133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:37]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég legg áherslu á að stjórnarandstaðan hefur ítrekað reynt að ná samkomulagi og málamiðlun í því mikla deilumáli sem hér hefur geisað á undanförnum dögum um framtíð Ríkisútvarpsins. Í fyrsta lagi lögðum við til að menn sameinuðust um lágmarksbreytingar á lagarammanum sem gildir um Ríkisútvarpið. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í menntamálanefnd Alþingis lögðu fram tillögur þar að lútandi. Þessu tilboði var því miður hafnað. Síðan höfum við lagt fram tillögu þess efnis, eins og hér hefur komið fram, hæstv. forseti, að gildisákvæði frumvarpsins verði breytt þannig að það komi fyrst til framkvæmda að afloknum alþingiskosningum í vor. Þetta er eðlileg og lýðræðisleg krafa.

Við höfum lagt áherslu á að um Ríkisútvarpið þurfi að ríkja víðtæk sátt innan þings sem utan og það sé óábyrgt af hálfu ríkisstjórnarinnar að knýja fram grundvallarbreytingar á lögum um Ríkisútvarpið á grundvelli naums meiri hluta á Alþingi. Menn eigi að leita eftir víðtæku samkomulagi. Það er í þessum anda sem við höfum lagt fram tillögur okkar um málamiðlun í þessum efnum. Það vekur athygli og undrun mína að Framsóknarflokkurinn skuli styðja Sjálfstæðisflokkinn jafneindregið í þessu máli og raun ber vitni. Og þegar formaður Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðarráðherra, kemur hér upp (Forseti hringir.) og segir að hann hafi trú á því að stjórnarandstaðan telji þetta vera eitthvert gamanmál þá hlýtur það að vekja athygli og undrun manna.