefur skoðanir sem eru ekki sérstaklega starfsmannavænar eða lýðræðislegar að mínu mati. Það birtist í því að hinn nýi stjórnarformaður Matís ohf. vill sem allra minnst með stéttarfélög hafa að gera.

Þegar samtök starfsfólksins fóru þess á leit við hina nýju stjórn að teknar yrðu upp viðræður um gerð rammasamkomulags sem sýndi hvert yrði stefnt þegar núverandi kjarasamningar renna út á árinu 2008 var ekki til að dreifa áhuga á slíku. Öllum slíkum óskum hefur verið vísað frá. Þegar stofnun Matís ohf. var rædd í þinginu á sínum tíma sagði sá hæstv. ráðherra sem þessi stofnun heyrir undir, sjávarútvegsráðherra, að ekki stæði til að skerða réttindi starfsfólksins í neinu. Ég efast ekki um að hann hafi viljað það en reyndin er hins vegar þessi. Þess vegna segjum við: Dæmin hræða.

Við hlustum á hæstv. menntamálaráðherra svara fyrirspurnum um framtíð kjarasamninga og réttarstöðu starfsfólks á þá lund að hún hvorki vilji né geti gripið fram fyrir hendur væntanlegrar stjórnar Ríkisútvarpsins enda vilji hún heldur ekki skerða rétt starfsfólksins til að semja sjálft. En hún er tilbúin að hafa að engu samninga sem stéttarfélög sama starfsfólks gerðu um aðkomu starfsfólksins að stjórn Ríkisútvarpsins. Það mun hafa verið á árinu 1982, að því ég held, og var byggt á kjarasamningum á milli fjármálaráðuneytisins og BSRB sem undirritaðir voru á árinu 1980. Þá var samið um sérstök starfsmannaráð í ríkisstofnunum. Þetta mun hafa verið gert með ýmsum hætti. Í Ríkisútvarpinu varð sú lausn ofan á að starfsmannafélögin fengju fulltrúa í framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins. Starfsmannafélag hljóðvarps fékk einn fulltrúa og starfsmannafélag sjónvarpsins einn fulltrúa.

Þetta þótti mörgum okkar lýðræðislegt. Ég segi mörgum okkar því að ég var þá starfsmaður Ríkisútvarpsins og lengi formaður starfsmannafélags sjónvarpsins. Ég átti m.a. sæti í þessari stjórn og kom sjálfur að samningum um þetta efni og svíður að sjá hvernig þeir samningar eru að vettugi virtir. Sannast sagna á ég erfitt með að hlusta þegjandi á hæstv. menntamálaráðherra og fulltrúa þessarar ríkisstjórnar tala um samningsréttinn sem nánast heilagan, hann megi ekki skerða eða hefta, en síðan er farið á þessa lund með samninga sem gerðir hafa verið. Þeir eru einfaldlega rifnir. Þeim er hent til hliðar og hvorki rætt við kóng né prest. Ekki var rætt við starfsfólkið eða stéttarfélögin, hvað þá heildarsamtökin sem komu að gerð samkomulagsins.

Við höfum séð önnur dæmi um hlutafélagavæðingu á liðnum mánuðum. Við sáum hvað gerðist hjá Flugstoðum. Hvað hefur gerst þar? Hversu meðvitaðir hafa menn verið í umræðu um það mál? Það kemur upp í hugann þegar þáverandi utanríkisráðherra, núverandi hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde, flutti þinginu skýrslu um utanríkismál. Ég held að það hafi verið á síðasta ári. Hann hreyfði þeirri hugmynd að starfsemin á Keflavíkurflugvelli yrði gerð að hlutafélagi. Þá kvöddu sér hljóðs með nokkru brambolti fulltrúar Framsóknarflokksins og gáfu digurbarkalega til kynna að það mundu þeir aldrei láta gerast.

Hvað gerist svo? Hæstv. samgönguráðherra er skömmu síðar mættur inn í þingið með frumvarp sem tekur til flugstjórnar, flugumsjónar og reksturs flugvalla á Íslandi. Þá svaf Framsókn.

Kannski áttaði Framsóknarflokkurinn sig ekki á því hvað hann var að samþykkja. Að minnsta kosti hafði ég á tilfinningunni að Framsókn yrði svolítið kindarleg þegar skýrt var frá því í atkvæðagreiðslunni, í atkvæðaskýringum, þar sem framsóknarputtarnir voru allir á grænu sem merkir já hér við atkvæðagreiðsluna, að verið væri að samþykkja að flugvöllurinn á Húsavík, í Vestmannaeyjum, á Sauðárkróki og í Reykjavík yrðu hlutafélagavæddir. Það var hægt að rífast um Keflavíkurflugvöll en þegar Ísafjarðarflugvöllur var annars vegar þá var annað uppi.

Að hluta til held ég að þetta hafi verið meðvitundarleysi, pólitískt meðvitundarleysi, og að hluta til sú fylgispekt sem Framsóknarflokkurinn hefur innrætt í eigin sálarlífi í sambúðinni við Sjálfstæðisflokkinn allar götur frá því þessir flokkar tóku síðast saman á árinu 1995.

Ég nefndi Matís hf. sem sérstaklega slæmt dæmi um framgöngu stjórnenda. Ég hef rakið það áður hér við umræðuna hvernig framkoman hefur verið við starfsfólk, í kringum áramótin og milli jóla og nýárs voru einstaklingar teknir út undir vegg og gert að skrifa undir samninga. Stillt upp við vegg, gert að skrifa undir samninga sem mátti síðan ekki sýna öðru fólki. Þetta voru afskaplega loðnir samningar, a.m.k. í upphaflegri útgáfu sem stéttarfélögin komust yfir þar sem m.a. var kveðið á um fastlaunasamninga þar sem vinnuskylda var nánast óskilgreind og annað eftir því.

Það er svo skrýtið að þeir sem sitja í þessum sal og hafa verið tilbúnir að fjalla með mikilli nákvæmni um allt sem lýtur að þeirra eigin kjörum, þar á meðal lífeyrisréttindum, og gæta þess þá í hvívetna að engar skerðingar eigi sér stað, þar sé heldur bætt í, þeir eru tilbúnir að beita niðurskurðar- og skerðingarhnífum þegar aðrir eiga í hlut. Það er ekkert sérstaklega stórmannlegt.

Hæstv. forseti. Ég sagði að það væri ekki á einn veg sem stjórnendur hlutafélagavæddra fyrirtækja kæmu fram. Þótt miklar deilur yrðu milli stjórnar Flugstoða og flugumferðarstjóra í kringum áramótin, þá er þeirri stjórn ekki alls varnað. Hún hefur reynt að hluta til að ná sátt við félög starfsmanna. Það er vel og auðvitað fagnar maður öllu því sem jákvætt telst í þeim efnum.

Ég vísa einnig í Rarik þar sem samkomulag var gert, eftir að sú starfsemi var hlutafélagavædd, við félög starfsmanna um eins konar ramma sem vísaði inn í framtíðina. Stéttarfélögin eru ekki að öllu leyti sátt við þann ramma. Menn hefðu t.d. viljað fá tryggt að nýráðningar fengju aðgang að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eins og reglur og lög heimila ef viðsemjandinn er tilbúinn að semja um slíkt.

Það er tilskilið í lögum og samþykktum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að aðild nýráðninga að A-deild sjóðsins, sem er nýja deild lífeyrissjóðsins og kom til sögunnar eftir samninga og lagabreytingar í byrjun árs 1997, að viðkomandi verði að eiga aðild að stéttarfélagi sem tilheyri heildarsamtökunum BSRB, BHM eða Kennarasambandi Íslands. Það átti ekki við um flugumferðarstjóra og þess vegna skýrir það, a.m.k. að hluta til, þann hnút sem það mál hljóp í. Annað var þverplankaháttur í stjórninni gagnvart flugumferðarstjórum um ýmis önnur atriði. Ég nefni þetta sem atriði sem hlutafélagavædd fyrirtæki hafa hingað til ekki viljað opna á að nýráðið starfsfólk, jafnvel þó það eigi aðild að þessum fyrrgreindu heildarsamtökum, fái aðkomu að A-deild lífeyrissjóðsins.

