133. löggjafarþing — 54. fundur,  18. jan. 2007.

Ríkisútvarpið ohf.

56. mál
[23:15]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Návist hæstv. forseta Jóns Kristjánssonar fer ekki fram hjá nokkrum manni í þessum sal. Í því ljósi er heldur merkileg sú fullyrðing sem fram kom hjá hæstv. forseta áðan að þótt hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir væri kjörin aðalforseti væri það þessi varaforseti sem stýrði fundi.

Það fer ekki fram hjá mér. Það þýðir hins vegar ekki að þótt forsetar hafi með sér ákveðna verkaskiptingu geti þeir hringlað eitthvað með þær yfirlýsingar sem hafa verið gefnar út fyrir hönd forseta gagnvart formönnum þingflokka. Það gengur ekki og er alveg út í hött að tiltekinn varaforseti taki það upp hjá sér að breyta ákvörðunum sem hafa gengið af munni hæstv. forseta Sólveigar Pétursdóttur. Annaðhvort er að marka það sem hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir segir eða það er ekki að marka það. Ef það er að marka það sem hún segir er alveg ljóst að fundi verður ekki haldið áfram eftir að kvöldi sleppir. Samkvæmt öllum venjulegum hefðum og skilgreiningum er það klukkan 12. Ef hins vegar ekkert er að marka sem hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir segir við formenn þingflokka er hugsanlegt að hér verði fundur inn í nóttina. Það mun hins vegar hafa þau áhrif að samstarf okkar þingflokksformanna við hæstv. forseta hlýtur að markast af því að þau orð sem hún lætur falla á formlegum fundum með þingflokksformönnum standast ekki. Það er giska erfitt að hugsa sér samstarf upp á þau býti, herra forseti, það sem eftir lifir þessa þings. Það er heldur slappur endir á ferli þess ágæta hæstv. forseta að það verði hin pólitíska grafskrift að stjórnarandstaðan hafi ekki getað treyst því sem hún segir. Þess vegna vil ég ekki taka það gilt með fullri virðingu fyrir þeim ágæta forseta sem nú situr á stóli fyrir aftan mig þegar hann segir að hann muni velta því fyrir sér hversu lengi fundi skuli fram haldið kl. 12. Hann er þar með að segja að það komi hugsanlega til mála að brjóta yfirlýsingar sem hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir gaf og þar með ómerkja þau, gera hana að ómerkingi, og veikja verulega grundvöllinn að samstarfi stjórnarandstöðunnar og þess hæstv. forseta.

Þess vegna segi ég: Það er ósk mín að hæstv. forseti Sólveig Pétursdóttir gangi þá sjálf til þings og rjúfi hugsanlega nætursvefn sinn eða eitthvað annað sem kemur í veg fyrir að hún sé hér í kvöld og segi þetta sjálf við mig og aðra þingmenn. Ég vil heyra hana segja að það sé ekki að marka sem hún sagði við okkur á mánudaginn.