133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Hún var stutt ræða formanns Framsóknarflokksins hér áðan þá loks hann kom til umræðunnar og fór að leggja eitthvað til mála um Ríkisútvarpið. Má ég minna á að óskað er eftir viðveru hans í umræðunni sjálfri þegar henni vindur fram á eftir og á næstunni til þess að hann geti svarað almennilega fyrir ábyrgð Framsóknarflokksins í þessu máli.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hefur upplýst hér og farið rækilega yfir kúvendingu Framsóknarflokksins í RÚV-málinu, svikin á flokkssamþykktum Framsóknar sem fram á mitt ár 2005 var algerlega á móti háeffun Ríkisútvarpsins með landsfundar- eða flokksþingssamþykktir á bakinu þar um. Síðan ákveður þingflokkurinn að kúvenda þessari stefnu og það er nærtækt að spyrja: Var það tengt stólnum dýra Halldórs Ásgrímssonar? Er það arfleifð Halldórs Ásgrímssonar sem enn er að þvælast fyrir Framsóknarflokknum í þessu máli? Hún reynist flokknum dýr. Þá er líka spurningin: Nú er hann farinn, getur þá ekki Framsóknarflokkurinn bjargað sér í land? Hann hefur til þess, sem brú á þurrt, sáttatilboð stjórnarandstöðunnar. Eða hefur Framsóknarflokkurinn engan vilja til þess? Er hann svo illa kominn að hann sé meðvitundarlaus í bandi Sjálfstæðisflokksins? Hefur hann ekki lengur sjálfstæða hugsun? Það mátti reyndar ætla af stórfurðulegum ummælum formanns Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, áðan sem segir að menntamálaráðherra sé talsmaður ríkisstjórnar í menningarmálum. Er menntamálaráðherra Sjálfstæðisflokksins talsmaður Framsóknarflokksins í menningarmálum? Er það svo? Þá fer maður að skilja að Framsókn lifi hér engri sjálfstæðri tilveru.