Hvers vegna skyldi það vera? Hvers vegna skyldi vera lokað á fólkið að þessu leyti? Ég kann bara eina skýringu á því og hún er sú að verið sé að spara. Það er verið að spara á kostnað starfskjara, lífeyrisréttinda starfsfólksins. Þau eru nefnilega heldur hærri iðgjöldin sem greidd eru í hina opinberu sjóði en aðra lífeyrissjóði eða 15,5% á móti 12 sem þau munu vera komin upp í frá síðustu áramótum sem lágmarksgreiðsla.

Hlutafélagavæðingin gengur út á þetta. Þegar menn ræða það og deila um það af nokkrum hita hvort með hlutafélagavæðingu sé verið að einkavæða fyrirtæki eður ei, einblína menn nokkuð á einn þátt sem er eignarhaldið. Það er ekkert óeðlilegt að menn horfi á þann þátt enda skiptir það máli hvort starfsemi er í eign ríkis eða sveitarfélags, fulltrúa almennings, eða hvort hún er sett alfarið ekki aðeins út á markað í einkaréttarlegum skilningi heldur einnig hvað varðar eignarhaldið. Auðvitað skiptir það máli.

En það er annað sem skiptir líka máli og það eru réttindin og síðan samkvæmt hvaða grunni fyrirtækin starfa á, hvert er markmiðið með rekstrinum til að mynda. Einn þáttur sem er verið að einkavæða, og ég held að það hljóti að vera óumdeilt, eru réttindi starfsfólksins. Þau eru færð úr hinu opinbera starfsumhverfi, hinu opinbera lagaumhverfi yfir í umhverfi hins almenna markaðar. Með öðrum orðum, það er verið að einkavæða réttindakerfið og starfsumhverfið að þessu leyti. Það á við um Ríkisútvarpið ekkert síður en aðrar stofnanir sem hafa verið hlutafélagavæddar að undanförnu.

Ég fæ sannast sagna ekki betur séð en að þessi mikla skilvirkni og þessi mikla nútímavæðing sem hæstv. menntamálaráðherra ræðir um og verður afar tíðrætt um, m.a. hér í ræðu í dag, gangi fyrst og fremst út á þetta. Hún gengur fyrst og síðast út á það að hafa réttindin af fólki, að auðveldara sé að ráða og reka fólk. Til dæmis er að finna í lögum, annars vegar í stjórnsýslulögum og hins vegar í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, ákvæði um áminningarskyldu. Þar er líka að finna ákvæði um andmælarétt. Bæði þessi réttindi eru numin brott, eru tekin frá starfsfólkinu við þessa lagabreytingu. Ég á eftir að fara mun nánar yfir þessa þætti en ég tipla aðeins á þessu núna.

Þar sem ég hóf mál mitt á að segja að ég vildi fjalla ofurlítið um þá staðhæfingu hæstv. menntamálaráðherra að lýðræðið ætti að ná fram að ganga rifjaði ég upp þá lagasmíð sem sett hefur verið fyrir þingið um málefni Ríkisútvarpsins og að við værum núna komin með þetta frumvarp. Ég vildi með þessari upprifjun minna á að þessi langa umræða hefur þegar allt kemur til alls orðið til nokkurs gagns. Okkur hefur tekist að bægja frá lagasmíð sem sannanlega og óumdeilt var mjög gölluð. Við deilum um þessa lagasmíð núna. Hitt er síðan staðreynd að um Ríkisútvarpið hefur ríkt mjög víðtæk þjóðfélagssátt. Ég hef áður rifjað upp í hverju ég tel að sú sátt hafi verið fólgin, á hverju hafi byggst sú almenna ánægja með þessa ágætu menningarstofnun og fjölmiðil sem Ríkisútvarpið hefur verið allar götur frá stofnun árið 1930. Við megum ekki gleyma því þegar við fjöllum um Ríkisútvarpið að þrátt fyrir ýmsar brotalamir og ýmislegt sem má gagnrýna vegur hitt miklu þyngra sem vel er gert. Ríkisútvarpið gerir nefnilega marga hluti afar vel og þegar forsvarsmenn Ríkisútvarpsins og hæstv. menntamálaráðherra koma hér fram, nánast í andarteppustíl, til að segja okkur hve mikið það liggi á að hlutafélagavæða þessa stofnun, þá finnst mér þetta gleymast. Ég spyr sjálfan mig: Hvað er svona hræðilegt? Hvað er það sem bæta þarf svona hratt úr í starfsemi Ríkisútvarpsins? Hvað er svona hrikalegt að?

Ég held að við verðum að horfa yfirvegað á þessi mál. Ríkisútvarpið hefur verið fjársvelt. Það er eflaust eitthvað í stjórnsýslunni sem má laga, ég er með hugmyndir um það og mun gera grein fyrir þeim hugmyndum sem við höfum fram að færa í því efni, en það ríkir ekkert neyðarástand í Ríkisútvarpinu. Það er bara sjálfskapað neyðarástand. Og vegna þessara orða hæstv. menntamálaráðherra um að nú hafi verið gerður samningur, það er reyndar viljayfirlýsing, um fyrirkomulag innan Ríkisútvarpsins þar sem áhersla verði lögð á innlent efni, þá spyr ég: Hvernig skyldi standa á því að slíkur samningur hefur fyrir löngu verið gerður við Danmarks Radio sem er ríkisstofnun? Hvað stendur í vegi fyrir því að slíkur samningur sé gerður við Ríkisútvarpið þótt það sé ekki hlutafélagavætt?

Hæstv. menntamálaráðherra hefur hins vegar alltaf reynt að spyrða þetta saman í umræðunni og undir það hefur útvarpsstjórinn tekið. Þetta eru algjörlega óskyld efni. Ég furða mig svolítið á því að við skulum ekki hafa heyrt meira um fjárhagsstöðu Ríkisútvarpsins. Í henni er vandi þessarar stofnunar að verulegu leyti fólginn og ég mun fara betur yfir það hér síðar.

Menn gefa hins vegar til kynna, eða svo er að skilja á þeim, að eftir að Ríkisútvarpið hefur verið gert að hlutafélagi þá verði allt í einu allar dyr opnar. Um leið höfum heyrt fulltrúa úr stjórnarmeirihlutanum, aðspurða, segja okkur að ekki standi til að láta meira fé af hendi rakna til Ríkisútvarpsins. Það á þvert á móti að hagræða. Það á að draga saman seglin, það á að skera niður og menn eru þegar farnir að horfa til uppsagna.

Ein ástæðan fyrir því að menn telja að hagur Ríkisútvarpsins verði betri en áður er sú að menn geti losað sig við innheimtudeildina þegar hinn vafasami nefskattur verður kominn á. Þar muni sparast einhverjar milljónir, sennilega hátt í 100 millj., 90 millj. Þetta er það sem menn sjá fyrir sér, að hægt verði að segja upp fólki og menn tala fjálglega um hagræðingarkröfur sem verði reistar. Þetta eru sjónhverfingar sem við erum að verða vitni að af hálfu hæstv. menntamálaráðherra og stjórnarmeirihlutans gagnvart Ríkisútvarpinu. Í reynd finnst mér þetta vera mjög ábyrgðarlaus nálgun.

Loks varðandi lýðræðið. Þar sem víðtæk sátt hefur ríkt um þessa stofnun allar götur frá 1930 finnst mér mjög mikilvægt að engar breytingar verði gerðar á starfsumhverfi hennar nema eftir því sé leitað alveg til hins ýtrasta að um þær verði víðtæk sátt.

