133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tel nauðsynlegt að fram komi að sú ósk og sú krafa hefur verið sett fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, að hæstv. viðskiptaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, verði viðstaddur umræðuna um Ríkisútvarpið. Ekki einvörðungu vegna þess að málið heyrir að hluta til undir hans ráðuneyti en samkeppnisþáttur þessa máls heyrir undir iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, heldur einnig vegna hins að menn vilja ræða hina pólitísku ábyrgð í þessu máli.

Hlutafélagavæðing Ríkisútvarpsins yrði aldrei að lögum ef ekki væri fyrir tilstilli og stuðning Framsóknarflokksins við þetta áhugamál íhaldsins. Hefði aldrei orðið og yrði aldrei.

Síðan vekur athygli, hæstv. forseti, sú framsetning sem kom fram hjá einum hv. þingmanni Framsóknarflokksins þegar hann spyr um afstöðu stjórnarandstöðuflokkanna í hugsanlegu samstarfi þeirra við Sjálfstæðisflokkinn að afloknum kosningum. Það er greinilegt að Framsóknarflokkurinn er búinn að gera það upp við sig að hann verði ekki í næstu ríkisstjórn.

Ég held hins vegar, og dæmi það af yfirlýsingum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að undanförnu, að þessir tveir flokkar hyggi á áframhaldandi samstarf.

Fyrir þjóðina er mikilvægt að gera upp hug sinn. Vilja menn áframhaldandi samstjórn þessara flokka? Og gæti það nú verið að atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum í næstu kosningum sé jafnframt atkvæði greitt Framsóknarflokknum (Forseti hringir.) og öfugt, að atkvæði greitt Framsókn verði atkvæði greitt íhaldinu? Þessir flokkar eru (Forseti hringir.) að spyrða sig saman og vilja starfa saman að afloknum næstu kosningum.

(Forseti (SP): Forseti ætlaði að inna hv. þingmann eftir því hvort hann teldi sig vera að ræða fundarstjórn forseta.)