133. löggjafarþing — 55. fundur,  19. jan. 2007.

framhald umræðu um RÚV.

[10:56]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda mig við fundarstjórn forseta. Ég held að það sé mikilvægt undir þessum lið, og að þau málefni sem heyra undir það sem við ræðum hér daga og nætur, málefni Ríkisútvarpsins, að þau séu rædd undir réttum liðum hér í þinginu.

Það er þannig og það kom fram í morgun að það hefur verið talað um eðlilega kröfu stjórnarandstöðunnar til þess að fara að ljúka þessu máli. Ég er algjörlega sammála því.

En stjórnarandstaðan þarf greinilega sinn tíma til þess að ræða þessi mál. Það er eðlileg krafa stjórnarandstöðunnar að hún fái að ræða málin jafnlengi og stjórnarandstöðunni dettur í hug, enda eru þingsköp okkar þannig að stjórnarandstaðan má hafa allan þann tíma sem hún vill.

En það er jafnframt eðlileg krafa okkar stjórnarmeirihlutans að þeirri umræðu ljúki einhvern tímann og að við fáum að greiða atkvæði um þetta frumvarp sem er svo mikið rætt, hefur verið unnið svo gífurlega vel í nefnd og búið að eyða í það mjög löngum tíma, búið að kalla til marga gesti, fá mikið af gögnum. Búið er að brjóta þetta mál til mergjar.

Þess vegna er mjög eðlilegt að málið sé rætt málefnalega í þinginu og það klárað með þeim hætti. En þá sé verið að ræða málið, sé verið að ræða það málefnalega. En það sem við höfum hins vegar orðið vitni að hér í umræðunni löngum stundum, nætur og daga, er ekki málefnaleg umræða.

Ég hvet hæstv. forseta, af því við erum hér að ræða fundarstjórn forseta, til þess að gefa allan þann tíma sem til þarf til þess að ræða þetta mál og greinilega hefur verið kallað eftir eins og við sjáum á mælendaskránni sem liggur fyrir í málinu.

Það hlýtur að vera krafa okkar þingmanna til forseta, að hér verði haldnir langir fundir til þess að menn geti rætt í löngu máli um þetta frumvarp, á endanum verði því lokið og það verði hægt að greiða atkvæði um það hér í þinginu.