Þetta gera Bretarnir með sína ríkisstofnun BBC, British Broadcasting Service. Hún starfar samkvæmt því sem Bretar kalla Royal Charter og með reglulegu millibili eru kvaddir til aðilar víðs vegar að úr þjóðfélaginu til að endurmeta starfsemina og spyrja hvort ástæða sé til að gera einhverjar breytingar á henni þannig að stofnunin megi laga sig betur að breyttum samfélagsháttum. Núna, ég held bara í dag eða gær, var verið að taka ákvörðun um iðgjöld, um áskriftargjöld eða notendagjöld til BBC til næstu sjö ára. Það er búið að tryggja þeirri stofnun fjárhagslegan framtíðargrunn til sjö ára.

Hér er ekkert slíkt upp á teningnum heldur viljayfirlýsingar inn í framtíðina án þess að fjárhagsgrunnurinn sé treystur. Þetta er að gerast hér. Jafnframt er verið að tefla í tvísýnu þeim grundvelli sem Ríkisútvarpið hefur byggt á, þjóðarsamstöðunni annars vegar og viljanum til þess að borga til þessarar stofnunar hins vegar. Það er verið að tefla þeim vilja í mikla tvísýnu og einnig að rífa niður varnir hennar gagnvart samkeppnisaðilum sem án efa munu láta reyna á stöðu Ríkisútvarpsins á samkeppnismarkaði, annars vegar fyrir innlendum dómstólum og úrskurðum Samkeppnisstofnunar og hins vegar gagnvart Evrópurétti fyrir Eftirlitsstofnun EFTA, ESA.

Þess vegna segi ég og svara þessu ákalli menntamálaráðherrans um að lýðræðið nái fram að ganga á þá lund að það sé ábyrgðarleysi af hennar hálfu að knýja fram breytingar á Ríkisútvarpinu með naumum meiri hluta á Alþingi. Það er ábyrgðarleysi og það er ólýðræðislegt.

Við höfum boðið upp á það af hálfu stjórnarandstöðunnar að gildistaka þessara laga verði færð fram í tímann. Það er alla vega tilraun til einhvers konar sátta. þótt mér þætti langbest að afgreiðslu málsins yrði einfaldlega frestað eða menn tækju því tilboði sem stjórnarandstaðan setti fram í upphafi þessarar umræðu og með formlegum hætti, að þingið freistaði þess að ná samstöðu, sem ég held að yrði ekki erfitt, um lágmarksbreytingar á lagaumgjörðinni um Ríkisútvarpið og gæfi sér síðan að hætti þeirra BBC-manna lengri tíma til að ná lendingu um ágreiningsmálin.

Mig langar til þess, hæstv. forseti, að fara fáeinum orðum um hvaða leiðir kynnu að vera færar í þeim efnum. Þar langar mig fyrst til að víkja að frumvarpi sem við höfum lagt fram í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Við höfum lagt þetta frumvarp fram í tvígang hygg ég fremur en þrisvar, sennilega er þetta í þriðja skiptið sem við leggjum frumvarpið fram, og höfum viljað fá það inn í umræðuna jafnhliða frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það hefur reynst afar erfitt að tryggja einhverja samfellu í þeirri umfjöllun því að kastljósið hefur að sjálfsögðu verið á þeirri tillögu sem kemur frá valdhöfunum.

Frumvarp okkar gengur út á það að færa stjórnsýsluna, sem að hluta til hefur verið hjá framkvæmdarvaldinu í menntamálaráðuneytinu, inn í stofnunina, inn fyrir veggi Ríkisútvarpsins sjálfs. Þar erum við fyrst og fremst að tala um framkvæmdarstjóra deilda sem eru skipaðir utan veggja stofnunarinnar. Þetta er óeðlilegt. Það er eðlilegt að stjórnkerfið sé í höndum innanbúðarmanna, breytingar á því og skipan í embætti sé í höndum innanbúðarmanna, ákvarðanir séu teknar á staðnum, ef svo má segja. Við viljum reyndar að ráðningar í stöður fréttamanna og dagskrárgerðarmanna séu í höndum fleiri en eins aðila og við gerum tillögur um hvernig að þeim verði staðið, að þar komi að, alla vega sem umsagnaraðilar og endanlegir ákvörðunaraðilar, framkvæmdastjórn Ríkisútvarpsins þar sem bæði stjórnendur og einnig starfsmenn að hluta til eiga fulltrúa. Þetta er til að koma í veg fyrir að einhver einn aðili, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi ríkisstjórnarinnar, hafi öll mannaforráð, þar með á fréttastofum og í allri dagskrárgerð þessarar miklu stofnunar, á hendi. Við viljum að þar komi fleiri að.

Það er útbreiddur misskilningur að það útvarpsráð sem nú er við lýði hafi mannaráðningar með höndum. Það er alrangt. Núverandi útvarpsráð hefur aðkomu að dagskrárgerðinni eða dagskrárstefnunni kannski öllu heldur, en ekki mannaráðningum. Það hefur umsagnarrétt um dagskrárgerðarmenn og fréttamenn en það er hins vegar útvarpsstjórinn sem ræður. Þess eru mörg dæmi í áranna rás að útvarpsstjóri hafi gengið gegn vilja útvarpsráðs. Það á við ef útvarpsstjóra hefur ekki þótt útvarpsráð sinna faglegum skyldum eða ekki lagt nægilega faglega mælikvarða á hæfni fólks til að gegna störfum.

Þetta hefur gerst oftar en einu sinni. Þá hefur orðið ákveðinn núningur og sá núningur er ekki slæmur og sú umræða sem skapast er ekki slæm. Hún er opinber og uppi á borðum gagnstætt því sem kemur til með að vera ef Ríkisútvarpið verður gert að hlutafélagi. Þá verður þetta allt á bak við lokuð tjöld og á vinnuborði eins manns. Eftir því sem ég skil reglurnar og lögin um Ríkisútvarpið ohf. er heimilt að ráða í stöður án þess að þær séu auglýstar. Þarna er því verið að opna fyrir allt aðra starfshætti en verið hafa hjá stofnunum sem starfa á opinberum vettvangi.

Þetta er allt saman vandmeðfarið. Við höfum ekki verið á því og í okkar lagafrumvarpi og í okkar tillögum er ekki gert ráð fyrir sama hlutverki útvarpsráðs og núverandi ráð hefur. Við viljum að vísu ekki skera á tengslin sem eru á milli Alþingis og Ríkisútvarpsins. Við viljum útvarpsráð þar sem flokkarnir fá tækifæri til að skipa fulltrúa í útvarpsráð en að auki komi aðrir aðilar til sögunnar. Við nefnum t.d. Neytendasamtökin, Samband íslenskra sveitarfélaga, svona til að tryggja ákveðinn landsbyggðarvinkil, Bandalag íslenskra listamanna og við erum alltaf með fulltrúa starfsmanna einnig inni í þessari púllíu.

Þetta ráð sem við köllum dagskrárráð á að fjalla um útsenda dagskrá og sjá til þess að farið sé að þeim lögum og reglum sem um Ríkisútvarpið gilda. Þetta er eins konar aðhaldsaðili auk þess sem það er hugsað sem vettvangur eða farvegur á milli stofnunarinnar og þjóðarinnar. Við viljum t.d. að það sé tryggt að þeir sem óska eftir upplýsingum um eitthvað sem lýtur að starfsemi Ríkisútvarpsins eigi skilyrðislaust og undanbragðalaust heimtingu á að fá svör við spurningum sínum. Það yrði þá m.a. á könnu dagskrárráðsins að tryggja slíkt.

