133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[21:54]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ögmundi Jónassyni var tíðrætt um réttindi og kjör starfsfólks Ríkisútvarpsins. Ég verð að viðurkenna að það kemur mér á óvart hve fáir ræðumenn hafa tekið þann kafla fyrir í umræðunni um Ríkisútvarpið. Að vísu eru margar hliðar á þessu frumvarpi og víða hægt að koma að því en mig langar að bera eitt undir hv. þingmann. Ég hef verið að spyrja í andsvörum hæstv. menntamálaráðherra og stjórnarliða út í kjör og réttindi starfsmanna. Ráðherra sagði m.a. í dag að hún vildi ekki hafa önnur ákvæði um starfsmenn í þessu frumvarpi en hjá öðrum sambærilegum stofnunum, þ.e. Matís og öðrum slíkum hlutafélagavæddum ríkisfyrirtækjum.

Það kom fram í andsvörum hæstv. ráðherra í dag að það væri eitthvað svakalega gott fyrir starfsfólk Ríkisútvarpsins, að nú yrði þeim boðið það sama í bráðabirgðaákvæðum eins og gert hefði verið í öðrum hliðstæðum frumvörpum. Ég spyr: Er hv. þingmaður sammála mér um að það þýði skerðingu á réttindum og þar af leiðandi kjörum starfsmanna Ríkisútvarpsins?