133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:45]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mér fannst hæstv. forseti ekki kveða alveg skýrt að orði áðan um það hvenær fundi mundi ljúka. Mér fannst samt að meiningin í orðum hans væri sú að það skyldi haldið áfram til 12 og lengur ef þurfa þykir. Ég skil það þannig að þeim ræðumanni sem þá verður í ræðustól verði gefið færi á að ljúka máli sínu.

Það er dálítið mikilvægt fyrir mig að fá staðfestingu á þessum orðum forseta vegna þess að ég er á mælendaskránni og það eru tveir, þrír á undan mér (JóhS: Næsti ræðumaður talar í sex tíma.) og ég ætla að aka upp á Akranes í kvöld, eða í nótt eftir því hvernig fram vindur. Það er svo sem ekki löng leið og maður hefur oft ekið lengra, en því lengur sem dregst því illfærari verður maður um aksturinn. Í lögum landsins er t.d. atvinnubílstjórum bannað að haga sér eins og við gerum hér í hv. Alþingi, að aka aðframkomin af svefnleysi og þreytu langtímum saman.

Nú hef ég svo sem ekki miklar áhyggjur af þessu atriði en vil þó í alvöru segja að mér þætti ákaflega gott að fá staðfestingu forseta á því að ég hafi skilið orð hans rétt.