Það sem greinir þessa hugsun okkar, þetta dagskrárráð okkar, frá núverandi útvarpsráði er fyrst og fremst það að víðari hópur myndar ráðið en nú er og það hefur fyrst og fremst aðhaldshlutverk með hendi og á að tryggja og sjá til þess að öll stjórnsýsla sé gagnsæ og upplýsingar innan úr stofnuninni séu jafnan aðgengilegar fyrir almenning. Með öðrum orðum, það er gagnsæi og lýðræði sem við leggjum áherslu á. Þetta er náttúrlega gagnstætt því sem gerist í frumvarpi ríkisstjórnarinnar því að þar er í reynd verið að stíga spor aftur í tímann. Þar er verið að styrkja hin pólitísku áhrif í þröngum skilningi þess hugtaks. Það er stjórnarmeirihlutinn á Alþingi sem kemur til með að ráða meiri hlutanum í hinu nýja útvarpsráði. Það er því rangt sem kom fram hjá hæstv. menntamálaráðherra í dag að verið væri að klippa á hin pólitísku tengsl. Þvert á móti er verið að binda þessi tengsl fastari böndum, reyra þessa hnúta enn betur. Þetta pólitíska útvarpsráð ríkisstjórnarinnar á síðan að fá vald til að ráða og eftir atvikum reka útvarpsstjórann. Finnst mönnum þetta horfa til framfara? Ég held ekki. Ég held að þetta horfi ekki til framfara.

Enn eitt sem við leggjum til í þingmáli okkar, frumvarpi okkar, er að við viljum breyta fjármögnun Ríkisútvarpsins eða öllu heldur tekjustofnum þess. Við erum með hugmyndir um það að hverfa, þessa vegna í áföngum, frá núverandi innheimtukerfi afnotagjalda og binda afnotagjöldin þess í stað fasteign. Við teljum að með því móti væri hægt að finna réttlátari reiknireglu, réttlátari formúlu en nefskatturinn er. Ég skal játa að ég hef sveiflast á milli þessara tveggja tekjustofna, annars vegar iðgjaldsins eða afnotagjaldsins og síðan fasteignatengds gjalds, ég tel að það væri þó betra en tvímælalaust miklu betra en nefskatturinn sem er ranglátur og kemur til með að bitna illa á barnafólki svo dæmi sé tekið.

Þetta eru í grófum dráttum þær hugmyndir sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði byggjum okkar frumvarp á. Síðan hafa menn reifað aðrar hugmyndir. Menn hafa t.d. talað um sjálfseignarstofnun. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa reifað slíkar hugmyndir, þeir hafa ekki fest sig í þær, alls ekki, það er rangt sem hér hefur verið haldið fram. Menn hafa teflt fram hugmyndum í viðleitni til þess að ná einhverri millilendingu, einhverri sátt um þetta mál. Ég tók eftir því að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi einnig þessa leið í ræðu sinni hér í gærkvöldi. Ég hef fyrir mitt leyti ekki verið hlynntur henni hingað til þó að ég vilji að sjálfsögðu skoða hana einnig ef um það er að ræða að reyna að ná niðurstöðu sem allir gætu orðið sáttir um.

Ég ætla að gera aðeins grein fyrir afstöðu minni til þess sem ég tel vera kosti og ókosti. Ókostirnir við sjálfseignarformið eru að mínu mati þeir að réttarstaða starfsfólksins er ekki tryggð með sama hætti og þegar um er að ræða ríkisstofnun, jafnvel B-hluta stofnun. Hvers vegna? Jú, vegna þess að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna taka ekki sjálfkrafa til sjálfseignarstofnana og í þeim lögum er að finna ýmis ákvæði sem eru til góðs fyrir starfsmennina.

Ég var spurður að því af hálfu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar hér fyrr í dag eða í gær, sennilega var það í gær, hvort ég væri hlynntur þessu formi og hvort það tryggði réttindi starfsfólksins á þann hátt sem ég væri fyllilega sáttur við. Þá kvað ég svo ekki vera og sagði að ég væri sáttari við opinbera reksturinn hvað þetta snertir. Hins vegar vakti ég athygli á því og nefni það hér að í kjarasamningalögunum, í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er vísað til sjálfseignarstofnana um að lögin geti tekið til sjálfseignarstofnana. Það hefur gerst að stofnanir sem eru sjálfseignarstofnanir hafi í reynd farið í sama farveg hvað varðar samninga um kjör og réttindi starfsmanna og opinberar stofnanir hafa gert. Ég vísa þar í stofnanir á borð við Hrafnistu, SÍBS, ýmsar öldrunarstofnanir og heilbrigðisstofnanir sem t.d. hafa tryggt starfsmönnum sínum aðgang að lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, svo dæmi sé tekið, og byggt kjarasamninga sína með tilvísan í þessi lög jafnvel þótt þær heyri ekki undir lögin sjálfkrafa. Mér finnst að í þessari leið opnist ýmsir möguleikar ef menn hafa velviljann að vegvísi, velviljann gagnvart starfsmönnum og viljann til þess að tryggja réttindi starfsfólksins. Þetta vildi ég sagt hafa um möguleikann á því að leita leiða til að ná ásættanlegri lausn um fyrirkomulag á rekstri og rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Enda þótt ég sé fyrir mitt leyti hrifnari af B-hluta stofnun, ríkisstofnun, ég tel hana að mörgu leyti heppilegri, þá hefur þessi leið einnig verið nefnd og við erum að heyra um hana hér við umræðuna. Ef við ætlum raunverulega að reyna að ná einhverju samkomulagi, ef menn vilja tvímælalaust gera breytingar að þessu leyti þá hljóta að sjálfsögðu allir að vera opnir fyrir því að skoða alla möguleika.

Síðan hefur enn ein tillaga komið fram og það er eiginlega róttækasta tillagan sem komið hefur fram um Ríkisútvarpið. Ég held ég megi fullyrða að hún hafi komið fram alla vega í tvígang. Hver skyldi helst hafa talað fyrir henni? Jú, það er sami talsmaður og talaði fyrir hlutafélagavæddu Ríkisútvarpi hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, nefnilega hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson. Hann, ásamt hv. þingmönnum Pétri H. Blöndal og Birgi Ármannssyni, lagði fram frumvarp sem er harla nýstárlegt og fróðlegt fyrir margra hluta sakir. Það er mjög róttækt frumvarp. Það gerir ráð fyrir því að í reynd verði Ríkisútvarpið í núverandi mynd lagt niður og öll starfsemi sem það starfrækir nú verði boðin út. Það verður eftir sem áður til útvarpsráð og, viti menn, aftur er það stjórnarmeirihlutinn sem ræður. Og þessi stjórnarmeirihluti, sem endurspeglast í útvarpsráði þessara ágætu frjálshyggjumanna, á að bjóða út og ákveða með hvaða hætti dagskrárefni og fréttaefni er gert eftir því sem ég fæ best skilið. Þarna eru menn komnir ansi langt á hinum pólitíska hring og farnir að nálgast andhverfuna hefði ég haldið. Mér finnst að þetta hefði allt eins getað átt heima í Kreml hér áður fyrr þótt menn hafi ekki verið gefnir fyrir útboðin á þeim bænum. Hér er það a.m.k. pólitískt ráð sem á að stýra með hvaða hætti reglur eru settar og leyfum er úthlutað til dagskrárgerðar, þar á meðal frétta. Þetta er harla nýstárleg hugsun þykir mér.

Ég mun síðar í ræðu minni fara nánar í þetta frumvarp og þær röksemdir sem það hvílir á en ég er að fara hér yfir þá valkosti og þær hugmyndir sem teflt hefur verið fram inn í þessa umræðu. Ég nefndi fyrst, af virðingu fyrir mínum eigin flokki, það frumvarp sem VG hefur lagt fram. Ég nefndi þær hugmyndir sem teflt hefur verið fram af hálfu Samfylkingarinnar sem einnig hafa reyndar verið gerð ítarlegri skil við umræðuna og á margt sammerkt með okkar hugsun og þá ekki síst það að menn vilja breiðari og opnari samfélagslega aðkomu að Ríkisútvarpinu. Menn hafa talað um akademíu, menn hafa talað um eins konar notendaráð, hugtökin skipta ekki alveg öllu máli en hugsunin er þessi. (Gripið fram í: Hlustendaþing.) Hlustendaþing. Sú hugsun rímar við það sem við höfum teflt fram og Frjálslyndi flokkurinn reyndar einnig. Hann hefur einnig verið með hugmyndir af þessu tagi.

