133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:06]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Mörður Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tel að þau svör sem gefin hafa verið um framhald funda séu því miður ekki nægilega góð til þess að við getum verið róleg, þingmenn, með það framhald. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvaða þóttafulla hátterni það er af hálfu stjórnarliðsins og forsetans hins kjörna og þeirra forseta sem hér stjórna fundum að geta ekki gefið betri upplýsingar um hverju það varðar. Ég óttast því miður að þessi vanhöld á nákvæmni í orðum forseta geti orðið til þess að lengja fundinn í kvöld öllum heldur til ama, þeim sem hér þurfa að vera.

Á hinn bóginn er það þá svo að fundir skulu standa. Er þá ekki rétt, forseti, að eitt gangi yfir alla? Ég er framsögumaður nefndarálits minni hluta nefndarinnar en hef ég um nokkra hríð ekki séð framsögumann meiri hlutans sem er minn félagi í þessu. Ég sakna hans ákaft og tel að ef hér eru kvöldfundir megi ekki ræna hann þeirri skemmtun og ánægju að sitja þá. Ég veit ekki hvort honum er kunnugt um að fundur stendur enn en ég óska eftir því að honum verði gert viðvart um það og hann látinn vita af því að góður félagi hans, framsögumaður minni hluta menntamálanefndar, óski eftir nærveru hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar í salnum.