133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:43]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (U) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég var með svipaðar vangaveltur og sá hv. þingmaður er kom upp áðan. Það er nú svo með okkur þingmenn eins og alla aðra að við viljum helst fá að vita sirka vinnutíma okkar. Þessi vika sem hefur verið uppnefnd svolítið, þ.e. að hér séu komin herlög, hefur verið svolítið sérstök og þá fyrst og fremst af því að ekkert annað er leyft að taka á dagskrá en frumvarp um Ríkisútvarpið ohf.

Hitt sem er líka mjög slæmt er að forseti gefur ekki upp hvenær þingfundum muni ljúka. Þingmenn vita því ekki hvenær vinnudegi lýkur. Ég verð að viðurkenna að ég hafði undirbúið þetta kvöld öðruvísi en eiga von á því að þurfa að flytja ræðu mína um miðnætti. Í því jafnrétti sem ríkir í dag þurfum við feðurnir líka að vera heima yfir börnunum. Þar sem frúin er að fljúga með Iceland Express fram eftir nóttu hafði ég hugsað mér akkúrat á þessum tíma að vera heima, herra forseti, við að svæfa yngsta fjölskyldumeðliminn en ekki að vera á Alþingi og svæfa hálfa íslensku þjóðina. Mig langar því að ítreka þá spurningu sem komið hefur upp: Hvenær er áætlað að þingfundi ljúki, herra forseti?