Þeir sem koma úr ranni ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans hafa verið þrengri í hugsun, þeir hafa verið með þrengri, pólitískari aðkomu. Í stað þess að greiða pólitíkinni, lýðræðislega kjörnum fulltrúum leið að stjórnkerfi eða að Ríkisútvarpinu, greiða þeim aðkomu að þeirri stofnun sem fulltrúum sjónarmiða, koma þessir aðilar sem fulltrúar valds, annars vegar í frumvarpi þremenninganna sem ég nefndi áðan sem á að ákvarða með hvaða hætti dagskrárgerðin í landinu og fréttaefnið er boðið út, og hins vegar hjá ríkisstjórninni sem setur fram þetta frumvarp sitt og byggir á því að pólitískt kjörinn meiri hluti ráði einvald sem síðan stýri öllu mannahaldi og allri dagskrárgerð hjá Ríkisútvarpinu. Þetta er þrengri sýn sem ríkisstjórnin hefur og ég mun koma nánar inn á hvað býr þar að baki.

Ég velti því fyrir mér hvort verið geti að í öllum þeim ólíku hugmyndum sem hér er teflt fram, eins langt þó er á milli þessara hugmynda, kunni að leynast einhver ný framtíð. Ég velti því t.d. fyrir mér, ef reyndin yrði sú að Ríkisútvarpið yrði einkavætt og sáttin sem um það ríkir yrði rofin, það færi að molna undan stofnuninni, sótt yrði að henni af samkeppnisaðilum og henni settar mjög stífar skorður, hún væri komin undan stjórnsýslulögum og úr tengslum við almenning, hvort sá tími gæti þá runnið upp að við ættum að hugsa þessi mál alveg upp á nýtt.

Við ræddum það hér og höfum rætt það á fyrri stigum þessarar umræðu að í Ríkisútvarpinu eru fólgin mikil verðmæti. Ríkisútvarpið er eitt stærsta safn landsins. Þar eru til hljóðupptökur frá því á fyrri hluta síðustu aldar og alla öldina nánast frá því að Ríkisútvarpið var stofnað, þar er til aðskiljanlegt efni, plötur, sjónvarpsþættir og margvíslegt efni. Ég velti því fyrir mér hvort verið geti að framtíðin verði sú að um þessi verðmæti verði smíðuð stofnun sem allir aðilar á fjölmiðlamarkaði fái jafnan aðgang að. Þetta gæti alveg orðið framtíðin. Fari svo að Ríkisútvarpið verði fjarlægt eiganda sínum, þjóðinni, og hrint út á markaðinn og látið inn í þann ólgusjó gæti þessi hugsun alveg komið til greina. Þá erum við aðeins farin að nálgast hinar, að því er manni finnst við fyrstu sýn, fjarstæðukenndu hugmyndir þeirra þremenninga en þó á allt öðrum og gerólíkum forsendum. Það sem ég er að segja og leggja áherslu á er að nú eigum við að opna hugann og spyrja hvort menn séu fastir í viðjum vanahugsunar. Ég hvet til þess að menn gefi sér góðan tíma og rifji aftur upp þann hátt sem Bretar hafa á. Þeir gefa sér nefnilega góðan tíma, þeir gefa sér nokkur ár til að fara yfir málin og gaumgæfa þau rækilega.

Þetta gerum við líka reyndar þegar við viljum taka á ýmsu sem við teljum heyra til grundvallaratriða. Ég nefni stjórnarskrána. Við breytum ekki stjórnarskrá nema að vel ígrunduðu máli og setjum um það tilteknar reglur og viljum að sjálfsögðu að þjóðin komi þar sjálf og milliliðalaust sem allra mest að málum. Þetta eru fyrst og fremst vangaveltur og ég hef leyft mér að hugsa kannski svolítið óbeislað hvað þetta snertir.

Ég er þeirrar skoðunar mjög afdráttarlaust að eins og sakir standa núna eigum við að efla Ríkisútvarpið sem stofnun, sem almannaútvarp, og þótt sú hugsun sem ég reifaði áðan, kunni að hafa ýmsa kosti hefur hún líka ýmsa ókosti í för með sér. Þetta er í reynd sama hugsunin og menn eru að fara inn á á sviði rannsókna. Í stað þess að styrkja stofnanir setja menn á fót sjóði sem stofnanir sækja í fyrir tilteknar rannsóknir og tiltekin verkefni og þar skapast ákveðinn samkeppnismarkaður á milli stofnana. Háskólarnir hafa talað fyrir þessu eiginlega gegn Háskóla Íslands að hluta til, vilja fara inn í þetta form. Þetta er þróun sem hefur verið að eiga sér stað. Á móti koma ýmsir ókostir í því fyrirkomulagi vegna þess að þegar allt kemur til alls hefur styrkur háskólanna og rannsóknarstofnana á 20. öld legið í sjálfstæðinu, í vissunni um öryggi. Það hefur gefið mönnum frelsi til að fara sínu fram óháð því sem umhverfið ertir þá til. Á þessu eru kostir og gallar, þetta getur leitt til sofandaháttar að sjálfsögðu líka, en ég vil segja að á hvoru tveggja eru kostir og líka gallar. Ég hef verið inni á stofnanahugsuninni, bæði varðandi rannsóknarstyrkina og einnig gagnvart Ríkisútvarpinu. Einn helsti kosturinn og styrkur Ríkisútvarpsins er samfellan, er hefðin sem er fyrst og fremst að finna í starfsfólkinu, vinnubrögðum og vinnulagi innan veggja þeirrar stofnunar.

Það er afskaplega gaman að hæstv. menntamálaráðherra er komin í salinn og kannski þá ástæða til að víkja nokkrum orðum að ræðu hennar í dag. Ég vil segja hæstv. menntamálaráðherra til hróss að gagnstætt því sem iðulega gerist við umræðu af þessu tagi kom hæstv. ráðherra inn í umræðuna miðja í stað þess að bíða til enda þar til hún væri alveg á enda runninn til að gefa okkur kost á því að skiptast á upplýsingum og skoðunum.

Ef ég man rétt byrjaði hæstv. menntamálaráðherra á að segja hve mikilvægt það væri að Ríkisútvarpið kæmist inn í nútímann, að við nútímavæddum Ríkisútvarpið. Í huga hennar, ef ég skildi orð hennar rétt, felst nútímavæðingin einkum í því að breyta stjórnsýslunni og stjórnarháttum innan stofnunarinnar, færa hana nær því sem gerist í fyrirtækjum á markaði þar sem eigandinn eða forstjórinn fer með völdin.

Ýmsar kenningar hafa verið uppi um hvaða fyrirkomulag sé best við rekstur fyrirtækja. Á síðustu öld uppgötvuðu menn að hægt væri að smíða hin flóknustu tækniundur með hjálp fólks sem var ólæst og óskrifandi og hafði ekki hugmynd um hvað það í reynd var að smíða. Tunglflaugar voru settar saman af fólki sem hafði litla vitneskju um eldflaugar og himintunglin en því var kennt að skrúfa eina tiltekna skrúfu eða eitthvert annað viðvik við samsetningu eldflauganna. Þetta var svona hin vélræna nálgun í starfsmannastjórn og vel nýtt í fjöldaframleiðslu 20. aldarinnar þegar bílaframleiðsla kom til sögunnar og tækniþjóðfélagið varð til.

