133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[22:48]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst þetta mjög óljóst svar, fram yfir kl. 12. Hvað er það langt? Er það til kl. 1, 2, 3, 4, 5, 6 eða jafnvel enn lengur? Mér finnst að hæstv. forseti ætti að gefa skýrari svör og sérstaklega í ljósi þess að sá sem hér talar á að vera mættur á fund í fyrramálið til að ræða málefni Byrgisins sem eru fólki nú mjög ofarlega í huga. Það þarf að fara vel í gegnum það mál og menn þurfa að vera þokkalega undirbúnir og ekki vansvefta þegar farið verður í gegnum þá sósu Framsóknarflokksins sem virðist vera allsvakaleg. Það hefur komið í ljós að Framsóknarflokkurinn fékk í tíð þáverandi formanns flokksins Halldórs Ásgrímssonar í hendur skýrslu um málefni Byrgisins sem sýndi fram á að fjármálin væru algerlega í lamasessi. En hvað gerist? Það verður ekki Framsóknarflokknum til varnaðar í því máli, heldur heldur hann áfram að veita fé þangað.

Ég skora á hæstv. forseta að verða við því að gefa skýr svör um það hvert framhald þingsins verður hér í kvöld og nótt og jafnvel fram á morgun. Mér finnast þetta ekki boðleg svör.

Vissulega verður maður var við að það er að einhverju leyti orðið mikið kappsmál hjá Framsóknarflokknum að koma þessu máli í gegn, að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Samt sem áður — ég verð að vekja athygli hæstv. forseta á því — er það þvert á vilja almennra flokksmanna Framsóknarflokksins að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Þess vegna furðar maður sig á því að hæstv. forseti geti ekki slegið af hvað þetta varðar, heldur ætli að halda þinghaldi áfram inn í nóttina og mögulega eitthvað lengur.

Það var ekki að heyra á hæstv. forseta að hann ætlaði að gefa okkur skýr svör. Ég vonast þó til þess að hann verði við þessari eðlilegu kröfu, sérstaklega fyrir þingmenn sem koma langt að og þurfa að fara til baka, jafnvel upp á Akranes. Einnig finnst mér það eðlileg kurteisi gagnvart þeim er hér talar að veita mér upplýsingar um það hvort ég komist heim í nótt og geti þá verið þokkalega upplagður á þessum fundi í fyrramálið.

Mér sýnist af fréttum að dæma að ekki veiti af. Framsóknarflokkurinn virðist þarna kominn niður í (Forseti hringir.) enn eitt díkið, herra forseti.