Samhliða þessu varð til það sem menn hafa kallað píramídastjórnun þar sem forstjórinn og forstöðumenn stýra og aðrir hlýða. Í því sambandi hafa menn tekið sér í munn hugtök sem mér finnst aldrei mjög skemmtileg eða geðsleg, þ.e. yfirmaður og undirmaður. Undirmenn eru undir yfirmennina seldir. Þetta er hluti af píramídastjórninni.

Síðan varð til önnur hugsun sem ruddi sér til rúms eftir því sem leið á 20. öldina sem byggði á samvinnu, á samstöðu og samvinnu, að virkja samkenndina, að virkja félagsandann þar sem einn væri ekki undir annan seldur. Menn höfnuðu því ekki að slík starfsemi ætti að byggja á verkstjórn, að sjálfsögðu er hún til góðs en ekki í þeim skilningi að einn maður ráðskist með annan. Við héldum mörg að þessi hugsun, þessi lýðræðislega hugsun sem verkalýðshreyfingin studdi mjög og hefur reynt að stuðla að — hún hefur reynt að stuðla að framgangi þeirrar hugsunar í kjarasamningum og í baráttu sinni. Ég vísaði áðan í samkomulag sem gert var árið 1980 um starfsmannaráð, nokkuð sem ríkisstjórnin og hæstv. menntamálaráðherra reif í tætlur með þessu nýja frumvarpi.

Þá gerist það að hið nútímavædda fólk sem telur sig svo vera er allt í einu horfið aftur í tímann. Það nær í gömlu píramídahugsunina, í gömlu vélrænu nálgunina þar sem fólki er skipað fyrir, þar sem það lýtur skipunum. Það er sú hugsun sem hæstv. menntamálaráðherra kallar framsækna og nútímavæðingu en er í reynd argasta afturhald.

Í Bandaríkjunum eru framsækin fyrirtæki sem um sinn létu glepjast af píramídayfirmannahugsuninni aftur að hverfa til fyrra formsins. Þau gera sér grein fyrir því t.d. að jafnvel þó að þú getir gert fólk að viljalausum verkfærum sem skrúfa eina skrúfu eða kann viðvikin, jafnvel þó þetta sé hægt skaparðu ekki þá samkennd og þann kraft í fyrirtæki sem gerir það samkeppnishæft. Ég las það um daginn að í Bandaríkjunum mætti merkja þá þróun að fyrirtæki sem hefðu áður leitað á svæði þar sem launakjör væru lág, láglaunasvæðin, væru aftur að færa sig inn á svæði þar sem launin væru betri og menntunin betri, menntun og félagsleg aðstaða betri. Þau væru að horfa til þess í hvaða umhverfi fólki liði vel, hvar samfélagið og innviðirnir væru sterkir, hvar fólkið væri menntað, hvar hver og einn sæi möguleika fyrir sjálfan sig að vaxa og dafna.

En það er á umrædda hugsun sem ekki bara þetta stjórnarfrumvarp heldur einkavæðingarstjórnarfrumvörpin eru að beina opinberri starfsemi inn á, þ.e. forstjóravaldið. Ég minnist þess að þegar við ræddum á þingi á árinu 1996 lög um breytingar á réttarstöðu opinberra starfsmanna, þ.e. breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, var þar að finna greinargerð sem var afskaplega athyglisverð vegna þess að hún byggði nákvæmlega á þeirri hugsun að skapa forstjóra sem fengi að vita hvað hann ætti að gera en aðrir áttu að lúta valdi hans. Nú er þetta að verða til, þetta er hugmyndafræðin. Þetta kalla menn nútímavæðingu og að laga Ríkisútvarpið að nútímaháttum um leið og troðið er á lýðræðinu og réttindum launafólks.

Vel að merkja, eitt af því sem hefur verið sérstakur þyrnir í augum stjórnenda er að geta ekki rekið fólk skýringalaust. Auðvitað á þetta ekki við um sterka stjórnendur, ekki öfluga stjórnendur, ekki um réttsýna stjórnendur, vegna þess að þeir ræða við starfsmenn sem eru ekki starfa sínum vaxnir eða sinna ekki starfi sínu, það er enginn að bera í bætifláka fyrir slíkt, þeir ræða við þá, finna að við þá og gefa þeim tækifæri til að bæta ráð sitt — í einhverjum tilvikum leiðrétta misskilning — og ef það er ekki gert er heimild fyrir því í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna að þeim verði vísað brott úr starfi, þannig er það, þetta er nú ekkert flóknara en svo.

Veiki stjórnandinn, vanmáttugi stjórnandinn, sá sem ekki þorir að horfast í augu við samstarfsmenn sína og finna að við þá ef þeir ekki rækja hlutverk sitt sem skyldi, ef þeir svíkjast um og sinna ekki starfi sínu, þeir sem ekki þora að ræða við þá augliti til auglitis vilja geta rekið þá skýringalaust og sagt þeim að hypja sig helst samdægurs, sama klukkutímann. Þetta eru vinnubrögð sem við erum að verða vitni að í fyrirtækjum á Íslandi í sífellt ríkari mæli, í vaxandi mæli erum við að verða vitni að vinnubrögðum af þessu tagi. Fólk er látið hypja sig af vinnustað, rekið af vinnustað og látið hafa á brott samstundis öll sín gögn og öll sín tól.

Viljum við þetta? Er þetta gott? Nei, þetta er ekki gott. Skyldu menn hafa hugleitt það hvað í því felst þegar rannsóknarskýrslur gefa okkur vísbendingar um að auknu atvinnuleysi fylgi aukin örorka og að samfara aukinni hörku á vinnustað fylgi aukin örorka? Það sem er að gerast, og ég hef hlustað á röksemdir Öryrkjabandalagsins í umræðu um þessi efni, er að fólk sem stendur illa að vígi, á í einhverjum erfiðleikum og mætir slíkum stjórnarháttum og svona hörku og grimmd á vinnustað, brotnar hreinlega niður, hinar andlegu varnir hrynja. Þetta segja fróðir menn að sé að gerast í ríkari mæli en áður hefur gerst á íslenskum vinnumarkaði. Inn á þessar brautir er ríkisstjórnin að ýta okkur með hinum makalausu frumvörpum sínum um einkavæðingu og hina margrómuðu nútímavæðingu hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, sem neitar að leyfa fólki að njóta samningsbundins réttar síns til aðkomu að stjórn Ríkisútvarpsins eftir að því hafi verið breytt í hlutafélag. Allt á þetta að vera óskaplega nútímalegt en er ekkert annað en argasta afturhald. Verið er að reyna að komast eins langt aftur í aldir og mögulegt er, í samfélag við gamla Bogesen og helst enn þá aftar, þar sem forstjórinn ræður öllu, getur ráðið og rekið starfsfólk skýringalaust. Þetta er þá nútími eða hitt þó heldur.

Hæstv. menntamálaráðherra vakti máls á ýmsum öðrum þáttum í ræðu sinni. Þetta var fyrsti þátturinn sem hún nefndi, en hún nefndi fjölmarga þætti í ræðu sinni, sem ég hef hrósað henni fyrir að flytja því að þar var a.m.k. komin tilraun til að taka þátt í umræðu við okkur um þetta frumvarp hennar og ríkisstjórnarinnar.

Annar þátturinn sem hún nefndi, ég held ég fari rétt með að það hafi verið í þeirri röð þó að ég skuli ekki fullyrða um það efni, en ég held að annar þátturinn í ræðu hæstv. menntamálaráðherra hafi verið þessi: Það var engum gögnum leynt. — Síðan kom framhaldið: Allt sem beðið var um kom fyrir nefndina. — Og var þá talað um og vísað til menntamálanefndar. Með öðrum orðum, ekki var við hæstv. ráðherra eða ráðuneytið að sakast, heldur við nefndarmennina sjálfa sem höfðu ekki beðið um gögnin. Þeir höfðu ekki beðið um gögnin en um leið og þeir báðu um gögnin komu þau, að sjálfsögðu.

Stöldrum nú ögn við þetta. ESA-gögnin, hver eru þau? Það eru samskipti íslenskra stjórnvalda annars vegar og Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, hins vegar þar sem menn eru að reyna að ganga úr skugga um hvort ný lög um Ríkisútvarpið standist Evrópurétt og hugsanlega þá stefnu fyrir dómstólum. Menn eru að reyna að móta sér hugmyndir um hvort frumvarpið falli inn í þennan farveg. Þegar það síðan kemur í ljós og er upplýst af fjölmiðli í landinu, Fréttablaðinu, að þau bréfaskipti hafi átt sér stað allt árið 2006 án vitneskju menntamálanefndar þá fyrst náttúrlega óska nefndarmenn eftir því að fá þau gögn í hendur. En að ríkisstjórnin og hlutaðeigandi ráðherra skuli ekki hafa nánast sjálfkrafa látið gögnin ganga til nefndarinnar er mér óskiljanlegt og verður ekki túlkað öðruvísi en að vísvitandi hafi verið reynt að leyna nefndina gögnunum.

Hvers vegna segi ég þetta? Hvers vegna skyldi ég segja þetta? Það er nú svolítið stórt upp í sig tekið. Jú, vegna þess að í fyrsta lagi liggur í augum uppi að þau gögn eiga heima á vinnuborði menntamálanefndar sem skoðar alla þætti þessa máls. Síðan er hitt að þegar ríkisstjórninni lá sem mest á að koma málinu í gegnum þingið undir lok nóvembermánaðar og í desember á síðasta ári, lágu fyrir ráðuneytinu spurningar sem var ósvarað. Gæti verið að það hafi verið mat stjórnvalda — ég hygg að hv. þingmaður og formaður menntamálanefndar sé mér sammála um það, hann hefur a.m.k. átalið það að gögnin væru ekki sýnd í menntamálanefnd — gæti það verið að það hafi verið mat manna (SKK: Þau voru sýnd.) að það hefði truflað framgang málsins í desembermánuði ef það hefði verið upplýst að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hafi beint ákveðnum spurningum til stjórnvalda í bréfi sem dagsett var 24. nóvember og að þeim spurningum væri ósvarað?

Hvenær skyldi þeim spurningum síðan hafa verið svarað? Þeim var svarað í bréfi 9. janúar. Okkur var jafnframt sagt í menntamálanefnd að fulltrúar ráðuneytisins eða ráðuneyta hefðu haldið til Brussel til viðræðna við þá aðila í þeirri sömu viku. Þetta var á þriðjudegi sem svarið er stílað, ef ég man rétt. Nema hvað, á fimmtudegi eru þessi gögn sett í hólf nefndarmanna í menntamálanefnd, á miðvikudegi mun það hafa verið síðdegis, flestir fengu þau í hendur að morgni fimmtudags og þá seinna um daginn er boðað til fundar til að ræða gögnin. Við sem þá sátum fund menntamálanefndar óskuðum eftir að því yrði frestað að taka málið úr menntamálanefnd þannig að rýmri tími gæfist til að fjalla um gögnin og auk þess þótti mönnum eðlilegt að fá formleg svör frá ESA. Ég kann nú ekki þetta tæknimál en ég held að menn hafi talað um einhvern pappír sem kallaður var 1702, þetta er sérkennilegt tæknimál sem talað er þarna suður frá og af innvígðum. Okkur þótti eðlilegt að fá þau gögn í hendur áður en málið yrði afgreitt.

Ég kem að því síðar hvað hæstv. menntamálaráðherra sagði um okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og afstöðu okkar til Evrópusambandsins og þess sem þaðan kæmi en ætla fyrst að víkja að öðrum þætti sem fram kom um þetta efni í máli hæstv. menntamálaráðherra, þ.e. að þetta hafi ekki snúið að rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Eftir því sem ég best fæ skilið — og kann vel að vera að ég misskilji eitthvað — þá gerir það nú það. Þessi bréfaskipti snúa að rekstrarforminu vegna þess að verið er að spyrja um tiltekna efnisþætti, menn eru að spyrja um eftirlit sem haft verði með Ríkisútvarpinu, það er kannski einfalt mál, Ríkisendurskoðun á að annast það eftirlit.

Í annan stað var spurt um með hvaða hætti almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins yrði skilgreint þegar nefskattur yrði ákveðinn og einnig hitt þegar Ríkisútvarpið færði út kvíarnar og færi inn á nýjar brautir, nýja þjónustu eins og gefur að skilja að verður þegar fram líða stundir, með hvaða hætti eða eftir hvaða ferlum skilgreiningum yrði komið við hvað varðar almannaþjónustuþáttinn. (Menntmrh.: Það er verið að bíða eftir ákvörðun framkvæmdastjórnar.) Eins og ég skil þetta er verið að fjalla um rekstrarformið eða þær breytingar og það umhverfi sem við erum að halda inn í með Ríkisútvarpið, þannig skil ég þetta og í því samhengi er eðlilegt að menn vilji vita hvað um er að ræða.

Þá kem ég að þeim þætti með Vinstri hreyfinguna – grænt framboð, að það kæmi nú úr hörðustu átt, sagði hæstv. ráðherra eða sá skilningur var í orðum hennar, þegar Vinstri hreyfingin – grænt framboð væri orðin svona óskaplega áhyggjufull yfir Evrópurétti og þeim boðskap, boðorðum og skipunum sem frá Brussel kæmu og einnig hinu sem Samkeppnisstofnun skipaði. Þetta er alveg rétt að vissu leyti, en ég ætla að nefna tvennt í því sambandi.

Í fyrsta lagi höfum tekið þessa Evrópulöggjöf alvarlega vegna þess að samkvæmt henni höfum við þurft að bukka okkur og beygja allar götur frá því að við gengum inn í EES-samninginn, það er bara staðreynd. Við þetta höfum við ekki fengið ráðið nema að mjög takmörkuðu leyti. Ég rifjaði það upp um daginn að þegar Íslendingar vildi setja saman varðskip á Akureyri kom fram kæra eða kvörtun, eðlilega, vegna þess að samkvæmt samningnum á að bjóða slík stórverkefni út á hinum evrópska markaði. Hvað gerðu menn þá? Þeir fóru að dæmi Frakka, sem eru sérfræðingar í að skjóta sér undan fjölþjóðlegum reglum, og var fundið upp að varðskipið sem átti að smíða væri herskip í reynd. Hvað gildir um herskip? Það er náttúrlega leynilegt, það er hernaðarleyndarmál og þess vegna yrði að smíða skipið á Akureyri svoleiðis að útlendingar kæmust ekki á snoðir um hernaðarleyndarmálin sem íslensku varðskipin hefðu að geyma. Um þetta myndaðist mikil samstaða hér á þinginu, að við yrðum að passa að fara ekki að bjóða út herskipið og upplýsa um hernaðarleyndarmálin. Á þeim forsendum töldu menn að þeir gætu skotið sér undan Evrópuréttinum.

Ég hins vegar og við í Vinstri grænum vorum fylgjandi því að ef Íslendingar vildu smíða varðskip á Íslandi þá bara gerðu þeir það og þá stæðu þeir utan við skuldbindingar þar að lútandi. Þess vegna höfum við haft efasemdir um þessar reglugerðir en við erum jafnframt með opin augun gagnvart allri þessari reglugerða- og lagasmíð, vegna þess að reynslan kennir okkur að við verðum að lúta henni. Við urðum að gera það með tryggingarnar á sínum tíma. Hér voru brunatryggingar í Reykjavík, það voru einhverjar hagkvæmustu og ódýrustu brunatryggingar á byggðu bóli. Það var í einhverri skúffu hjá Reykjavíkurborg, mjög einfalt, allir tryggðir hjá sama aðila, lágmarkskostnaður. Hagnaðurinn var notaður til að reka slökkviliðið í Reykjavík, skilaði tugum milljóna en samt á mjög lágum iðgjöldum og mjög hagkvæmt. Ef kviknaði í einni íbúð í blokk urðu engar harðvítugar deilur eins og nú er milli tryggingafélaga um hver bæri sök. Þetta var hagkvæmt kerfi, allir sammála, þverpólitísk samstaða um málið.

En viti menn. Ári eftir að EES-samningurinn kom til framkvæmda var tryggingabransinn færður undir samninginn. Og hvað þá? Við áttum ekki annarra kosta völ en að setja brunatryggingar í Reykjavík á markað. Byrjað var á og það var fyrsta krafa að aðskilja tryggingarnar annarri starfsemi þannig að hún yrði sjálfstæð, algerlega sjálfstæð og óháð. Hún mátti ekki vera í þriðju skúffu að ofan eða neðan í einhverju skrifborðinu, nei, það varð að búa til sjálfstæða einingu um hana. Þarna er annað dæmið komið.

Ég ætla að nefna þriðja dæmið sem er reyndar ekki alveg af sama meiði, það lýtur að innlendri samkeppnislöggjöf og var hér til umræðu fyrir fáeinum missirum þegar rætt var um það og samþykkt á endanum að heimila höfnum í landinu að hlutafélagavæðast. Ég minnist þess að við áttum þá samræður, ég og þáverandi og núverandi samgönguráðherra, hygg ég, um þær hættur sem í þessu gætu fólgist. Staðreyndin er sú að við höfum mismunað á ýmsa lund höfnunum í landinu og viljum geta gert það. Það hefur verið vilji til þess af byggðasjónarmiðum og ýmsum hagkvæmnissjónarmiðum, að við einfaldlega tökum lýðræðislega ákvörðun um hvað við viljum gera og hvar. Ég man eftir að hæstv. samgönguráðherra fullvissaði mig um að engin hætta væri á ferðum, menn ætluðu ekki að fara að níðast á höfninni á Blönduósi eða á Sauðárkróki eða hvar það nú var, þessar litlu hafnir á smærri stöðum væru öruggar.

Það sem hæstv. ráðherra gleymdi hins vegar var að með þeirri lagabreytingu var verið að færa hafnirnar undan einum lögum, sem giltu um hafnir og slíka starfsemi, undir annan lagabálk, samkeppnislög, vegna þess að með heimildinni um að gera hafnir að hlutafélögum fylgdi með í pakkanum að hafnir á Íslandi skyldu heyra undir samkeppnislög. Hvað þýðir það? Það þýðir að þegar hafnirnar eru farnar að reka sig sem fyrirtæki sem eiga að skila hagnaði og keppa við aðrar hafnir, eins og er að gerast, þá eiga þær kost á því ef þær telja sér mismunað einfaldlega að kæra til samkeppnisráðs á grundvelli samkeppnislaga. Það er þetta sem ég er að segja, að með því að færa starfsemi undir hvort sem það er samkeppnislög eða Evrópurétt þá eigum við iðulega ekki annarra kosta völ en að lúta ákvörðunum og úrskurðum dómstóla þegar þeir kveða upp úr á grundvelli þessara laga.

Þegar hæstv. menntamálaráðherra spyr okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hvort það skjóti ekki nokkuð skökku við að við séum að hafa áhyggjur af Evrópurétti og samkeppnislögum — erum við svona óskaplega mikið fyrir samkeppni og svona óskaplega mikið fyrir Evrópurétt? Já, við erum það. Við vitum að taka þarf þau lög sem við setjum í landinu og þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við undirgöngumst alvarlega, að sjálfsögðu, vegna þess að þar er verið að móta veruleikann. Síðan er það að gerast og í sífellt ríkari mæli að dómstólar skera á endanum úr því hver niðurstaðan og framvindan verður. Þeir eru orðnir mótandi afl í samfélaginu í ríkari mæli en verið hefur. Löggjafinn, hvort sem það er í þjóðþingunum eða á alþjóðavísu, setur almenn lög en síðan er það svo að hagsmunaaðilar kæra iðulega ef þeir telja hagsmunum sínum ekki gert nægilega hátt undir höfði.

Ég hef oft vísað til þess sem er að gerast á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að þessu leyti. Þar er nákvæmlega þetta sama að gerast, að verið er að setja almennar reglur sem iðulega eru skuldbindandi þegar fram líða stundir. Ég hef stundum nefnt það í umræðu af þessu tagi að í fyrstu liðum GATS-samninganna sem verið er að smíða og eru komnir í gagnið á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, er skilgreind þjónusta sem samningarnir eiga að taka til og sagt reyndar að velferðarþjónustan, almannaþjónustan, eigi ekki að heyra undir samningana sem markmiðið er að heyri undir samninga sem taka til markaðsvæðingar og markaðarins. En jafnframt er sagt að fyrir þá almannaþjónustu eða velferðarþjónustu sem greitt er fyrir, sem hefur verið sett yfir í bókhaldsform, sjálfstætt bókhaldsform þar sem samningar eru gerðir og greitt fyrir, jafnvel þótt notandinn greiði ekki beint, jafnvel þótt greitt sé af almannafé, að samningarnir taki til slíkrar starfsemi. Ég nefni þetta sem dæmi um hversu lævís þessi löggjöf og þeir alþjóðasamningar geta verið og geta iðulega tekið ráðin af mönnum á þjóðþingum sem í góðri trú vilja haga málum á annan veg en þessar alþjóðlegu skuldbindingar og lög síðan ákvarða. Þetta skiptir máli þegar við horfum til samkeppnislaga og Evrópuréttarins og við eigum að hlusta á þetta þegar lögfræðingar vara okkur við að sú breyting sem verið er að gera með umræddu frumvarpi veiki varnir Ríkisútvarpsins.

Ég vil taka fram að ég er ekki einn þeirra sem hafa viljað horfa á opinbera starfsemi og opinberar stofnanir og verksvið þeirra og heimildir til athafna á þrönga vísu, ég hef ekki viljað gera það. Mér hefur fundist menn ganga of langt í að þrengja að opinberri starfsemi. Ég var t.d. ekki að öllu leyti sáttur, hæstv. forseti, fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra, við lagabreytingu sem lýtur að Landmælingum, mér fannst það vera of þrengjandi varðandi verksvið Landmælinga. Þar komu samkeppnisaðilar og vildu að verksvið Landmælinga væri þrengra en stofnunin sjálf vildi hafa. Við sjáum ásókn gagnvart Veðurstofunni líka, þar hafa komið kvartanir um að hún sé óþarflega mikið inni á vettvangi þess sem samkeppnisaðilar gætu haslað sér völl. Ég er ekki sammála þessu. Ég held að það sé hamlandi fyrir opinbera starfsemi ef hún fær ekki að færa út kvíarnar og fara inn á svið nýsköpunar og nýbreytni en sé látin þess í stað halda sig við einhvern mjög þröngan og lítinn kjarna, ég held að það sé slæmt. Ég held að opinber starfsemi eigi að fá svigrúm til að þróast. Og það á að sjálfsögðu að eiga sér stað, það á að sjálfsögðu að eiga við um Ríkisútvarpið ekki síst.

(Forseti (SAÞ): Forseti hyggst gera matarhlé klukkan hálfátta í hálftíma til klukkan átta og spyr því hv. þingmann hvort hann muni ljúka ræðu sinni fyrir þann tíma.)

Ég hrósa hæstv. forseta fyrir bjartsýni en því miður eru ekki forsendur fyrir þeirri bjartsýni. Ég á miklu lengra í land með að ljúka máli mínu.

(Forseti (SAÞ): Þá tel ég eðlilegt að gera kvöldverðarhlé núna til klukkan átta. Fundarhlé.)